Bloggfærslur mánaðarins, maí 2023
Vísað úr lest - af og til síðan 1973
31.5.2023 | 18:51
Þótt ég elski lestarferðir og sé einstaklega prúð og góð alltaf þegar ég stíg um borð í lestir, þá hef ég lent í því undarlega oft og af ótrúlega ólíkum ástæðum að vera vísað úr lestum. Bara einu sinni (æ jú, tvisvar, þrisvar víst) var mér einni vísað út, en yfirleitt með öðrum. Um sumt þetta hef ég fjallað í ferðaþáttum í útvarpi, eflaust bloggað um eitthvað en sumt hefur bara verið í rólegheitum að gerjast í kollinum, það var ekki fyrr en um daginn þegar mér var enn einu sinni vísað úr lest, að það rann upp fyrir mér að þetta var að verða kækur.
Þetta byrjaði sennilega ekki fyrr en rétt fyrir jólin 1973 þegar ég var á leið að heilsa upp á foreldra mína, sem þá bjuggu rétt hjá Bristol í Englandi. Mátti þakka fyrir að hafa komist í flug þann daginn, því fram til klukkan þrjú var enn flugfreyjuverkfall. Fór frá Heathrow með rútu til Reading og átti svo að taka lestina um kl. níu um kvöldið í vesturátt og fara út í smábænum Yatton. Fylgdist vel með en allt í einu var ég komin framhjá Yatton og ekkert stopp. Lestarstarfsmenn voru nefnilega í aðgerðum sem kallaðar voru ,,working to rule" (ein tegund borgaralegrar óhlýðni) og lestin sem ég var í var ein af morgunlestunum út af seinagangi starfsmanna. Var sagt að fara út í Weston-Supe-Mare og gerði það. Símaskráin í símaklefanum fyrir utan náði ekki til Congresbury, næsta bæjar við Yatton, og ég þurfti að taka morgunlest til Yatton nokkrum klukkutímum seinna til að komast í símasamband.
Dramatíkin var mest um haustið 1974, þá höfðu foreldrar mínir flust til Frakklands og þangað heimsótti ég þau og fór svo með lestinni frá París til Belgrad á 2. farrými gömlu, sjúskuðu Austurlandahraðlestarinnar. Sex manns í hverjum klefa en Júgóslavi í okkar klefa fór allt í einu að vera æstur og sagði voz (sem þýðir lest) og búmm búmm og skellti saman hnúum. Við hugguðum þennan hrædda mann þar til uppúr miðnætti þegar lestin nam staðar rétt utan við Zagreb og okkur var vísað út og sagði að húkka okkur lest áfram. Það hafði sem sagt orðið eitt af stærri lestarslysum sögunnar, sú lest var að koma á móti okkur, og línur báðar leiðir lokaðar.
Eftir dvöl í Belgrad í sömu ferð og stopp í Búdapest var ég í lest gegnum Tékkóslóvakíu (sem enn var eitt land) um miðja nótt þegar uppgötvaðist að ég var vesturlandabúi en lestin fór um landamæri sem voru ekki ætluð okkur. Klukkan þrjú stóð ég því á brautarstöð við rætur Tarta-fjalla. Sagan var lengri en verður ekki rakin hér frekar.
Svo held ég bara að ég hafi ekki lent í að vera vísað úr lest aftur fyrr en ég var að vinna hálfa vikuna í Kaupmannahöfn og hinn helminginn á Íslandi lengst af vetrar 2001. Átti þetta fína klippikort sem ég notaði í lestina frá Dybbölsbro og til Austur-Bröndby. Nema í eitt sinn, þá virkaði sjálfvirki klipparinn ekki og ég var böstuð í lestinni í einni af tugum ferða þann veturinn og eina skiptið sem klipparinn stóð á sér. Í stað sektar var mér vísað út í Valby og sagt að klippa kortið þar og taka svo næstu lest, sem ég gerði.
Víkur þá sögunni til Southampton 2019. Var á leið til Poole með dóttur minni og vinkonu hennar um niðdimmt kvöld og sagði eitthvað um að mig hefði alltaf langað að stoppa í Southampton. Jamm, það var eins og við manninn mælt, við stoppuðum einmitt þar og var vísað út. Lestin fór ekki til Poole þessa nóttina og stoppið stóð reyndar til hádegis næsta dag. Ungur maður hafði klifrað upp í mastur við teinana og ætlaði að kasta sér niður. Vanur samningamaður var að reyna að tala hann til og það var ekki fyrr en á hádegi daginn eftir sem aftur var hægt að setja lestarferðir í gang. Því miður hafði þessi saga endað illa.
Og um daginn var ég á leið frá Glasgow til Ayr en lestin stoppaði í Prestwick og fór ekki lengra. Ástæðan: Eldsvoði á lestarstöðunni í Ayr. En um það fjallaði næsta blogg á undan þessu.
Tek fram að ég hef margoft farið í lest án þessa að vera vísað út.
Skroppið til Skotlands
29.5.2023 | 17:02
Skrapp til Skotlands, sem er ekki í frásögur færandi í sjálfu sér. Margir skreppa til Skotlands, sumir eru skotnir í Skotlandi, eins og ég, upplýsti það held ég í nýlegu bloggi. Finnst ég samt svolítið eins og svæðisfulltrúi Forrest Gump að þessu sinni. Lenti á Edinborgarflugvelli og þar var ögn lengri röð en ég bjóst við, samt ekkert átakanlegt miðað við þær hryllingsfréttir sem sagðar voru af þessu ástandi í kvöldfréttum ýmissa miðla. Sem sagt engir sjálfvirkir vegabréfaskannar í öllu hinu sameinaða kóngsveldi virkuðu þennan daginn. Við vorum varla meira en 20 mínútur að komast í gegn, en fólkið í fréttunum almennt um 3 klukkutíma. Minnir svolítið á það þegar við fjölskyldan ókum gegnum Heklu-vikur, 20 cm þykkt lag í gosi dagsins, á leið okkar úr Hrauneyjarfossi um árið. Ég hringdi auðvitað okkar 20 cm vikurlag samviskusamlega inn til vina minna á fréttastofu útvarps, en þar hafði fólk þegar fengið betra tilboð.
Stoppaði stutt í Edinborg, of mikið rok fyrir minn smekk (og ég sem hafði ríghaldið í stýrið um morguninn til að fjúka ekki með bílnum mínum út af Reykjanesbrautinni, fljót að gleyma). Tók nokkrar myndir, auðvitað af Scotts Monument, en ,,been there - done that svo ég fór ekki upp.
Glasgow tók mér opnum örmum, en mig var farið að gruna að eitthvað væri í gangi þegar grænröndóttir unglingar fylltu lestarvagninn seinasta spölinn. Afskaplega glaðir. Þegar til Glasgow var komið var sem sagt borgin full af stuðningsmönnum Celtic að fagna 5-0 sigri yfir Aberdeen og bikarnum, skoska líklega. Íslenskir fjölmiðlar höfðu bara alls ekkert tekið eftir þessu. Mikill viðbúnaður var í borginni og er á daginn leið voru æ fleiri komnir úr grænröndóttu peysunum, berir að ofan, öfurölvi, sumir jafnvel blóðugir og þá var hjálparsveitin mætt í gulum vestum, alvön, að stumra yfir þeim, einhverjum var keyrt um í innkaupakerrum og verslanirnar við Argyle Street lokuðu dyrum sínum einhverjum klukkustundum of snemma.
Náði samt í Cass Art og einhverja Daniel Smith vatnsliti, enda var sú búð í hliðargötu og varin verktakapöllum. Caffé Nero var hins vegar opið og óhaggað með öllu.
Ákvað daginn eftir að elta sólina, þrátt fyrir að borgin bæri timburmennina vel, og setti stefnuna á Ayr. Vefmyndavélar lofuðu mátulegum skammti af sól þar, með fullri virðingu fyrir glennunum sem voru í Glasgow. Þegar við áttum skammt eftir til Ayr fórum við um Prestwick. Aha, hér þarf ég einhvern tíma að stoppa hugsaði ég. Þetta var nefnilega aðalflugvöllurinn þegar mamma og Ólafur fóstri minni voru við nám í Skotlandi, og hef heyrt mikið um völlinn talað. Næsta brautarstöð á eftir flugvellinum var Prestwick Town, og þá heyrðist gjalla í hátölurum lestarinnar: Vegna elds á brautarstöðinni í Ayr höldum við ekki lengra að svo stöddu. Förum áfram þegar búið verður að slökkva eldinn.
Ég var meðal þeirra fyrstu sem ákvað að láta þetta bara duga. Sá á strollunni sem kom smátt og smátt upp brekkuna frá brautarstöðinni að fleiri höfðu tekið sömu ákvörðun. Nennti ekki að bíða í 37 mínútur eftir strætó til Ayr, eins og þeir sem áttu eiginlegt erindi þangað urðu að gera. Ég var bara að leita að sólinni og hún var fundin, fann líka indælis veitingahús þar sem ég gat vatnslitað varnarlaust fólk sem naut sólarinnar með mér. Var að vísu svolítið maus að komast með strætó til Glasgow en ég var heppin. Einhverjir tugir á síðari stoppustöðvum ekki eins heppnir.
Og þegar þessi pistill var skrifaður sat ég með litla, sæta lyklaborðið við símann minn og hamraði þetta inn. Þá var ég búin að vera í Skotlandi í einn og hálfan sólarhring. Ákvað samt að birta pistilinn ekki fyrr en ég væri komin heim. Held að svona uppákomur styðji þá ákvörðun mína að ferðast oftast ein.
Yfir borðum þegar ég var að skrifa þetta vomaði mávaskratti sem ætlaði eflaust að grípa pítsusneið eða samloku úr hendi eða munni einhvers gestanna, eins og mávurinn sem fór í koddaslag við mig í Haag í fyrra. Margt gerist í ferðum.
Besta barn í heimi brýtur leirtau
25.5.2023 | 19:05
Mér hefur oftar en einu sinni verið sagt að sumar vinkonur mömmu hafi ekki þolað mig þegar ég var lítil. Ég var nefnilega svo hrikalega þægt, ungt barn og það var víst óhagstæður samanburður fyrir sum vinkvennabörnin. Var uppnefnd BBH, besta barn í heimi. Man auðvitað ekkert eftir þessu, en til er saga, sem ég hálfparinn man sjálf, frá því við bjuggum á Uppsölum í Aðalstræti. Hittum Helga Hjörvar, sem bjó rétt hjá, neðst í Suðurgötunni og við hann sagði ég víst, eftir mínu minni eða annarra: Vond börn blóta, góð börn þora ekki að blóta. Býst við að þetta segi allt sem segja þarf.
Mamma sagði mér síðar að hún hafi orðið mjög glöð þegar ég fékk óþekktarkastið eina, sem ég man alls ekki eftir. Þá vissi hún að hún var ekki að kúga mig.
Svona leið ég um í þægðarró fram eftir aldri. Lifði samkvæmt væntingum. Orti algera Pollýönnu-vísu snemma í barnaskóla:
Það er gaman að lifa
og lesa og skrifa
og líka að reikna
en mest þó að teikna
Mér fannst alveg óskaplega gaman að verða unglingur. Ungmennafélagsböll, og -ferðir, partí með unglingunum á Álftanesi. Skemmti mér með KR-ingum í skíðaferðum sem stóðu heilar helgar, þar sem þotusleðinn var meiri vinur minn en skíðin. Sveitaböll í Rangárvallasýslu þau sumur sem ég var í sveitinni minni, Fljótshlíðinni, en minnisstæðast var að fara að ferðast ein til erlendra borga.
Sumarið þegar ég var sextán ára var ég að vinna í uppvaski á stúdentahótelinu í Osló. Sennilega hefur það verið þar sem ég gerði í fyrsta sinn eitthvað umtalsvert af mér. Lít til baka í forundran. Þá var ég nýkomin í uppvaskið á aðalhótelinu, eftir þrjár vikur í starfsmannamötuneytinu, sem var sældarlíf. Við vorum aldrei fleiri en 2-3 á vakt (ekki pláss fyrir fleiri í skotinu okkar), en 17 þjónustustúlkur báru í okkur óhreina diska, glös og önnur skítug mataráhöld. Röðuðum þessu stanslaust í bakka alla vaktina og bakkarnir fóru eftir lestarteinum inn í uppþvottavélina og komu út hinu megin. Þaðan þurftum við að bjarga þeim í burtu nógu hratt. Gallinn var bara sá að málmhillurnar sem bakkarnir áttu að komast í, fylltust jafnharðan og bakkarnir voru ekki teknir nógu hratt í burtu hinu megin í hillusamstæðunni. Ég fann ráð við því. Setti okkar bakka bara samt inn og ýtti hinum þar með niður á gólfið móttökufólksmegin, svo allt sem í þeim var hefur eflaust mölbrotnað, eftir hljóðunum að dæma. Enginn sagði neitt við mig út af þessu og eftir nokkur brothljóð kom ég alltaf að auðum hillum.
Var loks ,,leyft að fara að vinna aftur í starfsmannamötuneytinu og átti góða tíð með mömmulegu konunum þar.
Er ekki sagt: Neyðin kennir naktri konu að spinna? - eða eins og Þórarinn á Skriðuklaustri sagði í miðri ræðu þegar hann mundi þetta ekki alveg: Bera konan með spottann.
Eftir heimsfaraldur: Heimaskrifstofan
23.5.2023 | 17:36
Þegar hrunið varð var ég stödd hjá systur minni í New Mexico í Bandaríkjunum og heimsótti í framhaldi af því vinkonu mína norðan við Seattle. Á báðum stöðum voru hagfræðingar í vinahópi þeirra óðir og uppvægir að ræða hrunið við mig og voru bæði forvitnir og með miklar skoðanir. Sem betur fór hafði ég nokkurra ára reynslu í að ræða efnahagsmál, auk þess að vera sérfræðingur í þeim eins og allir Íslendingar á þessum tíma (seinna urðum við öll sérfræðingar í smitsjúkdómum). Eitt af því sem ég leyfði mér að segja á þeim tíma var: Something good will come out of this, enda forhert bjartsýnismanneskja, svona oftast nær. Núna finnst mér þetta hafa verið frekar mikið bull.
Svo kom næsta lexía, heimsfaraldur, og ég fullyrði: Eitthvað gott kom út úr því. Meiri skilningur á því að hægt sé að vinna vinnuna sína (sumt) á heimaskrifstofu. Mér þykir afskaplega vænt um þessa kaótísku heimaskrifstofu mína, sem ég gat notað í dag, þegar ég þurfti á henni að halda. Yfirleitt finnst mér langbest og skemmtilegast að fara á vinnustað, ekki síst þar sem vinnufélagarnir eru einstaklega góður félagsskapur, en að þessi möguleiki sé fyrir hendi er jákvætt og hentar eflaust mörgum enn betur en mér.
Að skemmta skrattanum
20.5.2023 | 16:49
Mér finnst sárlega vanta rétta orðið fyrir að ,,jinxa" á íslensku, þótt ég fari hér hálfa leið í að íslenska það með því að nota beygingu. Orðabókarskýringar eru herfilegar, nema þessi sem segir að ekki hafi fundist almennileg þýðing. Samt finnst mér tilfinningin svolítið vera það sem ég lærði að væri að skemmta skrattanum. Hjátrú og yfirlýsingagleði tengjast þessu mjög og jafnvel þeir sem þykjast ekki vera sérlega hjátrúarfullir láta sér ekki detta í hug að fara í vitlausum sokkum á áríðandi íþróttaleik, hvorki sem áhorfendur né þátttakendur. Hálft í hvoru er ég sár út í sjálfa mig að hafa horft á Liverpool í dag einmitt á meðan Aston Villa náði yfirhöndinni, en bætti það hálfvegis upp með því að fylgjast með rest í textalýsingu, jafntefli skárra en tap, en sigur hefði auðvitað verið betri, ef ég hefði ekki asnast til að horfa! Þegar ég stend sjálfa mig að því að lýsa einhverju yfir sem ég er hrædd um að hætti að vera rétt þegar ég er búin að segja það upphátt, þá lem ég auðvitað alltaf í tré. Dettur ekki í hug að segja 7-9-13, enda alin upp við að það sé bara della (ólíkt því að berja í tré). Varð samt hugsi þegar ég sá einhverju sinni vinningstölur í lottói byrja á 7-9-13 ...
Sólarferðir á óvænta staði og ljúga veðurfræðingar?
18.5.2023 | 19:24
Hef farið í sólarlandaferðir á furðulegustu staði, minnisstæðust líklega hitabylgjan sem við Ari lentum í í Hamborg kringum afmælið mitt 2016, í fyrstu af mörgum heimsóknum mínum til þeirrar góðu borgar eftir Hamborgar-árið mitt, ári fyrr. Þegar ég var þar var veður oftast bærilegt, enginn almennilegur vetur þótt ég flyttist þangað í byrjun janúar, en heldur ekki neitt skrifstofufárviðri um sumarið, enda hefði verið erfitt að vinna alla daga á svölunum góðu. Í byrjun júní 2016 sýndi Ara-hitamælirinn góði í Winterhude hins vegar ekkert nema 36 gráður.
Sólarlandaferðin mín til Bornemount í Englandi fyrir fjórum árum er líka minnisstæð. Stuttbuxnaveður allan tímann. Peter frændi minn frá Nýja-Sjálandi sem býr í Reading kvartaði sáran undan hitanum þótt ég haldi að hann hafi ekki farið yfir 30 gráðurnar þann daginn.
Þegar við Ari fórum til Grænlands í byrjun september eitt árið var hlýjasta borg ,,Evrópu" Nuuk þann daginn og okkur var sannarlega sagt frá því. Við reyndar aðallega að skoða Bröttuhlíð en þar var dágóður hiti og sömuleiðis er kvölda tók í Dal blómanna. Það var þó ekki beinlínis sólarlandaferð því sólin skein ekki allan daginn.
Þá er 27 stiga hitinn á Hamarsvellinum í Borgarfirði í júlí 2014 enn minnisstæður, en ég kláraði bæði mitt vatn og eitthvað frá meðspilurunum af því tilefni. Á Snæfellsnesi sama dag var ekki nema 14 stiga hiti.
Nú skoða ég grimmt veðurspár fyrir hvítasunnudag, en þá ætla ég að bregða mér af bæ, ein að vanda. Mun ekki gefa upp áfangastað að svo stöddu, en svona er langtímaspáin á Holiday-Weather. Skyldu veðurfræðingar Holiday Weather ljúga (eða ekki)? Þar er efinn.
Pínulitlu, mikilvægu ferðaminningarnar
17.5.2023 | 21:35
Finnst það líklegt að öðrum sé eins og mér farið, að eiga sér einhverjar pínulitlar en mikilvægar ferðaminningar. Í Evrópuferðinni okkar Ara árið 1987 stóluðum við á að finna laus herbergi til leigu frá Hamborg um Ítalíu og Dalmatíuströndina, sem nú er í Króatíu. Horfðum á tennis í setustofu á gististað í afskekktum bæ rétt áður en við vorum komin til strandarinnar, fórum svo til herbergis okkar og þar beið okkar kertaljós og kanna með vatni í, skál við hliðina til þvotta. Vöknuðum við heita haustsólina og dýrindis útsýni yfir hafið frá klettunum þar sem við höfum stoppað kvöldið áður.
Ferðalög á þessum tíma voru ekkert airbnb og heldur engir farsímar. Þetta síðarnefnda hefði getað orðið erfitt þegar ég fór í úthverfastórmarkað í Veróna, sem opinn var til átta eða níu að kvöldi, meðan Ari skrapp eftir bensíni. Það var orðið dimmt þegar lokaði og ekki bólaði á Ara. Afgreiðslumaður vildi hinkra ögn lengur frekar en skilja mig eftir eina, með vetrarúlpurnar á krakkana sem voru góssið sem við stefndum á að kaupa. Ég sendi hann fljótlega heim til sín og nokkru síðar kom Ari minn akandi. Ég hafði aldrei áhyggjur af því að hann rataði ekki, það var ekki vandamálið, heldur frekar ítarleg umferðateppa sem hann hafði lent í.
Umhyggjusemi þjónanna á Krít, þeirra Nico og Nico, sem linntu ekki látunum fyrr en ég keypti mér hatt til að verja mig fyrir vorsólinni 2018, það þurfti að passa þessa skrýtnu konu sem var ein að ferðast. Gleði þeirra sömu þegar ég mætti með eiginmann upp á arminn í október sama ár.
Landamærin í Basel, þegar ég var að heimsækja Gunnlaug frænda og kom frá Prag, hélt ég væri í Basel í Sviss. Nei, ekki alveg, Basel í Þýskalandi. Og hvernig átti ég að komast til Sviss? Jú, niður þennan stiga, til vinstri, beint áfram og svo aftur til vinstri og upp þann stiga. Árið var 1974 og ekkert vesen á þessum landamærum. Næst þegar ég kom til Basel nam lestin staðar í frönsku Basel og ég fór yfir teinana til Sviss í það sinnið, ekki undir.
Nýjasta örminningin? Hún er aðeins um tveggja mánaða gömul. Jú, ég kann vel að meta að vera í hlýju loftslagi. Og það er eitthvað ólýsanlega heillandi við að rennbleyta vatnslitapappír í gosbrunni svo hann tolli á spjaldinu sínu, þegar límbandið gleymist heima á hóteli. En betra að vera ekki of lengi að mála myndina, jafnvel 300 gramma, gegndrepa pappír þornar fljótt. Og þú setur ekki hálfmálaða vatnslitamynd ofan í gosbrunn, nema þér sé sérstaklega illa við hana.
Álftanesvegur við Flatahraun - ha?
16.5.2023 | 20:57
Í morgun var mikil romsa um vegalokanir í útvarpi en allt í einu sperrti ég eyrun þegar orðið Álftanesvegur heyrðist í upptalningu um lokaða vegi (til kl. 18 í dag, sem kássast ekki uppá mig, C-manneskjuna). Við Álftnesingar höfum auðvitað stundum orðið vör við umferð vegna forsetasetursins en hún er yfirleitt afskaplega lítið tefjandi. Nánar til tekið var þetta Álftanesvegur við Flatahraun, og þá strax velti ég því fyrir mér hvort þetta væri litli vegastubburinn sem ég veit aldrei almennilega hvar er. Var samt alveg tilbúin að taka Flatahraun fyrir Fjarðarhraun. Svo sá ég að einhver miðillinn bætti um betur og staðsetti þessa lokun við sælgætisgerðina Góu, og þá gat ég ekki stillt mig um að leita á korti. Þessi litli vegastubbur er ofan við Kaplakrika og í hvert sinn sem ég ek hann, þá geri ég það án þess að fatta að ég sé á Álftanesveginum. Augljóst er að unnt er að tengja ,,þann eiginlega, svokallaða Álftanesveg" (svo ég noti hliðstætt orðalag og Árni prófastur í Görðum notaði árið 1842 um Álftanesið) við þennan stubb ef leyfi fæst og vilji er til.
Kranar, málmur og fleira - ekki í ljósi kranavísitölunnar
14.5.2023 | 02:35
Svo vill til að í kringum mig er óvenju mikið af krönum, þessum stóru og ógnvænlegu sem saman mynda hinar illræmdu kranavísitölur. Stundum fæ ég óbeinar skammir þegar ég birti mína daglegu Esjumynd (þegar skyggni leyfir). Það er þá af því að í forgrunni eru kranarnir á byggingasvæðinu fyrir framan vinnuna mína í Kópavogi. Þessum skömmum er reyndar oftast beint að samfélaginu, stjórnmálamönnunum, verktökunum, hruninu, minningunum um hrunið, framkvæmdum almennt og auðvitað er smá uggur í ljósi sam-íslensku reynslunnar. Sama umræða er hafin af fullum krafti varðandi miðbæjarsvæðið sem nú er komið í uppbyggingu hér á Álftanesi.
Hrunið kom illa við mig beint og persónulega, eins og flesta Íslendinga. Slapp samt mjög vel miðað við marga aðra efnaminni sem máttu við litlu og ég tali ekki um þessa vellauðugu sem ,,töpuðu" svo háum fjárhæðum að ég kann ekki enn að telja núllin. Vorkenni síðarnefnda hópnum auðvitað ekki neitt. Samt finnst mér stundum að ég megi ekki taka myndir þar sem krönum bregður fyrir.
Það var þess vegna mjög hressandi þegar náfrænka mín (sem ég þekki allt of lítið) búsett erlendis alla sína tíð, setti komment við Esju-kranamynd og sagðist hreinlega vera hrifin af krönum, og sama segði systir hennar. Það rann upp fyrir mér ljós. Mér finnast kranar nefnilega líka heillandi á sinn hátt.
Hef bara alls ekki viljað viðurkenna það. Þegar ég reyni, af mannúðarástæðum, að hafa ekki of mikið af krönum á Esju-myndunum mínum og taka ekki of mikið af kranamyndum í erlendum borgum, þá er það aðallega vegna félagslegs þrýstings.
Til að bíta hausinn af skömminni, þá get ég hér upplýst að ung heillaðist ég mjög af tröllafjölskyldunum sem ganga um umhverfi Ljósafossvirkjunar rétt hjá Kvenskátaskólanum á Úlfljótsvatni, þar sem ég var nokkur sumur. Það er að segja hinum fordæmdu háspennumöstrum. Nú má ekki misskilja mig svo að ég vilji ekki leggja línur í jörð á viðkvæmum stöðum, auðvitað vil ég það, en það breytir því ekki að þessi form heilla mig. Svo mjög reyndar að á einni sýningunni minni stillti ég einu slíku upp eins og meðfylgjandi mynd ber með sér. Verð að viðurkenna að ég fékk smá skömm í hattinn fyrir það. Tek skýrt fram að ég hefði engin áform um að drita háspennumöstrum eftir öllum skýjabreiðum sem ég sé, þótt ég hefði það vald. Það er hins vegar ekki vel tekið í það þegar ég dett í bernskunostalgíu á 2. holu á Urriðavelli, þar sem möstrin blasa við. Og talandi um bernskubrek, Hegrinn, Kolakraninn við rætur Arnarhóls, var heillandi strúktúr í mínu barnsminni. https://timarit.is/page/1390469#page/n10/mode/2up
Ekki nóg með það, í glæpasögunni minni nr. 2, Óvissu, gerist hluti af lokaköflunum við háskalegar aðstæður í byggingakrana í miðbæ Reykjavíkur.
Elsku besta Hamborgin mín, hvað einkennir hafnarsvæðið þar? Kranar, auðvitað. Skemmtisiglingar um hafnarsvæði grunsamlega margar undanfarin ár, Rotterdam, Amsterdam, Hamborg, Seattle, London ...
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 03:06 | Slóð | Facebook
Euro-visnandi
9.5.2023 | 21:40
Mun gera mitt allra besta til að fyllast brennandi áhuga á Eurovision. Elskaði Húsavíkurkvikmyndina og einkum framlag tengdasonar Árna Péturs (þetta skilja sumir). Enn er tími til stefnu. Eitt klikkar aldrei, atkvæðagreiðslan! Ábyggilega heldur ekki hárgreiðslan, á einhverjum. Fyrir nokkrum árum vann ég á ýktasta Eurovision-vinnustað landsins, þótt við værum varla fleiri en svona 15-20 þá var æðið tekið alla leið. Við kunnum kannski ekki alltaf lögin sem við studdum (skiptum þeim með okkur), en þessi rosalega stemning var eftirminnileg.
Kom fleiri vor í heimsókn og bæði stórflottar móttökur og mikið stuð. Þessa vinnufélaga hitti ég reyndar á UT-messunni í febrúar og var hálfpartinn búin að bjóða mér í stuðið í vor, en kemst ekki vegna annríkis, svona er það stundum. Óska Diljá góðs gengis, Langa Sela og Skuggunum til hamingju með sérlega skemmtilega endurkomu.
Þekkti Loreen aftur þegar lögin runnu óeftirminnilega framhjá innan úr stofu og tók eftir að hún komst áfram. Mun gera mitt besta til að kveikja áhugann og auðvitað gaman að heyra í Bítlunum, þetta er nú Liverpool sem heldur hátíðina fyrir Úkraínu í ár. Vona innilega að fá að fylgjast með hátíðinni frá Kænugarði innan fárra ára. Og auk þess legg ég til besta Eurovision-lag allra ára, danska lagið frá 1963. Þá var ég ekki orðin ellefu ára og ekkert sjónvarp á Íslandi, svo Óskalög sjúklinga liggja undir grun að hafa kynnt það fyrir mér. Dansevise, gjörið svo vel!
https://www.youtube.com/watch?v=FX36uz-OUSs
Og megi Eurovision aldrei visna.