Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2010

Ábyrgðarhlutverk - og ábyrgðarleysi að sóa tíma, fé og orku í ESB-viðræður

Af hverju er ég svona tortryggin og hrædd um að einhverjir muni taka pólitíska eiginhagsmuni fram yfir þjóðarhagsmuni í þeim línudansi sem framundan er í samningaviðræðum um Icesave? Nú verður þessu máli að fara að lykta á ásættanlegan hátt og allir VERÐA að snúa bökum saman, ekki skora pólitískar keilur. Ég er svo sem enn við sama heygarðshornið að treysta mínu fólki, vinstri grænum, til að vera ekki í eiginhagsmunaleik og alls ekki að afla sér pólitískra vinsælda, enda leynir það sér ekki að þótt innan flokksins míns hafi verið talsverður ágreiningur um leiðir, þá er ekki verið að skara eld að eigin köku.

Svo virðist sem nokkur samstaða sé að komast áum að leiða þetta mál til þolanlegra lykta. Þetta mál heltekið alla umræðu og því miður tafið umbætur í samfélaginu, sem þola ekki frekari bið, fyrir suma er þetta reyndar allt of seint.

Þeim mun sárar svíður mér að horfa nú fram á tímasóun, svívirðilegan fjáraustur og orkusóun í ESB-aðildarviðræður sem enginn vill. En eins og kerlingin sagði: Það skal í ykkur helvítin ykkar!


Ögmundur, Álftanes og útrásarvíkingarnir ... og svo hún Guðfríður Lilja

Mikið er það gott að finna að þingmenn VG í kjördæminu okkar Álftnesinganna skoða okkar mál í skynsamlegu samhengi. Þetta hef ég heyrt með beinum hætti hjá Guðfríði Lilju og er henni mjög þakklát fyrir það og í dag einnig með óbeinum hætti er Ögmundur dró upp nöturlega mynd í útvarpsviðtali síðdegis. Þar lagði hann eftirfarandi staðreyndir á borðið sem ég lýsi með eigin orðum: Meðan verið er að djöflast í litlu sveitarfélagi sem sagt er skulda sjö milljarða, sem liklegar eru þó aðeins fjórir, þá er mulið undir útrásarvíkinga sem skulda hundruð milljarða, og ekkert virðist eiga að gera eða vera hægt að gera.

Jasvei!

Hér er tengill á viðtalið í síðdegisútvarpinu þar sem Ögmundur notar auðvitað eigið orðaval:

Síðdegisútvarpið 10/2/2010 

 


Lög sem verða fallega ósannfærandi

Einhvern tíma hef ég skilgreint (hluta af) tónlistarsmekk mínum á þann hátt að ég hefði dálæti á laglausum karlmönnum og greindarlegum stúlkum. Ekki þarf að fjölyrða um greindarlegu stúlkurnar, Björk, Susan Vega og núna seinast Láru Rúnars með lagið Honey, you are Gay, sem mér finnst alveg æði. En ég var að gera aðra uppgötvun varðandi laglausu karlmennina, þeir hafa einstakt ,,lag" á að syngja kraftmikil lög svo veiklulega að þau verða ósannfærandi en um leið eru sum þeirra alveg lygilega skemmtileg. Barði Jóhannsson söng ,,Stop in the Name of Love" þannig að það hefði ekki stoppað kjaft

og hljómsveitin Cake á heimsmet í ósannfærandi flutningi á laginu ,,Í will survive" og álitamál hvort hljómsveitin komst lifandi í gegnum flutning lagsins.

Góð helgarpæling.


Eftirsjá

Það er eftirsjá í Steingrími Hermannssyni. Sendi fjölskyldu hans samúðarkveðjur. Hann var á lokaspretti stjórnmálaferilsins og á tímabili var hann í starfi forsætisráðherra þegar ég kynntist honum. Ef ekki hefði verið fyrir fullkominn skort á hroka af hans hálfu, hefði ég eflaust lítið kynnst honum þá. Það var þó fyrst og fremst eftir að við bæði vorum hætt í hefðbundnum stjórnmálum að ég var svo lánsöm að kynnast Steingrími, bæði í stjórn Hollvinasamtaka Háskóla Íslands og þó ekki síst í stjórn Heimssýnar, en Steingrímur var einlægur andstæðingur aðilar Íslands að Evrópusambandinu. Það var einmitt á stjórnarfundi í vetur sem leiðir okkar lágu síðast saman og það leyndi sér ekki að heilsan var farin að versna en hann var samt á sinn hátt hress eins og ávallt. Mér finnst mikil eftirsjá í Steingrími.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband