Bloggfærslur mánaðarins, maí 2008

Meistaraprófsvörn í miðjum skjálfta

Það var enginn skjálfti í mér þegar stóra stundin rann upp í dag og ég átti að verja meistaraverkefnið mitt á miklum Meistaradegi verkfræðideildarinnar. Þegar 45 mínútur voru liðnar af fyrirlestrinum og ég var í þann veginn að hætta, vildi samt komast í friði gegnum seinustu glærurnar, fór hús verkfræðideildar að skjálfa af talsverðum sannfæringarkrafti. Ég ætlaði nú ekkert að skipta mér af skjálftanum og hélt bara áfram, en þegar hann dróst á langinn kunni ég ekki við annað en að láta vita að ég hefði líka tekið eftir honum og liti á þetta sem ábendingu til mín að ljúka máli mínu, svona um leið og ég setti seinustu glæruna upp. Minnir mig aðeins á vinkonu mína sem heyrði í almannavarnarflautunum og hrópaði upp yfir sig: Guð, ég á eftir að borga Visa-reikninginn minn!

En þetta var sem sagt eftirminnilegur dagur, í meira lagi. Þessu langa og oft stranga námi lokið og fyrirlesturinn gekk afskaplega vel. Þannig að ég er farin að finna það vel að þessum kafla í tilverunni er að ljúka, blessunarlega eftirminnilega. Það verður ekki erfitt að muna hvenær þessi atburður átti sér stað. Hef reyndar áður upplifað að vera í mynd í miðri ræðu þegar skjálfti reið yfir, en hann var aðeins minni en þessi.

Nú er bara að vona að fólkið sem raunverulega fann fyrir skjálftanum fái sem fyrst ró og sálarfrið, því það er áreiðanlega það sem helst þarf að biðja um, að fólki fari að líða betur en það hlýtur að finna fyrir núna. Þetta er merkilegt land sem við búum í og ekki hægt annað en bera virðingu fyrir því. Viðurkenni að mér hefur alltaf þótt smá spennandi að upplifa skjálfta, en það er auðvitað af því ekkert erfitt hefur hent mig og mína í þeim efnum. Ég tek líka undir með konunni ljúfu á sjúkrahúsinu á Selfossi sem minnti á þá í Kína sem eiga um sárt að binda núna. Falleg hugsun. 

Ann-ríkinu er annars ekki lokið, nú taka við tveir ferðadagar og áframhaldandi annríki, þannig að ég kem til baka til bloggheima um leið og ég þykist hafa tíma.


Ann-ríki

Vegna ann-ríkis er kannski best að gera smá blogghlé í bili og halda sig við það sem þarf að gera á næstu dögum (sá fyrri upptalningu). Þannig að hafið það bara gott á meðan.


Allt í lagi í Reykjavík?

Fyrir mörgum áratugum kom út spennusagan: Allt í lagi í Reykjavík eftir Ólaf við Faxafen, sem var dulnefni Ólafs Friðrikssonar. Titillinn reyndist argasta kaldhæðni, eins og vænta mátti. Mér finnst merkilegt að Íslendingar skuli vera í meiri afneitun en aðrir varðandi áhrif loftslagsbreytinga. Hækkun sjávarstöðu er eitt af því sem við gætum þurft að glíma við í náinni framtíð og þar sem veður eru oft nokkuð válynd á þessum slóðum gæti verið erfiðara að verja byggð sem stendur lágt hér á landi en í sumum löndum þar sem byggð er varin með varnargörðum. Hins vegar er huggulegt af Gallup að reyna að réttlæta þessa afstöðu okkar til að við töpum ekki alveg andlitið í alþjóðasamfélaginu, en eigum við ekki að sjá um það sjálf?
mbl.is Hlýnun ekki ógn á Íslandi?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Styttist í allt - ekki enn orðin stressuð en það kemur

Sallaróleg um helgina að huga að ýmsum verkefnum en allt í einu er orðið ansi stutt í allt mögulegt.

  • Systur mínar koma í kvöld frá Köben. Búin að fá tvo kát sms.
  • Þrír dagar í að ég haldi lokaverkefnisfyrirlesturinn minn.
  • Fjórir dagar í að ég fari til London á leið til Ungverjalands.
  • Fimm dagar í að ég verði komin til Ungverjalands.
  • Og verkefnin mín er sum á lokaspretti og önnur á upphafspunkti. Eiginlega engin á þessu óskilgreinda ,,mið"tímabili. Nú sé ég til loka á þremur misstórum verkefnum og er að fara á fullt með tvö, líka mjög misstór. Þannig að það er gaman að lifa.

Smá fiðringur í maganum, best að fara að skrifa fullt af tékklistum til að hafa allt undir kontról ;-), safna saman því sem ég þarf að hafa klárt fyrir fimmtudaginn (lokaverkefnið) og taka fram ferðatöskuna.

 

 


Til hvers er best að nota fallega sumardaga?

Fallegur sumardagur og sunnudagur, sem merkir að það er hægt að velja um ýmislegt. Fara upp í sumarbústað var ofarlega á blaði, þar er gott að vinna í hinum ýmsu verkefnum, en eftir mjög langa íþróttakeppni Sóta í gær var lítið að gera annað en fleygja sér fyrir framan sjónvarpið og horfa á Eurovision. Svo eru hestarnir ekki komnir upp í Borgarfjörð enn en þar verða þeir í sumarbeit rétt hjá bústaðnum með aðstöðu þar (við erum með hektara). Auk þess var Ari eitthvað að tala um að hann langaði að henda meirSumarbústaðurinn á sínum staðu af byggingadóti sem hefur safnast upp eftir seinustu framkvæmdir, og svoleiðis stoppar maður auðvitað ekki Wink.

Við tókum rispu á því um hádegisbilið (góð útivistar- og hreyfingarrispa) og ein kerra enn farin í Sorpu og önnur að fyllast. Útreiðatúr dagsins á dagskrá núna (hjá Ara) og á meðan mun ég eflaust reyna að ljúka einu af smærri verkefnunum mínum, því sem ég get ekki klárað í Ungverjalandi. Svo þarf ég að fara að flokka pappírana sem ég þarf að hafa með mér þangað. Þannig að sumarbústaðurinn bíður í bili, sé að veðurspáin fyrir miðvikudaginn hrópar á sumarbústaðarvinnu, en kannski er betra að vera í bænum svona daginn fyrir útskriftarfyrirlesturinn minn, sjáum til með það. Annars verðum við áreiðanlega mikið uppi í bústað í sumar, þannig að ein helgi til eða frá breytir ekki öllu.

Mórallinn í sögunni er: Vinna smá, snyrta smá í kringum sig og njóta góða veðursins. Ég er meira að segja hætt að líta á sérhvern góðviðrisdag sem seinasta sumardaginn, eins og nokkur léleg sumur geta fengið mann til að gera.

 

 


Takk, Danir, fyrir að bjarga okkur frá 16. sætinu

Ætli 12 stig Dana hafi ekki bjargað okkur frá 16. sætinu í Eurovision. Það er alla vega ósköp sætt af þeim. Og þá er þessu fári lokið þetta árið.

Ég hef ekki hundsvit á Eurovision ... en stefnir þetta ekki allt í 16.sætið?

Þótt ég hafi einu sinni unnið pottinn (þegar Eistland vann) í Eurovision partýi, þá hef ég afskaplega litla tilfinningu fyrir sigurlögum Eurovision. Rússland heyrði ég og var ekki hrifin, en Grikkland, ég bara þekki það lag ekki. En sjáum hvað setur. Og skyldum við lenda í 16. sætinu, enn einu sinni?

Íslendingar fengu ein fyrstu stigin í atkvæðagreiðslunni ... aha

Ekkert meira um það að segja.

Palladómar yfir kjúklingnum og snakkinu

Eftir skemmtilega dvöl á íþróttamóti hestamannafélagsins Sóta í dag (gleðilegt mót, sjá næstu færslu að neðan) og smá vinnurispu þá er komið að því að hafa skoðun á Eurovision lögunum, sem ég er að heyra sum hver í fyrsta sinn.

Fyrsta sem grípur mig er Bosnía-Hersegóvína. Svo verður þetta bara að þróast eftir því sem á líður.

Já, svo er þetta líka brúðkaupsafmælið okkar Ara (28 ára) en við höldum meira uppá trúlofunarafmælið svona yfirleitt, fórum þó til Egyptalands í tilefni af silfurbrúðkaupinu fyrir 3 árum, fín afsökun til að skoða það fallega land pínulítið.

Sigmar er að rokka sem kynnir og Finnarnir eru að þungarokka núna, af mikilli snilld.

Króatía virkaði meira spennandi í hitt skiptið sem ég heyrði í þeim, en ok, mega vera í topp 12 mín vegna.

Regína Ósk og Friðrik Ómar brugðust ekki, fluttu sitt lag með mikilli fagmennsku.

Tyrkneskt Britpopp á eftir, skrýtið, en kemur bara ágætlega út, hef ekki heyrt þetta lag fyrr. 

Portúgal, alls ekki svo (portú)galið.

Mér finnst fínt að bogga yfir þessu, mest spennandi atriðið er auðvitað eftir, sem er atkvæðagreiðslan.

Danska lagið er auðlært, það er enginn smá kostur.

Í ljósi þess að úkraínska söngkonan hefur skrifað 3 barnabækur, Hvernig á að verða prinsessa, stjarna og sjónvarpskokkur, þá býst ég við að næsta barnabókin muni heita: Hvernig á að verða súludansari.

Frakkland: Já, margir hrifnir af þessu, nokkuð gott. Ænei, annars, endist ekki lagið út, þetta er ekki nógu skemmtilegt lag. Og athugasemd Simma um Mörð Árnason - fyrir ykkur sem heyrðuð hana, ætli það sé betra að syngja Vabbúvabba á frönsku en ensku?

Serbneska lagið hef ég heyrt nokkrum sinnum, líklega aðallega í útvarpi, og það er bara fínt.


Bikarinn aftur heim

Ari vann þennan fína farandbikar í fyrra, í íþróttakeppni Sóta, fyrir fimmgang og annan minni til eignar. Svo um daginn þurfti hann að skila honum af því þetta er jú ,,farand"bikar, nema hvað, bikarinn er kominn aftur heim, hann gerði sér lítið fyrir og vann aftur í fimmganginum. Hann og Paradís geta fagnað mjög í kvöld ;-) og ég get endurnýtt myndina frá í fyrra.

Bikarinn hans Ara


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband