Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2023

Íslandsvinir - ekki bara popparar og kokkar

Það eru ekki bara popparar og kokkar sem eru Íslandsvinir. Nokkur fjöldi erlendra vatnslitamálara hefur tekið ástfóstri við landið og á nýlegri sýningu eins þeirra heyrði ég rótgróna vatnslitakonu dæsa og segja að hann málaði eiginlega ,,íslenskari" myndir en flestir þeir Íslendingar sem hún þekkti. 

2023-07-31_18-41-20

Mig langar að geta þeirra sem ég þekki til og birta Íslandsmyndir nokkurra þeirra, með tilurð sumra þeirra sem aukabónus. Þeir eiga það sameiginlegt að hafa verið hér á ferðinni síðustu árin, kennt og verið með sýnikennslu hér, en bregða líka fyrir sig Íslandsmótívum í sýnikennslu út um allan heim. Myndirnar eru flestar teknar af litla símanum mínum og skellt hér fram í belg og biðu, en þær eru eftir Vicente Garcia, Keith Hornblower, Ann Larsson-Dahlin, Michael Solovlev og Alvaro Castagnet.  

2023-07-31_18-28-38


Heimsins eðlilegustu kúvendingar og alvöru áhrifavaldar

Man það svo vel þegar ég heyrði á unglingsárum sagt frá því með samblandi af furðu og lotingu að einn af forvígismönnum Náttúrulækningafélagsins, Björn L. Jónsson, hefði kúvent og hætt að vera veðurfræðingur og farið í læknisfræði um fimmtugt og lokið því námi samhliða vinnu á sex árum. Þetta var um það leyti sem ég fæddist og á fyrstu æviárunum. Gerbreyting hefur orðið á bæði náms- og starfsframboði og hugsunarhætti. Það vekur ekki lengur furðu þótt einhverjar kúvendingar verði á starfsferli fólks og lífsstefnu, eða hvað? Man reyndar eftir, en síðan eru einhverjir áratugir, að það þótti í frásögur færandi að þeir Kristinn Sigmundsson menntaskólakennari og Kristján Jóhannsson plötusmiður og díselstillingamaður ákváðu að helga sig listinni og gerast óperusöngvarar á fullorðinsárum.

Ég á vini sem hafa söðlað um og farið út á nýjar brautir á miðri ævi og endrum og sinnum les ég viðtöl við fólk sem hefur gert það sama svo það þykir frásagnarvert. Mín kúvending á miðjum aldri, þegar ég hvarf að mestu frá blaðamennsku og sagnfræðiskrifum í heim hugbúnaðargerðar (og til þess þarf miðaldra kona að lágmarki mastersgráðu til að gera sig gildandi) er greinilega líka nógu dramatísk til að vekja nokkra athygli. Það er ekki eini viðsnúningurinn í mínum starfsferli um ævina, en engum þykir óvenjulegt ef fólk ,,lendir í" pólitík um lengri eða skemmri tíma eða reynir að þóknast myndlistargyðjunni samhliða öðrum störfum. Þar er ég bara ein af mörgum. 

Kem ég þá að alvöru áhrifavöldum, kennurunum sem við kynnumst á lífsleiðinni, ég hef áður fjallað um hvað ég tel þá hafa sannari áhrif í tilveru fólks en þau sem helga líf sitt hárgeli og öðru sem ég upplifi sem hégóma, eflaust í fordild minni. 

Í barnaskóla var ég í Sigríðarbekk og hún lagði gríðarlega áherslu á íslenskukennslu en var líka ágætur stærðfræðikennari (myndin af Sigríði með bekkinn sinn er reyndar frá því áður en ég fæddist, en Sigríður er þetta, ögn yngri en þegar hún kenndi okkur).

sigridur

Í Hagaskóla hafði ég ólíka en góða íslenskukennara, annan sem barði í okkur stafsetningarreglur, lét okkur þylja aftur og aftur: Hinn góði maður, maðurinn, tvö n, hinn góði maður o.s.frv. en í landsprófi var áherslan hjá Finni Torfa að kenna okkur að meta skáldskap og tjá okkur, veganesti sem ég met mikils. En við höfðum líka afburða stærðfræðikennara þar, Harald Steinþórsson og ómetanlegan teiknikennara, hann Guðmund Magnússon. Til þessa fólks get ég rakið flest það sem ég hef tekið mér fyrir hendur um ævina. Hef sannarlega ekki gleymt öllum hinum áhrifavöldunum (kennurunum) í lífi mínu. Og auðvitað nýt ég þess að hafa átt móður sem var frábær myndlistarkennari, föður sem var gangandi alfræðiorðabók, fóstra sem bæði elskaði íslenska tungu og var vel fróður um hana og stjúpmóður sem iðkaði bæði myndlist og tónlist svo unun var að fylgjast með. 

unnamed (3)

Og enn sækist ég eftir að komast í tæri við slíka áhrifavalda. Eftirminnilegir vinnufélagar í öllu mínu brölti á starfsævinni hafa jafnframt haft gríðarleg áhrif á mig, enda á ég og hef átt marga góða. Og eins og flest annað myndlistarfólk sækist ég eftir að komast í nám hjá þeim allra bestu á mínu sviði og alltaf jafn lukkuleg þegar það tekst, sem er furðu oft (greip tvo þeirra á sömu mynd frá í fyrra). Efast um að meiri símenntun eigi sér stað í mörgum fögum eins og gerist í listum, en þar miða ég við þau starfssvið sem ég hef komið nálægt. Held að við séum flest í mínum myndlistarhópum að skipuleggja kynni við næstu (alvöru) áhrifavaldana í tilverunni. 


Ár útimálunar

Árið bara rétt liðlega hálfnað og mér telst til að ég hafi málað að minnsta kosti eitthvað á þriðja tug vatnslitamynda útivið þetta árið. Held að það sé persónulegt met. Útimálun er allt annað dæmi en að mála uppúr sér, fantasíur, minningar og svoleiðis eða styðjast við ljósmyndir (ekki mála eftir þeim, heldur nýta þær til að skapa eitthvað allt annað). Það á þó við um útimálun eins og aðra vatnslitun að markmiðið er ekki endurgerð þess veruleika sem við sjáum, heldur túlkun og svo er allt leyfilegt, viðbætur, tilfærslur og fjarstæðukenndustu hagræðingar.

335462759_683074863819156_466757379069551415_n

Stundum þarf að grípa augnablikið og vinna hratt, aðrar myndir er hægt að kljást við svo klukkustundum skiptir, ef veður leyfir. Þeir hörðustu, til dæmis tveir vinir mínir fyrir norðan, láta veður ekki á sig bíta og mála úti árið um kring. Ég í mesta lagi dáist að seiglunni en öfunda þá ekki af lífsstílnum. 

unnamed.blagresi

fue2


Nýja-Sjálands tengslin

Nokkuð viss um að ef gerð yrði kvikmyndin ,,The New-Zealand connection" þá kæmi ekki fyrst í hugann að hér væri á ferð eitthvert framhald af ,,The French connection". Ímynd Nýsjálendinga er ekki sérlega villt, þrátt fyrir gæðakvikmyndir á borð við ,,Once were warriors" og ,,What becomes of the broken hearted". 

https://timarit.is/page/5430257?iabr=on

Mín tengsl við Nýja-Sjáland eru á gömlum merg. Þegar ég var fimm ára fluttist ein uppáhaldsfrænka mín, Magga ömmusystir mín, þangað og ég man vel eftir að hafa barnung reynt að grafa göng til hennar, enda vissi ég vel að jörðin er hnöttótt og ef ég græfi nógu langt hlyti ég að komast þangað. Dóttir mín sendi henni hins vegar skilaboð á segulbandsspólu. Saga Möggu frænku minnar er efni í annan og öllu alvarlegri pistil, mögulega mun ég einhvern tíma segja þá sögu alla, eins og ég kann hana best. Á vetrarkvöldi veturinn 1996-1997 barst mér pakki í boðsendingu þar sem ég var að leiðbeina myndlistarhópi í Haukshúsum á Álftanesi. Hann innihélt fallegt trébox með jarðneskum leifum Möggu okkar, en hún hafði óskað eftir því að hvíla við hlið einkasonarins, Þórs, sem lést ungur úr hvítblæði, 1950, og við mamma sáum til þess að sú ósk væri uppfyllt. 

Þegar Magga fluttist til Nýja-Sjálands var þar fyrir systir hennar, Bubba, sem hafði gifst Englendingi og flust með honum til Pretóríu í Suður-Afríku þar sem synir þeirra Brian og George áttu sæludaga (í minningunni alla vega) enda öll fjölskyldan mjallahvít á hörund og í forréttindahlutverki þar í landi. Áður en þeirri ójöfnu stöðu var raskað fluttust þau öll til Nýja-Sjálands þar sem svo ótal margir voru innflytjendur eins og þau. Magga var svosem ekki að elta systur sína, hún vildi bara flytjast frá erfiðum minningum i Evrópu og eins langt í burtu og hún kæmist. Kanada kom einnig til greina, en bréfið frá nýsjálenskum yfirvöldum kom degi fyrr og þangað fór hún og gramdist það mjög að missa af sumri þar árið. Hún var sannkölluð sumarkona.

unnamed (1)

Þær systurnar héldu sambandi þótt þær byggju lengst af hvor í sinni borginni, og synir Bubbu og sonarsynir (Brian átti tvo yndislega syni, Peter og Robbie, góða vini mína) voru alltaf í uppáhaldi en hún eignaðist ekki fleiri börn en Þór. 

Vorið 1989 fórum við mamma, í boði mömmu, að heimsækja Möggu og það var yndisleg ferð. Fjórum árum síðar átti ég leið til Ástralíu og kom líka við hjá Möggu í viku. Þá átti hún bara þrjú ár eftir ólifuð og vissi vel að aldurinn færðist yfir, en það stoppaði hana ekki í að setja niður, með hjálp Peters (og skv. mynd líka minni), hægvaxta tré, eitt af frumbyggjatrjánum sem kölluð voru svo, við húsið sitt í Blockhouse Bay í Auckland. 

unnamed

Ég sagði áðan að ímynd Nýsjálendinga væri ekkert mjög villt. Íslensk kona sem ég tók viðtal við fyrir Veru í ferðinni 1989 sagði að þegar flugvélar væru úðaðar við komuna þangað, þá gleymdist alveg að segja: Vinsamlegast stillið klukkurnar 25 ár aftur í tímann.

https://timarit.is/page/5425008?iabr=on

Mágur minn sem hefur ferðast mikið bætti um betur og sagði að Ástralir sem hann hefði hitt á ferðum sínum um allan heim segðu þessa nágranna sína ,,square". Vissulega brá mér í brún þegar ég sá hversu mikil kóngafólksdýrkun var í öllum tímaritum sem í boði voru í venjulegum verslunum. Einhvern tíma þegar ég dró hann Robbie (bráðskemmtilegan frænda) á Kaffibarinn, þar sem ég hitti vinkonurnar í einhver ár kl. 17 á föstudögum, dæsti hann og sagði að hann hefði aldrei séð svona mikið af stuttklipptum konum og á Íslandi. Hmm, held það sé samt ekkert mikið af Amish fólki í NZ. En honum fannst að vinkonurnar mínar væru æðislega skemmtilegar. 

Hitti líka unga, íslenska ,,stráka" sem höfðu kynnst nýsjálenskum eiginkonum sínum í fiski á Vestfjörðum í fyrri ferðinni minni og auðvitað var einn Kópavogsbúi úr bekk mannsins míns, nema hvað. 

Svo sannarlega væri ég til í að fara aftur til Nýja-Sjálands einhvern daginn. 


Forsjárlaust kapp

Mér skilst að kapp sé best með forsjá. Grunar samt að lesendur þekki forsjárlaust kapp, þegar við æðum áfram langt umfram áætlun og stundum líka getu. Er svolítið veik fyrir því þegar það hendir, sem er svosem ekkert voðalega oft, svo framarlega sem það kemur ekki í bakið á mér - og hér á ég við það í bókstaflegri merkingu, bakið er veiki hlekkurinn þegar ég er eitthvað að djöflast. Hvort sem þið eruð að ofgera ykkur í fjallgöngum, eins og sumir vinir mínir, ekki ég, eftir að ég lét undan blessaðri lofthræðslunni, eða bara að taka tarnir í einhverju allt öðru, eins og mér hættir til að gera, kappið keyrir okkur oft hæfilega langt áfram.

2023-07-22_00-36-04

Fáránlega langar og harðar tarnir hafa oft skilað skemmtilegri útkomu þegar ég hef verið að glíma við verkefni í myndlist, en það má líka virkja keppnisskapið í hversdagslegri iðkun og í þeirri stöðu er ég þessa dagana. Finn að mér hleypur kapp í kinn þegar ég er komin á gott skrið og það skilar alltaf einhverju góðu. Sumum finnst mest gaman að keppa við aðra, mér dugar að keppa við sjálfa mig. Stundum vantar þá agnarögn upp á að vera forsjál, en það gerir ekkert til. Langtímamarkmiðið er alltaf þekkt og að því má vinna og helst fara framúr. 

Held ég geti þakkað Georgi bróður mínum það að ég fór að kannast við að hafa keppnisskap og þora að spila á það (og sjálfa mig í leiðinni). Í því undantekningartilfelli snerist það um að vinna einhverja aðra en sjálfa mig, það er að segja hann, í skvassi meira að segja. ,,Þú vilt bara tapa," sagði hann stríðnislega og meira þurfti ekki og mér fór hratt fram í íþróttinni á kappinu einu saman. Það hefði líklega farið illa ef ég hefði ekki á kapplausa tímabilinu lært sitt af hverju í tækninni og sótt mér kennslu í skvassi. Í því tilfelli smá forsjá, en það vissi ég ekki þegar ég var að læra. Spurning hvort forsjá án kapps sé algeng, spyr sú sem ekki veit. 

 


Forgangsröðunin

Lærði snemma að forgangsraða, enda oft(ast) með mörg járn í eldinum. Lengst af dugði mér að ákveða forgang vor og haust, en í augnablikinu er ég með harða forgangsröðun fyrir tæpt sex vikna tímabil. Tók nokkra sumarfrísdaga í upphafi tímabilsins og tók eina vinnustofurispu í Amsterdam með Alvaro Castagnet og heimsótti soninn í leiðinni. Í beinu framhaldi af því launalaust leyfi í mánuð til að grynna aðeins á allt of stóru bókasafni, fötum, garni og fleiru sem gjarnan mátti saxa á. Stórgripirnir (úr sér gengin húsgögn og þess háttar) bíða annarra en mín. Forgangsröðunin er skýr, þetta er aðalverkefnið, þegar vel gengur vinn ég mér inn tímakorn fyrir myndlistina og er meðal annars í fyrsta sinn að kanna möguleika á að vera með í vef-galleríi. 

En ekki síst snýst þetta um að ákveða hvað er EKKI í forgangi núna. Þótt mig gruni að bakið á mér sé farið að þola golfiðkun á nýjan leik, þá bíð ég með svoleiðis lúxus fram yfir ,,fríið" og sé þá til hvort veður, bak og vinna leyfir einhverjar heimsóknir á golfvöllinn. Er líka spurð af og til hvort það sé ekki von á næstu glæpasögunni minni, svarið er já, en þessi tími núna er ekki sá rétti til að vinda mér í að smella henni saman eftir að ég komst að því að ég ætla að bæta nýju tvisti inn í þann dans og bókin sem var 80% tilbúin fyrir rúmu ári er núna í hæsta lagi 70% klár núna. Í bríarí sagði ég samt um daginn að ég hefði ætlað mér að skrifa svona 50 glæpasögur þegar ég kæmist á eftirlaun, en í augnablikinu er ég ekki á eftirlaunum. Lék mér að því í framhaldi af þessari gáleysislegu yfirlýsingu að setja á enn eitt google docs skjalið heiti býsna margra af þessum 50 bókum og plott fylgdi sumum. Aldrei að segja aldrei! 

Óvissuþættir eins og jarðskjálftar, eldgos, lokun Álftaneskaffis og einmuna blíða hafa verið snarlega skrifaðir inn í handritið: ,,Forgangsröðunin". Mikið verið flokkað útivið og sumarbústaður nýttur vel, bæði fyrir skjálftaflóttakonu, hafurtask og vatnslitagræjur. Forgangsröðunin hefur haldið og þannig gengur þetta allt. Gulræturnar við enda tímabilsins eru spennandi verkefni í vinnunni þar til ég fer næst á eftirlaun og frítímar sem ég mun samviskulaust verja á kaffihúsum og golfvöllum eftir því til hvors viðrar betur.

Eitt hefur alltaf verið tekið út fyrir þennan forgangsröðunarsviga og fengið þann tíma sem þörf krefur, það er fjölskyldan og jafnvel hefur gefist tími til að verja smá tíma með vinum endrum og sinnum. Þannig gengur þetta upp, eða mér sýnist að það muni gera það. 

362027088_219585981046298_259944414564847314_n (2)

 


Sólarlagið sem varð að eldgosi

Vinur minn spurði um daginn hvort ég ætlaði ekkert að fara að vatnslita eldgosið. Ég hélt nú ekki, enda á ég afrit af tugum slíkra vatnslitamynda eftir félaga mína í Vatnslitafélaginu, flestar frá í fyrra held ég, átti nú ekki annað eftir en að gera eins og allir hinir, hmmm. Svo fann ég skissubókina sem ég ætlaði að hafa með mér til Amsterdam og ákvað að vígja hana. Fletti í símanum mínum og fann nokkrar ,,silhouette" myndir af fallegu sólarlagi héðan og þaðan af Álftanesinu. Ákvað að vinna út frá þeim litla skissu en svei mér þá ef hún endaði ekki í eldgosi. unnamed (1)


Sumarið sem KOM og tiltekt í fjarvinnu

Um daginn kom sumar. Náði yfir allt Suðvesturland og stundum um allt land. Það voru dýrðardagar. Sumarbústaðarferð var ekki á dagskrá þennan mánuðinn, nema rétt sem verðlaun í lok þessa mánaðar, ef mér hefði gengið eins vel og ég ætlaði að saxa hressilega á það óþarfa dót sem hefur safnast upp á 43 árum. Það er sá tími sem við höfum búið hér í húsinu sem við Ari minn byggðum barnung. Það þurfti ekki nema einn jarðskjálfta til að sannfæra mig um að ég ætti einmitt að drífa mig upp í bústað. Kl. 8:21 kom skjálftinn, fyrir klukkan níu var ég komin út í bíl og lögð af stað upp í bústað. Sem betur fer hafði ég engan tíma haft til að pakka uppúr ferðatösku eftir stuttan túr til Amsterdam þar sem ég sótti vatnslitanámskeið hjá Alvaro Castagnet (já ég veit hann var á Íslandi líka og átti góðan tíma með þeim hjónum hér líka). Þeirri tösku var kippt með og fáu öðru. Í henni var aðallega myndlistardót þannig að ég hélt bara áfram að vatnslita.

IMG-4235

Hef glímt við ýmis mótív uppi í bústað með misgóðum árangri, en í þetta sinn var útilokað annað en að drífa sig í stuttbuxurnar, setja upp trönurnar og njóta góða veðursins og mála og mála og mála. Smá tilraunastarfsemi í gangi, sem sagt að prófa mismunandi aðferðir við að mála sama mótívið, mikið unna mynd og aðra lauflétta, sem þykir yfirleitt betri latína. Sagt er að æfingin skapi meistarann (Practice makes perfect, sagði hún Alison á Butlins við okkur stelpurnar sem lögðum á borð og þvoðum kalkið af hreinu hnífapörunum þar). Að kvöldi var myndum kippt inn og kannski unnið aðeins meira í þeim áður en næsta verkefni tók við. 

IMG-2865

Svo þegar kvöldaði tókst mér meira að segja að saxa á verkefnin heima á Álftanesi með því að grisja bókasafnið uppi í bústað hressilega og losa þar með nokkra hillumetra undir bækur sem við ætlum ekki að henda, en þurfum ekki að blaða í frá degi til dags. Eitthvað verður eftir af afþreyingarbókum, vænt hestabókasafn hefur verið að vaxa og dafna og í það verður bætt, feminismabókasafnið mitt er á leið í bústaðinn en ljóðabækurnar þarf ég að hafa innan seilingar heima á nesinu mínu góða. Þetta var sem sagt tiltekt í fjarvinnu. 

IMG-4248

Um helgina fjölgaði í bústaðnum og tengdasonurinn var gripinn í módelstörf en dóttirin hélt sig í skugganum, ekki ósýnileg þó. 

IMG-4214

Svo kom gosið og ég einmitt rétt búin að klára að fara í gegnum allar bókahillur nema eina. Hún bíður betri tíma. Heim komin sátum við eldri systurnar saman úti í garði og grófsorteruðum bækurnar og nú eru fimm pokar farnir á Basarinn. Fimm aðrir pokar með fötum og garni farnir í gám eða á leið í hendur réttra aðila, einstaklinga og hugsjónasamtaka. Mér sýnist að ég nái 50 poka markmiðinu í þessum mánuði, allt umfram það er bara æði. Og sæludagarnir í sumarbústaðnum og garðinum hér heima sönnuðu svo ekki varð um villst að það KOM sumar þetta árið. 


Hliðarspor glæpa(sagna)höfundar: Skrifaði gátu á appið: Krimmi komið í loftið!

Að morgni 71 árs afmælisdagsins, þegar ég loks komst á áttræðisaldurinn skv. sumum (hef nú reyndar verið á þeim eðla aldri í ár að eigin mati) var prufuútgáfa af appinu Krimmi (kringum.is/krimmi) sett í loftið. Nú í vikunni kom síðan endanlega útgáfa út og nánari kynningar er að vænta í næstu viku, hlakka til þegar þetta mál verður (loks) upplýst með því að opna aðgang að mörgum óupplýstum gátum. 

Af algerri tilviljun hafði ég samband við útgefandann einmitt þennan tiltekna afmælisdag í fyrsta sinn síðan í febrúar til að spyrja fregna. Jú, komið í loftið, verður svo í prófunum um sinn. En um leið og þetta fer í opinbera útgáfu má láta vita. Það er sem sagt núna! Kíkið hingað: https://kringum.is/krimmi/

351103910_589548059947177_4862741423139188141_nwww

Minn krimmi heitir Morðið á horninu, í miðið hægra megin á óskýru símaskjáskotinu. Það þarf að fara í Vesturbæinn til að byrja að spreyta sig á morgátunni. 

351103910_589548059947177_4862741423139188141_n

Komið í App-Store alla vega fyrir okkur eigendur iPhone og þarna er fullt af sögum sem birtast lesanda þegar komið er á svæðið. Leiðbeiningar fylgja líka. Útgefandinn hefur áður gefið út mjög vel lukkað app, kringum.is 

Þegar útgefandinn hafði samband við mig í vetur var ég með verkefni upp fyrir haus, en það var aldrei spurning, í þessu ætlaði ég sko að taka þátt, og gerði það. Nú verður spennandi að fylgjast með hvernig þetta virkar og ég verð eflaust notandi ekkert síður en höfundur. 

Mér finnst virkilega gaman að vera með í þessu ferli og hver veit nema ég láti til mín taka á þessum vettvangi áfram. 

 


Ljúfsárt að kveðja Álftaneskaffi

Í dag fórum við systur mínar og dóttir í síðasta sinn á Álftaneskaffi, því verður endanlega lokað eftir einn og hálfan tíma. Hanna mín hafði pantað borð í sínu nafni og þegar ég komst í biðröðinni góðu (allir vildu koma hingað seinasta daginn) sagði Sigrún vert að borðið okkar væri tilbúið, ,,where everybody knows your name" var sagt í frekar vinsælli sjónvarpsseríu. Stemningin var ljúfsár, margar góðar minningar frá seinustu átta árum og Álftnesingar og ættleiddir Álftnesingar, vinir Álftaneskaffis, fjölmenntu. Við sátum úti um stund en síðan við borðið okkar, úti var kona að taka við stórum stafla af pítsum, ekki af því von væri á mörgum gestum, heldur til að eiga næstu daga og síðan í frysti þar til hún fyndi einhvern sem kæmist í hálfkvisti við snillingana Skúla og Sigrúnu. Nína fékk síðasta súrdeigsbrauðið, ég uppáhaldssalatið mitt í kassa til að taka með, snúðarnir voru borðaðir beint úr ofninum og þó var vitað að Skúli hefði mætt eldsnemma til að mæta eftirspurninni sem var fyrirsjáanleg. unnamedguur7

Hef ekki tölu á því hversu marga vini mína og ættingja ég hef dregið á Álftaneskaffi á þessum árum. Gönguhópa, sundgrúppur, elsku bekkjarsystkinin mín sem nú hafa þegar haldið uppá 50 ára stúdentsafmælið, hér hitti ég Rósu mína í síðasta skiptið nú nýverið og svo ótal marga fleiri hef ég hitt og notið stunda með á þessu einstaka kaffihúsi. Og svo auðvitað hana Gurrí sem er að mínu mati og margra annarra okkar helsti kaffisérfræðingur. Vatnslitamyndin við þessa færslu er af henni frá því fyrir þremur árum, en við höfum stundum hist hér, stundum með Hildu systur hennar en oftar einar. Hinar myndirnar eru frá í dag af þreyttum Skúla og Sigrúnu, hafi þau þökk fyrir þrautseigjuna og njóti vonandi vel þess að fá að hvíla sig eftir þessa törn sem bæði hefur staðið í átta ár og líka og einkum þó í dag, þegar við kveðjum. Spjallað var venju fremur mikið milli borða, sem þó er alsiða á Álftaneskaffi, tregablandnar ástar- og saknaðarkveðjur heyrðust úr hverju horni.

unnamed (1)

 

Játa það alveg að ég felldi tár þegar ég fór, en við Nína systir, erkikaffihúsafélagi minn, erum lausnarmiðaðar og munum nú færa okkur (aftur) á Súfistann, bókakaffið í Hafnarfirði og Te og kaffi í Garðabæ, sem hefur opið frameftir alla virka daga. Álftaneskaffi hefur runnið sitt skeið og skilur eftir ótal yndislegar minningar, lifi góð kaffihús!

unnamed


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband