Besta barn í heimi brýtur leirtau

Mér hefur oftar en einu sinni verið sagt að sumar vinkonur mömmu hafi ekki þolað mig þegar ég var lítil. Ég var nefnilega svo hrikalega þægt, ungt barn og það var víst óhagstæður samanburður fyrir sum vinkvennabörnin. Var uppnefnd BBH, besta barn í heimi. Man auðvitað ekkert eftir þessu, en til er saga, sem ég hálfparinn man sjálf, frá því við bjuggum á Uppsölum í Aðalstræti. Hittum Helga Hjörvar, sem bjó rétt hjá, neðst í Suðurgötunni og við hann sagði ég víst, eftir mínu minni eða annarra: Vond börn blóta, góð börn þora ekki að blóta. Býst við að þetta segi allt sem segja þarf. 

Mamma sagði mér síðar að hún hafi orðið mjög glöð þegar ég fékk óþekktarkastið eina, sem ég man alls ekki eftir. Þá vissi hún að hún var ekki að kúga mig. 

Svona leið ég um í þægðarró fram eftir aldri. Lifði samkvæmt væntingum. Orti algera Pollýönnu-vísu snemma í barnaskóla: 

Það er gaman að lifa

og lesa og skrifa

og líka að reikna

en mest þó að teikna

Mér fannst alveg óskaplega gaman að verða unglingur. Ungmennafélagsböll, og -ferðir, partí með unglingunum á Álftanesi. Skemmti mér með KR-ingum í skíðaferðum sem stóðu heilar helgar, þar sem þotusleðinn var meiri vinur minn en skíðin. Sveitaböll í Rangárvallasýslu þau sumur sem ég var í sveitinni minni, Fljótshlíðinni, en minnisstæðast var að fara að ferðast ein til erlendra borga.  

Sumarið þegar ég var sextán ára var ég að vinna í uppvaski á stúdentahótelinu í Osló. Sennilega hefur það verið þar sem ég gerði í fyrsta sinn eitthvað umtalsvert af mér. Lít til baka í forundran. Þá var ég nýkomin í uppvaskið á aðalhótelinu, eftir þrjár vikur í starfsmannamötuneytinu, sem var sældarlíf. Við vorum aldrei fleiri en 2-3 á vakt (ekki pláss fyrir fleiri í skotinu okkar), en 17 þjónustustúlkur báru í okkur óhreina diska, glös og önnur skítug mataráhöld. Röðuðum þessu stanslaust í bakka alla vaktina og bakkarnir fóru eftir lestarteinum inn í uppþvottavélina og komu út hinu megin. Þaðan þurftum við að bjarga þeim í burtu nógu hratt. Gallinn var bara sá að málmhillurnar sem bakkarnir áttu að komast í, fylltust jafnharðan og bakkarnir voru ekki teknir nógu hratt í burtu hinu megin í hillusamstæðunni. Ég fann ráð við því. Setti okkar bakka bara samt inn og ýtti hinum þar með niður á gólfið móttökufólksmegin, svo allt sem í þeim var hefur eflaust mölbrotnað, eftir hljóðunum að dæma. Enginn sagði neitt við mig út af þessu og eftir nokkur brothljóð kom ég alltaf að auðum hillum.

Var loks ,,leyft“ að fara að vinna aftur í starfsmannamötuneytinu og átti góða tíð með mömmulegu konunum þar.

Er ekki sagt: Neyðin kennir naktri konu að spinna? -  eða eins og Þórarinn á Skriðuklaustri sagði í miðri ræðu þegar hann mundi þetta ekki alveg: Bera konan með spottann.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband