Bloggfærslur mánaðarins, mars 2008

Nafna hafði ekkert smá rétt fyrir sér með David Cook

Nafna mín á Akureyri benti mér á að hlusta á David Cook syngja Billy Jean í mjög sérstakri útsetningu á blogginu sínu. Þetta er góða hliðin á American Idol, sumt er enn sem fyrr leiðinlegt. Hún hafði sko meira en rétt fyrir sér, það er varla hægt annað en halda með þessum náunga eftir að hafa séð þetta lag.

Hér er hægt að hlusta og horfa á þennan flutning, njótið vel:

 



Og hér er sá sem féll út, að flytja það sem mér fannst hans besti árangur (afsakið kjaftæðið framan af, gott að renna inn í svona 1/3 af laginu). Ef þið smellið bara á annað lagið, þá skulið þið velja það efra (Michael Jackson hvað!!!???)

 


Ég er aðdáandi Engispretta

Sagði frá því á blogginu um daginn að ég hefði séð skemmtilega leiksýningu. Þar sem ég sá hana á aðalæfingu vildi ég leyfa frumsýningunni að líða áður en ég færi að fjalla um sýninguna frekar. Nú er frumsýningin búin, fyrstu dómar að birtast, og eins og ég hef nú alltaf gaman af Jóni Viðari, þá er ég alls ekki alltaf sammála honum, og til dæmis ekki núna. Mér finnst sýningin Engisprettur nefnilega mjög góð.

Þetta er fantavel skrifað handrit eftir unga serbneska konu og heildaryfirbragð sýningarinnar er glæsilegt þrátt fyrir nöturlegt efni, enda eru orð og athafnir fólksins einmitt í hróplegu ósamræmi við nokkuð glæst (en þreytt) yfirborð. Yfirborðsmennska og æskudýrkun eru túlkuð á ýktan hátt og mér finnst handritið ekki gefa tilefni til annars. Hófstilltari persónur mynda angurværan undirtón fyrir lætin. Leikritið var svolítið hægt í gang, en eftir það ekki dauður punktur, þótt það sé talsvert langt í sýningu. Mér fannst Þórunn Lárusdóttir skemmtilegust ýktu persónanna, jarðbundin karakter Sólveigar Arnarsdóttur skilaði sér líka vel og svo var Pálmi Gestsson mjög sannfærandi í sínu hlutverki. Mæli hiklaust með þessari sýningu og endurtek það sem ég sagði um daginn, hún er það efnismikil að ég er ekki frá því að ég þurfi að fara aftur á hana til að ná öllu því sem fram er borið. En það er bara kostur.


Olíuverð á niðurleið, hvenær (ef einhvern tíma) fer þess að gæta hér á landi?

Það er margtuggin staðreynd að lækkanir á alþjóðamarkaði mæta undarlegu fálæti hér á landi, þótt orðrómur um hækkanir skili sér með leifturhraða. Nú er olíuverð á niðurleið í heiminum, en ég hef ekki orðið vör við neinar lækkanir hér heima. Einhver tíma heyrði ég þá (ótrúverðugu) skýringu að svo undarlega vildi til að olía væri alltaf keypt inn þegar verð væri í hámarki. Sé það rétt, þá er til einföld lausn á því fyrir olíufélögin. Spyrjið sama vitleysinginn áfram hvenær eigi að kaupa olíu og gætið þess að kaupa hana aldrei þegar þessi undarlegi innkaupastjóri segir til um það. Er það ekki dagljóst?

Meðan ekki er boðið upp á skynsamlegar almenningssamgöngur hér á landi, sem hlýtur þó að vera eina vitræna framtíðin, þá erum við, fjölskyldur landsins, háð einkabílnum og ef einhver meining er í öllu þessu kjaftæði um að halda verðbólgunni í skefjum þá er hér útgjaldaliður sem vegur hátt í rekstri venjulegra heimila. Ég ætla nú ekki, prívat og persónulega, að leggja Volvonum mínum þvert á Álftanesveginn máli mínu til stuðnings (enda myndu Álftnesingarnir bara rúlla yfir mig), en hef netta samúð með aðgerðum í anda borgaralegrar óhlýðni, enda er það aðferð margra góðra mannvina (Gandhi auðvitað þekktastur). Vörubílstjórarnir í brekkum höfuðborgarsvæðisins eru að berjast fyrir lífsafkomu sinni, þótt þeir pirri ábyggilega marga, þá eru þeir loks að uppskera að á þá sé hlustað. Best hefði verið að það hefði verið gert strax, þá hefði aldrei komið til þessara aðgerða. Miklar líkur eru á því að þau úrræði sem þeim verða (vonandi) boðin gagnist ekki almenningi, þannig að við verðum að veita olíufélögunum aðhald.

Viðbót: Undur og stórmerki: Eitt olíufélagið, N1, er búið að lækka eldsneytisverð um krónu! 


Úps, ég hélt að vorið væri komið

Afsakið, ég hélt að vorið væri komið, en það er greinilega smá misskilningur, byggður á búsetu. Tvær ferðir um suðvesturhornið undanfarna daga blekktu lítillega. En við búum á Íslandi þar sem veðurfréttirnar eru ávallt æsispennandi, svo það er best að fylgjast með fréttum og sætta sig við frestun á vorinu enn um sinn. Er ekki að styttast í að veðurklúbburinn á Dalvík láti í sér heyra á nýjan leik. Kosturinn við þann klúbb (fyrir utan nokkuð þokkalegt forspárgildi) er að fólkið í þeim klúbbi gefur út langtímaspár.
mbl.is Snjóflóð og hálka fyrir norðan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skemmtilegur skottúr í sumarbústaðinn

Í dag fórum við í skemmtilegan skottúr upp í Borgarfjörð að kíkja á sumarbústaðinn okkar, sem ófært hefur verið að talsverðan hluta vetrarins. Enn eru þar skaflar á veginum, en allt vel fært jeppum alla vega.  Allt var í himnalagi uppi í bústað, hafði reyndar verið tékkað á honum fyrr í vetur þegar góður kafli komi í veðráttuna, svo það kom ekki á óvart. Hins vegar alveg merkilegt hvað það grípur okkur mikil værð og notalegheit um leið og komið er þangað.

Fallegur dagur í Borgarfirði í dag eins og þessar myndir sýna:

Falleg fjallasýn í Borgarfirðinum í dag

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Alltaf fallegt að horfa upp með Gljúfurá


Sorglegt sjónvarpskvöld

Aðallega auðvitað vegna þess að Gurrí tapaði í Útsvari, en samt ekki hægt annað en samfagna Kópavogsbúum, enda er nú Ari minn úr Kópavogi þótt hann sé fyrir löngu orðinn Álftnesingur. Þau Akurnesingarnir tóku tapinu hins vegar vel. En Bandið hans Bubba, sem ég játa fúslega að ég horfi á núna í seinni tíð, var ekki að rokka. Ein sú besta í þáttunum send heim meðan sá sem ætti að vera löngu farinn er enn í þáttunum. Ekki fyndið! Svo voru lögin óvenju leiðinleg í kvöld. Þrjú lög með Helga Björns, taldist mér til, sem öll eru stórundarleg, bæði lög og textar, sorrí, ekki alveg að átta mig á því hvað er í gangi. Þannig að það var margt betra að gera en að horfa á sjónvarp, og sem betur fer gerði ég það ósvikið. Útsvar var hins vegar skylduáhorf og og forvitni rekur mig til að fylgjast með söngvurunum. En samt alveg á mörkunum eftir þetta kvöld.

Góður grænmetisréttur sonarins og góður félagsskapur feðganna á heimilinu og Nínu systur redduðu kvöldinu alveg. 


Leyndardómar Snæfellsjökuls (frá Sandgerði séðir)

Snæfellsjökull hefur einhvern dularfullan kraft sem margir hafa reynt að fanga. Ekki undarlegt að Jules Verne hafi valið hann sem upphafsstað að ferðalögum um iður jarðar, hvað líður annars gerð kvikmyndarinnar eftir bókinni hans? En það þarf engan franskan rithöfund til að segja okkur allt sem segja þarf um Snæfellsjökul. Best er að sjá hann sjálf. Hann blasir oft við þegar ég renni heim, niður Garðaholtið, eins þegar ég er á leið vestur í háskóla og fer niður Öskjuhlíðarbrekkuna, á leiðinni upp í sumarbústað er hann oft alveg magnaður á leiðinni undir Hafnarfjalli og loks er útsýni til Jökulsins oft einstakt frá Sandgerði séð. Svona leit hann út fyrr í dag:

aCIMG2172

 


Leikhús, leikhús, hvar hef ég (eiginlega) verið?

Það er alltaf svo óskaplega gaman að fara í (gott) leikhús. Núna er ég búin að fara á tvær ólíkar en virkilega góðar sýningar í sama mánuðinum og hugsa: Af hverju fer ég ekki oftar í leikhús? Þar sem ég hef þegar útlistað það samviskusamlega hér á blogginu, þá eru ekki fleiri orð um það. En ég get alla vega sagt að sýningin sem ég sá í kvöld var góð, reyndar svo margsluning og efnismikil að það liggur við að mig langi að sjá leikritið aftur, seinna. Segi ykkur meira um þessa sýningu seinna, af sérstökum ástæðum læt ég þetta duga í bili. Spennan magnast.

Held að Mannaveiðar muni rokka ... (þó ég hafi lesið bókina)

Mér líst bara ljómandi vel á Mannaveiðar, leikararnir og stemmningin lofa góðu. Skítt með það þótt ég sé búin að lesa bókina, kannski á þetta samt eftir að koma á óvart. Ef ekki, þá er alla vega hægt að hafa ánægju af skemmtilegri útfærslu á þessu handriti.

Vona að Mannaveiðar verði ekki of trúar bókinni (eins og búið er að lofa)

Hvernig getur þáttur orðið spennuþáttur ef hálf þjóðin er búin að lesa bókina og ætlunin er að vera trúr henni? Samt vona ég innilega að Mannaveiðar verði skemmtileg spennuþáttaröð, skil bara ekki alveg hvers vegna ekki er að minnsta kosti hægt að hreyta plottinu aðeins. Kannski er það gert þótt annað sé sagt. Sjáum til. Kemur sjálfsagt ekki að sök í fyrsta þætti. Alla vega góður höfundur og góður handritshöfundur.

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband