Bloggfærslur mánaðarins, október 2007

Borgir sem byrja á B-um og vinnutarnir

Skrýtið hvað fjölskyldan er sjálfri sér samkvæm í einu og öllu. Eins og allir séu að fara til einhverra B-borga. Elísabet systir nýkomin frá Berlín, Síví mágkona nýbúin að vera í Bejing og Belfast og ég nýkomin frá Budapest og á leiðinni til Barcelona - og með hverjum? Auðvitað allri tengdafjölskyldunni. Nína systir flýgur til Bandaríkjanna um jólin (nei ég veit að Bandaríkin eru ekki borg!) og ég var auðvitað viss um að hún flygi um Boston, en nei, nei, auðvitað flýgur hún um Baltimore, nema hvað (!). Ég efast ekki um að ég sé að gleyma einhverju. Þetta er svona eins og um árið þegar við fórum í búð og keyptum ekkert nema það sem byrjaði á k-i, eins og rakið hefur verið víðar hér í bloggheimum.  

Nú er álagstoppur í ýmsum verkefnum hjá mér. Svo mikið að gera í skóla og vinnu að ég kemst ekki í tíma en er sest við tölvuna klukkan hálf níu að morgni þessa dagana. Er að gera áætlanir vegna tveggja stórra verkefna sem bæði eru framundan og svo verð ég með fyrirlestur í stærðfræðikúrsi í næstu viku. Mikið rosalega er ég fegin að hafa sagt upp fastavinnunni minni, þau verkefni sem ég hefði annars þurft að vísa frá mér eru hreinlega of góð til að ég megi til þess hugsa að missa af þeim. Á seinustu árum hef ég stundum hugsað til þess með söknuði þegar ég hef þurft að segja nei við allt of spennandi verkefnum og þetta var bara dæmi sem ekki gekk upp.

 


Eitt sinn sagnfræðingur, ávallt sagnfræðingur

Þrátt fyrir næstum sjö ár í hugbúnaðarbransanum, sem ég er mjög skotin í, þá eru þessar tvær vikur sem ég hef nánast eingöngu helgað mig sagnfræðinni (og næstu sjö vikur á undan þegar ég var að reyna að sinna sagnfræðinni ásamt námi og 69% starfi) eins konar deja vu. Það er eins og ég hafi aldrei hætt, enda hætti ég víst aldrei alveg. Að setjast aftur í fallega lessalinn í þjóðdeildinni í Þjóðarbókhlöðunni, þar sem vatnið gárast rétt utan við gluggann - flott bygging hjá Manferð - og fletta í skjölum, gömlum blöðum og skýrslum, fara á efri hæðirnar og spæjast svolítið í héraðssögum og ævisögum og sitja svo í tölvunni heima og pússla saman myndefni og máli, þetta er bara gaman.

Sem sagt, Sandgerðissagan er að verða að bók. Það sem er búið að vera allt of lengi bara handriti í hillu og myndir í kössum og umslögum verður vonandi bara virkilega skemmtileg bók fyrir marga að lesa.

Svo er bara svo margt að gerast í sagnfræðinni, margar hugmyndir, draumar og fjör.

En það er reyndar talsvert af draumum mínum varðandi þróun tölvutækninnar sem ég á eftir að hrinda í framkvæmd, engin spurning, hér og þar, þessar hugmyndir eru kannski ekki nema riss í bók og pikk í tölvu en þeirra tími mun koma.


Volgt sódavatn og vinnutími

Eitt af því sem ég hlakkaði til í nýja free-lance lífinu mínu var að geta hagað vinnutíma mínum að hentugleikum. Var því heldur hissa í gær þegar ég var sest við tölvuna og farin að vinna kl. 9 um morgun. Í ljósi spakmælisins ,,Sá sem ekki getur sofið til hádegis hefur slæma samvisku" komst ég auðvitað að því að ástæðan var sú að ég var búin að setja á mig sjálfskipaða dead-line í lok dagsins fyrir ákveðinn hluta þess verkefnis sem ég er aðallega að vinna í núna. Þannig að allt var þetta laukrétt.

AimagesAnnað sem kom mér á óvart var að sódavatnið mitt góða, sem húkti inn í ísskáp, hreyfðist ekki. Svo tók ég það úr ísskápnum og eftir smá hlýnun þá drakk ég það af bestu lyst. Þannig að sennilega þykir mér það betra volgt. Hins vegar stendur klakavélin alltaf fyrir sínu og ófá klakavatnsglösin sem hafa verið drukkin að undanförnu.

Núna er ég komin í meira sannfærandi fasa, svaf með góðri samvisku til hádegis og drolla eflaust yfir verkefnum frameftir nóttu. Fína vinnuaðstaðan mín uppi er ekki komin í gagnið, það kostar smá tíma að setja hana upp, og hann hef ég ekki eins og sakir standa, enda fer ágætlega um mig í stofunni með tónlist í eyrum, vel varin fyrir umhverfishljóðum, fjölskyldumeðlimir í kring, Hanna á msn og horfi ekki á annað í sjónvarpinu en House.


Skemmtileg ferð og fleiri hliðar

Það eru fleiri hliðar á nýliðinni ferð en þær sem ég hef rakið. Hér er smá myndasyrpa á aðeins persónulegri nótum:

Fullt af flottum kirkjum, þessi er í garðinum þar sem óþekkta skáldið á heima

 

 

 

 

 

 

Kirkjan í garðinum á sunnudagsmorguninn þegar farið var í leiðangur til að reyna að hafa upp á tiltekinni skáldastyttu.

 

 

Lestarferðir eru alltaf skemmtilegar

 

 

 

 

Alltaf gaman að ferðast í lest, ekki síst í góðum félagsskap, við spiluðum rommí báðar leiðir og skildum held ég bara sæmilega sáttar.

 

Falleg hús í Ungó

 

 

 

 

 

 

 

Öll þessi fallegu hús!

 

 

Í Debrecen eru mörg ýkt bleik hús

 

 

 

 

 

 

Sum eru bleikari en önnur ;-)

Annað sjónarhorn á Hetjutorginu

 

 

 

 

Næstum ein á Hetjutorginu, það átti eftir að breytast.

Fleiri myndir eru komnar í sér albúm, njótið vel.


Fyrsti heili vinnudagurinn í nýju vinnunni - vinnutækni, straubretti og týnd og fundin vinna

Naut þess út í ystu æsar að skipuleggja sjálf vinnu og skóla í dag. Mætti upp í háskóla seint í morgun en tími féll niður, þannig að ég notaði þennan óvænta tíma til að versla einhverja hollustu í matinn, sólstól (bókastand) PBC Medium_stripe_lowresfyrir þykku bækurnar mínar og kaupa búkka undir stóru plötuna sem hefur þjónað sem alls konar borð á vinnusvæðinu uppi. Ætla að láta mig hafa það að koma upp vinnuaðstöðu í hálfkláraða fjölnotaherberginu uppi, lærði nefnilega mikið um þægilega vinnuaðstöðu og vinnutækni í Ungverjalandsferðinni. Á greinilega dóttur sem hefur hitt á flest það besta sem hentar mér í náms- og vinnutækni.

Ekki svo að skilja að litla vinnuhornið á ganginum/holinu, þar sem ég sit nú, verði alveg vanrækt, þar sem ég nýt þess mjög að breiða úr heimildum af ýmsu tagi á þægilegasta bráðabirgðaborði sem til er, straubretti heimilisins. Það er alveg ótrúlegt hvað það er handhægt að grípa til svoleiðis bráðabirgðaborða. 

Svo greip ég með mér skrifborðsstól á innan við 3000 kall í leiðinni, mér er að vísu sagt að hollusta slíkra stóla sé í takt við verðlagninguna, en þessi virkaði bara þægilegur. Svo endaði ég auðvitað með allt dótið í horninu mínu í stofunni, setti útvarpið á fullt, fína músík og fór að vinna. Náði góðri törn, dottaði í sófanum í þann mund sem von var á hinum fjölskyldumeðlimunum heim (tryggir hæfilega stuttan blund) og svo tók við önnur vinnutörn. Var bara harla ánægð með þær smábreytingar sem ég gerði á handritinu sem ég sendi til enduryfirlestrar eftir nokkra daga. Smá símaskipulagning líka. Sem sagt, harla gott, eða ... skjalið mitt var allt í einu horfið. Hvernig sem ég leitaði, og er nokkuð glúrin á því sviði, þá fannst það bara ekki. Áttaði mig strax á því að ef til vill hefði ég vistað afritið sem ég var að vinna í í Temp möppu. Og það er ekki öruggasti staður í heimi. En hjúkk, sonurinn á heimilinu er tölvusnillingur, og fann skjalið. Spara skýringarnar á því hvers vegna hvorki leit né ,,Recent items" fann þetta, en það hafði sem sagt lent í zip fæl.

Og mér er stórlega létt. Ekki bara vegna þess að nokkurra tíma vinna bjargaðist, heldur vegna þess að mig langaði ekkert í eitthvað svona ,,fall er fararheill" dæmi. Þvert á móti þá finnst mér bara allt í lagi að hlutirnir gangi skikkanlega fyrir sig. 

Bókasólstóllinn: Ég ætlaði að kaupa rosalega flottan, meðvitaðan úr timbri með smekklegu efni, en fyrst hann var ekki til í réttri stærð þá var bara að gera þetta nógu ýkt. Meðfylgjandi mynd er af þeim sem ég valdi.


Fylgst með Budapest á færi

Komin heim til Íslands en fylgist grannt með atburðunum í Budapest. Sé að það sem búast mátti við er að gerast, einhverjar óeirðir í gangi. Eitt er víst, ég mun fylgjast með og eins og fyrr segir þá finnst mér vont að hægri öfgaöfl hafa yfirtekið alla vega hluta mótmælanna sem hafa verið í gangi.

Hér er fréttin úr Budapest Times og fyrstu myndir frá upplifun okkar á sunnudaginn. Þetta er uppfærð útgáfa, en fréttirnar streyma inn.

Monday, 22 October 2007
Budapest, October 22 (MTI) - Far right anti-government demonstrators have attacked police near the Opera House in downtown Budapest on Monday around 2000, while commemorations of the 1956 revolution were being held inside the building.

Some two thousand demonstrators have marched to Nagymezo Street, just off the central Andrassy boulevard, and clashed with police, who began to use tear gas and the two water canons parked nearby to control the crowd. The demonstrators threw Molotov cocktails and bottles at riot police and turned over cars.

    The demonstrators had marched to the opera from their earlier demonstration at Szabadsag square near parliament, despite an earlier police ban on their movement.

    The rioters, who have covered their faces and are carrying extremist banners and flags, are chanting "Filthy jews", "Down with Gyurcsany" and "To arms" and are inviting on-lookers to join them.

    Prime Minister Ferenc Gyurcsany has arrived to the Opera House to attend the commemoration.

OG FRAMHALDSFRÉTT - RÁÐIST Á BLAÐAMENN

Monday, 22 October 2007
Budapest, October 22 (MTI) - Riot police have started pushing anti-government rioters towards the Western railway station, away from the Opera House, the site of 1956 commemorations, MTI's on-site correspondent reported.

Rioters turned over and set on fire a van and a water canon in a side-street and attacked photographers. A photo journalist for Reuters news agency has been injured and an ambulance had to be called to treat him.

    A group of rioters returned to Szabadsag Square, the original site of their anti-government demonstration. Police are protecting a Soviet monument on the square.

Hvítstakkar í fararbroddi

Hvítir kyrtlar í fararbroddi og ljósmyndarar á stjái í kring

Marserað af stað

Þar á eftir fánaberi og flokkur fólks, 56 þegar innvígðir í búningum sem minna mest á ungverska nazistaflokkinn frá stríðsárunum.

Marserað inn á Hetjutorgið

Marserað inn á Hetjutorgið þar sem álíka hópur beið með fána sem eiga upphaflega sögurætur ungverskir nazistar notuðu líka á stríðsárunum.

Kannski táknmynd þessarar hreyfingar

Þessi var á vissan hátt táknmynd dagsins

Með söfnunarbaukinn

En stúlkunni með söfunarbaukinn var ekkert um myndatökur gefið

Slóvakski fréttamaðurinn

Og slóvakska fréttamanninum fannst rétt að taka þessa þróun alvarlega. Hann spáði því að þetta sem var að gerast á sunnudag þróaðist út í óeirðir og hefur reynst sannspár, þótt ekki kæmi til óeirða strax á sunnudag. Mér finnst sérstaklega sláandi að heyra að þegar er farið að hvetja þetta nývigða, unga fólk til að grípa til vopna. Þetta er minnihluti hægri öfgamanna og ef þeir ætla að fara að leiða mótmælin þá er ekki gott að setja hver þróunin verður.

 


Óhugnanleg áminning um upprisu fasíska afla í Ungverjalandi

Helgarferðin okkar til Budapest tók óvænta stefnu í dag. Eftir yndislegan laugardag þar sem við skoðuðum borgina vel og vandlega og enduðum á siglingu um Dóná eftir myrkur, þá vöknuðum við sæmilega snemma á hótelinu okkar rétt við Hetjutorgið, fórum inn í garð að reyna að finna skáldastyttu og nutum fegurðar dagsins, þótt farið sé að kólna hér í Ungverjalandi, komið niður í 10-12 gráður á daginn. Svo var borðað á næsta horni, þar sem frægasti matsölustaður Ungverjalands er, en þegar út var komið sáum við mikinn viðbúnað lögreglu, frekar heimulegan þó. Sú sjón leiddi okkur á Hetjutorgið og þar var að safnast saman mannfjöldi. Við hefðum eflaust átt að ranka við okkur þegar okkur var réttur snepill með all mikið stækkaðri mynd af Ungverjalandi, frá eldri stórveldistímanum. En við héldum að þetta væri ef til vill angi af mótmælunum sem enn eru við lýði fyrir framan þinghúsið og hafa verið síðan þau bar hæst fyrir um það bil ári, eftir að forsætisráðherra landsins var staðinn að meinlegum lygum. Samt var eitthvað skrýtið, ekki beint ógn í loftinu heldur frekar óþægilegt andrúmsloft.

Ég gaf mig á tal við fréttamann sem var vel heima í málinu, sá reyndist frá Slóvakíu, sem á kortsneplinum er alveg innlimuð í Ungverjaland. Hann sagði mér að í dag ætti að taka inn nýja meðlimi í varðlið öfgahægrimanna (Ungverskt varðlið/her). Þetta varðlið var stofnað með 56 þátttakendum nú í ágúst og það þótti frekar ógnvekjandi, ekki síst fyrir þá sök að einkennisbúningurinn er nauðalíkur búningi nazistaflokks Ungverjalands á stríðsárunum og málflutningurinn óþægilega líkur. Það sem við urðum vitni að getur ekki annað en vakið óhug. Þegar ég kem heim til Íslands mun ég setja myndir, kannski videóklipp líka, ef þau heppnast. Þarna marseraði 5-600 manna sveit nýliðanna með 56 menningana í broddi fylkingar, þar af sexmenninga í hvítum kuflum fremst.

Þúsund til fimmtán hundruð manns fylltu Hetjutorgið og flestir fögnuðu en aðrir stóðu hnípnari hjá. Túristar röltu í kring og tóku myndir eða tóku ekki eftir neinu með kynningu á umhverfinu í eyrunum. Úr garðinum heyrðust af og til tónar úr flautum indjána frá Suður-Ameríku sem stungu í stúf við þjóðernistónlistina og hernaðarlegan bumbusláttinn meðan her varðliða marseraði inn á torgið. Ræðuhöld kölluðu á klapp og pú, en svo kom að aðaluppákomunni, þegar vel þjálfuð hersingin sór eið til að ganga inn í varðliðið. Allar hugmyndir okkar Hönnu um að skreppa í verslunarferð í bæinn ruku út í veður og vind. Við vorum slegnar óhug og ákváðum að fylgjast áfram með á færi, taka myndir og athuga hvert þessi uppákoma stefndi. Neðar í götunni þar sem hersingin kom var sýning á andfasískum plakötum í tilefni af þessum ,,hátíðarhöldum"en það las ég bara á netinu í kvöld. Rétt er að geta þess að hér er löng helgi vegna þess að á þriðjudag eru 51 ár frá innrás Rússa í Ungverjaland. Tímasetning hægri öfgamannanna er ekki tilviljun.

Slóvakski fréttamaðurinn var undrandi á því að leyft væri að hafa þessa innvígslu með þessum hætti, en rétt er að geta þess að í fyrra misstu stjórnvöld allt úr böndunum þegar þau reyndu að banna mótmæli og eru illa brennd enda ekki sérlega vinsæl. Þennan mótþróa gegn stjórnvöldum eru þessir hægri öfgamenn, sem bera mikinn svip af nýnasisma, að reyna að notfæra sér. Að hluta til hefur þeim tekist að fá til liðs við sig þá sem mótmæltu í fyrra, en þau mótmæli voru gegn forsætisráðherra og slökum stjórnvöldum sem glíma við mikinn efnahagsvanda og alls ekki með nýnasískum svip eins og stefna stjórnmálaflokksins sem ber ábyrgð á stofnun þessa varðliðs, Jobbik. Þessi flokkur hefur einkum beint andúð sinni að sígaunum hér í landi en málflutningur, söguleg skírskotun og táknmál eru undarleg blanda af aðdáun á stórveldisfortíð Ungverjalands, ást á einhvers konar norrænum táknum (rúnaskírskotun í anda nasískra flokka áberandi) og hernaðarhyggju, með aga, hrópum og alls konar ógeðfelldum svip.

Mér fannst nokkuð merkilegt að heyra það mat fréttamannsins fyrrnefnda að Slóvökum fyndist uppgangur þessarra nýfasísku afla í Ungverjalandi raunveruleg ógn. Smá flett eftir heimkomuna til Debrecen segir mér þó að fleiri eru farnir að taka þessa ógn alvarlega, mýmargar síður á netinu gera þetta að umfjöllunarefni (þótt vefútgáfu Budapest Times þyki sýnu verst að túristar tóku myndir af þessu) og New York Times tekur svo djúpt í árinni fyrir um viku í sinni vefútgáfu að segja að heimurinn ætti að beina sjónum að Ungverjalandi og hætta að hafa áhyggjur af hægri öfgamanninum Le Pen í Frakklandi. Annars er það vefútgáfa Sydney Morning Herald í Ástralíu sem greip þá stemmningu sem mér fannst vera á Hetjutorginu í dag einna best þeirra sem þegar hafa skrifað um málið. Við sáum nokkuð um fréttamenn á svæðinu, frá alls konar miðlum, Sky meðal annars, en samt grunar okkur að meiningin sé að reyna að halda þessu eins hljóðu og hægt er. Ungverjar eru stolt fólk og þetta er kannski ekki það sem helst er að státa sig af. Hlekkur að neðan í umfjöllun Ástralanna.

Greinilegt var að mikið var lagt upp úr að ekki yrðu uppþot. Geysimikill fjöldi lögreglumanna út um allt, einkum í hliðargötum og baka til við hús og torg. Ekki mjög sýnilegir þó en margir. Tveir brynvarðir lögreglubílar með rimlum, sýnilega akandi fangaklefar og ekkert smáir, fóru hjá. Þegar mótmælunum lauk var þó ljóst að ekki þurfti á þessum viðbúnaði að halda. Hvað næstu dagar bera í skauti sér er ekki gott að segja en vonandi bera Ungverjar gæfu til að sneiða hjá þessari óhugnanlegu þróun. Ég er fegin að vita dótturina í hinni friðsælu borg Debrecen, en hvorug okkar er svo græn að halda að ekki geti orðið öfugþróun. Fjöldi skandinavískra námsmanna hér um slóðir er þó ákveðinn kostur ef virkilega yrði viðsnúningur.

http://www.smh.com.au/articles/2007/10/22/1192940933468.html


Fallega Debrecen í 20 stiga hita

Seinustu tveir dagar hafa farið í að nota góða veðrið (sem er að baki í bili) og rölta um Debrecen, þessa fallegu borgí í hausthlýjunni, njóta þess að vera saman, lukum snögglega við að kaupa það sem var á innkaupalistanum (stuttur og markviss) í fyrradag þannig að í gær var meira rölt, langur dagur í skólanum hjá Hönnu, og auk þess sat ég við stærðfræðina fram eftir degi. Eftir að Hanna var laus úr tímum fórum við á Deri listasafnið, sem er lista- og þjóðminjasafn í bland. Flottar sýningar, einkum risastór, dramatísk málverk ungversk málara með flókið MM nafn, sem ég mun áreiðanlega lesa meira um. Svo fórum við á asískan veitingastað sem var mjög skemmtilegur. Nú er veðrið lakara, 10 stiga hiti gola (hér kallað rok) og rigning, stærðfræðin kallar og svo skal haldið á da Vinci sýningu sem er hér í borg. Um helgina förum við til Budapest, langþráður draumur beggja um að sigla að kvöldlagi á Dóná skal rætast nú. Svo bara heim á mánudaginn. Skrýtið, hvað tíminn líður fljótt.

Stjörnubjarti himininn yfir sléttunum

Það var sérkennilegt og skemmtilegt að aka frá Budapest til Debrecen í gærkvöldi, úti á ökrum sléttunnar mátti sjá stórvirkar landbúnaðarvélar að slá kornið, en uppi í stjörnubjörtum himninum óteljandi stjörnur, slatta af flugvélum (mikil traffík í háloftunum) og stöku gervitungl. Þekkja má muninn á þessu tvenna síðastnefnda með nokkurri vissu, við mæðgurnar fórum í gegnum þann pakka í morgun.

Þegar ég kom til Debrecen í gærkvöldi þá fann ég allt í einu muninn á því að koma hingað í íbúðina fyrir liðlega ári, þegar við Hanna dóttir mín vorum frekar grænar á þessum slóðum, að flytja hana inn, og núna þegar hún tók á móti mér og gerði upp við leigubílsstjórann, á ungversku! Þótt henni finnist hún ekki kunna mikið í þessu torskilda máli, þá er gaman að fara um og hlusta á hana kjafta ótrúlega mikið á ungversku, í búðum og veitingahúsum, panta bíl og fleira, sem fylgir því að fá móðurina í heimsókn. Mér finnst svo merkilegt að það skuli vera til þessar tvær þjóðir hér í Evrópu, Ungverjar og Finnar, sem eru eins og litlar slettur í þjóðahafinu, sem hafa orðið eftir, með óskylt mál næstum öllum öðrum (nema Eistum) og svolítið annað yfirbragð í fasi og útliti. Fallegt fólk en svolítið sérstakt að því leyti að tungan er svona torskilin. Á flugvellinum voru tvær vélar nýkomnar frá Helsinki og nokkrar annars staðar frá. Þrátt fyrir að tungumálin hafi orðið viðskila fyrir svona þúsund árum er mér sagt, þá er greinilega frændsemistaug milli þjóðanna, það finn ég í báðum löndunum, einkum þegar svona stutt er milli heimsókna bæði til Finnlands og Ungverjalands.

Ég var víst búin að lofa að skýra þetta með sprungna dekkið, hef ekki áður lent í því að vera í flugvél sem þarf að tjakka upp til að skipta um framdekk. Það er spes! Við vorum komin út á braut í gær þegar uppgötvaðist að danski flugstjórinn (sem flaug eins og engill) hafði óvart lent á einhverjum aðskotahlut á brautinni og vegna öryggisreglna var öðru dekki vippað undir. Svo var hann smá ónákvæmur, blessaður, þegar hann ók uppað rampinum á Feryhegy flugvelli í Budapest, því um leið og allir voru staðnir upp og voru að drösla dótinum sínu úr skápunum þá heyrðist í mínum, með sterkum dönskum hreim á enskunni: Afsakið, allir að setjast aftur, við hittum ekki alveg á innganginn og þurfum aðeins að bakka! Annars fín flugferð, laust sæti milli mín og notalegs sessunauts sem var að fara að heimsækja kærustuna í Budapest. Við í okkar röð hlógum hæst yfir brandaraþáttum frá Kanada (falin myndavél) og Music and Lyrics. Einhvers staðar frammí var Hildur flugfreyja, sem bjó einu sinni uppi á horni, og Atli Rúnar ásamt félaga frammí líka, vonandi að fara að gera eitthvað rosalega skemmtilegt í Budapest.

Í dag fórum við mæðgur á Palma, veitingastað sem ég hef heyrt mikið um, mitt milli háskólans og heimilis Hönnu, milli tíma hjá henni. Svo var kíkt í búðir, slegnir lyklar handa mér og ég fengið ungverskt símakort. Hittum Maju vinkonu Ellenar á Palma. Ég á stuttermabol í 19 stiga hita, hún í lopapeysunni. Enda segir Hanna að allt undir 30 gráðum sé kalt.

Nú er Hanna farin aftur í tíma og ég ætla að líta á heimadæmi og hætta þessu bloggi í bili.


Fallegur dagur í Debrecen

Það er fallegt að vakna í sólinni hér í Debrecen. Næturnar eru að vísu kaldar en íbúðin hennar Hönnu hlý og góð. Ætlaði bara að láta vita af mér, segi meira af því hvernig er að vera um borð í vél sem skipt er á dekki á, stjörnubjartri nóttinni á leiðinni frá Budapest og fleiru góðu, ef ég finn tíma til þess.

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband