Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2013

Ótrúlegar sögur af ,,uppsagnamarkaðinum"

Ekki get ég nú sagt að ég hafi haft tíma til að átta mig á breyttri stöðu minni í tilverunni (sjá fyrra blogg). Það mun koma í ljós nógu fljótt hvaða áhrif hún hefur. Bloggið mitt frá kvöldi uppsagnarinnar hefur hrundið af stað atburðarás sem ég sá ekki fyrir. Góðar óskir og hvatningarorð frá vinum mínum, nánum sem ókunnum á Facebook og víðar komu mér ekki á óvart, nema kannski að það voru ívið meiri viðbrögð en ég átti von á. Hins vegar kom það mér verulega á óvart hvað ég hef heyrt í mörgum sem hafa ótrúlegar sögur að segja af eigin reynslu af uppsögnum. Bæði hvernig þær snerta fólk persónulega og fjárhagslega og hvernig atburðarásin kringum þær hafa verið. Þetta hefur borist mér eftir ýmsum leiðum, persónulega, á samfélagsmiðlum og í samskiptum við það fólk sem ég hef hitt á þessum rúmu tveimur sólarhringum sem bloggið mitt hefur verið í loftinu. Meira að segja fólk sem stendur mér tiltölulega nærri hefur sagt mér ýmislegt markvert sem ég hef ekki áður heyrt. Mig óraði ekki fyrir því að svona mikil þöggun væri í gangi á þessu sviði. Mig langar vissulega að deila svo mörgu af því sem ég hef heyrt, en í bili er ég varla til skiptanna og gæti það því ekki þótt ég fegin vildi. Og ekkert myndi ég hvort sem er segja án samráðs við viðkomandi. En nú þarf ég að fara að einbeita mér að því að vinna uppsagnarfrestinn, finna mér nýtt starf og/eða verkefni og rækta sambandið við fólkið mitt í vinnunni og heima. Og halda sálarró.

Ég var dálítið efins um að þetta blogg mitt ætti erindi út í samfélagið. Ég efast ekki lengur. Samt hef ég enn ekki heyrt frá neinum sem sagt var upp á RUV þótt ég þekki þar margt gott fólk. Það sem þar gerist hefur ekki farið framhjá nokkrum þeim sem fylgist með fjölmiðlum. En það er greinilega margt að gerast annars staðar á ,,uppsagnamarkaðinum“, svo margt að ég er enn að undrast.


ÞAÐ VORU VÍÐAR HÓPUPPSAGNIR EN Á RÍKISÚTVARPINU Í DAG

Jæja, ég þurfti að verða 61 árs til að lenda loksins í þeirri lífsreynslu að vera sagt upp. Þetta var hópuppsögn, ein af mörgum sem aldrei fá fókus, og ég var í hópi margra góðra vinnufélaga. Ég var líka í lúxusstarfi. Fá fyrirtæki hér á Íslandi leyfa sér þann lúxus að hafa sérstakan tæknihöfund í fullu starfi.  Víðast hvar þurfa aðrir starfsmenn að sinna því hlutverki í hjáverkum. Ég hef sjálf gert það hjá öðrum fyrirtækjum. Það er vaninn og lúxus er það sem fyrst er skorið. Það tók talsverðan tíma að sannfæra þáverandi æðsta stjórnanda míns ágæta fyrirtækis um að tímabært væri að ráða tölvufræðimenntaðan tæknihöfund í fullt starf, þegar ég réðst til starfa þar fyrir fjórum árum. Starfið fæddist með mér og í dag dó það með mér, í bili alla vega. Þannig að ég get sagt: Ég skil þetta allt saman ósköp vel.

Kemur mér samt á óvart hvað þetta er erfitt, þótt ég geri mér vissulega grein fyrir öllum tækifærunum sem nú munu (vonandi) opnast. Tækifærin fyrir góða tæknihöfunda ættu að vera óþrjótandi, það er bara að finna þau. Heimurinn allur í rauninni sá markaður sem ég þarf að skoða á næstu vikum, á meðan ég vinn uppsagnarfrestinn minn. En í dag er þetta bara áfall.

Í sjálfu sér er ég alveg sátt við margt varðandi þessa uppsögn, þótt ég hefði svo sannarlega viljað vera áfram í þessu starfi og hjá þessu fyrirtæki. Fólkið sem ,,lenti í því“ að segja mér upp var líklega það besta sem ég hefði getað fengið á þessari erfiðu stundu. Þótt ég væri bæði dofin og héldi að ég væri hress þegar þetta dundi yfir, þá er það mikils virði, eftir á að hyggja, að það voru einmitt þau tvö sem voru þarna með mér. Ég er alveg viss um að það er ekki öllum gefið að taka þetta hlutverk að sér. Þau vita það best sjálf að þau stóðu sig vel gagnvart mér.

Það að fyrirtæki þurfi að skera niður kostnað er svo sannarlega ekkert nýtt. Launakostnaður vegur yfirleitt þungt og uppsagnir því nauðsynlegar í bland við aðrar aðgerðir eins og í þessu tilfelli.

Ég hef aldrei verið hrædd við að fara út í óvissuna og jafnvel óhikað sagt upp starfi án þess að vera búin að tryggja mér annað. Verið órög við að vinna í lausamennsku ef ég fengið skemmtileg verkefni og þessar tilraunir hafa leitt mig í ýmsar áttir og yfirleitt til enn betri tilveru á endanum. Treysti því að svo verði nú, en fyrirhafnarlaust verður það sjálfsagt ekki.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband