Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2012

Það lið sem slær Álftanes úr keppni í Útsvari hefur alltaf sigrað keppnina í úrslitaleiknum

Sá ekki Útsvar í kvöld, enda skemmtilegt hóf í vinnunni minni (eftir nokkuð erfiðan leik, alla vega fyrir okkur sem horfðum á ,,strákana okkar". Hins vegar sé ég á vefmiðlum hvernig fór. Langar að benda á það að það hefur enn ekki brugðist að það lið sem slær Álftanes út, oft á síðari stigum keppninnar, stendur uppi sem sigurvegari Útsvars eftir úrslitaleikinn.
mbl.is Garðabær áfram í Útsvari
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er ástandið í flokknum (mínum) svona?

Mér er það vel ljóst að á ýmsu hefur gengið bakvið tjöldin innan Vinstri grænna og sumt hefur ratað á félagsfundi, flokksráðsfundi og landsfund. Þung orð hafa fallið í reiði og þungar ásakanir færðar fram, og það er ekkert skemmtiefni. En sem betur fer hefur gagnrýni mjög oft fylgt ítarlegur rökstuðningur. Oft er ég ósammála einstökum þingmönnum og ráðherrum en mér finnst hægt að vera ósammála, jafnvel um mikilvæg málefni, án þess að vera orðljótur. Er það til of mikils mælst? Hvernig á að vera hægt að stjórna landinu ef ekki er hægt að stjórna skapi sínu? Ekki var því mætt með sams konar orðbragði þegar Samfylkingin greiddi atkvæði þvers og kruss þegar ákvarðað var upphaflega hverja skyldi draga fyrir Landsdóm.

Það er löngu ljóst að bæði blogg-færslur og fésbókarfærslur eru tjáning á opinberum vettvangi og fjölmiðlar fljótir að þefa hvort tveggja upp svo allt sem sagt er á þeim vettvangi hlýtur að vera sett fram viljandi. 

Oft hef ég verið meira sammála Ögmundi og Guðfríði Lilju en í Landsdómsmálinu, en ég hlusta samt á rök þeirra fyrir málflutningi sínum og er reyndar fullkomlega sammála því að þetta mál er ekkert uppgjör við hrunið eitt og sér. Það vantar mikið upp á hlustun í þessari ríkisstjórn og meðal allt of margra stuðningsmanna hennar.


mbl.is Árni Þór: „Flestir sótraftar á sjó dregnir“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sundurlyndi, samviska eða sópað undir teppið

Við vinstra fólk erum vön því að fá skammir fyrir sundurlyndi. Oft er þetta svokallaða sundurlyndi ekkert annað en það að fólk er reiðubúið að hlýða samvisku sinni frekar en sýna af sér hjarðhegðun. Á hægri vængnum er þessi samlynda breiðfylking ofurhamingjusöm, meðan við deilum innbyrðis. Þetta er klissjan. Mér finnst þetta alltaf lykta af því að við eigum að vera eins og góðborgarafjölskyldan, sem sópar öllum vandræðum undir teppið og kemur brosandi eins og amerísk draumafjölskylda fram opinberlega. Glansmyndin er síðan stundum afhjúpuð í æviminningum vansælla barna sem hafa eytt formúum í sálfræðinga eftir allt yfirklórið. Geng kannski ekki svo langt að benda á kvikmyndina Festen eftir Thomas Winterberg og samnefnt sviðsverk, en svona næstum því ... 

Óli kommi stendur upp - núna

Er ég kom á landsfund VG á Akureyri í haust var mér sagt að Óli kommi hefði verið sérstaklega heiðraður. Það fannst mér gott, hefur fundist notalegt að eiga samleið með þessum eldheita baráttumanni seinustu 12 árin, en við erum bæði meðal stofnfélaga VG. En mér var líka sagt í sama sinn að þegar þorri flokksfélaga stóð upp undir eða eftir ræðu Steingríms formanns okkar, þá hafi Óli kommi ekki staðið upp. Nú er hann staðinn upp og hefur yfirgefið Vinstri græn, ekki síst vegna ESB-dekurs flokksins. Þar með bætist hann í hóp allt of margra annarra sem ég met mikils, sumir hafa að vísu skilað sér aftur um sinn til að halda baráttunni áfram innan flokks, þekki nokkur dæmi þess. Þeir eru kannski farnir út aftur, ekki veit ég það. Atli, Lilja, Ásmundur Einar, Karólína Einarsdóttir, Brynja Halldórsdóttir og allt of margir aðrir hafa hrökklast á brott og það sem mér finnst verst, það er eins og mörgum í flokksforystunni og nokkrum öðrum sé bara slétt sama, finnist það jafnvel gott að losna við gagnrýniraddir. Það svíður mér sárast. Vera má að brotthvarf Óla komma vekji einhverja til umhugsunar ...
mbl.is Óli kommi hættur í VG
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband