Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2009

Flokksráðsfundur og sýningarleiðsögn á sýningunni minni í Mosó

Á morgun og laugardag er haldinn flokksráðsfundur okkar Vinstri grænna á Hvolsvelli og ég hlakka til að renna austur og ræða pólitík á þessum eldheitu tímum. Hins vegar ætla ég að sleppa því að skreppa með í sumarferð VG sem verður í kjölfarið og liggur að þessu sinni í Þórsmörk. Þótt allmörg ár séu liðin síðan ég fór seinast í Þórsmörk, þá finnst mér alveg ágætt að sinna öðru um helgina, þoka handritinu að bókinni minni áfram og á sunnudag ætla ég að vera til taks á sýningunni minni í Íþróttamiðstöðunni Lágafelli í Mosfellsbæ og lóðsa þá sem vilja um hana og segja frá verkunum. Verð þar milli klukkan 15 og 19 á sunnudag. Endilega mætið ef þið hafið áhuga á, þetta er í leiðinni í og úr bænum.

aasundcimg4694_901538.jpg

 

 


Mikið rosalega er ég komin heim ... !

Það fer ekkert á milli mála að ég er komin heim til Íslands. Reyndar alveg með ólíkindum að ekki séu fleiri en 11 dagar síðan ég kom. Eflaust stutt í að ég stingi af upp í bústað aftur, átti þar góða og vinnusama helgi um síðustu helgi og held reyndar alveg dampi í vinnumálum þótt ég sé að vasast í öllu því nauðsynlegasta sem ég þarf. Hver ætli skammturinn fyrir 11 daga törn og smá uppsöfnuð verkefni sé annars - fyrir utan vinnuna:

  • Eitt áríðandi afmæli á Akranesi
  • Ein sýningaropnun
  • Fjórir fundir
  • Eitt viðtal tekið og skrifað
  • Ein grein skrifuð
  • Ein ræða undirbúin
  • ... og fleira

Indæl opnun á óheppilegum tíma

Sýningin mín í Íþróttamiðstöðunni í Lágafelli var hengd upp 4. ágúst en ákveðið hafði verið að hafa smá formlega ,,opnun" þegar ég væri komin heim frá Bandaríkjunum. Þegar tímasetningin var ákveðin, m.a. með hliðsjón af fyrri opnunum, var auðvitað ekki vitað að þetta myndi skarast við samstöðufundinn í dag. Hef smá móral af því að hafa haft fundinn af mömmu, en það var samt mjög gaman að hún skyldi vera tímanlega á opnuninni og hitta gesti og gangandi. Einhverjir gestanna höfðu látið vita að þeir myndu mæta seint og koma af fundinum. Þannig að þetta var mjög indæl opnun, gestirnir dreifust mjög mátulega á tímann sem ætlaður var fyrir hana og upphengingin hefur tekist alveg rosalega vel hjá fjölskyldunni minni. Reyndar frétti ég það að Óli hefði verið aðalmaðurinn og farið eftir skjali sem hann var með í símanum og svo komu Hanna og Ari með hjálparhönd þegar á leið og ég var síðan í tölvupóstsambandi og skoðaði afraksturinn á myndum úr símanum hans Óla í henni Ameríku. 

cimg4440.jpgSýningin verður út mánuðinn á mjög rýmilegum opnunartíma, sem sagt frá morgni til kvölds, þegar íþróttamiðstöðin er opin. Veit að slatti af fólki ætlar að skoða hana á öðrum tíma en í dag og einhverjir höfðu þegar komið, þótt ég hafi lítið auglýst hana, en að vísu hefur máttur Vikunnar, sem sagði frá henni í síðustu Viku, greinilega verið álitlegur. Sem sagt, endilega kíkið þið við og skoðið sýninguna. Er að hugsa um að láta vita hvenær ég verð á svæðinu, og þá væntanlega hér á blogginu og Facebook. Sting kannski fleiri myndum hér inn seinna.

 

 


Fór frá Íslandi í ESB-atkvæðagreiðslu og kem í Icesave hasar

Þegar fréttaflutningur er jafn alþjóðlegur og raun ber vitni er maður bæði heima og erlendis í senn, það er að segja - það er val hvers og eins. Þegar ég lagði upp í núverandi reisu var verið að kjósa okkur í þá ánauð sem ég tel að ESB-viðræðurnar séu, þar sem tíma og orku er eytt í vafasamar viðræður meðan önnur brýnni mál ættu að vera í brennidepli. Nú, þegar ég kem heim eftir rétt um sólarhring verður væntanlega ekki kominn botn í Icesavemálið, eitt eldfimasta mál íslensks nútíma.

CIMG4809Mér finnst mikil blessun að vera í góðu sambandi við landið mitt og fólkið mitt á meðan ég er erlendis en það merkir ekki að það sé ekki hægt að njóta yndislegra stunda við vinum sínum og njóta þess að vera í fallegu, framandlegu og ofurhlýju umhverfi. Og forréttindin eru þau að eiga erindi á aðrar slóðir, vera vinnandi með góða samvisku, því það er svo sannarlega ekki lengur sjálfsagður hlutur að hafa gefandi vinnu sem getur á góðum degi látið mann skrimta nokkuð þokkalega, síst hjá svona sjálfstætt starfandi fólki eins og mér.


Síðustu dagarnir hér í Washington-fylki hjá Elfu Gísladóttur

Þá fer að líða að heimferð eftir frábæra dvöl í næstum mánuð heima hjá Elfu Gísladóttur leikkonu og menningarmiðstöðvarstjóra hér vestast í Bandaríkjunum þar sem náttúrufegurð er með eindæmum. Í gær fórum við á sveitaskemmtun hér á sveitabæ í um kílómeters fjarlægð frá Conway Muse, þar sem Elfa er að byggja upp ótrúlega merkilega menningarmiðstöð, þvert á vilja bæjaryfirvalda sem hafa gert allt sem í þeirra valdi stendur til þess að leggja stein í götu Elfu sem er útlendingur, kona og meira að segja ljóshærð á amerískan mælikvarða. En þeim er ekki stætt á því og ég hef sjaldan heyrt annað eins hól um nokkurt framtak og menningar- og félagsmiðstöðuna hennar Elfu. Hér eru listsýningar, leikhópar, tónlistarfólk og barnastarf á vegum ýmissa aðila og það er bara brot af því sem gert er hérna. Veðrið hefur leikið við mig mestallan tímann og meira að segja eftir rigningarspá í dag var glaða sól mestallan seinni partinn. Í dag hreinsuðum við Elfa upp allar spurningarnar sem höfðu safnast upp að undanförnu þannig að ég ætti að vera í stakk búin að skrifa það sem útaf stendur af ævisögunni hennar, sem hefur verið að fæðast á undraverðum hraða að undanförnu. Þetta er eiginlega ævintýri líkast.

Við gengum heim af sveitaskemmtuninni arm í arm eins og íslenskar táningsstelpur á leiðinni heim, svo þegar við vorum að verða syfjaðar kom Lindsay hin ótrúlega sjálfsörugga vinkona Elfu og Joe maðurinn hennar sem er af indjánaættum, lögfræðingur og sagnfræðingur eða mennt, Harvard menntaður og ótrúlega fallegu dæturnar tvær. Við sáum og spjölluðum fram á nótt og þær litlu duttu útaf í þægilegum sófum meðan við þessi gömlu vorum á sögu- og sagnasukki.

CIMG5002

 


Búið að opna sýninguna mína í Mosó

Hvað er til ráða ef þarf að hengja upp heila myndlistarsýningu og maður er fastur úti í heimi? Þá er að leita á náðir fjölskyldunnar. Ég á góða fjölskyldu sem er búin að hegja upp heila myndlistarsýningu fyrir mig í Íþróttamiðstöðinni Lágafelli í Mosfellsbæ í samráði við hana Kristbjörgu, sem sér um sýningarhald þar. Ég reyndi auðvitað að raða saman myndum áður en ég fór hingað til Bandaríkjanna þar sem ég er við störf um þessar mundir, en það er aldrei alveg hægt að sá svona fyrir nema á staðnum. Þannig að ég tel að þau hafi unnið þrekvirki og sýnist á myndum af staðnum að vel hafi tekist til. Svo þegar ég kem heim í næstu viku efni ég til opnunar.

04082009(002)   HreyfingHam

 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband