Bloggfærslur mánaðarins, maí 2023

Landasafnarar, álfusafnarar og: How do you like Portales?

Mér finnst allaf gaman að lesa viðtöl við víðförult fólk. Sumir virðast hreinlega gera út að ,,safna" löndum eða heimsálfum. Aðrir hafa átt erindi mjög víða. Þótt ég hafi verið svo lánsöm að geta ferðast út um hvippinn og hvappinn, tvö stök rúmlega mánaðarlöng ferðalög vega þar þyngst, þá er ég afleitur landasafnari. Kannski hefur ein dagsferð flokkast undir að ,,bæta landi í safnið" og hún var ekkert sérstaklega áhugaverð. Bara ágæt. Þá vorum við mamma í Singapore, lógískur áfanga- og hvíldarstaður á leið til Möggu frænku á Nýja-Sjálandi. Dvöldum þar í fimm daga og þegar mamma sá að boðið var upp á dagsferð yfir landamærin til Malasíu (Johor Bahru) þá leist báðum okkur vel á það. Ágætis leiðsögumaður, gaman að sjá hvernig mjólkin rann út gúmmítrénu sem við vorum teymd að, leist ekkert illa á borgina, sem ég sé nú að er mikil menningarborg skv. gúggli. Við urðum ekkert sérlega varar við það. Dagsferð er dagsferð og ég hef farið í margar áhugaverðari.

unnamed (1)

En áhugi minn hafði vaknað á Singapore, hverfaskiptingunni þar eftir trúarbrögðum (áberandi alla vega þá, um 1990) einkum hverfinu sem við vorum í sem skartaði fallegri mosku við endann á götunni sem lá upp frá hótelinu okkar. Þannig að þegar ég átti aftur leið um Asíu nokkrum árum síðar, valdi ég að skoða Singapore betur í stað þess að bæta löndum ,,í safnið" og gerði það, á leið, aftur til Möggu frænku og síðan á 8 daga ráðstefnu í Ástralíu. 

unnamed (2)

Mitt flökkueðli dregur mig stundum á nýjar slóðir, hægt og bítandi, en ég sæki líka mjög í að fara aftur (og aftur) á staði sem toga sérstaklega í mig, og ekki alltaf af sömu ástæðu. Þannig hef ég komið óeðilega oft til Portales í Nýju Mexíkó, af því þar átti ég systur, árum saman. Þegar íbúar Portales (alla vega aðfluttir kennarar við háskólann þar) spyrja þig: How do you like Portales? þá eru þeir ekki að fiska eftir svörum sem Íslendingar eru vilja fá  við hinni sígildu spurningu: How do you like Iceland? Nei, þvert á móti. Þarna er nefnilega almenn kurteisi að svara: Einstaklega óáhugaverður bær, ekkert að sjá, fátt að gerast. Sumir mundu bæta við: 12 kristileg skólasamtök við sömu götu. Bærinn er í jaðri biblíubeltisins, og alls engin Santa Fe, sem talin er áhugaverðusta borg Nýju-Mexíkó með sínar Santa-Fe bláu hurðir og gullfallegu hús og landslag. Mér finnst Portales samt bara fínn bær, eitt gott kaffihús, þar fékk ég líka æðislegt taco á bílaverkstæði og gönguleiðir (ekki gangstéttir samt) góðar. Veðrátta oftast góð. 

218188_1056101601222_833_n

Staðirnir sem toga í mig reglubundið eru elsku London mín, sem ég hef heimsótt ótal sinnum, Hamborg, sem ég kynntist seint af viti, en tók ástfóstri við og heimsótti árlega eftir að ég bjó þar lungann úr árinu 2015, Seattle sem mér finnst skemmtilegust þeirra amerísku borga sem ég hef komið til og Evrópa suður- mið- og austanverð, en þangað fór ég í viðburðaríka ferð þegar ég var 22 ára þegar þetta voru kommúnistaríki og hræbillegt að ferðast þar um með réttan stúdentapassa. Hef notað hvert tækifæri til að heimsækja löndin aftur (sem hefur reyndar fjölgað eftir hrun Sovétsins). Amsterdam er að stimpla sig inn, enda tíðari ferðir þangað eftir að sonur okkar fluttist þangað. Jú, og svo auðvitað fjölskyldufrí á Gran Canaria, sem voru árviss viðburður í næstum áratug. 

Þegar ég tek þátt í leikjum á Facebook, þar sem ég merki á landakort til hvaða landa ég hef farið vantar áberandi mikið inn. Landmassann í Rússlandi og gervalla Suður-Ameríku. Hvort tveggja svæðið hefði ég hæglega getað verið búin að ,,afgreiða" ef ég stæði mig í stykkinu sem landa- og álfusafnari. Læt öðrum það eftir, ofar á listanum hjá mér er að koma til annarra staða sem toga mig meira, aðallega gamalla, en líka nýrra ef guð lofar. 

https://tomi5.github.io/interactive_visited_countries_map/

 


Uppgerðar skoðanir og annað af svipuðu tagi

Þegar verið var að kljást um bjórmálið forðum, meðal annars á þingi, blandaðist ég aðeins, óvart, inn í þá atburðarás. Án þess að rekja það í smáatriðum, enda svolítið flókið, þá var mér sagt það blákalt og í óspurðum fréttum að ég væri á móti bjórnum. Þar sem ég sat nú við kaffiborðið þar sem mér voru sagðar þessar fréttir, og glotti, mótmælti önnur manneskja því, réttilega, fyrir mína hönd. Upphófst nokkuð karp um það, og hafði manneskjan, sem var viss um að ég væri bjórandstæðingur, betur, þar til ég skarst í leikinn og sagðist vera hlynnt bjórnum. ,,Af hverju vissi ég það ekki?" spurði viðkomandi forviða. ,,Þú hefðir kannski átt að spyrja mig," svaraði ég. Um þessar mundir sá ég um ritstjórn og blaðamennsku fyrir ýmis félagasamtök, meðal annars SÁÁ, og þar var enginn misskilningur á ferðinni, heldur voru gerðar skipulagsbreytingar á SÁÁ-blaðinu sem skrifuðu mig út úr því handriti. Svo ég fórnaði meira að segja skemmtilegu verkefni fyrir bjórinn. Hafði þó fullan skilning á afstöðunni en það haggaði ekki minni skoðun. 

Þegar ég var í Cordóba fyrr á árinu var spánskur félagi okkar Íslendinganna, virðulegur eldri maður, að segja mér að ég þyrfti alls ekki að vera svona hógvær og feimin eins og ég væri. Hmm, það má vel vera að ég hafi einhvern tíma verið bæði hógvær og feimin, en það hefur elst vel af mér. Reyndi að segja honum það, en hann sat við sinn keip. Daginn eftir þennan fræðslupistil sem hann færði mér alveg frítt, vildi svo til að við vorum í sameiginlegri skoðunarferð um fornleifasvæði með fínasta leiðsögutæki um hálsinn. Nema hvað ég var búin að stilla vel á rétta, enskumælandi rás og setja á réttan hljóðstyrk þegar hann kom askvaðandi og ætlaði að fara að stilla þetta allt saman ,,fyrir mig". Alveg ósjálfrátt sló ég á fingurna á honum áður en þeir náðu að klófesta leiðsöguhálsmenið mitt. Það var alveg dásamlegt að sjá hvað blessaður maðurinn hrökk í kút. Held hann trúi því núna að ég sé ekki beint feimin.

335078214_928969771565715_7299436930915457062_n

Skömmu eftir heimkomuna kom upp faglegur ágreiningur milli mín og annars aðila, eins og gengur. Það var í sjálfu sér bara eitthvað sem getur gerst, en mér fannst ákveðinn óheiðarleiki í vinnubrögðum í málinu. Þá var mér sagt að það væri fullur skilningur á því að ég væri frústreruð út af þessu. ,,Frústreruð?" sagði ég og var fljót að leiðrétta málið. ,,Ekki frústreruð, bara reið." 

Mér þætti gaman að vita hvort karlmenn lendi oft í svona stöðu? Að einhver segi blákalt fyrir framan þá hvaða skoðun þeir hafa á ákveðnum málum. Jú, ég hef reyndar séð vandræðalegt dæmi um slíkt en þá var það dómadags frekur nemandi (karlkyns) sem ákvað að útskýra fyrir okkur samnemendum hvað óvenju kurteisi kennarinn (líka karlkyns) hefði í rauninni verið að segja í kennslustundinni sem var nánast á enda. Einhverjar aldraðar frænkur mínar gætu líka hafa verið eins handóðar og roskni Spánverjinn í Cordóba. En þegar ég máta þær inn í svona aðstæður sé ég ekki betur en að þær tækju það frekar út á börnum og gamalmennum en miðaldra, hvítum karlmönnum. Og nýjasta dæmið, um frústrasjónina, sé það engan veginn fyrir mér að karlmanni sé tilkynnt að hann njóti fulls skilnings á því að vera frústreraður. Alveg sama hversu frústreraður hann kynni nú annars að vera.

Þessar svipmyndir gamlar og nýjar hafa skotið upp kollinum hjá mér af og til að undanförnu, og hvað er þá betra en að varpa þessum vangaveltum yfir til ykkar, kæru lesendur?

 


Forréttindi að fæðast í flókna fjölskyldu

Fyrst: Ofstuðlunin í fyrirsögninni er viljandi og kórrétt. Ekki meira um það.

Held að ég sé fædd inn í óvenju flókna fjölskyldu. Við sem hittumst í kaffi í gær, eins og við gerum stundum, vorum auðvitað bara að spjalla ofurvenjulega saman. Litla systir sagði stóru systur frá einhverju um móðursystur hennar (stóru systur) sem er einnig móðursystir frænku hennar (stóru systur, en ekki okkar hinna) en hún (frænkan) var einmitt með okkur á kaffihúsinu. Móðursystir þeirra frænkna (sem eru fæddar 1949) er aftur á móti fædd sama ár og litla systir (1965). Ég sagði þeim að Kristján bróðir hans Georgs bróður hefði verið að spyrjast fyrir um mynd, sem ég var þegar búin að lofa frænku okkar í Danmörku. 

En þetta er bara sýnishorn úr föðurfjölskyldunni. Ég er vön að gera grein fyrir mér, ef fólk er eitthvað að ruglast á mínum fjölskylduhögum, með því að segja, réttilega, að ég sé einkabarn í móðurætt og af mið-hjónabandi beggja foreldra, sem er rétt. Núna þegar ég og minn góði eiginmaður höfum búið saman í 48 ár held ég að hann sé alveg hættur að kynna sig sem fyrsta eiginmann minn, sem hann vissulega er þó. 

Mér finnst alltaf besta lýsingin á móðurfólkinu mínu þegar ég var að skila kveðju til frænku minnar, sem ég nánast bjó hjá á unglingsárum og ólst upp með sonum hennar, sem fyrst voru heimagangar á mínu heimili, flestir, en síðan fékk ég gott athvarf hjá þeim í miðbænum þegar ég var að koma af böllum (sem gat verið upp í 4 kvöld í viku) þegar ég var í menntó og að byrja í háskóla. Skólasystir mín í sagnfræðinni bað fyrir góðar kveðjur til þessarar frænku minnar en hún var ekki alveg að kveikja strax. Svo fattaði hún auðvitað, já, hún, hún er systir seinni konu fyrri mannsins míns, indælis kona! 

Ekkert af þessu væri samt gott nema vegna þeirra yndislegu ákvörðunar foreldra minna að halda góðu sambandi áfram eftir skilnaðinn. Þeirra næstu makar voru sannarlega ekki síðri. Mamma giftist fóstra mínum sem hafði beðið eftir henni meðan hún gifti sig í tvígang og þau áttu farsæl 45 ár saman. Pabbi giftist góðri konu sem var mér einstaklega góð og taldi það ekki eftir sér að hafa mig á heimilinu hluta úr sumri meðan þau bjuggu á Seyðisfirði, en það voru mikil sæluár, því miður féll hún frá allt of ung og pabbi líka. Hann var líka heimsins besti sunnudagspabbi þegar hann var í því hlutverki og leyfði mér að klifra upp í vita og leika mér að ritvélum og reikninvélum þegar ég fór með honum á skrifstofuna hans. Golfskálinn í Öskjuhlíð og heimsóknir okkar þangað voru líka nóg til að ég ákvað að gerast golfari á efri árum. Öll töluðu þau foreldrar mínir mjög vel hvert um annað. Ég vissi ekki þá, en veit það nú, að það er ekkert sjálfgefið að svo sé. Ekki voru allir í fjölskyldunni jafn heppnir og ég.

1385185_10202358444060897_1870412648_n (1) - Copy

Mamma hélt góðu sambandi við föðurfólkið mitt eftir að hún skildi við pabba eftir sjö ára hjónaband og ég gat gengið út og inn hjá föðursystur okkar sem þekkti mig betur en margir, því hún færði mér alltaf kaffi, ost og ostaskera (ekkert kex eða brauð, sko!) þegar ég kom í heimsókn, sem var býsna oft. Eina manneskjan sem þekkti mig svo vel. Hjá henni fékk ég oftar hvalkjöt í matinn en heima (þar sem það var þó ekki óþekkt) og furðu vel matreitt. 

Var aðeins að reyna að útskýra fyrir danskri náfrænku minni (bræðradætur) eitthvað um fjölskylduna okkar, en við ætlum að hittast núna um helgina í Kaupmannahöfn. Sendi henni auðvitað skipuritið sem ég útbjó fyrir Jónsmessusýningu Grósku, líklega 2019. Sem bara rétt dekkar okkur systkinin fjögur og okkar fjölskylduþræði. En við spjöllum betur á laugardaginn.

Hana hef ég ekki hitt síðan við fórum ásamt fleiri ungum ættingjum í þriggja stunda reiðtúr frá Hrísbrú í Mosfellsdal, upp að Tröllafossi og niður með honum (það var þá sem ég var komin fram á eyru á hestinum, en ég held að Salli frændi og fararstjórinn hafi verið þeir sem toguðu mig aftur á réttan stað). Þetta hefur verið 1964 eða 1965, ég var alla vega ca. 12 ára og Pia frænka árinu yngri. Hún segir að þetta hafi verið reiðtúr ævinnar fyrir hana og fannst björtu kvöldin hreinasta ævintýri, mig minnir að þetta hafi verið snemmsumars. 

Ykkur finnst textinn kannski óþarflega ruglingslegur. Þið ættuð þá að sjá fjölskylduna. 

Vor í Kaupmannahöfn framundan og kannski kynnist ég fleiri fjölskylduflækjum. 

 unnamed78 (2) 

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband