Bloggfærslur mánaðarins, desember 2008

Blendnar tilfinningar í lok mótmælaárs

Eitt er víst, sjaldan í sögu lýðveldisins hefur verið eins mikil ástæða til þess að mótmæla. Og sem aðgerð var sú framvinda sem varð í dag mjög eftirminnileg. Þótt ég sé argasti friðarsinni er samúð mín meiri með mótmælendum en Stöð 2 að þessu sinni. Sé það líka rétt að frumkvæði óeirðalögreglu (er það ekki sérsveitin?) hafi verið jafn mikið og þessi frétt gefur til kynna þá er ábyrgðin auðvitað þar að hluta. Lögreglunni hefur lánast að gera margt vel á viðkvæmum tímum og ég tel að Stefán Eiríksson og Geir Jón reyni sitt besta og leiði þar hóp lögreglumanna sem væru meðal mótmælenda eða eru það kannski, ef þeir eru ekki að sinna skyldustörfum.

Á þessu ári hef ég tekið þátt í fjölmörgum mótmælum, öllum friðsömum. Jafnframt hafa mér ekki komið þessar róstur sem orðið hafa neitt ýkja mikið á óvart. Stór hluti þjóðarinnar er búinn að fá nóg af andvaraleysi stjórnvalda, lítilsvirðingu við þjóðina og þjónkum við útrásarvíkingana sem allt settu á höfuðið.

Ég hef líka setið í pallborði Kryddsíldarinnar og reynt mitt besta að koma stefnu minna ágætu stjórnmálahreyfingar sem ekki er lengur við lýði, Kvennalistans, á framfæri. En í grunninn er ég ekkert rosalega hrifin af stjórnmálaforingjaþáttum. Þótt þetta sé auðvitað rosalega vinsæll vettvangur til þess að gera upp árið, þá var þess ekki að vænta að þöglir og afskiptalausir stjórnmálamenn (flestir hverjir, ég undanskil Steingrím J. ennþá) myndu segja mikið meira en þeir hafa verið krafðir um að undanförnu og þagað þunnu hljóði. Geir komst ekki inn, en átti einhver von á að hann færi allt í einu núna að segja þjóðinni það sem hún vill heyra: Já, við ætlum að efna til kosninga!

Hörður Torfa kjörinn maður ársins á Stöð 2 - ákveðin skilaboð þar, ekki þó þau sem mér heyrist að Sigmundur Ernir er borinn fyrir (vonandi ranglega) að halda að mótmælin séu að undirlagi samkeppnisstöðvarinnar - kommon, sjálfhverfa fjölmiðla er mikil en er þetta ekki einum of!

Gleðilegt ár og vonandi gefast færri ástæður til þess að mótmæla á nýju ári, heldur verður boðað til kosninga.

 

 


mbl.is Mótmælin áttu að vera friðsamleg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Árið þegar lögmál Murphys rokkaði kvatt - gleðilegt ár!

Ég lærði lögmál Murphys á þessa leið: Allt sem getur farið úrskeiðis gerir það - á versta hugsanlegum tíma. Jamm, það er nú það. Var árið sem er að líða ekki einmitt ár Murphys? Þess vegna var það talsverð búbót að fá inn á heimilið bók stútfulla af ýmiss konar afbrigðum þessa lögmáls, eða réttar sagt öll hin lögmálin sem kennd eru við ýmsa snillinga. Ég hef nú ekki komist djúpt í hana enn, en mun vonandi bæta úr því á nýju ári. Set þó nokkur gullkorn inn og minni á að innst inni er ég samt ennþá bjartsýnismanneskja - gleðilegt ár:

Almenna óöryggislögmálið:

Kerfi hafa tilhneigingu til að vaxa og um leið og þau vaxa leitast þau við að flækjast.

Útfærsla:

  1. Flókin kerfi leiða til óvæntrar útkomu. 
  2. Endanlega hegðun stórra kerfa er ekki hægt að sjá fyrir.

Setning: Kenning um ómögulegar viðbætur í hegðun kerfa.

Stórt kerfi sem skapast þegar lítið kerfi er þanið út heldur ekki hegðun litla kerfisins. 

 

Sextánda lögmál kerfa:

Ef byggja á flókið kerfi frá grunni virkar það ekki og ekki er hægt að lappa uppá það. Það verður að byrja upp á nýtt og einfalda kerfið. 

 

Regla Breda:

Þeir sem eiga innstu sætin í röðinni mæta seinast. 

 

Lögmál Jensens:

Það er sama hvort þú vinnur eða tapar, þú tapar.

 

Spakmæli herra Cole:

Summa gáfna á jörðinni er fasti - og íbúum jarðar fer fjölgandi! 

 

 

 

 


Af hverju er ekki hægt að læra af sögunni? Gaza 2008.

Eitt af því sem réði því helst að ég valdi sagnfræðina umfram til dæmis bókmennafræði og myndlist, sem ég var að læra á sama tíma var áhugi á samfélagsmálum. Sá fljótlega að í sögunni voru fordæmi fyrir flestum þeim mistökum og þrekvirkjum sem gerð/unnin hafa verið.

Sagan er því miður full af frásögnum af hliðstæðum atburðum og nú eru að eiga sér stað á Gaza ströndinni. Og ekki virðist vera hægt að læra af sögunni, það er alveg sárgrætilegt. Yfirgangur Ísralesríkis er hrikalegur og hefur lengi verið og gerir ekkert annað en að mynda jarðveg fyrir öfgafyllri andspyrnu á borð við Hamas, í stað hófsamari afla. Þeir sem gjalda með lífi og limum eru óbreyttir palestínskir borgarar. Ábyrgð Bandaríkjanna í þessum efnum er allnokkur því hernaðarmáttur Ísraelsríkis hefur byggst upp í skjóli þeirra. Ljóst er líka að um áframótin verður ESB með forvígismenn sem bera blak af Ísralesríki, ólíkt því sem nú gerist undir stjórn Frakka. Þetta er ömurlegt stríð og fátt sem bendir til annars en að þetta fari versnandi. 

Datt aðeins út í samfélagsumræðunni í þann mund sem átökin voru að komast á skrið, þegar minn heittelskaði braut sig illa, en það er ekki hægt annað en pikka nokkur orð, og það væri sannarlega óskandi að unnt yrði að læra af mistökum sögunnar en lítil von til þess.


Að kveðja ár

Þá er komið að því að kveðja árið 2008 og heilsa árinu 2009. Eflaust verður liðið ár kvatt með mismunandi miklum söknuði, enda óvenjulegt ár. Fyrir okkur Íslendinga var þetta ár átaka og uppgjörs sem er ekki um garð gengið. Persónulega eru áhrif ársins margslungin og ekki komin að fullu í ljós. Meira seinna. Gleðilegt ár, ef ég skyldi sleppa því að blogga meira á árinu, sem er allsendis óvíst eins og allt hitt.

Ökklabrotinn eiginmaður kominn heim

Gærdagurinn var eiginlega aðallega á slysó því eftir meira en 30 ára slysalausa hestamennsku tókst honum Ara mínum að slasa sig uppúr hádegi í gær og brotna illa á ökkla. Hann fór í aðgerð í gærkvöldi og var negldur í bak og fyrir og hent út af spítalanum í dag. Kominn heim og skyldugur til þess að vera stilltur í nokkra daga alla vega. Ósköp gott að fá hann heim, annars var frekar mikið fjör hjá okkur um miðnæturskeið í gærkvöldi á spítalanum, þegar Trausti vinur okkar bættist í heimsókn, en hann er öryggisvörður niðri við dyr og var á vakt þegar hann frétti af Ara. Pólverjinn í næsta rúmi náði samt að sofna, frekar illa kvalinn af sígarettuskorti (en snjallt að eiga nikótínplástra á spítalanum) og svo var hann líka þjáður eftir eitthvert slys. Alla vega þá tókst aðgerðin á Ara vel etir því sem næst verður komist og allir á spítalanum ósköp notalegir, sem er gott þegar svona lagað kemur uppá.


Næstu stórtíðindi stjórnmálanna - ný könnun

Ný könnun hefur leyst krónukönnunina af hólmi, sú náði litlu flugi og er því lokað, en flestir veðjuðu þó (réttilega) á að krónan myndi halda sjó eftir að hún yrði sett á flot (32%). 21% bjuggust við að hún drukknaði, en annars dreifðust svörin mjög og m.a. merktu heil 6% við þann valkost að ESB tæki hana upp!

Nýja könnunin snýst um næstu stórviðburði í pólitíkinni, endilega takið þátt og ef fleiri tillögur koma fram má alltaf nota athugasemdakerfið. 


Að eiga skemmtilegar ólesnar bækur - þá er ýmislegt í lagi

Nú á ég tvær æsispennandi ólesnar bækur, sem ég hlakka ekkert smá til þess að lesa. Hanna mín reyndar búin að næla sér í aðra, en hún er sæmilega snögg að lesa spennusögur, það er sagan hans Árna Þórarinssonar, sem gerist víst á Ísafirði núna, hin hljómar ekki síður vel: Karlar sem hata konur (og ég sem  hélt að það væri sjálfshjálparbók, dö!). Það er alveg ótrúlega jólalegt að liggja í rúminu með góðri samvisku og lesa góða bók.


Já, mér finnst svolítið nördalegt að jólablogga, en þar sem ég er nörd ...

Gleðileg jól öll og takk fyrir kveðjurnar!

Með Simba mér við hlið, jólaheimsókn í kirkjugarðana með greinar og friðarljós að baki, er jólaskapið bara bærilegt hér í Blátúninu. Mikið var dagurinn fallegur og jólalegur, með mátulegri snjóföl yfir öllu. Vona að þessi jól marki upphaf af öðru og betra tímabili en vikunum á undan (annars er hægt að óska þess sama um áramóti ;-) þó vil ég ekki að það breytist sem gerst hefur að undanförnu: Ofurlaun og útrásarvikingar eru ekki kúl lengur, afbrot í nafni þessa eru óréttlætanleg og það veit fólk og vonandi þar til bær yfirvöld líka -  en samvera, samstaða og öflug gagnrýni á óréttlæti og vilji til að breyta samfélaginu okkar hefur verið ofarlega í huga og verður það vonandi áfram. 


Hækkandi sól, jól, og bráðum koma áramót, en undirliggjandi hótun um að árið 2009 verði það versta. Listi yfir góðu árin og vondu árin, mátulega óvísindalegur.

Eins og ég elska skammdegið, að því tilskyldu að færðin sé fólki bjóðandi, þá finnst mér alltaf svolítill áfangi í því fólginn að sólin taki að hækka á lofti. Sérstaklega þegar ég er stödd á þeim stað í lífinu að ég fari til vinnu á sama tíma á morgni, þá er svo mikill munur á seinustu dögunum fyrir jól og fyrstu dögum næsta árs.

Ég veit ekki hvort ég er beinlínis komin í jólaskap, en lífið er komið í allt aðrar skorður en venjulega, eins og oftast fyrir jól, og venjulega endar sú törn á því að jólaskapið hellist yfir mig eins og ég veit ekki hvað!

Margir hafa haft á orði að þeir verði þeirri stund fegnastir þegar þetta furðulega ár verður um garð gengið. Veit ekki alveg hvða mér finnst um það, en það pirrar mig svolítið hvað það er greinilega verið að reyna að búa mann undir frekari kjaraskerðingu og gjaldtöku með því að minna á að árið 2009 verði verra, en svo segja sumir að þetta fari nú að skána. Það á sannarlega eftir að fara ofan í saumana á ýmissi ákvarðanatöku á næstunni, ekkert síður en að rannsaka þau afglöp og hugsanleg afbrot sem framin hafa verið.

Þótt ég viti að talnaspeki byggi á öðrum útreikningum hef ég oft skoðað í huganum hvernig árin hafa verið, persónulega, á áratugar fresti. Og samkvæmt því eru árin sem enda á 8 ekki alveg þau bestu, stundum heldur vond, þótt á því hafi verið undantekningar. Árið þegar tímabili lýkur, stundum með meiri trega en á öðrum tímum.

  • 1958: Foreldrar mínir skildu.
  • 1968: Pabbi dó.
  • 1978: Hef ekkert upp á það ár að klaga en var smábarnamamma og ólétt meira en hálft árið - tímabil klárast og ég lauk BA-prófi á árinu.
  • 1988: Free-lance vinnan mín í harðri baráttu við félagsmálin og fjárhagurinn leið fyrir það
  • 1998: Aftur free-lance og á milli verkefna, óvenju rýrt ár fjárhagslega.
  • 2008: Andlát Ása vinar okkar. Mikill dráttur á að verkefni sem ég átti að fara að vinna í færi af stað, með tilheyrandi óvissu og óþægingum - tímabil klárast (eins og 1978) og ég klára M.Sc. prófið mitt í tölvunarfræði.

Árin sem enda á 9 hafa hins vegar verið með betri árum í lífi mínu og ég treysti því að svo verði einnig núna. Oft ár nýs upphafs.

  • 1959: Eyddi hálfu árinu með mömmu og ömmu á Spáni, heimsókn frá tilvonandi fóstra mínum þangað var líka góð. Byrjaði í barnaskóla, sem var bara gaman.
  • 1969: Byrjaði að eyða sumrum í sveitinni minni, Sámsstöðum í Fljótshlíð, en þaðan á ég alveg yndislegar minningar.
  • 1979: Strákurinn minn fæddist og ég átti góða tíma með krökkunum, tókst að skrifa stutta skáldsögu sem ég las í útvarp ári síðar. Var með útvarpsþætti um bókmennir allan veturinn, missti ekki úr þátt þrátt fyrir barnsfæðingu.
  • 1989: Hélt út í það ævintýri að verða þingkona fyrir Kvennalistann og fór (fyrr á árinu) í hnattferð með mömmu að heimsækja Möggu frænku á Nýja-Sjálandi.
  • 1999: Var að vinna fyrir Sandgerðisbæ og skrifaði í kjölfarið sögu Miðneshrepps og Sandgerðisbæjar frá 1907, sem kemur vonandi út (loksins) á næsta ári. Fórum til Las Vegas um veturinn og það varð fyrsta skrefið í átt að nýjum siðum, sumarfríum á veturna, snilldarfyrirkomulag.
  • 2009: Vona að þetta verði skemmtilegt ár ...

Hvernig er þetta hjá ykkur? Eigið þið ykkar uppáhalds-ár? Eða eruð þið dottin í jólastressið og lesið ekki blogg.


Hógvær og heillandi kona

Votta fjölskyldu Halldóru samúð mína. Halldóra var ekki kona sem tranaði sér fram en ég held að hún hafi notið virðingar allra sem höfðu samskipti við hana og eflaust langt út fyrir þær raðir. Tel það heiður að hafa verið sveitungi hennar um stund.


mbl.is Alþingi minntist Halldóru Eldjárn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband