Bloggfærslur mánaðarins, september 2007

97 ára heiðurskona kvödd á fallegum haustdegi fyrir norðan

Heiða vinkona mín kom með góða ábendingu. Ekki oft sem jarðarför 97 ára manneskju er jafn fjölmenn og sú sem var í Blönduóskirkju þegar heiðurskonan Ásgerður á Guðlaugsstöðum var kvödd í gærdag. Ástæðan er áreiðanlega ekki síst sú að Ásgerður var, þrátt fyrir háan aldur, enn mjög virk og vakandi í samfélaginu, á sinn hægláta hátt. Við Ari fórum norður á þessum einstaklega fallega haustdegi. Ásgerður var skemmtileg og lifandi kona, bókelsk og viðræðugóð, í þau óteljandi skipti sem við höfum komið að Guðlaugsstöðum hefur alltaf verið gaman að hitta hana. Gunna bóndi á Guðlaugsstöðum og dóttir Ásgerðar er besta vinkona mín og því fer ekki hjá því að við höfum kynnst fjölskyldu hvor annarrar vel og mitt að þakka fyrir mig á þessari stundu. Það er mikill annatími núna í sveitinni en ég held að þessi laugardagur þegar fjöldi fólks úr sveitinni, úr bænum og að austan þaðan sem Ásgerður var ættuð, sýni og sanni vinsældir Ásgerðar. 

Við Ari vorum annars í bústaðnum um helgina, skruppum þó í skemmtilegt matarboð með ferðafélögum Ara úr hestaferð í sumar áður en við fórum í bústaðinn, á föstudagskvöldið.  


Vantar skýrari línur í veðurspá vetrarins

Hér til vinstri lúrir lítil könnun sem er mér afskaplega kær. Þannig er mál með vexti að mig langar svo óskaplega til að fá að vita, fyrirfram, hvernig veðrið í vetur verður. Þannig að ef þið eruð tengd við æðri máttarvöld, veðurguðina til dæmis, þá þætti mér afskaplega vænt um að fá að vita með meiri vissu hvernig veðrið í vetur á að vera. Atkvæðin eru nefnilega að dreifast óþarflega vel. Eins og flestir Íslendingar er ég veðurfíkill og á þar að auki eftirfarandi hagsmuna að gæta:

1. Þarf að vita hvenær ég á að panta Kanarí.

2. Er ég komin ótímabært á vetrardekk? (Það getur reyndar verið fyrirbyggjandi, því fleiri sem eru á sléttum sumardekkjum, þeim mun meiri líkur á hálku og snjó og öfugt, skv. Murphy vini okkar allra).

3.  ... og svo bara einskær forvitni.


Er eitthvað að gerast í Brussel?

Geir Haarde kom í sjónvarpið áðan og minnti á að aðild að Evrópusambandinu sé ekki á dagskrá þessarar ríkisstjórnar. Samt eru einhverjar mjög óskilgreindar viðræður í gangi í Brussel. Spurning hvort þetta sé frétt eða ekkifrétt. Allavega þá var þessi frétt framarlega í fréttatímanum, hmmmm.

Farsæl björgun en ekki við Hrakhólma

Það sem skiptir máli er auðvitað að fólkið bjargaðist og ekki er það verra að verðmæti gera það líka. Hins vegar finnst okkur Álftnesingum að það sé betra að fara rétt með örnefni. Strandð átti sér stað úti fyrir Hliði en ekki við Hrakhólma sem eru úti fyrir Bökkunum svonefndu. Þeir eru tveir og heita Eyvindarstaðahólmi og Sviðholtshólmi og koma aðeins upp við fjöru. Hættulegir sjófarendum því þeir eru ekki sýnilegir á flóði. Á stórstraumsfjöru er gaman að ganga út í hólmana.  Fann góða mynd sem sýnir Hrakhólma efst til vinstri og Hlið neðst til vinstri, ætti að sýna hver munurinn er.

alftanes

 


mbl.is Trillan sem strandaði á Hrakhólma dregin á flot
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki missa af Astrópíu!

Hef verið svolíitð léleg við að fara á ævintýramyndir jafnvel þær allra vinsælustu, og ekki nógu dugleg að fara á íslenskrar kvikmyndir heldur, hálf skammast mín fyrir það síðarnefnda, því þegar ég fer þá skemmti ég mér yfirleitt vel. Mýrin er til dæmis ein af þessum myndum sem mig langar að sjá aftur, mynd sem gekk fullkomlega upp.

Í kvöld skrapp ég svo á Astrópíu með Óla (28 ára syninum). Það var reyndar ég sem fékk að velja myndina og úr mörgu góðu að moða, en þetta var myndin sem mig langaði á og vissi eiginlega ekki alveg hvers vegna. Hafði bara góða tilfinningu fyrir myndinni. Handritshöfundurinn (Ottó Borg)  stórvinur Halldórs vinar míns (nema ég fari mannavillt) og það er yfirleitt ávísun á húmur, skot sem ég hef séð úr myndinni toguðu líka, þannig að já, ég náði meira að segja að sjá hana í stórum sal í Háskólabíói. Venjulega dugar mér að horfa á stórmyndir í stofunni heima, nema hasarmyndir sem krefjast góðs hljóðkerfis, þær reyni ég að sjá í bíói. En í þessu tilfelli var eiginlega nauðsynlegt að sjá myndina í sal með fleira fólki og hlæja eða súpa hveljur í kór. Reyndar var mjög misjafnt hvað vakti viðbrögð í salnum og hvernig viðbrögð, en salurinn var mjög lifandi og sýndi skemmtilegra lífsmark en poppkornsskrjáf.

Þetta er sem sagt dúndurmynd og yndislega fyndin. Maður þarf ekkert að vera ævintýramyndafrík (ábyggilega samt ekkert verra) og þetta er mynd sem er ólík öllum íslenskum myndum sem ég hef séð. Las í blaði að þetta væri hafnfirsk mynd og mikið rosalega er ég sammála því. Þið, sem þekkið Hafnarfjörð, skiljið hvað ég meina ef þið skellið ykkur á hana. 


Monk

Rosalega hef ég gaman af Monk, núna er byrjuð ný sería og ég fagna óspart. Reyni að verða ekki ,,húkkt" á sjónvarpsþáttum, en stend illa við það. 24 er eilífðarfíkn og Prison Break er líka ávanabindandi, þótt ég sé alltaf jafn fúl yfir endalokum þeirra sería. En Monk bíður ekki.

Farsæl endalok á pottasumrinu mikla

Í sumar höfum við verið að sneiða af ýmsa byrjunarerfiðleika við samskipti okkar við yndislegan heitan pott sem tengdamamma átti í handraðanum og eftirlét okkur hjónakornunum fyrir sumarbústaðinn. Mjög fullkominn pottur, en smá aðlögðun, m.a. vegna dauflegs rafmagns upp í bústað til okkar. En alla vega þá er það mikil sæla að hann skuli kominn í gagnið. Við erum annars að gera bústaðinn kláran fyrir veturinn, þó þannig að það sé hægt að fara þangað í hverri viku eftir því sem við viljum, sem er auðvitað nauðsynlegt. Þannig að í síðsumarsól og ótrúlega lágum hita sátum við í pottinum í dag og létum sem það væri enn sumar.

Tónlist er ótrúleg list

Kom uppnumin af sinfóníutónleikum í kvöld þar sem verið var að flytja norræn verk, Carl Nielsen, Jón Þórainsson, Sibelius og gleymdan Dana, Rued Langgaard, sem skrifaði geysimikið af verkum á fyrri hluta 20. aldar en fékk ekki eina einustu af 17 (minnir mig) sinfóníum sínum flutta opinberlega á meðan hann lifði. Frekar súrt því þessi 5. sinfónía hans var alla vega mjög áhrifamikil og lifandi. Ég er ein af þeim sem elska það sem var kallað ,,nútímatónlist" alla vega fyrir 20-30 árum, sem aðallega merkti að það var tónlist sem ekki var í stíl fyrri alda og skrifuð á 20. öld. Völuspá Jóns Þórarinssonar gott dæmi, en það var verkið sem fékk mig til að skæla á þessum tónleikum áðan. Man eftir það þegar Þingvellir bergmáluðu af sömu tónum og dynjandi kórsöng 1974, framkallaði jákvæðan hroll. Hef greinilega heyrt upptöku af verkinu síðan, gæti verið oftar en einu sinni, eða kannski er þetta bara verk sem passar svo vel við sálina að það er hægt að finnast það kunnuglegt. Ekki síðra að hlusta á þetta verk núna, einkum þar sem Elísabet systir tók þátt í flutningnum. En þetta voru tónleikar eins og tónleikar eiga að vera, skildu mann eftir uppnuminn. 

Stór hljómsveitarverk og þungarokk, þetta er gæsahúðartónlist, en auðvitað geta lítil verk um Svantes lyckliga dag eða smáverk eftir Erik Satie, Grieg eða Zappa líka breytt heiminum.  


Frásögn um margboðaða heimskreppu - þetta venst ;-)

Eftir að ég hætti að bíða eftir að kjarnorkusprengjan springi (fædd 1952 og á bernskuminningar frá kalda stríðinu) þá kom tímabil þegar úlfurinn var heimskreppa. Fyrst var það þessi fína olíukreppa sem fór að mörgu leyti framhjá okkur Íslendingum, en ég fann svo innilega fyrir þegar ég eyddi jólunum í Englandi árið 1974. Ljós átti aðeins að loga í einu herbergi í senn og flestir Bretar fóru eftir því, á meðan Idi Amin lofaði að senda Bretadrottningu banana í hremmingum sínum (eða var það eitthvað annað?).

Svo hefur þetta reglulega gerst að allt fari á annan endann vegna sveiflna í alþjóðaviðskiptum. Árið 1987 fórum við í haustferð um Evrópu og á meðan skall á þessi fína mini-kreppa og af því við vorum stödd á flakki um Evrópu þá fór hún meira og minna framhjá okkur (ekkert net þá). Alltaf af og til er verið að boða verðfall í kauphöllum, eða bregðast við slíku. Þegar þetta er svona margboðað þá venst það. Fréttamenn jafnt sem bankamenn eru farnir að segja sprækir að þetta verði skárra í næstu viku, alltaf hafa einhverjir spáð þessari þróun - þegar nógu margir spá nógu mörgu þá hlýtur eitthvað að rætast. Málið er að það er svo ótal margt sem virðist hafa áhrif og svo ótal margt sem við fáum ekkert við ráðið að ef eitthvað færi raunverulega af stað, þá er ekkert víst að viðvörurnarbjöllurnar hringdu á réttum tíma. En á meðan hafa afskaplega margir góða vinnu af því að spá og spekúlera og ekki skal ég hafa á móti því. 


Stærðfræði

Mér finnst stærðfræði ótrúlega skemmtileg, en fyrir manneskju sem hætti að læra stærðfræði í skóla 17 ára gömul og var þá komin með stúdentspróf í stærðfræði allt í einu, er ótrúlega strembið að taka upp þráðinn meire en 30 árum seinna. Það gerði ég nú samt og er núna að reyna að finna mér tíma til að sinna þessum lokaspretti í náminu af meiri krafti en tími virðist gefa mér færi á. Hélt það dygði að fara niður í hlutastarf, en bara þessa viku þá sé ég ekki betur en ég verði komin upp í 100% (nema auðvitað í kaupi) á annarri viku tilraunarinnar til að finna meiri tíma fyrir skólann. Þetta dugar auðvitað ekki!

Skrýtin þessi afstaða til kvenna og stærðifræði sem var við lýði þegar ég var í menntó. Við í stelpubekknum í 4. bekk voru látnar læra einhverja afgamla bók hjá áhugalausum og á köflum afskaplega pirrðum kennara. Skilaboðin voru óþarflega skýr, fyrst þið stelpur veljið ekki stærðfræðideild (sem kannski fimmtungur stelpnanna í menntó gerði), þá er eins gott að þið hættið að kássast upp á þennan innvígða heim. Eftir að hafa átt stærðfræðina sem annað af tveimur uppáhaldsfögum í gagnfræðiaskóla var synd að missa af lestinni en ég finn að ég er öll að hressast. Kúrsinn sem hann Stebbi bróðursonur minn hreinlega bar mig í gegnum þannig að ég rétt skreið á prófinu er núna hinn þægilegasti (því auðvitað er ég að endurtaka hann, sætti mig ekki við þá einkunn sem ég skreið með þótt hún væri kraftaverk á sínum tíma). Annar öllu erfiðari er svona álíka og þessi var mér á fyrsta ári þessa náms, sem ég held bara að ég sé að fara að klára ;-) Reyndar eftir að heyra hvort ég er ekki örugglega á réttri leið með lokaverkefnið, það er stærsti óvissuþátturinn. En stærðfræðin rokkar, alla vega svolítið. 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband