Bloggfærslur mánaðarins, desember 2007

Áramótin, hjálparsveitirnar og friðarósk til ykkar allra!

Áramótin eru skammt undan. Mér finnst fátt eins hátíðlegt og að heyra ,,Nú árið er liðið í aldanna skaut og aldrei það kemur til baka" en hins vegar missi ég nú orðið oft af þeirri stund, ýmist hlaupandi út og inn að skoða sprengjuglaða fjölskyldumeðlimi og vini láta ljós sitt skína, og auðvitað að styrkja hjálparsveitirnar í leiðinni. Áður var það verkefni mitt að halda í ,,hendina" á hundinum okkar, Tinna, en Simbi köttur, sem er eina eftirlifandi gæludýrið okkar, og líka farinn að eldast, er bara furðu hugrakkur þegar flugeldar og sprengjur eiga í hlut, en meinilla við ryksuguna, eins og heiðarlegum köttum sæmir.

Hjálparsveitirnar hafa verið eftirminnilega kallaðar út frá flugeldasölu í aðdraganda þessara áramóta og ég vona að afleiðingin sé sú að sem flestir vilji styrkja þær, en ekki að salan detti niður vegna vonda veðursins.Meðan hjálparsveitirnar hafa þennan tekjustofn sem sinn helsta þá hefur ljósadýrðin tvöfalt gildi.  

Þetta hefur verið viðburðaríkt ár, kannski rifja ég það aðeins upp (helstið alla vega) á næstunni, kannski ekki. Mér þykir alla vega merkilegt að hægt sé að hagga ,,náttúrulögmálum" eins og sitjandi stjórnum, hvort sem eru í borginni eða annars staðar. Þetta ,,annars staðar" er reyndar eitthvað sem völvur hafa verið að spá að undanförnu, mér finnst auðvitað Völva Vikunnar vera þessi eina sanna. Hver önnur hefur látið sér detta í hug að spá Vestmannaeyjagosi og þessu tilteknu borgarstjórnarslitum en einmitt hún?

Óska ykkur öllum gleðilegs árs og þakka liðið ár. Vona að friður, fallegar hugsanir og mátuleg angurværð í bland (fyrir þá sem það fíla) geri áramótin ykkar eftirminnileg og góð.

 


Til hamingu Margrét Lára!

Glæsilegur árangur og Margrét Lára er verðugur fulltrúi kvennaknattspyrnunnar, sem hefur verið í mikilli uppsveiflu hér á landi. Stelpurnar okkar rokka og fréttamennirnir líka! Til hamingju Margrét Lára!
mbl.is Margrét Lára íþróttamaður ársins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ný könnun um áramótaheit og úrslit seinustu könnunar

Nú er komin ný könnun á síðuna mína og ég hvet ykkur til að taka þátt. Kannski finnið þið ekki ,,alveg" rétta svarið ykkar, þannig að athugasemdakerfið getur dugað, en best er auðvitað að nýta sér þessa valkosti sem ég setti inn.

Seinasta könnun fór þannig að um fjórðungur þátttakenda, sem voru óvenju margir, ætluðu ekki að breyta lífsháttums ínum fyrir jól, fimmtungur var að fara í próf og skreytingar og meðlimir rétttrúnaðarkirkjunnar komu fast á eftir. Hmmm ... en alla vega ætluðu fáir að eyða tímanum fram til jóla í tiltektir. Einhver gæti mögulega hafað svindlað ;-) - annars voru liðirnir ótrúlega jafnir, nema efsti og neðsti.


Loksins lausn fyrir Foreldahúsið

Heyrðum þær gleðifréttir í fréttunum í kvöld að fundið væri húsnæði fyrir frábæra starfsemi Foreldrahússins. Var að stússa uppi á lofti þegar dóttir mín hækkaði tíu-fréttir sjónvarpsins og þessi gleðifregn gall um húsið. Við fögnuðum auðvitað og ég hlakka til að heyra meira um málið. Það er einfaldlega ekki hægt að slá svona mikilvæga starfsemi af og allir sem að málinu eiga þakkir skyldar.

Ljúfu jól - fjölskyldan, bækurnar, framtíðin og framkvæmdirnar

Þessi jól fara vel með okkur. Góðar samverustundir með fjölskyldunni, vorum í boði hjá nánustu tengdafjölskyldunni minni, sem er líklega innan við 50 manns (ef taldir eru þeir sem eru á landinu núna). Meira að segja Kristín amma í Borgarnesi kom við með Önnu Mæju dóttur sinni, hún er töffari á tíræðisaldri. Mamma var hjá okkur á aðfangadagskvöld og jóladag, en vegna veðurs frestuðum við kertaferðum í kirkjugarðana um stund. Afskaplega notalegt allt saman. Svo vorum við fjölskyldan að spila í nótt (Draumalandið held ég það heiti) og ég datt aftur í smá spilamennsku í dag (Bíóspilið) með nokkrum í tengdafjölskyldunni. Mikið fjör þar til eftirréttir voru bornir fram, þá leystist þetta upp, það var líka samkeppni um athyglina við börn fjölskyldunnar, sem dró úr einbeitingu á köflum (góð afsökun ;-) - já þetta eru góð fjölskyldujól.

Og bókajól líka, las spennusöguna Hníf Abrahams fram á rauðan morgun og er búin að lesa alla bestu kaflana í ævisögu Guðna og byrjuð á nýrri spennusögu, Gurrí mín takk! Enn  eimir eftir af áralöngu menningarbindindi og ég les mest spennusögur með stærðfræðinni. Ætla samt að ráðast á endurheimtu bókahillurnar og endurlesa Doris Lessing við tækifæri, elska hana. Og þegar ég kemst í þann fasa les ég venjulega líka eitthvað í Iris Murdoch. Við erum líka búin að horfa smá á sjónvarp og bíó, þetta er fín upphitun fyrir næsta framkvæmdafasa, sem verður mun vægari en sá næsti fyrir jól.

Kláruðum parkettið uppi fyrir jól, sem var ótrúlega gaman (og pínulítið erfitt), og erum búin að endurheimta stofuna okkar eftir 11 mánaða bráðbirgða-staðsetningu bókahilla á miðju borðstofugólfi (bækurnar farnar upp og sumar bíða þess að fleiri bókahillur verði settar upp - og nú er alla vega hægt að FINNA bækurnar sem mig langar að lesa, láta aðra lesa eða gefa).

Áramótin verða að vanda með fjölskyldu, venjulega kemur Georg bróðir og hans krakkar til okkar kringum áramótin, mamma og stundum tengdamamma. Meira um það seinna. 

Hlakka til allra verkefna og næsta árs, gaman að vera farin að vinna við sagnfræðina aftur og eiga svona lítið í land til að ljúka MS-inu í tölvunarfræðinni. Líka búin að bóka óvenju stutt ,,sumarfrí" í febrúar á Kanarí, þar sem vinna og verkefni kallar á okkur bæði. Bætum það vonandi upp á öðrum tíma ársins.  


Jólakveðjur til ykkar allra

Aðfangadagur að renna upp og ég vona að þið njótið jólanna, samverunnar með ástvinum og hátíðarskapsins sem fylgir jólahátíðinni. Fékk skemmtilega kveðju frá Irenu vinkonu minni í dag, sem ég kynntist í Belgrad þegar við vorum sitthvoru megin við tvítugt. Gaman að frétta af henni, næstum að það hefði verið tilvinnandi að mæta í skötuna og spyrja hann Ingva sem skilaði kveðjunni meiri frétta af henni. Irena er hálf íslensk og hálf serbnesk, flinkur ljósmyndari og yfir höfuð mjög skemmtileg manneskja. Merkilegt að hitta hana þegar ég fór til Belgrad árið 1974 og kynnast henni þar. Hún er enn með alla vega annan fótinn í Serbíu og ég hlakka til að heyra meira af henni. Veit ekki einu sinni hvort hún heldur upp á jólin 24. desember eða 6. janúar í þetta sinn (eða hvort tveggja).

Hvernig í ósköpunum getur áhugi á anarkisma gengið í ættir?

Ykkur finnst þetta kannski ekki jólaleg umræða, en hún á sér skýringar. Í dag barst mér í hendur bók sem ég hef leitað að í rúmt ár, gersamlega ófáanleg, um anarkisma. Hún er eftir frænda minn, George Crowder. Það er aðeins liðlega ár síðan ég frétti af þessari bók, ég hef nefnilega aldrei séð George eða heyrt, þótt amma mín og mamma hans séu systur. Hann er fæddur á Nýja Sjálandi (eða Suður-Afríku, man ekki hvar Bubba frænka bjó árið 1955) en ég hér heima á Íslandi. Ég þekki bróður hans, Brian og syni hans, en hef aldrei hitt George og frétti af tilviljum af því að hann hefði bæði skrifað doktorsirtgerð og bók um anarkisma, einkum klassískan. En ég skrifaði mína B.A. ritgerð um einn af klassísku anarkistunum, Kropotkin, og gerði síðan þáttaröð fyrir ríkisútvarpið fyrir nokkrum árum sem ég kallaði: Þættir úr sögu anarkismans, þar sem ég rakti anarkismann og sögu hans, nokkurn veginn sama tímabil og George fjallar um í sinni bók. Þannig að ég hlýt að spyrja: Getur áhugi á anarkisma gengið í erfðir, alla vega var það ekkert í umhverfi okkar sem leiddi okkur á sömu braut, mér vitanlega.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem ég kemst að því að manneskja, mér mjög nákomin, er að gera nokkurn veginn nákvæmlega sömu hluti og ég þótt ekkert samband sé á milli. Hitt dæmið er lengra mál og jafnvel enn persónulegra, og hin ættin mín reyndar. Ég trúi alveg á tilviljanir, en það eru samt takmörk fyrir því hvað ég er auðtrúa á svona einkennilegar tilviljanir. Það er ekki eins og allir í heiminum séu að velta fyrir sér anarkisma, og enn færri voru þeir þegar við George lukum við okkar misstóru ritgerðir, ég 1978 og hann 1987. Í formála hans fjallar hann um tvennt, annars vegar hve illa gengur að fá kenningar anarkista ræddar sem ,,alvöru" stjórnmálakenningar og hins vegar um fordóma gagnvart anarkisma, það er að líta á anarkisma sem friðsæla stjórnmálakenningu en ekki eingöngu í ljósi voðaverka sem framin voru í hans nafni á árunum 1880-1910. Nokkurn veginn það sem ég fann fyrir þegar ég skrifaði mína ritgerð og eflaust hefur það litað þættina mína. En ég er farin að svindla aðeins á jólabókalestrinum og byrjuð að lesa það sem George skrifaði og hlakka til að klára þá bók. 


Stysti dagurinn

Upplifi tvo stystu daga ársins í þetta sinn. Stóð endilega í þeirri meiningu að 21. desember væri stysti dagur ársins en svo var það 22. des. í þetta sinn alla vega. Slétt sama, mér líkar ágætlega við skammdegið og myrkrið en samt er alltaf gaman að fylgjast með deginum lengjast. Þótt ég sé ekki eldheitur aðdáandi kulda og gallharður andstæðingur hálku þá finnst mér veturinn oftast ágætis árstíð.  Sumarið líka. Haustið markar endalok sumarsins og af þeim sökum ekki (lengur) í uppáhaldi hjá mér og vorið er yfirleitt of kalt til að ég kunni að meta það. Þegar litgreiningarfárið gekk yfir landið var ég lauslega greind sem sumar eða vetur, mjótt á mununum, en alls ekki sem vor og haust. Passar ágætlega við smekk minn á árstíðum. Mig minnir að Steinunn Sigurðardóttir hafi sagt í einhverju ljóða sinna (finn ekki réttu ljóðabókina eftir hana, þessa litlu rauðu): Það eru svik í þessu vori, eins og brosi hrekkjusvínsins ...

 


Óhefðbundið jólaskap (fyrirfram)

Það sem kemur mér í jólaskap fyrir jól er eftirfarandi:

  • Framkvæmdirnar sem hafa setið á hakanum í húsinu en á nú að klára fyrir jól (og tekst oft furðu vel)
  • Fíflagangur og jólastress í vinnunni
  • Próflok
  • Leitin að jólaskrautinu
  • Einstaka jólalag - Baggalútslögin koma sterk inn nú eins og undanfarin ár
  • Innpökkun jólagjafa
  • Tiltekir (já, mesta furða)
  • Harðsperrur á nýjum stöðum (óvenjulegar hreyfingar í tiltekt og parketlögn til dæmis)
  • ... og ýmislegt fleira, sem ég man ekki núna

Flest af þessu á við núna, einkum það fyrstnefnda, sem hefur elt okkur síðastliðin þrenn jól, merkilegt nokk aðallega til ánægju. Fyrir jólin í fyrra náðum við að koma herbergjum krakkanna okkar í gagnið, sem eru nýsmíði á efri hæðinni, núna erum við að ljúka mestöllum frágangi á sameiginlega rýminu uppi, sem hefur reyndar þjónað ágætlega sem vinnuaðstaða fyrir ýmislegt, þar málaði sonur okkar heila brúðargjöf og ég lærði fyrir erfiða prófið mitt. En frá seinustu jólum hefur gólfið uppi verið flotað að minnsta kosti 10 sinnum og er nú orðið þokkalega slétt (fyrri umferð og 9 ,,seinni" umferðir).

Sökum pestar hef ég verið frekar hæg í gang núna, en tók góðan sprett í kvöld og er hreinlega búin. En svona ímyndaðir skilafrestir eins og jólin, geta gert alveg ótrúleg kraftaverk, kannski það lygilegasta þegar við tættum niður eldhúsinnréttinguna rétt fyrir jólin í hitteðfyrra og rústuðum baðherbergið en tókst að koma hvoru tveggja í nothæft ástand fyrir jólin. Frágangur hefur reyndar beðið síðan, því þar hangir margt á sömu spýtunni, meðal annars að ljúka verkinu uppi til að koma fyrir bókum sem nú eru í rými sem deilir gólffleti með eldhúsinu. Flókið mál - ástæðulaust að fjölyrða um það.  

Um jólin eru það aðrir og kannski enn jólalegri hlutir sem kveikja jólaskapið. Fara með kerti á leiði ástvinanna, bjöllurnar sem hringja inn jólin klukkan sex á aðfangadag og hin klassíska kveðja: Gleðileg jól í Ríkisútvarpinu, Heimsumból (þegar að því kemur) þvottalyktin af rúmfötunum þegar hangið er yfir jólabókunum fram eftir nóttu - og svo bara þetta óskilgreinanlega sem ég þykist enn finna fyrir.


Jólin munu koma *

Gerði þessa ágætu uppgötvun, jólin munu koma. Og þau munu koma, hvort sem við leggjumst í pest eða ekki rétt fyrir jól, hvort sem það er búið að gera allt sem þarf eða ekki, hvort sem prófin klárast fyrir jól eða ekki. Jólin munu koma og það er bara þannig. Fyrir flesta er það yndislegt, við erum í hópi þeirra lánsömu sem búum okkur undir gleðileg jól í hópi ástvina. Vona að aðrir sem kvíða jólunum muni finna leiðina til að njóta þeirra og ef hjálpar er þörf rati sú hjálp til þeirra.

Pestin er enn á sínum stað, núna vona ég heitast að ég hafi ekki smitað Hönnu mína. Feðgarnir virðast frískir en til öryggis ber ég í tré. Prófið frestast aðeins stutta stund fram á næsta ár. Verkefnamálin mín eru að skýrast mjög og ég er að leggja línurnar í næstu verkefnum svona á milli þess að ég fikra mig út í tiltektina, það er ótrúlegt að hægt sé að svitna af því að þurrka af - sitjandi! Því miður er ég búin með spennusöguna sem hefur séð um að svæfa mig að undanförnu og stærðfræðiblöðin (fyrir næsta próf) eru því miður skemmtilegri en svo að ég sofni yfir þeim. Þannig að kannski verð ég búin að bæta upp ólesið efni fyrir áramót, sem væri svo sem allt í lagi.

Byrjuð að senda út jólapóstinn, hef vanrækt jólakort að mestu seinustu árin en útbjó þess í stað smá fjölskyldusögu frá síðasta ári sem fer að fara í dreifingu. Vonandi hef ég sem minnstan tíma til að blogga til jóla. en það er alltaf gaman að grípa í það á milli. Njótið aðventunnar! 

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband