Bloggfærslur mánaðarins, desember 2011

Lykilorð ársins 2011 var ,,fátækt" - hvað segir það okkur?

Bloggið mitt hefur verið í hægagangi þetta árið, en þó var ég með eina könnun gangandi allt árið og hún var um lykilorð ársins 2011. Það liggur fyrir hvað lesendum bloggsins þykir og mér finnst það sorglegt en skiljanlegt að ,,fátækt" skuli hafa verið flestum í huga, eða þriðjungi. Niðurstöður hér að neðan og svo er bara að hugsa upp nýja könnun og óska öllum betra árs framundan, þótt við ESB-andstæðingar séum ekkert sérlega kampakát nú um áramótin yfir stjórnvöldum, en með þeim mun meiri samkennd með þorra þjóðarinnar.

Hvert verður lykilorð ársins 2011?
 
Réttlæti 16,0%
Róstur 8,0%
Glundroði 10,0%
Gaman 18,0%
Samviska 4,0%
Sérviska 4,0%
Velmegun 2,0%
Fátækt 30,0%
Reddingar 8,0%

 


Snjórinn og skáldin

Fyrsti útvarpsþátturinn sem ég gerði, eftir dagskrárgerðarnámskeið fyrir ævalöngu, hét Snjórinn og skáldin. Mér finnst að skáldin eigi að bretta upp ermarnar og yrkja um þennan met-desembersnjó. Björgunarsveitarmenn steinsofandi á starfsstöðvunum örþreyttir eftir að hjálpa mis-skynsömum samborgurum, falleg ófærð, skafrenninurinn skrautlegi og ýmisleg önnur yrkisefni - af nógu er að taka. Og í skjóli jóla og ófærðar eru fullt af stjórnmálamönnum út um allt að taka fullt af ákvörðunum.

Jóla, jóla ...

Alltaf jafn gaman að fá jólin, þau koma hvernig sem stendur á. Stundum er einhver nákominn á sjúkrahúsi og stundum eru allir hressir og heilir. Jólastress er fúlt, jólastemning góð, jólalyktin fín og sum jólalögin ,,sökka" meðan önnur sindra. En þar sem jólin nálgast hef ég auðvitað engan tíma til að blogga meir ...

Tvær ólíkar svipmyndir frá Prag og Varsjá

Skrýtið hvað það er sem vekur ljóslifandi svipmyndir í huganum. Tvennt gerólíkt hefur verið að skjóta upp kollinum þessa dagana. Annars vegar fornbókaverslanirnar í Prag anno 1974, hins vegar anarkistaball í Varsjá kringum árið 2000. Það sem kom mér svo á óvart í Prag á sínum tíma var fjöldi þeirra bóka sem ég rakst á eftir íslenska höfunda á tékknesku í fornbókaverslunum í þessari fallegu borg. Og þar voru margir ólíkir höfundar í hillum, en mest var af Kristmanni Guðmundssyni og Gunnari Gunnarssyni, sem báðir skrifuðu á skandinavískum málum, en þarna voru fjölmargir aðrir, Laxness auðvitað og fjölmargir fleiri. Þessi minning skaut upp kollinum nú þegar Vigdís er að rifja upp að Václav Havel las íslenska bók í fangelsinu. Hún hélt, eftir lýsingu hans, að þetta hefði verið Gunnar Gunnarsson, en það reyndist vera Kristmann, einmitt höfundarnir sem ég sá mest af í Prag forðum.

Hin minningin er gerólík og vakin af allt öðru, þótt sömu helgi sé. Ég hef þegar getið um snilldarflutning Sigtryggs Baldurssonar á Rudolf á Baggalútstónleikunum á laugardagskvöldið. Í framhaldi hef ég verið að hlusta á alls konar trommutónlist, Bongo song með dönsku strákunum Safri Duo og L'Ombilico del Mondo með Jovanotti, ítölskum hipphoppara, friðarsinna með meiru (var meira að segja með Pavarotti á góðgerðartónleikum minnir mig). Og þá mundi ég allt í einu eftir anarkistaballi í Varsjá fyrir um það bil áratug, sem ég lenti á fyrir algera tilviljun, var eitthvað í bland við umhverfisverndarsinna og ESB-andstæðinga og fleira hugsjónafólk á slabbkenndum dögum í Varsjá. Í eldgömlu leikhúsi, sem minnti á ögn ofvaxið Gamla bíó var þetta frábærlega skemmtilega ball, þar sem heilu fjölskyldurnar voru mættar. Allt í einu fóru einn eða fleiri trommarar af stað og fengu með sér halarófu upp og niður breiða leikhússtigana og um alla ganga og svalir, strollan var ótrúlega löng og hress og þarna einhvers staðar vorum við Helen, sænsk vinkona mín sem á íslenskumælandi kærastann Jónas (vonandi enn, þar sem þau hafa síðan eignast son og kannski meir). Liggur við að ég heyri trommutaktinn enn!


Rudolf í alveg nýju ljósi

Baggalútstónleikarnir í kvöld enduðu á því að slá þeim í fyrra út. Þá er mikið sagt, því stemningin þá var ótrúleg. En það sem eftir á að hyggja er alveg lygilegt er innákoma Sigtryggs Baldurssonar á miðjum tónleikum. Óvæntir gestir svosem ekkert nýtt, en gamla Þeysaralagið Rudolf náði nýjum hæðum í flutningi Sigtryggs og Baggalúts og hinum nýja og óvænta texta um hefnd hreindýrsins!

Þá mega jólin koma fyrir mér ...

Þegar jólalögin hljóma eða dynja yfir, eftir því á hvaða útvarpsstöð er stillt, er alveg lygilegt hversu ólík lög rúmast innan þessarar skilgreiningar. Mér finnst Baggalútur og Sigurður Guðmundsson bera höfuð og herðar yfir annað sem flutt er fyrir þessi jól líkt og undanfarin jól. Nokkur klassísk lög eru ágæt, Ertha Kitt þar fremst með Santa Baby en í rauninni eru það Baggalútslögin - aðallega aðventulögin - sem hafa gert þennan flokk tónlistar bærilegan á ný. Eða hvort vill fólk heldur hlusta á í röð:

1: Jólahjól (sem var víst kjörið aðaljólalagið, úff), Nei, nei, ekki um jólin, Here comes Santa Claus ... 

eða

2: Þá mega jólin koma fyrir mér, Það koma vonandi jól og Saddur?

Engin spurning, ég er sátt við valkost nr. 2.

 


ESB og almannahagur, ný bitastæð bloggsíða

Allt frá því ég heyrði Pál Hannesson fjalla um málefni launafólks í samhengi við þróun ESB á fundi VG gegn ESB fyrir tveimur árum hef ég verið að vona að hann yrði virkur í umræðunni hér á landi, en hann var þá búsettur í Danmörku og upptekinn af störfum sínum þar. Nú er hann fluttur heim og farinn að skrifa og ég mæli eindregið með bloggsíðunni: ESB og almannahagur.

Fyrir þá sem ekki þekkja til Páls er hér smá kynning af bloggsíðunni:

Páll H. Hannesson er félagsfræðingur að mennt og hefur lengi starfað sem blaðamaður, m.a. á danska blaðinu Notat.dk sem sérhæfir sig í skrifum um ESB. Páll, sem fyrrum alþjóðafulltrúi BSRB til átta ára, er vel heima í samskiptum verkalýðsfélaga og ESB.


Nú birtir í bílunum lágu ... eða hvað? NýBÍLAvegur?

Börn eru dugleg að misskilja söngtexta. Þannig heyrði ég snemma af telpunni sem hélt að verið væri að tala um bíla en ekki býli í alþekktu sönglagi þar sem heyrðist: Nú birtir í býlunum lágu, en hún heyrði ekki ypsilonið og sá fyrir sér bíla.

Sama gerðist í morgunfréttunum, bæði hjá visir.is og ruv.is sem greindu frá árekstri á Nýbílavegi (þó ekki Níbílavegi). Greinilegt að hugur einhvers nútímafólks hvarflar að nýjum bílum en ekki nýbýlum í Kópavogi. Rétt að taka fram að mbl.is og dv.is könnuðust við Nýbýlaveg.

Þeir sem vilja skoða þetta nýyrði betur þurfa ef til vill að smella á myndirnar. Hver veit nema þessi ritháttur verði á endanum ofan á, þegar allir verða búnir að steingleyma því að eitt sinni hafi verið til nýbýli. Annað eins hefur gerst í málum í stöðugri þróun.

nybila1.jpg

nybilavegur2.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Og fyrir þá sem ekki þekkja ljóðið sem ég vitna til í upphafi þá fann ég þetta við leit á netinu og birti til skýringar fyrstu fjórar ljóðlínurnar:

,,Brynhildur Guðjónsdóttir var fjallkona 2004 og flutti hún ljóðið Vorvísur, 17. júní 1911, eftir Hannes Hafstein.


Vorvísur

Sjá roðann á hnjúkunum háu!
Nú hlýnar um strönd og dal,
nú birtir í býlunum lágu,
nú bráðna fannir í jöklasal."

 


Æpt í eyra og fleiri verslunarhremmingar og -glaðningar

Yfirleitt leiðist mér að versla. Í dag jafnvel enn meira en oft áður, það er greinilega skollin á einhver taugaveiklun vegna jólanna. Köttinn okkar vantaði rétta tegund af kattamat og sá rétti fannst ekki fyrr en í búð 2, þótt markvisst væri verslað. Álpaðist fyrst í Bónus í Kringlunni sem er svo þröng og fjölsótt að eflaust væri hægt að gera þar merkilegar félagsfræðitilraunir um hegðun fólks í of þröngu rými (vonda). Maðurinn sem öskraði á óþolandi barnið sitt í gegnum eyrun á mér og fleygði svo vagninum mínum burt, með bókinni úr Eymundsson, var toppurinn á tillitsleysinu. Hinn Bónusinn minn, vel geymt leyndarmál í Garðabæ, var hins vegar alveg eins og venjulega með afspyrnu þægilegu starfsfólki, góðu úrvali og olnbogarými og þar hitti ég ágætan félaga úr ESB-baráttunni og við tókum létt spjall án nokkurs stress, okkar eða annarra.

Svo þegar heim var komið lá fyrir tilboð um kvöldmat sem aldrei klikkar, þannig að leiðin lá í tvær aðrar búðir á stór-Álftanessvæðinu, Krónuna og Kaupfélagið (heitir núna Samkaup) og þaðan komin var innkaupalistinn alveg tæmdur og ég ætla að halda mér við mínar fyrri verslunarvenjur, að versla lítið eitt í einu á leiðinni heim og ekki á neinum æsingstímum.

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband