Færsluflokkur: Ferðalög

Finnst þér ekki leiðinlegt að ferðast ein?

Stutta svarið er nei. Mér finnst líka gaman að ferðast með fjölskyldu og vinum, enda á ég mikið dýrðarfólk í kringum mig. Yfirleitt ferðast ég þó ein, núna seinni árin. Alltaf með einhver áform um hvað mig langar að gera, fyrir utan að skoða það sem áhugavert er í áfangastað. Fer ekki annað en á góða staði. Kláraði að smella Sögu tölvuvæðingar saman í risherbergi í Londum fyrir nokkrum árum, fór í einnar konu golfferð til Spánar þegar ég kolféll fyrir þeirri íþrótt. Hef eitt sinn tekið dagvinnuna með mér til Gran Canaria og Fuerteventura, það gekk rosalega vel en tók of mikinn tíma af mér frá öðru til að ég endurtaki það. Eitt af því fáa sem ég geri alltaf er að njóta góða veðursins og almennilegra almenningssamgangna til að fara í alls konar langar gönguferðir, alltaf í bæjarumhverfi og yfirleitt þar sem fallega útilist er að sjá eða áhugaverðar borgir og bæi. Ég er ekki fjallageit og mér finnst ekkert gaman að ganga út í buskann í mis-ósnortnu víðerni. Ég er alltaf að fara ,,eitthvert“. Heimsækja rennilásaskúlptúr, komast á áhugavert kaffihús, elta blá (eða bleik) hús sem ég fann á google maps, skoða staðhætti í glæpasögu sem ég er að skrifa (þannig ,,lenti“ ég á La Palma, ekkert mjög löngu áður en eldgosið á eyjunni fór að herma svolítið eftir söguþræðinum í Mannavillt).

Gaf í skyn hér um daginn að ég ætlaði að skjótast, enn einu sinni, til Fuerteventura í náinni framtíð. Gerði það, annað var ekki hægt þegar hræbillegir flugmiðar í beinu flugi voru allt í einu í boði til þessarar uppáhaldseyjar minnar. Þá er nú heppilegt að vera komin á eftirlaun í annað sinn, hversu lengi sem það endist, og talandi um það, hversu lengi það endist, þá veit ég líka að þessu lágu fargjöld þarf að nota meðan þau eru í boði. Annað hvort slær áfangastaðurinn í gegn og verðið hækkar svo flugið beri sig, eða ekki, og þá verður þetta skammgóður vermir.

Þrennt var á dagskrá þessa allt of stuttu viku:

Rápa út um allt

Auðvitað var mitt yndislega ráp út um allt á dagskrá, endaði venjulega í svona 8-11 þúsund skrefum, meira þolir bakið mitt ekki, núna þegar gamalt hryggbrot minnir á sig. Fór í tvígang til Correlejo og skrapp í bakaleiðinni í fyrri ferðinni að kíkja á sólarlagið í bæ sem ég hafði ekki áður komið í, El Cotillo. Skaust á uppáhalds kaffihús í Caleta de Fuste, meira um það undir vatnslitakaflanum. Svo einn daginn var skýjað í Puerte del Rosario, en þaðan gerði ég út. Þá kíkti ég á vefmyndavélar og endurnýjaði svo kynnin við Morro del Jable. Óþarflega löng strætóferð var vel tímans virði og ég náði aftur ansi skemmtilegu sólarlagi því næstbesta. Mestum tíma varði ég þó í höfuðborginni þar sem ég leigði litla íbúð í viku og fór víða.

Vatnslitasukk

Fyrst staðreyndir, 12 kaffihúsa-vatnslitamyndir litu dagsins ljós í ferðinni. Flestar fyrstu dagana, því svo fór þriðja viðfangsefni ferðarinnar að taka yfir, skrif. Fyrstu myndirnar gerði ég í Puerto del Rosario, en svo dreif ég mig á eftirlætiskaffihúsið mitt, Café del Town, í Caleta de Fuste, sem er ferðamannabærinn sem ég gerði að bækistöð þegar ég flutti vinnuna mína þangað í fyrra. Þá vatnslitaði ég líka dálítið þar, en sat mest með tölvuna og latté-ið mitt á borðinu. Erin, írska stelpan sem þar vinnur, tók sig til og seldi allar myndirnar mínar jafnharðan og ég vatnslitaði þær, þegar ég var þar í fyrra. Ég sá við henni núna og gerði eina mynd af fólki sem tókst að forða sér áður en hún var búin að selja því myndina. Svo sá ég hann David fastagest, gerði mynd af honum í fyrra, og ákvað að hlífa honum. Það var ekki við það komandi, hann bara kom röltandi til mín og spurði hvort ég myndi eftir honum. Ójá, ég hafði skoðað hann nokkuð vel í fyrra. Myndin þín er í ramma uppi á vegg í stofunni hjá mér, sagði hann stoltur. Erin kom og sagði að nú yrði ég bara að gera aðra mynd af honum og ég hlýddi. Hver hlýðir ekki henni Erin? Áður en ég var hálfnuð kom David og borgaði mér myndina en sagði að ég ætti eftir að klára hana. Svo bara fór hann og ég ákvað að bæta aðeins við smáatriði í fötunum hans, en ekki mikið. Erin vildi ólm selja honum myndina, en ég sagði henni sem var að hann væri þegar búinn að borga hana og hún ætlaði að koma henni til hans. Hér eru myndirnar af David, í fyrirsætuhlutverkinu, myndin frá í fyrra og nú í ár, af konunni sem ,,slapp" frá Erin og svo auðvitað af Erin, umboðsmanninum mínum á Fuerteventura. Ég bauð henni umboðslaun, hún hló og splæsti á mig latté. 

2024-02-02_22-50-04

Erin benti mér á að koma aftur á sunnudeginum áður en ég færi, því svo væri lokað mánudaga og þriðjudaga og á miðvikudegi var ég á heimleið. Ekki komst ég nú í að fara aðra ferð þangað, nóg annað að skoða og ég komin á kaf í skrif.

Við næsta borð sat maður og lýsti mjög fjálglega einhverri söngkonu sem hann dáði  mjög. Enginn komst hjá þá að vita það. Svo heyri ég allt í einu ,,Icelandic“ og spurningin var, átti ég að segja þeim að Laufey héti ekki Labví?

Fylla í skörðin í næstu glæpasögunni minni

Á þriðja degi komst ég í skrifstuð og tók upp þráðinn við að bæta í skörðin og gera nauðsynlegar breytingar á handritinu á næstu glæpasögunni minni, sem var komin í 80% af fullri lengd þegar ég fór að vinna hjá Controlant fyrir tveimur árum. Síðan hefur margt breyst og ég var nær því að vera í 65% af fullri lengd þegar ég sneri aftur í tölvuna og fór að bæta inn, lagfæra, leiðrétta, breyta alvarlega og á þessum fimm virkum dögum endaði ég með að skrifa 10 þúsund orð í mislöngum köflum og einhverjar tengingar, á þær þó mikið til eftir. Það kom mér verulega á óvart hvað ég naut þess mjög að sitja á útikaffihúsum og upphugsa vélabrögð og vesen, en saklausa fólkið í kring hafði ekki hugmynd um hvað fór fram í hausnum á þessari gráhærðu, meinleysislegu konu með latté sér við hlið. Endurskrifaði morð í flugvélinni á heimleiðinni. Það gleður mig ekkert smávegis hve mikið er farið að rukka mig um næstu glæpasögu, en ég átti samt ekki von á að það gengi svona greiðlega að koma sér í gírinn.

Út af öllu þessu er svo gott að ferðast stundum ein síns liðs. Og, nei, mér leiðist aldrei. Engar tvær ferðir eru eins, þessi var einstaklega góð og eflaust hefur það hjálpað til að ég var hálfpartinn búinn að samþykkja, alla vega til vors, að vinna á fullu í verkefni á mínu fagsviði í febrúar og apríl á þessu ári. Í mars og sennilega einnig um mánaðarmótin apríl/maí verð ég síðan að eltast við vatnslitamyndirnar mínar sem eru komnar á erlendar vatnslitasýningar/-hátíðir. Það er ekki hægt annað en ,,fórna“ sér og halda til Córdoba og Bologna/Fabriano með vorinu. Þá verð ég í félagi við annað gott myndlistarfólk, svo það er annars konar upplifun.

Í lokin nokkrar fallegar myndir frá Fuerteventura:

424989147_341731642165064_4114983204406373166_n425536404_341729542165274_5651503651296915612_n425499694_341729662165262_5117035713523621759_n425359995_341730472165181_1743560945807682652_n

 


Ný stefna í tilverunni: Tvær af myndunum mínum á leið á alþjóðlegar vatnslitasýningar

Núna snemma árs er ljóst að tvær af vatnslitamyndunum mínum eru á leið á sterkar alþjóðlegar sýningar erlendis. Sú fyrri er í mars í Córdoba á Spáni, það er meira en vikulöng vatnslitahátíð, en aðaldagskráin stendur 4-5 daga. Hún var haldin í fyrsta sinn í fyrra og tókst alveg stórkostlega vel. Það var í fyrsta sinn sem ég freistaði þess að komast á slíka hátíð og þótti spennandi að myndin mín var tekin inn á sýninguna. Vissi þá ekki að þetta var um leið samkeppni og þegar ég landaði öðru sætinu í henni hristi það upp í mér að fara að endurskoða forgangsröð viðfangsefna, ekki seinna vænna á áttræðisaldri.

Samt sem áður vissi ég sem var að það var ekki sjálfgefið að komast aftur inn á þessa sýningu, samkeppnin er mikil og hver fær aðeins að senda inn eina mynd. Það var ekki fyrr en 16.11.23 að ég fann að ég var búin með mynd sem gæti verið nokkuð öruggur kandidat, en þá voru innan við tvær vikur í lokaskil. Myndin var vissulega þornuð þegar ég tók myndina sem ég sendi inn, sem hefði ekki verið ef um olíumálverk hefði verið að ræða. Það er nefnilega ekki sama mynd af blautri mynd eða þurri. Viðraði þessa mynd einmitt hér í blogginu sama dag og ég málaði hana, en síðar bætti ég við rauðu peysunni, af því mig vantaði að myndin segði sögu. 

Iceland_Anna.Olafsdottir.Bjornsson_Lost.Red.Sweater_56x38_2023

Setti síðan á bið ákvörðun um hvort ég ætlaði að taka þátt í annarri sýningu síðar um vorið, Fabriano sýningunni í Bologna á Ítalíu apríl/maí, sem verður svo sett upp í Austin, Texas í október. Félagar mínir úr Córdoba-ferðinni í fyrra voru að hvetja til þess en í þetta sinn ákvað ég að velja ekki ,,örugga" mynd til að senda, heldur eina sem ég taldi svolítið áhættusama, þar sem ég var alveg til í að taka sjansinn varðandi þessa sýningu. Hún var tekin á sýninguna, svo ég þarf að gera upp við mig hvort ég elti hana líka, dagskráin í kringum þá sýningu er ekki síður spennandi en í Córdoba, þótt hún sé svolítið öðru vísi. 

2024-01-29_23-03-54

Við vorum þrjú, Íslendingarnir, sem tókum þátt í Córdoba-sýningunni í fyrra, en það verður ögn stærri hópur Íslendinga á hvorri sýningu fyrir sig í vor, 6 og 8 ef ég hef tekið rétt eftir. Með því að taka þátt í svona sýningum, en sýningargjald er mjög lágt, fáum við sjálfkrafa og frítt aðgang að alls konar viðburðum, útimálun, sýnikennslu og skoðunarferðum þannig að það er gríðarlega freistandi að fylgja myndunum sínum. 

Þótt ég sé búin að ráðstafa meiru en ég sá fyrir af tíma mínum núna eftir að ég gerði heiðarlega tilraun til að fara á eftirlaun í annað sinn, þá held ég þessu í forgangi, og stend við það. 

 

 


Fjölbreytta/fjörbreytta Fuerteventura

Hef ekki farið dult með það að ég sæki frekar í aðrar Kanaríeyjar en Tenerife og ekki síst Fuerteventura. Þangað hef ég farið þrisvar til þriggja, mjög ólíkra bæja og fjórða ferðin á áætlun fljótlega. Um að gera að nýta sér beint flug og gott verð, meðan hvort tveggja endist.

Það er mjög skemmtilegt að sjá hvað fólk upplifir þessa eyju misjafnlega, en skilgreiningin ,,hippalegri en Tene" er kannski alveg jafn góð og hver önnur. Það sem ég sæki þangað er það sama og kemur fram sem hálfgerð afsökun í greininni sem ég linka hér á Nýr áfangastaður: ,,Minna er um ferðamennsku og sést það ágæt­lega á búðum og veit­inga­stöðum. Það er þó margt hægt að gera á eyj­unni sem gæti heillað ís­lenska ferðamann­inn." Það er einmitt af því að þarna er svo miklu minna af ferðamennsku en víða annars staðar sem mér finnst gott að vera þar. Og það er svo sannarlega fleira en ,,búðir og veitingastaðir" sem heilla marga íslenska ferðamenn, ég þori að fullyrða það. Að því sögðu sá ég ýmislegt ágætt í þessari grein og mun eflaust tékka á einhverju af því í næstu ferð minni á þessar slóðir. Upplifun mín og greinarhöfundar skarast helst á Corralejo, þar hef ég ekki gist en komið þangað í tvígang og finnst staðurinn fínn. Fuerteventura er einfaldlega mjög stór og fjölbreytt eyja og þar er margt að finna fyrir margs konar ferðamenn, en ef aðaláherslan er að komast í búðir, þá eru aðrir staðir heppilegri, veitingastaðir eru annað mál og margir ágætir. Alls konar valkostir, frá hörðustu vegan-stöðum í alls konar þjóðlega, alþjóðlega, sólarstrandarlega og óvenjulega.  

Mínar ferðir til Fuerteventura hafa að mestu leyti verið til annarra staða en þarna eru nefndir, á suðuroddann Morro del Jable/Jandia, höfuðborgina/-bæinn Puerto del Rosario og svo ferðamannabæinn sem er næst 2 bestu golfvöllunum á eyjunni, Caleta de Fuste. Ef þið eruð golfarar, þá sleppið því alveg að tékka á syðsta vellinum nálægt Morro. 

Puerto del Rosario og Corralejo eru kátir bæir með alls konar skemmtilegheitum, ólíkir hvor öðrum þar sem túrismi er mun meiri í Corralejo en lókal-fjör í höfuðstaðnum. Það eru alls konar gönguleiðir um alla þá bæi sem ég hef komið til, heilmiklar strendur mjög víða og svo er það öll listin, sem greinilega er mjög meðvitað styrkt um alla eyjuna. Vegglistaverk eru alveg ótrúlega víða og mörg skemmtileg, skúlptúrar margir og sumir framúrskarandi og litríkt bæjarlíf bæði í útliti og upplifun. Kaffihús, sem mér finnst að séu ómissandi í tilverunni, eru mörg virkilega skemmtileg og lókal bragur á mörgum þeirra, en almennt mjög gott kaffi á alvöru kaffihúsum. Bókmenntanördum er bent á hús Miguel Unamuno í höfuðstaðnum. 

Almenningssamgöngur eru góðar, sem er mikill kostur, þar sem eyjan er löng og mjó og vegalengdir nokkuð miklar miðað við stærð eyjarinnar. Sem sagt, mikil fjölbreytni, eins mikið fjör og þið óskið (kynnið ykkur málin, en Corralejo er nokkuð öruggur staður) og mikil náttúrufegurð og skemmtilegt bæjarumhverfi út um alla eyjuna. 

2024-01-07_15-23-552024-01-07_15-26-172024-01-07_15-26-41

 


Lestin brunar, hraðar, hraðar, húmið ljósrák sker

Fátt elska ég meira en góða lestarferð. Kenni Jóni Helgasyni ekki beinlínis um angurværðina sem grípur mig stundum á langri ferð um lestarteina, en ljóðið hans, Lestin brunar, er lestur sem ég mæli með við hvern sem er og allar túlkanir eru leyfðar, líka sú sem Jón sjálfur gaf upp með réttu eða röngu. Síðasta lestarferðin mín var engin undantekning frá kunnuglegri lestarupplifun.

IMG-4546Norpaði á brautarstöð óþarflega lengi, það hefur gerst ótal sinnum áður, lestir hafa þá einstöku náðargáfu að eiga það til að geta seinkað býsna hressilega. Í þetta sinn hélt að ég væri snjöll að velja aðal rigningardaginn í Skotlands/Englandsferðinni minni til þess að sitja í lest í rúma fjóra tíma (reyndin varð meira en fimm tímar). Á löngum lestarferðum er það oftar en ekki birtan sem breytist gegnum ferðina, ljósrákir skera húmið bæði út um lestargluggann og einnig í augum þeirra sem horfa á lestina bruna framhjá sér.

IMG-4557Hver einasta lestarferð getur snúist upp í ævintýri, sum þeirra hef ég rakið hér í bloggi og víðar, ævintýri sem seint gleymast, aðrar eru eftirminnilegri vegna útsýnisins og þá þarf ekkert að heimta gott veður. Ætla að leyfa ykkur að njóta með mér nokkurra mynda úr lestarferð síðastliðinn sunnudag, þar sem leiðin lá frá Edinborg til Lundúna. Meðan aðrir horfðu á símann sinn eða sváfu, horfði ég hugfangin út um gluggann mestalla ferðina og tímdi ekki nema endrum og sinnum að munda símann til myndatöku. Eins og laxveiðimennirnir segja: Þið hefðuð átt að sjá þessa(r) sem sluppu.  Hlustaði þó á tónlistina frá tónleikum kvöldsins á undan síðari hluta leiðarinnar og útilokaði þá sumt af því sem samferðafólkið vildi segja vinum sínum og vandamönnum, en alls ekki mér.IMG-4587aIMG-4593aIMG-4601aIMG-4621IMG-4565IMG-4578


Það er hægt að eltast við fleira en drauma

Ekki misskilja mig, mér finnst æðislegt að eltast við drauma, en almennt séð finnst mér bara fyrst og fremst gaman að eltast við eitthvað skynsamlegt og óskynsamlegt, þegar sá gállinn er á mér. Þannig hef ég farið til baka með lest frá Bexhill í Englandi til að eltast við bleikt hús, sem ég sá út um lestargluggann. Sú ferð bar mig á slóðir stórs golfvallar og þegar ég var að fara til baka eftir stíg á golfvallarsvæðinu brast á þetta ferðlega þrumuveður svo ég reyndi að rifja upp hvað væri rétt að gera, ekki fara undir tré, alls ekki vera hæsti punkturinn á vellinum, en til baka komst ég alla, einni mynd af bleiku húsi ríkari, ég á nokkur hundruð og hef meira að segja fléttað þeim inn í eina af myndlistarsýningunum mínum.

i286260064373074369._szw1280h1280_

Sömuleiðis elti ég eitt sinn geisladisk. Innskot: Ef Moggabloggið á yngri lesendur en mig þá er rétt að geta þess að það er hvorki borðbúnaður né eitthvað geislavirkt, heldur er hægt að spila lög af þeim í geislaspilara. Innskoti lýkur. Sá þennan geisladisk með Robert Palmer og laginu Johnny and Mary í glugga plötubúðar í írska fjölþjóðlega hverfinu Kilburn í London einhvern tíma seint á síðustu öld. Keypti hann ekki, af því ég var ekki með pening á mér (og ekki kort) nema rétt nægilegan fyrir annað hvort lestinni niður í miðbæ, þar sem ég hélt til í Baker Street, eða fyrir geisladiskinum. Sá mig um hönd eftir að vera komin alllangt frá búðinni, fór og keypti diskinn og gekk svo niður í bæ, nokkuð sem ég hafði oft gert fyrr á öldinni, á blankheitaárunum þegar ég var bara unglingur í London. Það tekur ekki nema eitthvað um klukkutíma hvort sem var. Veggskreyting með úlfalda í Gran Tarajal, þorpi á Fuerteventura með frekar strjálum strætósamgöngum, blátt hús í Los Llanos á La Palma, næstum klukkutíma strætóferð hvora leið, svartir svanir og kengúrur í Canberra í Ástralíu, þær síðarnefndu útheimtu að ég vaknaði klukkan fimm að morgni, aftur í strætó í útjaðar borgarinnar. 

55783924_10218921192879266_3551199958151462912_nMér dettur oft í hug hvort ég hafi erft þetta í einhverjum genum frá móðurömmu minni og -afa, sem iðkuðu það á millistríðsárunum að fara í sunnudagsbíltúr sem fólst í því að velja sér bíl sem var á leið upp Ártúnsbrekkuna og elta hann þangað sem hann fór. Eitt sinn enduðu þau í Vík í Mýrdal, mögulega hefur það verið í stríðinu eða eftir það, nenni ekki að tékka á hvenær varð almennilega bílfært til Víkur. En sumir túrarnir urðu á hinn bóginn snautlega stuttir. 

Eftir tíu daga ætla ég að skreppa í smá ferðalag og elta eina hugdettu. Aldrei að vita nema að ég segi ykkur nánar frá því. 

Því segi ég, eltið drauma ykkar og hvað annað sem ykkur dettur í hug! 


Endurfundir við Hamborg í hita og fjöri

Hamborg hefur verið mér ofarlega í huga að undanförnu eins og glöggir blogg- og FB lesendur mínir hafa orðið varir við. Við því var bara eitt að gera, að drífa sig þangað, jafnvel örferð um helgi reyndist hin frábærasta hugmynd. Frá því ég flutti þaðan eftir mjög tæplega ársdvöl fór ég árlega að heilsa upp á borgina og framan af vini mína þar líka. Lenti í brjálæðislegu sjóarapartíi (fötin, ekki fólkið) fyrsta árið, fór út að borða með einum eða fleirum úr hópnum næstu árin og lenti meira að segja  á Townhall fundi með mannskapnum eitt árið. Svo var fyrirtækið flutt til Altona og þangað náði ég aldrei að fara, hitti seinast Mögdu vinkonu mína á uppáhalds TexMex staðnum okkar, hún var líka hætt. Dró Nínu systur, sem var ein fárra sem ekki náði að heimsækja mig Hamborgarárið góða, og seinast byrgði ég mig upp af Tschibo kaffihylkjum í smá covid-pásu en þá kom ég við á leið frá Kaupmannahöfn til Óla í Amsterdam.

377952766_251964097808486_1197482675362774247_na

 

Nú var enn einu sinni komin Hamborgaróeirð í mig, svo eitthvað varð að gera. Ekki spillti veðurspáin fyrir. Og ég á alltaf erindi til Hamborgar, þótt Balzac kaffihúsin séu hætt undir eigin nafni og fyrirtækið sem ég vann hjá í Hamborg komið á hausinn. Covid kennt um en ég hef aðrar hugmyndir um það. Tvennt hefur einkennt ferðirnar mínar, að skoða eitthvað nýtt og heimsækja gamlar slóðir. Þessi örferð var engin undantekning. Hótelið nálægt innra Alstervatni og ég mundi að ég hafði aldrei átt erindi að rölta kringum það, þótt efra Alster, sem var nálægt mínu Hamborgar-heimili, hafi verið skoðað og skrásett alveg rækilega. Ekki langur göngutúr, meira svona örgöngutúr, kringum það neðra, en nýr. Svo var það næsta verkefni, fornar slóðir. Um marga góða kosti að velja, en ég valdi Winterhude, nálægt gamla Hamborgarheimilinu mínu. Sé ekki eftir því. Tók strætó númer 17, sem er sá réttasti núna, einkum eftir að málglaði bílstjórinn tók upp á því að fara að syngja, þegar ég fór með Nínu systur síðla kvölds með sama vagni. Mér leist ekkert á blikuna þegar tilkynnt var að hjáleið yrði farin til að forðast það að aka Mühlenkamp, aðalgötuna framhjá ,,minni” götu. Hoppaði út þegar mér sýndist vagninn frekar vera að fjarlægjast en að snúa aftur að Goldbekplatz, það er mína stoppustöð.

377581570_251963977808498_803423794285757924_n

Eftir því sem ég nálgaðist Mühlenkamp fór ég að heyra tónlist, en sá ekki hvað var um að vera þótt ég væri komin á fyrsta áfangastaðinn, Elbgold kaffihúsið, það besta í Hamborg og bara á 2 stöðum þar held ég enn. Annað var nálægt mér meðan ég mjög þarna og er nú enn nær minni gömlu íbúð. Fékk mér fínasta latté-to-go, því sólin var rétt að hverfa frá útiborðunum. Þetta með tónlistina bara ágerðist eftir því sem ég fór nær götunni minni, búðinni minni og kaffihúsinu mínu (sem er ekki lengur Balzac heldur Espresso House). Gekk svo inn í fjörið, sem hafði verið innrammað af hjálparsveitarbílum og torkennilegum tjöldum. Rífandi partí alls staðar, líka fyrir utan Peter Marquard Strasse nr. 4. Það var sem sagt hverfishátíð allan liðlangan Mühlenkamp. Alls konar tónlist og mikið fjör, veitingabásar, smálegt af sölubásum, fullt af DJ-um og lifandi tónlist hér og þar. Endaði á Elvis-svæði, ekki vegna aðdáunar minnar á tónlistinni, heldur af því þar var sól og vænlegt veitingahús fyrir síbrotlega vatnslitakonu. Ábreiðuhljómsveitin var alveg skítsæmileg og ekki eins væmin og kóngurinn sjálfur. 

377949386_251963941141835_8733650609722754538_na

Segi ekki að þessi ferð hafi læknað mig af Hamborgarnostalgíunni, en hún gerði hana mun skemmtilegri, enda var það meiningin. 

Ferðaðist afskaplega létt í þessari stuttu ferð, en pikkaði þessa upprifjun þó upp á litla töfralyklaborðinu mínu sem passar við símann minn og það á leiðinni heim frá Hamborg, á meðan þetta var mér allt svo ofarlega í huga. 




Frúin í Hamborg

Árið 2015 var Hamborgarárið mitt. Lungann úr árinu bjó ég og starfaði í þessari fallegu borg. Það er stundum gott að vera bæði skrifglöð, skrifvön og með MSc í tölvunarfræði. Alla vega fékk ég góða vinnu í borginni og hefði dvalið þar lengur ef stemning hefði verið fyrir því að leyfa mér að vinna alla vega helminginn af vinnutímanum heiman frá Íslandi. Þá hefði ég getað verið með fjölskyldunni minni, því einhvern veginn tókst mér ekki að lokka þau nema í heimsóknir til mín. Það þurfti covid til að koma vitinu fyrir atvinnurekendur, en covid setti líka fyrirtækið sem ég vann hjá þar á hausinn og gerði suma góða vini mína atvinnulausa, en fleiri höfðu fært sig um set eins og altítt er í hugbúnaðarbransanum. Einhvern tíma rifja ég kannski upp með ykkur sögu þessarar yndislegu borgar. Nú nú læt ég duga hafa heimþrána til Hamborgar að leiðarljósi. Fyrstu vikurnar var vinnustaðurinn minn í Hafencity, rétt hjá Elbe-fílharmóníunni sem þá var í byggingu. Síðan fluttum við okkur til Neustadt, og þá var sú fallega bygging hreinlega alltaf fyrir augum okkar þegar við fórum upp á svalirnar á 8. hæðinni, sem var oft. Gönguleiðir voru hreint framúrskarandi þessa dvalartíð mína í Hamborg, oft gekk ég heim úr vinnunni, svona klukkutímaleið til Winterhude sem er eitt fallegasta íbúðahverfi borgarinnar. Tók mig reyndar ögn lengri tíma því ég var alltaf að taka myndir á leiðinni. Vinnutíminn var furðulegur, ca. 10 til 19, en við fengum langt hádegishlé, yfirleitt hálfan annan tíma, og fórum þá saman nokkur í senn á nálæg veitingahús, sem voru bæði fjölbreytt og gríðarlega góð. 

34340934_10216510228926674_6207606770819399680_n

Rifjaðist upp fyrir mér í spjalli við vinnufélagana í dag að áður en ég flutti til Winterhude og fór að leigja sjálf, borgaði vinnan mín mánaðarleigu fyrir mig í íbúð á sjöttu hæð nálægt Burgenstrasse. Mér fannst mamma furðu fálát þegar ég var að montast/kvarta undan staðsetningu íbúðarinnar, það er hæð frá götu, en það var ekki fyrr en hún heyrði að þetta væri í lyftulausu húsi að hún fór að hafa samúð með mér. Íbúðin mín í Winterhude var ,,bara" á fjórðu hæð, það var létt. Ég hefði reyndar getað fengið íbúð í lyftuhúsi, en þar sem það var á jarðhæð í mun minna spennandi hverfi, þá tók ég þessa í Winterhude, rétt hjá Alstervatni,  og sé sannarlega ekki eftir því.

20170613_210909

Hef sjaldan gengið eins mikið og skoðað eins margt og einmitt í Hamborg, þreytist ekki að segja fólki að þar séu fleiri brýr en í Feneyjum og Amsterdam samanlagt. Og titillinn á þessu bloggi vísar til Facebooksíðu sem ég hélt úti fyrir vini og vandamenn. Eða á ég að segja að vandamenn hafi notað hana til að vanda um fyrir mér, eins og þegar mér varð á að segja heim til Hamborgar og einn í fjölskyldunni (ekki nánustu þó) sagði: Er Hamborg nú orðin heim! Meira um Hamborg seinna. 


Næst þegar ég fer á eftirlaun ...

Heyrði eitt sinn dæmisögu af manni sem átti svo rosalega annríkt. Hann fór til viturs manns og bar upp vandamál sitt. - Fáðu þér kú, sagði sá vitri. Maðurinn gerði það, alltaf var jafn mikið að gera, svo hann fór aftur til vitra mannsins. - Fáðu þér 10 geitur! Maðurinn gerði það, en ekkert virkaði. Aftur reyndi hann. - Fáðu þér tvo uxa, sagði sá vitri. Enn hlýddi maðurinn og leitaði til þess vitra eftir nokkurn tíma. - Fáðu þér 40 kindur! 

Manninum var ekki skemmt. Hann hafði aldrei á ævi sinni haft jafn mikið að gera. Samt gaf hann vitra manninum eitt tækifæri enn til að hjálpa honum. - Seldu nú kúna, geiturnar, uxana og kindurnar, sagði sá vitri. - Og þá muntu hafa endalausan tíma. 

Mömmu fannst þessi saga reyndar bera vott um tillitsleysi gagnvart dýrunum. En allt um það, ég held að ég sé svolítið að feta í fótspor þessa manns. En þegar hún dóttir mín kom askvaðandi fyrir næstum tveimur árum, þegar ég var búin að vera á eftirlaunum í hartnær fjögur ár, var hún í rauninni í sömu sporum og vitri maðurinn, í annað sinn alla vega (í hitt skiptið kom hún mér uppá að hekla veðurteppi). Fann hvað önnum köfnu móður hennar vantaði. Fleiri verkefni. ,,Mamma, það er verið að auglýsa eftir þér," sagði hún og ég var komin í fulla vinnu eftir þrjár vikur. Ég er nokkuð viss um að næst þegar ég fer á eftirlaun mun ég hafa nóg af tíma, svona fyrst í stað alla vega. 


Nýja-Sjálands tengslin

Nokkuð viss um að ef gerð yrði kvikmyndin ,,The New-Zealand connection" þá kæmi ekki fyrst í hugann að hér væri á ferð eitthvert framhald af ,,The French connection". Ímynd Nýsjálendinga er ekki sérlega villt, þrátt fyrir gæðakvikmyndir á borð við ,,Once were warriors" og ,,What becomes of the broken hearted". 

https://timarit.is/page/5430257?iabr=on

Mín tengsl við Nýja-Sjáland eru á gömlum merg. Þegar ég var fimm ára fluttist ein uppáhaldsfrænka mín, Magga ömmusystir mín, þangað og ég man vel eftir að hafa barnung reynt að grafa göng til hennar, enda vissi ég vel að jörðin er hnöttótt og ef ég græfi nógu langt hlyti ég að komast þangað. Dóttir mín sendi henni hins vegar skilaboð á segulbandsspólu. Saga Möggu frænku minnar er efni í annan og öllu alvarlegri pistil, mögulega mun ég einhvern tíma segja þá sögu alla, eins og ég kann hana best. Á vetrarkvöldi veturinn 1996-1997 barst mér pakki í boðsendingu þar sem ég var að leiðbeina myndlistarhópi í Haukshúsum á Álftanesi. Hann innihélt fallegt trébox með jarðneskum leifum Möggu okkar, en hún hafði óskað eftir því að hvíla við hlið einkasonarins, Þórs, sem lést ungur úr hvítblæði, 1950, og við mamma sáum til þess að sú ósk væri uppfyllt. 

Þegar Magga fluttist til Nýja-Sjálands var þar fyrir systir hennar, Bubba, sem hafði gifst Englendingi og flust með honum til Pretóríu í Suður-Afríku þar sem synir þeirra Brian og George áttu sæludaga (í minningunni alla vega) enda öll fjölskyldan mjallahvít á hörund og í forréttindahlutverki þar í landi. Áður en þeirri ójöfnu stöðu var raskað fluttust þau öll til Nýja-Sjálands þar sem svo ótal margir voru innflytjendur eins og þau. Magga var svosem ekki að elta systur sína, hún vildi bara flytjast frá erfiðum minningum i Evrópu og eins langt í burtu og hún kæmist. Kanada kom einnig til greina, en bréfið frá nýsjálenskum yfirvöldum kom degi fyrr og þangað fór hún og gramdist það mjög að missa af sumri þar árið. Hún var sannkölluð sumarkona.

unnamed (1)

Þær systurnar héldu sambandi þótt þær byggju lengst af hvor í sinni borginni, og synir Bubbu og sonarsynir (Brian átti tvo yndislega syni, Peter og Robbie, góða vini mína) voru alltaf í uppáhaldi en hún eignaðist ekki fleiri börn en Þór. 

Vorið 1989 fórum við mamma, í boði mömmu, að heimsækja Möggu og það var yndisleg ferð. Fjórum árum síðar átti ég leið til Ástralíu og kom líka við hjá Möggu í viku. Þá átti hún bara þrjú ár eftir ólifuð og vissi vel að aldurinn færðist yfir, en það stoppaði hana ekki í að setja niður, með hjálp Peters (og skv. mynd líka minni), hægvaxta tré, eitt af frumbyggjatrjánum sem kölluð voru svo, við húsið sitt í Blockhouse Bay í Auckland. 

unnamed

Ég sagði áðan að ímynd Nýsjálendinga væri ekkert mjög villt. Íslensk kona sem ég tók viðtal við fyrir Veru í ferðinni 1989 sagði að þegar flugvélar væru úðaðar við komuna þangað, þá gleymdist alveg að segja: Vinsamlegast stillið klukkurnar 25 ár aftur í tímann.

https://timarit.is/page/5425008?iabr=on

Mágur minn sem hefur ferðast mikið bætti um betur og sagði að Ástralir sem hann hefði hitt á ferðum sínum um allan heim segðu þessa nágranna sína ,,square". Vissulega brá mér í brún þegar ég sá hversu mikil kóngafólksdýrkun var í öllum tímaritum sem í boði voru í venjulegum verslunum. Einhvern tíma þegar ég dró hann Robbie (bráðskemmtilegan frænda) á Kaffibarinn, þar sem ég hitti vinkonurnar í einhver ár kl. 17 á föstudögum, dæsti hann og sagði að hann hefði aldrei séð svona mikið af stuttklipptum konum og á Íslandi. Hmm, held það sé samt ekkert mikið af Amish fólki í NZ. En honum fannst að vinkonurnar mínar væru æðislega skemmtilegar. 

Hitti líka unga, íslenska ,,stráka" sem höfðu kynnst nýsjálenskum eiginkonum sínum í fiski á Vestfjörðum í fyrri ferðinni minni og auðvitað var einn Kópavogsbúi úr bekk mannsins míns, nema hvað. 

Svo sannarlega væri ég til í að fara aftur til Nýja-Sjálands einhvern daginn. 


Sumarið sem KOM og tiltekt í fjarvinnu

Um daginn kom sumar. Náði yfir allt Suðvesturland og stundum um allt land. Það voru dýrðardagar. Sumarbústaðarferð var ekki á dagskrá þennan mánuðinn, nema rétt sem verðlaun í lok þessa mánaðar, ef mér hefði gengið eins vel og ég ætlaði að saxa hressilega á það óþarfa dót sem hefur safnast upp á 43 árum. Það er sá tími sem við höfum búið hér í húsinu sem við Ari minn byggðum barnung. Það þurfti ekki nema einn jarðskjálfta til að sannfæra mig um að ég ætti einmitt að drífa mig upp í bústað. Kl. 8:21 kom skjálftinn, fyrir klukkan níu var ég komin út í bíl og lögð af stað upp í bústað. Sem betur fer hafði ég engan tíma haft til að pakka uppúr ferðatösku eftir stuttan túr til Amsterdam þar sem ég sótti vatnslitanámskeið hjá Alvaro Castagnet (já ég veit hann var á Íslandi líka og átti góðan tíma með þeim hjónum hér líka). Þeirri tösku var kippt með og fáu öðru. Í henni var aðallega myndlistardót þannig að ég hélt bara áfram að vatnslita.

IMG-4235

Hef glímt við ýmis mótív uppi í bústað með misgóðum árangri, en í þetta sinn var útilokað annað en að drífa sig í stuttbuxurnar, setja upp trönurnar og njóta góða veðursins og mála og mála og mála. Smá tilraunastarfsemi í gangi, sem sagt að prófa mismunandi aðferðir við að mála sama mótívið, mikið unna mynd og aðra lauflétta, sem þykir yfirleitt betri latína. Sagt er að æfingin skapi meistarann (Practice makes perfect, sagði hún Alison á Butlins við okkur stelpurnar sem lögðum á borð og þvoðum kalkið af hreinu hnífapörunum þar). Að kvöldi var myndum kippt inn og kannski unnið aðeins meira í þeim áður en næsta verkefni tók við. 

IMG-2865

Svo þegar kvöldaði tókst mér meira að segja að saxa á verkefnin heima á Álftanesi með því að grisja bókasafnið uppi í bústað hressilega og losa þar með nokkra hillumetra undir bækur sem við ætlum ekki að henda, en þurfum ekki að blaða í frá degi til dags. Eitthvað verður eftir af afþreyingarbókum, vænt hestabókasafn hefur verið að vaxa og dafna og í það verður bætt, feminismabókasafnið mitt er á leið í bústaðinn en ljóðabækurnar þarf ég að hafa innan seilingar heima á nesinu mínu góða. Þetta var sem sagt tiltekt í fjarvinnu. 

IMG-4248

Um helgina fjölgaði í bústaðnum og tengdasonurinn var gripinn í módelstörf en dóttirin hélt sig í skugganum, ekki ósýnileg þó. 

IMG-4214

Svo kom gosið og ég einmitt rétt búin að klára að fara í gegnum allar bókahillur nema eina. Hún bíður betri tíma. Heim komin sátum við eldri systurnar saman úti í garði og grófsorteruðum bækurnar og nú eru fimm pokar farnir á Basarinn. Fimm aðrir pokar með fötum og garni farnir í gám eða á leið í hendur réttra aðila, einstaklinga og hugsjónasamtaka. Mér sýnist að ég nái 50 poka markmiðinu í þessum mánuði, allt umfram það er bara æði. Og sæludagarnir í sumarbústaðnum og garðinum hér heima sönnuðu svo ekki varð um villst að það KOM sumar þetta árið. 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband