Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2013

Eldfimir tímar

Mér líður svolítið eins og veturinn 2008-2009. Einkennin eru svipuð, áreitið annað. Það hefur verið hrun, reiði brýst út, krafa um annað, nýtt og betra samfélag. Þá var það fjármálahrun þjófanna sem settu okkar samfélag, heimili og fyrirtæki á vonarvöl, nú er hrunið skriða af gömlum málum og nýjum sem varða kynferðisglæpi. Við erum á stigi reiðinnar, en krafan um annað, nýtt og betra samfélag er líka hávær. Nákvæmlega sama er að gerast út um allan heim, fjármálahrun og reiði í kjölfarið, skriða af gömlum og nýjum málum kynferðisglæpa. Reiði, krafa um nýja og betri veröld. Að sumu leyti verða aðstæður hér á landi til þess að allt samfélagið er undirlagt, smæð samfélagsins og áhrif hverrar einustu misgjörðar á næstum allar fjölskyldur, vinahópa, vinnustaði. En hrunið í Argentínu og Grikklandi er alvarlegt, kynferðisglæpirnir í Indlandi ógurlegir og afhjúpanir á glæpum Jimmy Saville í Bretlandi sýna sjúkt samtryggingarumhverfi. Þetta er allt að koma fram í dagsljósið og svo margfalt meira. Samfélagsmiðlar og miðlun upplýsinga hafa breytt veröldinni.

Við vorum aðeins á undan að sumu leyti hér á Íslandi hvað varðaði framvinduna í hruni fjármálakerfisins. Við hafa tekið erfið ár, varnarbarátta en ýmis vonbrigði og nú þykjast sumir greina að sé að sækja í sama ,,2007" farið. Ég vona að svo sé ekki, en útiloka það ekki. Ef okkur tekst ekki að láta þessar fjármálahamfarir leiða til einhvers góðs þá erum við hreinlega asnar. Þetta segi ég ekki síst vegna þess að ég má ekki til þess hugsa að sama þróun verði í kjölfar þeirrar reiði og kröfum og betra samfélag nú, þar sem virðist loks vera þjóðarsátt um að hætta að þagga niður glæpi og láta þá þannig viðgangast. Vonir og vonbrigði togast á um allan heim, hvort sem litið er á kjör fátækra, byltingu í Mið-Austurlöndum, harðnandi átök um byssueign í Bandaríkjunum eða þá öldu sem nú rís gegn kynferðisofbeldi.

Þriggja ára stúlka sem keyrði í gegnum gjóskuþoku og yfir gjallbunka á leið úr heimsókn frá Stínu frænku sinni á Suðurlandi fyrir margt löngu sagði, næst þegar stungið var uppá að skjótast í heimsókn til frænkunnar: ,,Æ, nei, ekki til Stínu, ég nenni ekki eldgos!" Önnur, ögn eldri, sagði við mömmu sína eftir aðeins of bitra lífsreynslu af heimilisofbeldi og fleiri hremmingum: ,,Æ, mamma, ég nenni ekki að þroskast!" Umbrotatímar eru alltaf erfiðir og það er allt í lagi að ,,nenna ekki eldgos" ef maður á val. Verst að valið er ekki alltaf til staðar. En það er eiginlega þegnskylda að þroskast.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband