Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2020

... vil sigla og hlýði þeim byr sem gefst

Ætla má að ákvörðun um að fara á eftirlaun, jafnvel ,,of snemma", hafi í för með sér fyrirsjáanlega atburðarás. Sú varð ekki raunin hjá mér. Í fyrsta lagi varð ég að hætta rúmi ári fyrr en ég ætlaði vegna annríkis í öðrum, launuðum og ólaunuðum, verkefnum. Í öðru lagi þá hef ég alls ekki haft eins mikinn tíma til að spila golf og ég hafði séð í hillingum, þannig að forgjöfin mín haggast ekki á meðan. Og í þriðja lagi þá hef ég enn einu sinni sogast inn í myndlistariðkun en þegar slíkt hefur gerst á ævitetrinu mínu, þá hefur það alltaf endað með því að myndlistin hefur náð yfirhöndinni yfir flestu öðru sem ég tek mér fyrir hendur. Vissulega hugsaði ég gott til glóðarinnar að geta aftur tekið upp þráðinn þar sem ég skildi hann seinast við mig fyrir hartnær tíu árum, en fyrst ætlaði ég að klára nokkur aðkallandi verkefni. Nú eru þau unnin í hálfgerðum hjáverkum og ég geri það sem ég verð að gera, í þetta sinn fæ ég útrás í vatnslitnum, sem alltaf hefur verið hálfgerð afgangsstærð í minni myndlist, nema ef vera skyldi einhvern tíma rétt fyrir árþúsundamótin. 

Myndlist er ekki og hefur aldrei verið ,,hobbý" hjá mér. Þau á ég mörg og vanræki þegar myndlistin togar. Lengi hef ég litið svo á að ég hafi, þegar ég hætti í Myndlista- og handíðaskóla Íslands 22 ára gömul, hafnað því að gera hana að ævistarfi. Það er ekki allskostar rétt. Líklega hef ég haft hana jafnt að ævistarfi og ef ég hefði ekki farið í annað nám og starfað á þeim vettvangi sem ég menntaði mig meira til og formlegar (í tvígang meira að segja). Telst svo til að ég hafi fengist í 17 ár við hvort, skrif (fjölmiðlun og sagnfræði) og tölvunarfræði, sem ég lærði um fimmtugt. Og þar á milli fjölskylda og pólitík. En setjum svo að ég hefði ákveðið að helga mig listinni, klára MHÍ og hvað? Lifa á listinni það sem eftir er ævinnar? Ætlast til að mér yrði ,,haldið uppi" svo ég gæti þóst lifa á listinni? Það fyrrnefnda var svo sem ekki útilokað, en beið aðeins örfárra okkar sem vorum í MHÍ á minni tíð. Það síðarnefnda hefði ég aldrei sætt mig við. Þess í stað hef ég tekið mjög öflug tímabil á ævinni, þar sem myndlistin hefur verið í forgangi, gefið svo í í öðrum verkefnum á milli og safnað kröftum í næstu átök. Sótt mér heilmikla myndlistarmenntun í viðbót, en í skorpum. Haldið sýningar hist og her og sýnt talsvert með öðrum með misformlegum hætti. Og nú er ég komin aftur á fullt, var að setja upp sýningu og önnur seint á árinu, einhverjar samsýningar sjálfsagt, lífið er skeblagr2 (2)mmtilegt. 80860634_10221419383252464_6247135729961402368_n69776808_10220177666250315_8134517047573872640_nunnamedbaj1000 (2)unnamedsds


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband