Bloggfærslur mánaðarins, maí 2010

Vertu sæl Pollýanna!

Ég er alin upp við Pollýönnu-lestur og upplestur. Hélt að það væri hægt að leysa allt með því að vera nógu rosalega jákvæð. Jamm og já. Sé á bókalistanum hér til hliðar að ég hef verið farin að velta henni fyrir mér út frá hruninu fyrr en ég hélt. Leyfi því að standa sem ég hef þegar skrifað. En í morgun, þegar ég var að hlusta á erindi Barböru Ehrenreich á geysilega fróðlegri ráðstefnu á Bifröst, þá sagði ég í huganum, í gamni og alvöru: Vertu sæl Pollýanna.

Öll erindin í dag hafa verið einstaklega fróðleg, en ég staldra við Barböru til að byrja með. Erindi hennar leiddi til hugsana um þennan ,,þetta reddast"-hugsunarhátt okkar Íslendinga, auk þess sem hún fór á kostum þegar hún sagði frá hinni pínlegu gleðikúgun sem jafnt krabbameinssjúklingar sem efasemdarfólk um aðferðir útrásarvíkinganna (fyrir hrun) eru beittir. Veslings danskur bankamaður sem varaði við hruninu og fleiri álíka voru úthrópaðir og ráðlagt að fara í endurmenntun og krabbameinssjúklingum er sagt að vera bara nógu rosalega jákvæðir og þá muni þeir sigrast á sjúkdómnum. Sem sagt ef þú deyrð samt, þá varstu bara of neikvæð! Barbara talar af reynslu, hún lifði af krabbamein fyrir um það bil tíu árum, en ekki vegna þess að hún væri svo jákvæð eða elskaði krabbameinið, eins og sumir reyndu að segja henni að gera. Held að hana langi í ,,helvítis fokking fokk"-bol, hún er nefnilega nógu hugrökk til að taka málstað þeirra sem kvarta hástöfum þegar ástæða er til.

Er það von að maður fari að efast um Pollýönnu?

Merkilegt að hlusta í kjölfarið á Sigríði Benediktsdóttur brillera í erindi sínu um bankahrunið þar sem hún hafði loksins enn betri tíma til að flytja mál sitt, en hún hafði þegar hún sló í gegn við kynningu bankahrunsskýrslunnar. Tek undir með þeim sem sögðu að nú viljum við fá Sigríði heim! Hún og Eva Joly virðast vera þær sem litið er til við endurreisnina.  

Brynja Guðmundsdóttir, frumkvöðull og töffari, vakti líka sérstakan áhuga minn, en hún rakti stofnun fyrirtækis síns sem er að gera það einstaklega gott. Mikið er ég ánægð með að hún skuli vera Álftnesingur og farin að láta til sín taka á nesinu með stofnun Hagsmunasamtaka íbúa Álftaness, sem eru reyndar ein af fáum samtökum á Álftanesi sem ekki bjóða fram við þessar kosningar, enda var það yfirlýst stefna samtakanna frá upphafi að vinna þvert á allar flokkslínur.

Og þannig leið dagurinn á Bifröst í blíðunni og með hvert dúndur-erindið á fætur öðru. Herdís Þorgeirsdóttir, sem stóð fyrir þessari ráðstefnu í fimmta sinn nú í ár, á sannarlega heiður skilinn. Ég á erfitt með að slíta mig frá dýrðinni hér í Borgarfirði, mikill lúxus að vera hér uppi í bústað enn einu sinni, hér er ekki hægt annað en láta sér líða vel, en Álftanesið bíður með alla sína blíðu og kosningar á morgun, svo kannski er rétt að fara að renna aftur í bæinn og kannski þarf ég að lesa Pollýönnu aftur við tækifæri. Ef eitthvað kemur út úr því mun ég án efa leyfa blogglesendum að fylgjast með. Lofa samt engu.


Vor

Það fer ekkert á milli mála að vorið er komið og ég leyfi mér hér með að óska okkur öllum góðs sumars, einu sem fá ærlega vætuspá í maí alla vega, eru Rangæingar og Skaftfellingar svo þeir losni við öskuna úr túnunum sem fyrst.

Við þurfum líka á vori að halda í samfélaginu. Alvöru vori þar sem hlúð er að því sem máli skiptir. 


Michael Moore og Internationalinn

Loksins um daginn sá ég myndina Capitalism: A Love Story, eftir Michael Moore. Ég er ein af þeim sem er bara einfaldlega hrifin af því sem sá náungi er að gera hér og þar. Hvet fólk til þess að sjá þessa mynd ef það á kost á því. En þessi mynd vakti athygli mína á mjöööööög óhefðbundinni útgáfu á Internasjónalnum, læt ykkur um að dæma um hvort þetta er að virka:

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband