Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2023

Safnararaunir

Við í vinnunni vorum að rifja upp í hádeginu safnararaunir okkar á barnsaldri. Sammála um að frímerkjasöfnun væri afskaplega leiðinleg. Mamma átti eina góð sögu frá því hún bjó í Englandi, þar sem einn þekktasti frímerkjasafnarinn átti að hafa setið við opinn glugga og skoðað safnið sitt þegar dyrnar voru opnaðar og dragsúgur myndaðist. Eftir það fór hann (víst) að safna gufuknúnum götuvölturum.

Reynsla og fjárhagur okkar vinnufélaganna var annars konar, en við hættum þessari iðju alla vega fljótt. Ég þó ekki fyrr en ég fékk mitt fáránlegasta sjokk í söfnuninni. Pabbi og Dolinda konan hans (svissnesk) bjuggu þá á Seyðisfirði og til þeirra kom ég á sumrin. Pabbi gat verið stríðinn en ekkert var fjær Dolindu en að atast í 10 ára barni, eins og ég var þá. Þess vegna gat ég bara ekki skilið þegar svona góð og grandvör kona var að reyna að gefa mér frímerki frá helvíti! Hún sem var meira að segja organisti í Seyðisfjarðarkirkju (sem ég held að hafi ekki verið orðin blá þá). 

zrj465tjt6eb3t9gmqotoogmg30u

Ef einhver skyldi deila þessum skilningi á uppruna þessa ágætis frímerkis með mér, þá er rétt að geta þess að þetta latneskta nafn er á öllum svissneskum frímerkjum. Hér er meira um það: Svissnesk frímerki 

Þetta var ekki í eina skiptið sem ég hafði alvarlegar athugsemdir að gera við hegðun fullorðins fólks gagnvart börnum. Þessa sögu segi ég oft og einhverjir þekkja hana, en ég var sem sagt pínulítil og rosalega lasin þegar einhver hávaxinn læknir reyndi að telja mér trú um að ég væri með rauða hunda! Við sem áttum ekki einu sinni kött þá. 

Áfram með safnararaunir. Mamma var mikill safnari og ég hélt mig lengi frá þeim sið, hélt ég. Á frímerkjasýningu vorið 1995 var mér boðið að sýna safn sem ég átti af smáskóm á alvöru-safnarasýningu og frétti síðar að ,,alvöru" söfnurum hefði sárnað að litlu, sætu skórnir mínir hefðu vakið svona mikla athygli en alvörusafnaranir minni. Var meira að segja boðuð í sjónvarpsviðtal eftir fréttir hjá Eiríki Jónssyni sem þá var enn starfandi við sjónvarpsstöð. Hann skildi ekkert í því hvað ég sá við þessa litlu, sætu skó, og ég ekkert hvers vegna hann skildi það ekki. Það var bara fyndið. 

2023-02-27_22-08-59

Enn kaupi ég eitt og eitt smá-skó-par, en ég er enginn safnari. Nei, nei, á bara nokkur hundruð myndir af bleikum húsum, eitthvað færra af Esjumyndum og kom með nokkrar litlar úlfaldastyttur frá Fuerteventura nýverið, en þær eru í hæsta lagi nokkrir tugir hér á heimilinu. Ekkert af þessu flokkast undir að vera ,,alvöru" safnari, svo mér er óhætt. 

unnamed (30)


Sýning Hildar Hákonardóttur og allar skátengingarnar

Loksins í dag dreif ég í að fara á stórmerka sýningu Hildar Hákonardóttur á Kjarvalsstöðum. Hef auðvitað fylgst grannt með Hildi frá því hún hóf sinn listaferil og hrifist af verkum hennar. Sýningin í dag bætti enn við þá upplifun.

hh1

Mér finnst það alltaf jafn merkilegt hvað mér finnst ég þekkja hana vel og tengjast, en í raun eru þessar tengingar ekki annað en skátengingar, ef grannt er skoðað. 

Það mikilvægasta er að mínu viti tvennt:

Annars vegar tengslin við Rauðsokkahreyfinguna, en þar var hún einmitt með mömmu í starfshópi um handavinnukennslu, en mamma var teiknikennari sem langaði að vera/verða smíðakennari og lét það draum rætast síðar. Meðfylgjandi myndir úr stórmerkri umfjöllun um Rauðsokkur í Samvinnunni 1.10. 1971 og sýna meðal annars hópinn þeirra. Á þessum tíma hélt ég að mamma og Hildur og allar Rauðsokkurnar mundu leysa málin fyrir okkur sem enn vorum bara í framhaldsskóla. Seinna skilgreindi ég mig líka sem Rauðsokku en ég starfaði ekkert með Hildi þá. Virkustu árin mín í kvennabaráttunni komu ekki fyrr en síðar. 

Hins vegar, og ekki síður, fór ég algerlega á mis við Hildi þegar hún tók við stjórn skólans míns, Myndlista- og handíðaskólans, ári eftir að ég hætti námi þar á miðri leið. Var mjög ósátt við afstöðu nýrra skólastjórnenda og sumra kennara eftir að Hörður Ágústsson hætti, til okkar sem voguðum okkur að vera líka í háskólanámi en sinntum báðum skólunum vel. Þegar ég frétti að Hildur hefði tekið við skólastjórn nagaði ég mig svo sannarlega í handarbökin fyrir að vera hætt í skólanum því ég var svo sannfærð um að hún hefði sýnt meiri víðsýni en sumir. Þá var það orðið of seint og ég staðráðin í að leggja myndlistina ekki fyrir mig, ákvörðun sem stóð í 4-5 ár en hefur síðan verið meira og minna ómark. Kom mér á óvart að sjá á veggjum sýningarinnar að hún hefði hætt eftir fjögurra ára starf vegna ágreinings um nýlistadeildina, en þegar ég fór að leita að upplýsingum fann ég í fljótu bragði bara leiðindi sem voru eftir að hún hætti, 1978. 

Það hefur auðvitað ekkert uppá sig að máta sig í löngu liðna atburðarás. Eitt enn veldur því þó að mér finnst ég alltaf þekkja Hildi betur en ég geri, og það er að við tengjumst fjölskylduböndum, og en og aftur er þar um skátengingu að ræða. 

Eftir ár að hyggja er ég þó fyrst og fremst þakklát Hildi fyrir list hennar og ævistarf í listum jafnt sem kvennabaráttu sem ég og fleiri hafa fengið að njóta.

Spyr mig samt stundum, ef það hefði ekki alltaf skakkað fáeinum árum að ég hefði notið leiðsagnar Hildar í tilverunni, hefði hún ekki einmitt orðið sú manneskja sem hefði breytt mikilvægum lífsákvörðunum? 

2023-02-25_23-13-27


Danskir skemmtistaðir, Le Carrousel og ,,pigtrådsmusik"

Þegar ég var unglingur langaði mig lifandis ósköp til London. Það var ,,borgin" og mig dreymdi um að dressa mig upp í Carnaby Street og Chelsea og sjá allar stórkostlegu hljómsveitirnar, Bítlana, Rolling Stones og allar hinar. Fyrsta sumarið sem ég fékk vinnu allt sumarið var þegar ég vann í prentsmiðju fimmtán ára gömul, 1967, í grámynstruðu ullarpilsi og nælonsokkum, því það var dress-code fyrir þann vinnustað, værir þú kvenkyns. Mér var ætlað að leysa af miðaldra konu sem auk þess að sortera hausverkjavekjandi sjálfkalkerandi kvittanir eldaði ofan í mennina. Á fjórða degi var ákveðið að þeir borðuðu á Aski. Þá hafði ég hitað ýsuna við lágan hita ósaltaða og saltað saltfiskinn hressilega daginn eftir. Samt var bara leiðinlegt. Um haustið stakk mamma uppá að ég skryppi í utanferð áður en skólinn byrjaði og ég færi í landspróf. Skoðaði möguleika á ferð til London, en hún kostaði átta þúsund kall en ferð með Gullfossi til Leith og Kaupmannahafnar, fullu fæði og sex daga stoppi í Kaupmannahöfn (búið um borð) bara fimm þúsund kall.

2023-02-24_21-14-16

Fimmtán ára pjakkur í prentsmiðju var ekki hálaunamanneskja svo ég fór til Kaupmannahafnar. Kynntist dóttur háseta um borð, ári eldri en ég, og sú kunni á djammið. Tívolí á daginn og á kvöldin fórum við á Le Carrousel við Axeltorv, rosalegan dans- og tónleikastað til klukkan fjögur, þá var haldið á leiðindastaðinn Exalon með dinnertónlist til fimm og loks á Jomfruburet sem alltaf virtist opið. Á Le Carrousel var sannkölluð 1967 stemning, ,,summer of love" náði til Kaupmannahafnar, en hinir staðirnir voru hrikalega ,,slísí" með kófdrukknu harðfullorðnu fólki, sumir eflaust komnir yfir þrítugt ef ekki fertugt. Ógeðslegir en við einhvern veginn komumst hjá öllu ógeði. Þetta var þegar ég kynnist  hugtakinu ,,pigtrådsmusik"/gaddavír sem sagt, en það var miklu meira af svífandi sækadelik tónlist þarna þetta haust. 

Hér er dásamleg upprifjun á dansstöðum Kaupmannahafnar á þessum tíma, og ég kannast við ótal margt: http://www.cykelkurt.com/musik/60-erne/spillesteder.html

Ég var samt farin að halda að mig hefði dreymt þennan stað, Le Carrousel, þótt ég hafi reyndar fundið hann aftur fyrir allmörgum árum í dulargervi risabíóhúss, sem hefur víst verið helsta hlutverk þessarar byggingar í liðlega hundrað ára sögu hennar. Og af því að ég er að fara í árshátíðarferð til Kaupmannahafnar í maí, þá hvarflaði andartak að mér að við værum að fara í rétt hús, en nei, það er næst eða næstnæst við, sjálfur Circus Schumann, sem ég fór í með mömmu þegar ég var sjö ára. Le Carrousel var vafin dýrðarljóma í mínum augum og þarna var allra besta tónlistin, sækadelic, bítlaleg og rokk af bestu gæðum. Þrátt fyrir lítið svið komu þangað margar helstu hljómsveitir ástarsumarsins og áranna í kring. Kaupmannahöfn var fínn staður fyrir bráðungar djammstelpur í stuttum pilsum sem vildu aðallega dansa og drukku ekki einu sinni áfengi, þá voru hipparnir bara á Nikolais Plads og við vorum hálf hræddar við þá á þessum tíma (Kristjanía varð til fyrr en 1971).

1931313_42373829673_7852_n

1931313_42373549673_6266_n

Flestir sem sóttu Le Carrousel þetta haustið voru á okkar aldri eða lítið eldri og voru eins og við bara að dansa og njóta þess að vera til. Hér að neðan set ég afrekaskrána (listamennina sem skemmtu þarna, smellið á myndina og þá er hún skarpari, vel þessi virði) en skelli líka inn smálegu af myndum sem ég hef fundið frá þessum dýrðarstað (sú skarpasta reyndar frá því nokkrum árum fyrr). Kaupmannahöfn er líklega sá staður þar sem ég hef átt hvað skemmtilegustu djammstundirnar, allt til tímans hjá Betware, sem er á þessari öld, en samt ... það var alltaf London. 

2023-02-24_19-19-03


Veður, andrúmsloft, stemning eða eitthvað allt annað

Á fimmtudögum hittumst við félagar úr Vatnslitafélaginu og málum saman. Í annríki dagsins er gott að eiga svona frátekinn tíma, en lengst af málaði ég mest af mínum myndum á vinnustofunni minni (pínulitlu) heima, og stundum lá reyndar meira og minna allt heimilið undir. Vatnslitur heillaði mig til að byrja með aðallega af því hann var svo miklu ,,nettari" en grafíkin og olían. Og vissulega getur það verið þannig, en fyrr en varir er þessi iðja farin að leggja undir sig æði mikið pláss. Hef betra pláss frátekið í húsinu okkar sem við erum að gera upp. Held að félagsskapurinn ráði því ekki að ég er að verða svolítið dramatískari en ég var í vatnslitamyndunum mínum. Aðferðin sem ég er að prófa mig áfram með býður einfaldlega upp á svolitlar sviptingar. Var farið að langa að skoða myndirnar mínar frá þessu ári (mestmegnis) í samhengi, þetta eru síður en svo allar, kaffihúsamyndirnar mínar frá Fuerteventura seldust jafnóðum, þar sem írska kaffistúlkan hún Erin var orðin umboðsmaður minn á öðrum degi (á hagstæðu verði af því við okrum ekki á vinum Erinar). Kallamyndirnar mínar eru líka meðfram öðrum í vinnslu, eftir 42 kvennamyndir tók ég til við kallamyndir og fullt af kynjum eftir. Það verður gaman. En smá dramatík, veður, andrúmsloft, stemning eða eitthvað allt annað. Sú nýjasta, frá í dag, er neðst til hægri og þar fyrir ofan ein vikugömul. 

 2023-02-23_23-26-29


Ekki bara börn sem klæða sig upp í búninga

Greina mátti ýmsar kynjaverur að skjótast á milli húsa í dag, öskudag. Það fylgir deginum núna í seinni tíð og áreiðanlega bara gaman að stússa í því. Foreldrar taka þátt í því af lífi og sál og oft ótrúlegri elju að uppfylla óskir barnanna. 

2021-07-18_23-39-41 (2)

Þegar foreldar mínir voru ungir hélt Magga ömmusystir mín að minnsta kosti einu sinni grímuball, líklega oftar því ég hef séð myndir bæði úr sal sem líklega hefur verið þegar hún var með heilsuræktina Hebu, en líka heiman frá ömmu, elstu systur hennar. Myndin sem hér fylgir er þaðan, og pabbi sá eini sem mér sýnist að hafi ekki borið við að vera í búning, en mamma, lengst til vinstri, var með. 

480495_4207469863459_954938823_n

Stundum er áskilinn einhver klæðnaður á vinnustöðum og hjá félögum, við Ari höfum mætt í einhverjum kúrekaklæðum á samkomur hjá hestamannafélaginu Sóta og ekki má gleyma bleiku dögunum á ótal vinnustöðum. Einn vinnustaður öðrum fremri var sá sem ég vann á árið 2014, en þar á bæ munu vinir mínir enn standa sig einstaklega vel kringum Eurovision. Þau eru enn öflug í því, svo ég held ég verði að fá að mæta aftur til þeirra í vor. Félagar mínir í Hamborg héldu að minnsta kosti tvisvar á ári föstudagssamkomur (beer-o-clock) með fataþema, og suðurhafsþemað var sérlega skemmtilegt. Já, það eru ekki bara krakkarnir sem kunna að kæða sig upp. 

20150605_205150 (2)


Í silfurbrúðkaupsferð til Egyptalands

Ein af eftirminnilegri ferðum sem ég hef farið í var silfurbrúðkaupsferðin okkar Ara til Hurghada í Egyptalandi snemmsumars 2005. Ferðin var stutt, bara vika, en alveg ógleymanleg og við vorum harðákveðin að skoða meira af þessari merkilegu menningu og umhverfi síðar. Það hefur dregist af ýmsum ástæðum. En ekkert getur skyggt á þá stórkostlegu upplifun sem þessi ferð var okkur Ara mínum, silfurbrúðkaupsferðinni sjálfri. 

Tímasetningar

Tímasetning ferðarinnar var líka forvitnileg. Við fórum nefnilega með danskri ferðaskrifstofu sem bauð upp á alveg ótrúlega hagstætt verð til Hurghada á þessum tíma. Í júní var það allt í lagi. Þann 30. september sama ár og æ síðan hefði það verið argasta óráð að fara með danskri ferðaskrifstofu til Egyptalands. Man einhver eftir Múhameðsmyndunum í Jyllandsposten? Alla vega ég. Þið sem ekki munið, hér er stutt en skýr samantekt.

Um myndir Jyllandsposten af Múhameð

Fleira var merkilegt við tímasetningu ferðarinnar. Við höfðum ekki mikið svigrúm fyrir frí á þessum árstíma og þar að auki var ég í fyrsta sinn í fimm ár ekki frjáls að taka frí sem ég bað um með góðum fyrirvara á þeim tíma sem mér hentaði. Vanþekking á tímaáætlunum (sem fara alltaf úr skorðum) og þörf til að sýna smá vald af hálfu annars ágæts samstarfsmanns olli því að ferðin var farin tveimur vikum ,,of seint". Hún var sem sagt ekki farin kringum silfurbrúðkaupið heldur tveimur vikum síðar og þá var líka hitinn í Egyptalandi var orðinn helst til mikill. Verstur var hann í Dal Konunganna um 45 stig.

nota1

Heppilega fáfróð í náttúrufræði

Við vorum á ágætu hóteli í útjaðri Hurghata og herbergið okkar var rétt við ströndina, yfir einn stíg að ganga beint í sandinn og í 10-20 metra fjarlægð var hið heiðbláa Rauðahaf. Einhverjar hvítar skellur voru í sandinum og enn fleiri í sjónum. Ég, sem er frekar mikil skræfa að eðlisfari, gekk hiklaust út í ylvolgan sjóinn og þessar skrýtnu skellur flutu allt um kring. Fáfræði mín sparaði mér miklar krókaleiðir, þetta voru skaðbrennandi marglyttur, en einhvern veginn slapp ég. Við busluðum eitthvað þarna í góða veðrinu og fórum líka um á hjólabát, sem var bráðskemmtilegt, framhjá í fjarska sigldu farskip og allt var mjög fallegt, en augljóslega tókum við myndavélina ekki með út á strönd, því engar finn ég myndirnar af þessum yndislega umhverfi, bara blómatrjánum nær aðalbyggingunni. Og þau eru keimlík alls staðar. 

IMG-2278

Til Luxor í lögreglufylgd

Þar sem ferðin var ekki löng gafst okkur ekki færi á að fara til Kaíró í þessari ferð, en Lúxor var innan seilingar. Hann Núbí í búðinni í götunni okkar kom okkur í mjög fína ferð þangað með egypskri ferðaskrifstofu og alveg skínandi góðum innlendum leiðsögumanni, fornleifafræðingi sem stefndi á að taka við stjórnartaumunum í Egyptalandi með tíð og tíma, því miður er hann ekki búinn að láta verða af því. Við lögðum af stað um sex-leytið um morguninn og á tilteknum stað söfnuðust saman 15-20 rútur sem fórum í kyrfilegri lögreglufylgd, löggan fremst og aftast með blikkljósum og látum og rúturnar næst þeim skiptust á að víxla akreinum til að blokkera möguleika annarra til að komast framhjá löggunni og inn í röðina. Þetta var hálfgerð Nesjavallaleið yfir berangur lengst af (3-4 tíma ferð hvora leið) en allt í einu opnaðist fyrir okkur sýn yfir Nílardalinn iðjagrænan.

nota4

 

Karnak, Dalur konunganna og sigling á Níl

Við skoðuðum Karnak fyrir hádegi og vorum alveg heilluð, en síðdegis var haldið í Dal drottninganna og Dal konunganna, og við ásamt einum Norðmanni völdum seinni dalinn, af því orðrómur var á kreiki um að honum yrði brátt lokað. Held að enn hafi ekki orðið af því. Flestir fóru í Dal drottninganna og þangað langar mig líka. Þrátt fyrir hrikalegan hita var sú ferð ofan í grafir og út um allt gríðarlega spennandi. Á eftir fórum við í siglingu á Níl, stutta, út í eyju þarna skammt undan, en það var ekki hægt annað en að prófa að sigla svolítið á Níl. Sama fyrirkomulag og lögreglufylgd var á bakaleiðinni og við komum örþreytt en rosalega ánægð úr ferðinni eftir 17 tíma úthald, staðráðin í að láta þetta ekki verða síðustu ferðina til Egyptalands. Síðan eru bráðum 18 ár og ýmislegt hefur gerst. En hver veit?


Dagur títuprjónanna og aðrir dagar í þessari viku

Heyri talsvert af samanburði milli ,,gamla" tímans (þegar ég var barn) og nútímans þessa dagana, saltkjötið var saltara, baunirnar lengur að mýkjast, bolluvendirnir meira notaðir og svo er það öskudagurinn, sem er orðinn að hrekkjavöku í Pollýönnubúningum (sem sagt enginn hryllingur) en var áður dagur títuprjónanna. Man reyndar eftir því að hafa heyrt um miðja síðustu öld af krökkunum á Akureyri sem voru að ,,slá köttinn úr tunnunni" í alls konar búningum og á siðurinn rætur sínar í svolítið sóðalegum, dönskum athöfnum sé þetta rétt: ,,Að slá köttinn úr tunnunni er gamall siður á Akureyri. Um er að ræða danskan sið sem hingað barst á 19. öld.  Upphaflega var haldinn sérstakur kattarslagsdagur, en seinna meir var þessi siður færður yfir á öskudag. Leikurinn var í upphafi í því fólginn að slá dauðan kött úr tunnu en með tímanum hvarf nú dauði kötturinn úr tunnunni og hrafn kom gjarnan í staðinn." (https://www.no.is/is/um-no/frettir/ad-sla-kottinn-ur-tunnunni)

2023-02-20_21-42-56

Hér fyrir sunnan beygðum við títuprjóna og saumuðum ótrúlega flotta öskupoka og laumuðumst svo aftan að blásaklaus fólki úti í bæ og hengdum öskupoka á það. Þeir sem höfðu bestu samböndin höfðu meira að segja aðgang að efnisprufum og gátu saumað öskupoka í öllum litum og mynstrum. Svo komu þessir óbeygjanlegu títuprjónar og allt var þetta til ónýtis og við tóku einhverjir skrípaleikir, sælgætissníkjur, búningar og misfagur söngur. Viðskiptahugmynd, sem kemur of seint: Af hverju fór enginn að framleiða bogna títuprjóna?  


Stormur - einstakir þættir sem bíða ekki í 38 ár eftir að tala um það sem gerðist

Horfi hugfangin á covid-þættina sem sýndir eru undir nafninu Stormur á RÚV þessar vikurnar. Ótrúlegt að fá að fylgjast með, eftir á, hvernig þessi undarlega atburðarás raunverulega var. Trúi því varla hversu örlátir íslensku þátttakendurnir í þessum stóra raunveruleikaþætti, sem dundi yfir heimsbyggðina, eru. Stundum litum við hjónin hvort á annað og trúðum því varla að við fengjum að vera með á þessum stundum.

2023-02-19_21-56-42

Held að skýringin hafi komið þegar Víðir sagði frá því að faðir hans hafi tekið þátt í björgunarstörfunum í Vestmannaeyjagosinu - og það liðu 38 ár þar til hann gat talað um þann tíma.  

 


Stórfjölskylda æskunnar

Oft grínast ég með það að ég sé einkabarn í móðurætt, sem satt er og rétt, og að ég hafi ekki kynnst stórfjölskyldu fyrr en ég giftist inn í eina slíka og um svipað leyti mynduðum við systkinin fjögur í föðurætt órjúfanlegan stórfjölskylduhóp. En þetta með að ég hafi ekki átt stjórfjölskyldu í æsku er bæði rétt og rangt. Rétt að því leyti að ég var eina barn mömmu og naut forréttinda einkabarnsins, eins og efni leyfðu en líka rangt að því leyti til að ég er alin upp í miklum fjölskyldufansi, það sé ég best þegar ég lít til baka. 

540863_4207573066039_117408840_n (2)

Til að byrja með var það aðallega móðuramma mín og unglingurinn Día móðursystir mín og svo föðurfjölskyldan með Betu frænku í broddi fylkingar og krakkaskarann hennar og dætur Henna frænda, sem ég tengdist mest. Við krakkarnir vorum öll á svipuðum aldri. Ef foreldrar fóru til útlanda þá tók fjölskyldan krakkann, mig, að sér. Veiga afasystir í móðurætt og svo Svala fóstursystir mömmu og hennar fjölskylda. 

vid skuli (2)

Þegar við fluttum á Álftanesið bjarta, þá var ég tólf ára, eignaðist ég fljótlega fóstursystkini úr fjölskyldunni, því það var vinsælt hjá krökkunum á mínum aldri og ögn yngri, að fá að fara út á Álftanes yfir helgar eða um lengri tíma á sumrin. Alltaf voru mamma og Ólafur fóstri minn tilbúin að taka á móti fósturbörnunum sínum, strákunum hennar Dúddýjar frænku og eldri börnum Magga frænda og stelpunum hennar Ellu frænku. Þegar ég var komin í menntó snerist þetta við, ég hálfpartinn flutti inn á Dúddý frænku, sem bjó í hagstæðri fjarlægð frá skólanum og var ótrúlega margar helgar hjá henni alla mína menntaskólatíð. Á daginn kíkti ég til Betu frænku því þar var litla systir mín. Strákarnir hennar Dúddýar, sem þegar voru heimavanir heima á Álftanesi, tóku mig strax inn í fjölskylduna, en mamma var tíður gestur á efri hæðinni hjá Ingu ömmu þeirra, sem var föðursystir hennar og vinkona. 

391284_4207454943086_478933713_n

Þetta rifjast upp fyrir mér þessa dagana, eftir fráfall eins af frændunum mínum, Dúddýjarsonum, ég var ekki bara að missa frænda heldur eiginlega líka fósturbróður eins og þegar bræður hans féllu frá, en einn þeirra var jafnaldri minn og leikfélagi í frumbernsku. Það var einhvern tíma í covid að við hittumst seinast þrjú saman á Kjarvalsstöðum, þá var hann fluttur til Spánar og bróðir hans á Selfoss, en við öll í bænum og áttum yndislegan dag saman að spjalla um allt það sem tengdi okkur fyrr og nú. Sambandið hefur aldrei slitnað og sömu sögu má segja um flesta jafnaldra mína úr stórfjölskyldunni sem ég þakka bara fyrir að hafa alist upp í. 


Með útþrá í blóðinu

Líklega hef ég alltaf haft mikla útþrá. Man eftir ótal atriðum úr æsku þar sem nöfn framandi landa, ólíkir siðir og umhverfi heilluðu mig. Þegar pabbi var að grínast í mér og sagði: Ung var ég gefin Njáli, eins og kellingin sagði! þá velti ég því bara fyrir mér hvaða Ungverji þetta væri. Játa það fúslega að ég lá í 1001 nótt en ekki Þjóðsögum Jóns Árnasonar þegar ég var lítil. Og ævintýralegi tölu-kassinn hennar mömmu innihélt snúar tölur sem voru magadansmeyjar, gylltar, mynstraðar voru herirnir og svo framvegis. Leggur og skel, afsakið! 

nota3

Útþráin liggur í ættum, ég fullyrði það. Ömmur mínar og afar ferðuðust ótrúlega mikið á fyrri hluta síðustu aldar og höfðu krakkana stundum með. Móðuramma og systur hennar áttu líklega metið, ekki bara að amma héldi sjötugsafmælið sitt í Amman í Jórdaníu og ekki í skipulagðri ferð frá Íslandi frekar en venjulega, heldur flakkaði hún víða um og hefði verið liðtæk á netinu, hefði hún lifað nógu lengi. Þess í stað fór hún út á Kastrup og keypti miða út í bláinn á síðustu stundu. Tvær systur hennar settust að á Nýja-Sjálandi og bjuggu þar áratugum saman en tvær ,,bara" í Danmörku. Það er varla tilviljun að fyrsta utanferðin mín var með mömmu og ömmu, önnur ekkja, hin nýskilin (við pabba), leiðin lá til Suður-Spánar sem þá var ekki túristabæli, og þar áttum við gott hálft ár. 

asninn (2)

Nokkur ferðalög mín eru minnisstæðari en önnur, hálfa árið á Spáni, sex-sjö ára, Englandsdvöl átján ára (líka hálft ár) og svo nokkrar styttri ferðir frá viku og upp í fimm vikur. Egyptaland, Kamerún, Kúba, Sikiley, allt staðir sem kannski bjóða bara upp á eina ferð á hvern stað. Í Evrópu hef ég sótt svolítið oft austur á bóginn, slavneska menningin heillar mig, suðrænn hiti fer vel með löngu brotið bak og svo er ég enn að kynnast nýjum stöðum. Norður-Ameríka kom mér á óvart en Bandaríkin heimsótti ég ekki fyrr en 1991 fyrst, og æ síðan kemur í hugann það sem Beta föðursystir mín sagði: Hvernig er Ameríka? Hvað viltu? 

unnamed (3)

Hnattferð með mömmu 1989 (5 vikur) um þrjú Asíulönd á leiðinni til Möggu frænku á Nýja-Sjálandi og um þrjár Suðurhafseyjar á bakaleiðinni. Nokkrum árum síðar Ástralía og aftur til Möggu frænku.

En í covid hugsaði ég: Og hvað svo ef ferðalög leggjast af? Þá á ég alltaf myndir og minningar. Skrapp svo nokkra túra í covid-pásum, en það er önnur saga. 

Sumir í tengdafjölskyldunni hafa slegið mig eftirminnilega út í ferðalögum út um allan heim, mesta furða hvað börnin okkar Ara míns hafa mikið jafnaðargeð. 

Myndirnar eru allar úr fjölskyldualbúminu, ekki ferðabæklingum. 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband