Í silfurbrúðkaupsferð til Egyptalands

Ein af eftirminnilegri ferðum sem ég hef farið í var silfurbrúðkaupsferðin okkar Ara til Hurghada í Egyptalandi snemmsumars 2005. Ferðin var stutt, bara vika, en alveg ógleymanleg og við vorum harðákveðin að skoða meira af þessari merkilegu menningu og umhverfi síðar. Það hefur dregist af ýmsum ástæðum. En ekkert getur skyggt á þá stórkostlegu upplifun sem þessi ferð var okkur Ara mínum, silfurbrúðkaupsferðinni sjálfri. 

Tímasetningar

Tímasetning ferðarinnar var líka forvitnileg. Við fórum nefnilega með danskri ferðaskrifstofu sem bauð upp á alveg ótrúlega hagstætt verð til Hurghada á þessum tíma. Í júní var það allt í lagi. Þann 30. september sama ár og æ síðan hefði það verið argasta óráð að fara með danskri ferðaskrifstofu til Egyptalands. Man einhver eftir Múhameðsmyndunum í Jyllandsposten? Alla vega ég. Þið sem ekki munið, hér er stutt en skýr samantekt.

Um myndir Jyllandsposten af Múhameð

Fleira var merkilegt við tímasetningu ferðarinnar. Við höfðum ekki mikið svigrúm fyrir frí á þessum árstíma og þar að auki var ég í fyrsta sinn í fimm ár ekki frjáls að taka frí sem ég bað um með góðum fyrirvara á þeim tíma sem mér hentaði. Vanþekking á tímaáætlunum (sem fara alltaf úr skorðum) og þörf til að sýna smá vald af hálfu annars ágæts samstarfsmanns olli því að ferðin var farin tveimur vikum ,,of seint". Hún var sem sagt ekki farin kringum silfurbrúðkaupið heldur tveimur vikum síðar og þá var líka hitinn í Egyptalandi var orðinn helst til mikill. Verstur var hann í Dal Konunganna um 45 stig.

nota1

Heppilega fáfróð í náttúrufræði

Við vorum á ágætu hóteli í útjaðri Hurghata og herbergið okkar var rétt við ströndina, yfir einn stíg að ganga beint í sandinn og í 10-20 metra fjarlægð var hið heiðbláa Rauðahaf. Einhverjar hvítar skellur voru í sandinum og enn fleiri í sjónum. Ég, sem er frekar mikil skræfa að eðlisfari, gekk hiklaust út í ylvolgan sjóinn og þessar skrýtnu skellur flutu allt um kring. Fáfræði mín sparaði mér miklar krókaleiðir, þetta voru skaðbrennandi marglyttur, en einhvern veginn slapp ég. Við busluðum eitthvað þarna í góða veðrinu og fórum líka um á hjólabát, sem var bráðskemmtilegt, framhjá í fjarska sigldu farskip og allt var mjög fallegt, en augljóslega tókum við myndavélina ekki með út á strönd, því engar finn ég myndirnar af þessum yndislega umhverfi, bara blómatrjánum nær aðalbyggingunni. Og þau eru keimlík alls staðar. 

IMG-2278

Til Luxor í lögreglufylgd

Þar sem ferðin var ekki löng gafst okkur ekki færi á að fara til Kaíró í þessari ferð, en Lúxor var innan seilingar. Hann Núbí í búðinni í götunni okkar kom okkur í mjög fína ferð þangað með egypskri ferðaskrifstofu og alveg skínandi góðum innlendum leiðsögumanni, fornleifafræðingi sem stefndi á að taka við stjórnartaumunum í Egyptalandi með tíð og tíma, því miður er hann ekki búinn að láta verða af því. Við lögðum af stað um sex-leytið um morguninn og á tilteknum stað söfnuðust saman 15-20 rútur sem fórum í kyrfilegri lögreglufylgd, löggan fremst og aftast með blikkljósum og látum og rúturnar næst þeim skiptust á að víxla akreinum til að blokkera möguleika annarra til að komast framhjá löggunni og inn í röðina. Þetta var hálfgerð Nesjavallaleið yfir berangur lengst af (3-4 tíma ferð hvora leið) en allt í einu opnaðist fyrir okkur sýn yfir Nílardalinn iðjagrænan.

nota4

 

Karnak, Dalur konunganna og sigling á Níl

Við skoðuðum Karnak fyrir hádegi og vorum alveg heilluð, en síðdegis var haldið í Dal drottninganna og Dal konunganna, og við ásamt einum Norðmanni völdum seinni dalinn, af því orðrómur var á kreiki um að honum yrði brátt lokað. Held að enn hafi ekki orðið af því. Flestir fóru í Dal drottninganna og þangað langar mig líka. Þrátt fyrir hrikalegan hita var sú ferð ofan í grafir og út um allt gríðarlega spennandi. Á eftir fórum við í siglingu á Níl, stutta, út í eyju þarna skammt undan, en það var ekki hægt annað en að prófa að sigla svolítið á Níl. Sama fyrirkomulag og lögreglufylgd var á bakaleiðinni og við komum örþreytt en rosalega ánægð úr ferðinni eftir 17 tíma úthald, staðráðin í að láta þetta ekki verða síðustu ferðina til Egyptalands. Síðan eru bráðum 18 ár og ýmislegt hefur gerst. En hver veit?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband