Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2008

Frábær Fjörudagur á Álftanesi

Fjörudagurinn á Álftanesi var haldinn í dag og tókst alveg glimrandi vel. Krakkarnir busluðu í sjónum, sólin var duglega að láta sjá sig og fiskisúpan var himnesk. Kajakar, gönguferð í Hrakhólmana (sem ekki á að fara í nema undir leiðsögn kunnugra, Hrakhólmar eru réttnefni og þetta eru flæðisker) og fleira gott var á dagskránni sem var frá 11 í morgun og til fjögur í dag. Ég held að við séum búin að finna okkar bæjarhátíðisdag.

Stórafmæli skátafélagsins Svana á Álftanesi og Fjörudagurinn á morgun

Skátafélagið Svanir á Álftanesi er 25 ára í ár og haldið var veglega upp á það í í dag. Veðurguðirnir eru greinilega í skátahreyfingunni því þeir skrúfuðu fyrir rigninguna, hækkuðu hitann og drógu skýin frá sólinni, enda eiga Svanirnir ekkert annað skilið. Mér hlýnaði heldur betur um hjartarætur þegar ég áttaði mig á því að hún Jóhanna dóttir mín, sem hefur verið á fullu starfandi fyrir skátana á Álftanesi í sumar, setti hátíðina. Vel var mætt, gamlir og nýjir skátar, foreldrar, bæjarstjórnin, íþrótta- og tómstundaráðsfólk og formenn hinna félaganna á nesinu. Yndislegur dagur og hoppukastalinn var hærri en Skátakot, þótt þar sé nú ekki í kot vísað.

skata

Og nú er Fjörudagurinn okkar á morgun og þá verður 130 ára afmælis Álftaness fagnað og allt mögulegt á döfinni, sjá www.alftanes.is.


Betware beauties og fleiri dísir

Er í merkilegum félagsskap sem kallast Betware Beauties, sem eru konur sem vinna hjá Betware eða hafa unnið þar, aðallega um 2004-5. Við hittumst í rokinu í dag uppi á 19. hæð í nýbyggða turninum í Kópavogi. Þrátt fyrir takmarkað útsýni var gaman að koma þangað og enn meira gaman að hitta gömlu vinnufélagana sem eru einstakar manneskjur, allar saman. Það næst auðvitað aldrei full mæting, ég missti af endurfundi í fyrra af því ég var í Cambridge að hitta enn aðra gamla vinkonu frá Betware, sem er sest þar að, alla vega í bili. Sumir vinnustaðir eru þannig, alla vega á sumum tímabilum, að þeir verða sérstaklega minnisstæðir og Betware árin mín (næstum fimm) í aldarbyrjun voru einmitt svoleiðis tími, yndislegir félagar og gaman að fá fréttir af gömlu vinunum, sem eru sem óðast að festa sitt ráð og fjölga mannkyninu.

Svo hitti ég enn aðra vinkonu mína seinna í dag, við reynum að hittast helst ekki sjaldnar en einu sinni í mánuði, en raunin er líklega svona á fimm til sex vikna fresti, sem er mikið skárra en ekki neitt. Vinahóparnir okkar skarast lítið og þess vegna er bara að skipuleggja það að hittast, og mér finnst það alltaf jafn æðislegt.


Ótímabær haustlægð

Við höfum átt mikillar veðurblíðu að fagna í sumar, lengst af hér suðvestanlands en að undanförnu hafa Norðlendingar og Austfirðingar fengið sýnishorn af góða veðrinu líka. Þess vegna kemur svona snemmbúin haustlægð í opna skjöldu. Hlustaði á Einar Sveinbjörnsson í morgunútvarpinu og las svo fróðlegan pistil á veðurblogginu hans þannig að skýringarnar liggja fyrir. Enn el ég þó þá von í brjósti að við fáum smá sumarauka af því tagi sem oft er kallað ,,indian summer" og sting uppá september í því samabandi. Það er svo gaman að fá smá framlengingu á góðu sumri og ég er sannfærð um að skólabörnin, sem nú eru komin í skólana, hefði mjög gott af því að geta leikið sér úti í blíðunni í svolítinn tíma, farið í vettvangsferðir og eitt og annað þess háttar. Þeir sem stunda útisport af einhverju tagi þurfa líka ábyggilega að trappa sig niður og mér skilst meira að segja að regnsæknir veiðimenn hafi ekkert þurft að kvarta undan tíðarfarinu það sem af er sumri, þrátt fyrir blíðuna.
mbl.is Fólk hvatt til að gera óveðursráðstafanir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvar er Dorrit?

Missti ég af einhverju eða hvar er Dorrit í dag? Einhver hlýtur að vita það. Og ég vænti þess að á því sé skýring sem aðrir en ég þekkja ef hún hefur verið jafn fjarverandi í dag og mér hefur sýnst. Þessi spurning mín er ekki gildishlaðin, hef ekkert verið að skipta mér af umræðunni um hvort hún hafi verið nógu ,,forsetafrúarleg" eða ekki. Það er vel ljóst að hver einasti forseti og þeir makar, sem að hafa komið, hafa verið í því hlutverki að móta þetta frekar unga þjóðhöfðingjahlutverk landsins, rétt eins og gerist í öðrum löndum sem eru með stjórnskipun sem sækir ekki rætur langt aftur í aldir. Og þannig á það að vera, þjóðin kýs og þjóðhöfðinginn hverju sinni mótar hlutverkið ásamt maka sínum. Sé ég bara svona illa eða var Dorrit fjarri góðu gamni í dag?

Og enn og aftur, innilega til hamingju, strákarnir okkar!


Fleiri bros og meiri gleði

Stórkostlegt að sjá útsendinguna þar sem mannfjöldi fylgir bifreið landsliðsmannanna og bros á hverri vör. Þetta er sannkölluð þjóðhátíð!

Smá Höfða-stíll yfir útsendingunni

Bogi, gamli bekkjarbróðir minn, malar í míkrafóninn eins og Ingvi Hrafn gerði víst af snilld fyrir framan Höfða þegar leiðtogafundurinn var haldinn þar, 1986. Ekki heyrði ég í Ingva Hrafni á sínum tíma þar sem ég var að vinna fyrir ABC sjónvarpsstöðina, þar sem Peter Jennings og fleiri fóru hamförum. Útsendingarstjórinn hjá ABC sagðist reyndar aldrei vilja sjá dyrnar á Höfða aftur, eftir að hafa starað á hana í einn dag, tilbúinn að skipta ,,live" út til Bandaríkjanna. Núna er eitthvert uppfyllingarefni tilbúið, blessunarlega, en annars bíða bara allir sælir og glaðir. Fulltrúi fjölskyldunnar á vettvangi er Hanna, dóttirin á heimilinu. 

Bein SILFUR-útsending fyrir okkur í pestinni

Líst vel á þessa beinu útsendingu á móttöku handboltalandsliðsins, sem er að byrja núna. Greinilega vel að móttökunni staðið, og við sem liggjum í hinum aðskiljanlegu pestum getum fylgst glöð og hress með. Ætli krónan styrkist ekki enn meira núna.

Eftir lestur ævisögu Clapton

Eftir lestur á sjálfsævisögu Clapton er margt sem fer um hugann. Búin að heyra ýmislegt um bókina og einkum hversu óvæginn hann sé við sjálfan sig og dragi ekki fallega mynd upp af sjálfum sér. Það sem mér finnst standa uppúr eru lýsingar hans á áhrifavöldum og tónlistarpælingum, einkum á yngri árum (þrátt fyrir sukkið er tónlistin þá ennþá númer eitt). Tímabilin sem hann gekk í gegnum, Mynd004sem gítarleikari í ýmsum hljómsveitum, stemmningin, afstaða hans til ýmissa tónlistarmanna og tilurð einstakra laga, þetta eru silfurmolarnir í frásögninni (silfur er aðal málmurinn í dag ;-). Og mismunandi þol, ánægja, snobb, virðingu og annað sem ræður afstöðu hans til tónlistar hverju sinni er mjög skemmtileg pæling sem skilar sér vel í bókinni.

Hitt sem mér finnst magnað er bataferlið hjá honum og að það skuli yfir höfuð hafa tekist að rífa hann upp úr móðunni sem hann var að hverfa inn í. Ég segi ,,það skuli hafa tekist" en ekki að honum hafi tekist það upp á eigum spýtur, þrátt fyrir að ég viti að ef hann hefði ekki tekið meðvitaða ákvörðun um að vilja snúa við blaðinu hefði þetta auðvitað ekki tekist. En hann skilar því líka vel hversu mikla hjálp hann þurfti og fékk. Á köflum finnst mér of mikið um upptalningar án efnis, en þetta eykur reyndar heimildagildi bókarinnar, sem ég held að hljóti að vera ótvírætt.

Þá er það sukkið, jú, lýsingarnar eru óvægnar og nöturlegar, en bæta kannski ekki svo miklu við það sem fjölmiðlar hafa verið ólatir að segja okkur. Reyndar fannst mér svolítið merkilegt hvernig hann lýsir einangruninni og að því virðist hrútleiðinlegu lífi heróínfíkilsins, sem hann var. Á hinn bóginn virtist hann skemmta sér mun betur sem fyllibytta, en með ömurlegum afleiðingum.

Las einhvers staðar að þýðingin væri stirð og þar sem ég las bókina í þýðingu og hef ákveðnar skoðanir á svoleiðis löguðu, þá verð ég að bera blak af þýðandanum, hún er auðlæsileg en svolítið flöt. Þó ég hafi ekki borið hana saman við frumtextann, þá hallast ég að því að þessi flatneskja (upptalningarnar sem ég nefndi) sé á ábyrgð frumtexta. Þetta er ekkert bókmenntaverk. Hnaut um örfáar leiðinilegar enskuskotnar setningar sem ég skrifa á hraða þýðanda. Þar stakk mig helst orðalag eins og ,,hans gítar" (eða hvaða hlutur það var nú) þar sem íslenskan ætlast til þess að skrifað sé ,,gítarinn hans". En þetta er sparðatíningur, bókin er auðlesin.

Clapton galopnar ekki inn á sig í þessari sögu, þrátt fyrir óvægnu hreinskilnina, nema þegar kemur að tónlistinni og afstöðu til hennar. Og það finnst mér kostur. Fjölskyldan hans er flókin, en það gerist nú á fleiri bæjum, hann skýrir ýmislegt í lífi sínu með þeim grunni sem hann byggir á, en það vekur engan ofboðslegan áhuga minn. Hins vegar finnst mér gaman að heyra um ,,menningarlega árekstrar" eins og mismunandi húmor Breta og Ameríkana. Þar datt ég gersamlega inn í frásögnina, þótt hún væri knöpp.

En sem sagt, góð bók fyrir Clapton aðdáendur og blúsáhugafólk.


Spennandi haust (?)

Ég held að haustið framundan eigi eftir að vera spennandi. Fyrstar skal nefna forsetakosningarnar í Bandaríkjunum, sem að vísu virðast ætla að verða óþarflega spennandi. Gjarnan vildi ég að við hefðum betri tryggingu fyrir batnandi tíð, það er lok repúblikana-tímabilsins, en í staðinn fáum við spennu. Ennfremur eru mörg álitaefni varðandi þróun borgarmála og erfitt að henda reiður á hvernig til dæmis varðveislu húsa verður háttað undir þessum nýja meirihluta, aðeins skýrara (og verra) er þó að svo virðist sem Birtuvirkjun sé ekki alveg úr myndinni. Annað sem er ákaflega spennandi er þetta hálfkreppuskeið sem nú er skollið á, bæði alþjóðlegt og innlent. Mér finnst almennt á fólki að það ,,nenni" ekki kreppu og langi að rífa sjálft sig og samfélagið upp úr þessu ástandi, en því miður dettur mörgum ekki annað í hug en það sem upphaflega olli hluta af kreppunni, það er meiri þensla.

Hef eflaust nefnt það hér áður á blogginu, sem ég heyrði reyndar á enskri tungu fyrst, það er að setningin: May you live in interesting time, væri í rauninni kínversk bölbæn. Hvað til er í því veit ég ekki, hef ekki einu sinni googlað þetta, því það er hugsunin sem mér finnst allrar athygli verð, hvenær verða viðburðir svo markverðir að þeir geti varla verið góðir? Ja, alla vega er viðburður morgundagsins, móttaka handboltalandsliðsins, sem pestin mun kannski hindra mig í að taka þátt í, jákvæður viðburður og býsna stór.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband