Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2023

Eiga ekki margir ,,sína" útgáfu af Englandi?

Íslendingar hafa löngum ferðast til Englands og Skotlands en það sem mér finnst skemmtilegt er hversu ólík upplifun landið er eftir því við hvern er talað. Þar, eins og annars staðar, finnst mér mest gaman að hverfa inn í mannfjöldann í stærri sem smærri borgum, hoppa upp í lest á einhvern nýjan eða gamalkunnan stað eða jafnvel að fara út í sveit. Sveitirnar í Englandi er óneitanlega friðsælar á svipinn og fallegar á rólyndislegan hátt. Skosku hálöndin Íslandslegri, þar til næsti kastali birtist. Ég hef farið í reiðtúr á hræðilega höstum og hávöxnum hesti um skógana í grennd við Aberdeen og spilað golf á 2-3 stöðum í Suður-Englandi. Seinni árin hef ég sótt svolítið í leikhús í London, en eftir að ég kláraði fermingarpeningana mína á Sauchiehall Street í Glasgow hef ég lítið stundað búðaráp í Englandi, kannski helst kíkt á einn og einn markað, eða einfaldlega í ákveðna búð til að kaupa eitthvað alveg fyrirfram ákveðið. 

IMG-0178 (2)

London er mikil uppáhaldsborg hjá mér, alltaf að fiska upp ný og áhugaverð hverfi þar. Og listasöfnin rokka. Suðurströndina þekki ég býsna vel og svæðið kringum Bristol, frá því foreldrar mínir bjuggu á svæðinu og líka þegar ég fór sem blaðamaður í bíltúr í nokkra daga um Suðvesturhluta Englands. Háskólaborgirnar Oxford og Cambridge hef ég á upphaldslista en líka margar aðrar fallegar borgir og svo tók ég kúrs í háskólanum í Lancaster og þá kíkti ég á Liverpool og Blackpool í leiðinni, í janúarkuldanum. Reyni alltaf, ef ég stoppa eitthvað í Englandi, að fara eitthvað á nýjar slóðir.

IMG-0011 (2)

Í haust kíkti ég í fyrsta sinn á Norwich (besta veðurspáin þann daginn) og varð ekki fyrir vonbrigðum. Á líka vini sem hafa farið í siglingar um árnar í Englandi, gönguferðir á víkingaslóðir í Skotlandi og á eyjunum, búið á Hjaltlandi, í hjarta London eða útborgunum, já bara út um allt. England er svo margt og nú þegar fólk er búið að hrista úr sér Brexit óttann (verð ekki vör við vesen við að ferðast þangað) þá heldur það eflaust áfram að sækja til þessa skemmtileg lands. 

IMG-9958 (2)


Óvænt fórnarlamb listaverkaþjófa

Fátt gleður geð okkar sem höfum lent í því að þrjótar hafa yfirtekið FB-aðgang okkar. Hef verið iðin við að birta myndir af nýjustu myndunum mínum á Facebook og einhverjar eldri myndir hafa ratað þar inn líka. Í þeirri hrinu sem nú gengur yfir verður samt að viðurkennast að ég fékk mjög óvænt skemmtilega athugasemd, þótt eflaust hefur hugsunin verið önnur: ,,Þú mátt þakka fyrir á meðan þeir fara ekki að selja myndirnar þínar!"

Þetta var einkum merkilegt í ljósi þess að þótt ég hafi hvorki ákveðið að gera myndlistina að ævistarfi mínu, þótt ég hafi sinnt henni vel, né áunnið mér einhverja frægð á því sviði, hef ég verið alveg ótrúlega vinsælt fórnarlamb listaverkaþjófa. Held að ,,mínir" listaverkaþjófar hafi ekki verið atvinnumenn, nema kannski þessi á Kaffi Rót, svo kannski er það ekki alltaf ábatavon sem ræður gjörðum heldur bara ánægja með verkin mín, hmmmm.

Kannski má rekja þessa tilhneigingu aftur til þess þegar sérhönnuðu lopapeysunum mínum var stolið úr bíl foreldra minna i Evrópu 1974, öðru var ekki stolið. En það var á árunum 1989 eða síðar sem þetta hófst svo ég vissi til, er uppáhaldsmynd var stolið úr geymslu vinkonu minnar, sem þá var flutt úr landi, en einhverjum öðrum verðmætum þyrmt. Svona áratug síðar hélt ég sýningu á Kaffi Rót í Hafnarstræti, þaðan var einni af kaffibollamyndunum mínum stolið af vegg.

bollar

 

Á annarri sýningu, fyrir um það bil áratug, á veitingahúsi í Borgartúni, hurfu 1-2 myndir þegar sýningin var tekin niður, þar á meðal meðfylgjandi mynd og þá snarpreiddist ég svo að á einhvern undarlegan hátt tókst að töfra þá mynd aftur til baka í mínar hendur. Nokkrar myndir hafa glatast í flutningum og öðru raski og umróti hjá vinum og ættingjum og þótt eitthvað annað hafi verið endurheimt, þá má segja að myndirnar eftir mig hafi aldrei verið meðal þess. Svo ég gat bara ekki annað en hlegið þegar hún Sigga vinkona mín sagði mér fyrir nokkrum mánuðum að myndinni hennar eftir mig hefði verið stolið, úr geymslu á Skólavörðustíg, ef ég man rétt. 

unnamed.rebbi

 


Betra seint en aldrei: Ég elska Krít

Þegar ég lagðist í almennilegt flakk á eigin vegum í fyrsta sinn uppúr tvítugu, fór ég um Mið- og Austur-Evrópu, það var einfaldlega ódýrast. Byrjaði í Frakklandi að heilsa uppá foreldra mína sem þá voru þar í námsleyfi, en tók svo lestina til Belgrad og dvaldi þar í viku. Það var svolítið erfið ákvörðun að ákveða hvort ég ætti að taka sjansinn á því að fara til Grikklands í framhaldinu eða taka nyrðri leiðina, Budapest, Prag og Krakow, sem varð niðurstaðan, þótt aldrei kæmist ég alla leið til Krakow, það er önnur og lengri saga. Átti nefnilega stefnumót við Gunnlaug frænda minn í Basel áður en ég lyki ferðinni í Kaupmannahöfn, og óneitanlega voru þessar borgir meira í leiðinni fyrir lestarferðalanginn mig. 

Það verður þó seint sagt að ég hafi ekki fengið hvatningu til að fara frekar til Grikklands. Franskar tvíburasystur, kennari og lögfræðingur, og kærasti annarrar þeirra, skopmyndateiknari, voru á gömlu druslunni sinni að koma frá Grikklandi og mærðu landið og landana. ,,Grikkir eru alltaf svona: :)" sögðu þær, en Júgóslavarnir svona :( . Mér var ekki skemmt, enda mikill aðdáandi Júgó. 

IMG_2210

Mig langaði samt alltaf til Grikklands, vissi af dvöl Leonards Cohen (BA-ritgerðin mín í bókmenntum var um ljóðin hans) á eyjunni Hydru og sá auðvitað landið og eyjarnar í hillingum eins og svo margir aðrir. Til að gera langa sögu stutta tók það nokkra áratugi fyrir mig að hrinda því í framkvæmd að heimsækja Grikkland, aðallega Krít (enn sem komið er, smá til Santorini og Þessaloniki líka).

IMG-0576

 

Upphaflega fór ég til Krítar í golf í nóvember 2016 og kynntist þar eggjabakkagolfholu. Fór fjórum sinnum til Krítar á þremur árum fyrir og í covid og í seinustu ferðinni hitti ég hana Tessu Papas, eitthvað ögn eldri konu en mig, sem hafði einmitt verið á Hydru ásamt Bill eiginmanni sínum (skopmyndateiknara, eins og Frakkinn í Belgrad forðum, en líka framúrskarandi vatnslitamálari -https://www.greecetravel.com/redapple/tribute.html) einmitt á tíma Cohens og Marianne. Og þau þekktu hann vel, einkum Bill, sagði Tessa. Hún gisti hjá henni Despoinu í gamla bænum í Chania um leið og ég og var sérlega geðfelld kona, sem þekkti alla á svæðinu og keypti sér hús í grenndinni áður en dvöl okkar í Chania lauk.

Backgammon

Cohen hitti ég hins vegar á annarri eyju, Íslandi, 1988. Nokkrir félagar mínir gerðu sér ferð til Hydru á ,,réttum" tíma, en ég gleymdi að spyrja Tessu hvort hún hefðir hitt Íslendinga þar. Við töluðum aðallega um hesta og tónlist og ég sýndi henni myndir af hestunum hans Ara og fleiri íslenskum hestum. 

IMG_5902


Gran Canaria er aðeins öðru vísi í fjallshlíðinni

Mér datt það í hug fyrir fjórum árum að það gæti verið bráðsnjallt að gista einhvern tíma í ,,þorpunum" eins og fararstjóri Heimsferða kallaði bæina ofan við flugvöllinn, Agüimes og Ingenio, einhverju sinni. Var þá á leið frá vellinum til Hildu skáfrænku minnar í kaffi, en hélt þá aðallega til á Fuerteventura. Leiðin lá um svo fallegar, spánskar, götur að ásetningur varð til. Eftir á að hyggja sé ég að hin eiginlegu þorp eru sennilega mun ofar í fjallinu en strætóleiðin sem ég fór. Til að staðsetja þau þá er alla vega Ingenio á leiðinni þangað sem Íslendingar fóru löngum til að borða í hellum og gera kannski enn. Miðbær Ingenio er í meira en 300 hæð yfir sjó og ég slæ á það, ekkert mjög ábyrgðarlaust, eftir að hafa stikað þar margar brekkur, að kirkjan sé allt að 100 metrum ofar, en hæst nær sveitarfélagið um 1200 metra yfir sjó. 

IMG-1636

Fyrir skemmstu gisti ég rétt hjá nefndri (fallegri) kirkju og má með sanni segja að það var ólík upplifun þeirri sem ég er vönust á þessari góðu eyju, þar sem Playa del Inglés hefur yfirleitt verið aðsetur minn á flakki þangað.

Rápaði um fallegar, brattar götur eftir vinnu á daginn og naut verunnar þar. Stoppaði í verslun sem selur ekkert nema góðar vörur af svæðinu.

IMG-1618 (2)

Fékk mér ost og kaffi heima á gististaðinn góða, Casa Verde, sem er í hliðargötu ekki auðfundinni. Það var samt ekki þess vegna sem leigubílstjórinn, sem átti að sækja mig kl. 13 á laugardegi og hafa mig með á flugvöllinn, mætti seint, illa eða ekki. Þegar þar var komið sögu voru gestgjafar mínir, Marek og Magdalena, búin að taka málin í sínar hendur, báru í mig kaffi að skilnaði og mér var skutlað niðureftir.

IMG-1645 (2)

Á leiðinni sagði Marek mér meðal annars að í Ingenio væri heitasti staður eyjunnar á sumrin, en ögn kaldara er þar á veturna en á ensku ströndinni. Og hvers vegna sækja leigubílstjórar ekki saklaust fólk um helgar? Jú, rétt eins og leigubílstjórnarnir á La Palma segja blákalt að þeir sæki fólk ekki um nætur, þá bara líkar þeim ekki þessi vinnutími. Betra væri auðvitað að vita það og geta lagt af stað eftir þröngum götum niður brekkur, þar sem sums staðar eru þröngar gangstéttir eða öngvar. Í fyllingu tímans finnst strætóstoppustöðin góða, en það kannaði ég með dags fyrirvara (og komst að þeirri niðurstöðu að tryggara væri að taka bíl, ,,einmitt"). Sem sagt sama leigubílamenning og á La Palma, nema þar er látið vita af því fyrirfram að leigubílstjórum detti ekki í hug að sækja fólk nema á hagstæðustu tímum.

IMG-1687 (2)


Útsýni til Esjunnar

Fyrir sjö árum fékk ég af tilviljun sæti við glugga í þáverandi vinnu, með glæsilegu útsýni til Esjunnar. Hún var aldrei eins, stundum umvafin sólargeislum, stundum grá og guggin, dramatísk, litrík, svarthvít en alltaf falleg. Síðan hef ég ekki hætt að taka myndir af henni. Í vinnunni minni núna er ég með Esjusýn úr glugganum fyrir aftan mig en sumir sjá bara stórhýsi og byggingakrana í þeim myndum, ég sé bara Esjuna. 

IMG-1434

Á leiðinni heim á Álfanesið eru margir, fallegir Esjuútsýnisstaðir og mér er sérstaklega gjarnt að stoppa á strætóstöð rétt eftir hringtorgið, einhverja metra inn á Norðurnesið og ná þessar fallegu línu sem stór skurður í landi Bessastaða, rétt við landamerkin við Eyvindarstaði, myndar. 

IMG-1510

Nýjasta myndin mín er tekið síðastliðinn fimmtudag þegar ég var á leið af ráðstefnu á Suðurlandsbraut og vestur í bæ að hitta systur mínar á Kaffi Vest. 

IMG-2187

Þau hundruð mynda sem ég á af Esjunni í ýmsum búningum rata kannski einhvern tíma á sýningu, eins og myndirnar af bleiku húsunum sem ég hef tekið um árabil og hvergi nærri hætt. En í þetta sinn bara myndir fá þessu ári, hún hefur ekki alltaf verið alhvít á árinu, þótt ætla megi það. Og ég fer greinilega oftar til Reykjavíkur en ég hélt. 

IMG-1150


Lifað í fortíðinni, nútíðinni og framtíðinni

Sagnfræðingar hljóta eðli málsins að lifa í fortíðinni, það er mjög erfitt að fjalla um nútíðina af nokkru viti fyrr en hún er orðin fortíð. Elska alltaf bók sem ég keypti mér fyrir laun sem ég fékk fyrir erindi á ráðstefnu í Noregi 2009. Við fengum öll inneign í bókabúð og ég féll, aðallega fyrir bókatitlinum: Fortida er ikke hva den en gang var. Bókin er líka góð. Fékk mér líka smá skammt af Jo Nesbö, svo ég gæti gleymt stund og stað. 

Samt sem áður hef ég alltaf verið æði gjörn á að lifa í framtíðinni, ekki bara að skipuleggja komandi ferðalög, en það er ein birtingarmyndin. Kannski þess vegna sem ég ákvað um miðjan aldur að gerast tölvunarfræðingur, og sérhæfa mig í því sem þá hét Ubiqitous computing, Ubicomp (lokaverkefnið 2008), núna er Internet of things náskylt því öllu, en Ubicomp líklega hluti af fortíðinni, þótt það fjallaði þá um framtíðina. 

2023-02-11_09-56-58

Meðan ég nennti ekki að bíða eftir framtíðinni, og hafði ekki pening til að fjárfesta í því flottasta í nútíðinni, lítilli Toshiba ferðatölvu, anno 1989, leysti ég það snilldarlega með kaupum á 13 kg ferðatölvu (með batteríum), það er að segja, hún gat ferðast með mér, en fátt annað. Einungis til Íslandsbrúks. Tvö 5.25 tommu drif, annað ræsti hana og réð við einfalda vinnslu hitt með gögnunum. Tifalt ódýrari en Toshiban, sem var keimlík núverandi fartölvum.

download (1)  

Nútíðin hefur orðið sterkari í tilverunni að undanförnu, það myndlistarvafstur sem ég stend í er nefnilega rosalega tengt nútíðinni, sjálfsagt er það argasta núvitund að gleyma stund og stað og vatnslita, ein eða í góðs fólks hópi. Á Tjarnarbúðarárum mínum voru villtar danslotur af sama toga, eitthvert tímalaust andartak í nútíðinni. Það er auðvelt að gleyma sér við slíkar aðstæður og þótt ég hafi ekki kynnt mér nein nútvitunarfræði, ímynda ég mér að hún (núvitundin) sé eitthvað í þessum dúr. 

Á aldinn vin sem kíkir stundum í spil (bara einu sinni fyrir mig). Hann skoðar fortíðina í nútíðinni og nútíðina í framtíðinni og ýmsar samsetningar þessara tíða allra saman, fyrir barnabörnmin. Framsýnn maður með sterka tengingu við fortíðina. 

Og svona til þess að staðfesta orð mín, var ég að vista þessa færslu og birta. Svona kom dagsetningin út: 

2023-02-11_10-09-08

 


Öðruvísi Kanarí - La Palma - fyrir gos

Lítil og falleg eyja, sú norðvestasta af Kanaríeyjunum, heitir La Palma. Hún komst heldur betur í fréttirnar þegar þar varð hrikalegt eldgos haustið 2021. Reyndar hefur lengi verið á kreiki tilgáta um að í vondum jarðskjálftum eða eldgosi kynni vesturhluti eyjarinnar að hrynja í sjó, þetta er jú brattasta eyja heims, eftir því sem sögur segja. Þá atburðarás hafði ég sem undirtón í hluta af því plotti sem ég byggði fyrstu glæpasöguna mína, Mannavillt á, en hvernig mun ég ekki segja frekar frá hér. Sú bók kom út meira en hálfu ári áður en gosið varð, en ég fór um þær slóðir þar sem gaus, það er einmitt landslagsmyndin sem fylgir þessu bloggi, tekin út um rútuglugga, sem sýnir svæði sem nú er komið undir hraun.

IMG-1726

Fékk þessa fínu ástæðu til að fara til eyjarinnar vorið 2019 til að festa betur ýmis atriði í atburðarás bókarinnar. Mæli eindregið með ferð þangað, hvort sem þið eruð útivistargarpar sem viljið skoða einhverjar af hinum fjölmörgu gönguleiðum eyjarinnar, eða bæjarráparar, eins og ég, sem reynið að njóta fallegs bæjarumhverfis, kaffihúsa og mannlífs í áfangastöðum sem á vegi verða. 

IMG-1750

Google maps var annars býsna góð leið til að undirbúa þessa ferð, því ég rakst á æðislegt blátt hús og annað grænt við hlið þess í Los Llanos de Aridane sem ég mátti til með að elta uppi og úr varð mjög skemmtileg ferð yfir háu fjöllin sem skilja að austurströndina, með höfuðborginni Santa Cruz de La Palma, þar sem ég var rétt hjá ferjuhöfninni, og vesturströndina þar sem Los Llanos er, en sá bær er mun líflegri en Santa Cruz. Leiðin lá um bæ sem nú er þakinn hrauni, en þegar ég fór hringferð um suðurhluta eyjarinnar, þá fórum við yfir veg sem lenti undir hrauni og var lengi vel ófær, held hann sé kominn í gagnið núna. 

56161891_10218909860515964_8952893065480110080_n

 

Það er auðvelt að komast með ferju frá Los Cristianos til La Palma og ferðin tekur +/- 3 tíma, mín ferja stoppaði í La Gomera án þess að það væri sérstaklega tilgreint, svo mér datt andartak í hug að ég hefði farið í vitlausa ferju, en svo hélt hún áfram. Komið var um miðja nótt og ég tók bíl í áfangastað sem var nálægt höfninni, sem var eins gott, því þegar ég hringdi á bíl til að taka mig til baka á ferjuna viku seinna, þá hló sú á stöðunni rosalega og sagði: Það er ekki hægt að panta bíl á nóttunni. Í mildri vornóttinni gekk ég því með mitt (létta og takmarkaða) hafurtask út í ferju og prísaði mig sæla fyrir valið á gististaðnum. 

IMG-1556 (2)

 


Ha- ferðaráð

Þið ráðið alveg hvort til skiljið þetta ,,ha-" sem hagnýt ferðaráð eða hallærisleg ferðaráð, en þið finnið mín ráð ekki hvar sem er.

Sam-kuldaskræfur sem ferðast bara með handfarangur eins og ég geri yfirleitt. Þið þurfið kannski alls ekki að láta litla ferðablástursofninn taka helminginn af plássinu í stærri handtöskunni ykkar. Á flestum gististöðum eru hárþurrkur. Merkilegt hvað þær geta vermt loppnar lúkur. 

AHD-B--scaled

Buxurnar orðnar þreytulegar? Langar þig að kaupa nýjar en hefur ekki pláss? Hvað með fallega, litla, (löglega fenginn) steininn sem þú fannst á ströndinni? Ekkert mál, póstleggið bara umframfarangur sem ykkur liggur ekkert á og er ekki allt of annt um, hann kemur heim fyrr eða síðar. Mjög líklega. En ætlið góðan tíma í pósthúsheimsóknina.

Fötin í töskunni: Upprúlluð eða samanbrotin? Ef plássið er lítið er best að rúlla þeim fast saman. Annars bara: Hverjum er ekki sama? Svo er alltaf hægt að hafa með 1-2 lofttæmipoka. Stelpurnar sem ryksuga á hótelunum eru ótrúlega liðlegar að leyfa þér að lofttæma pokana með fyrirferðarfötunum. Þetta ráð dugar vel í Bretlandi, víða vestan hafs, í Asíu en síður í flísalögum sólarlöndum. En þar þarf ekki mikið af fötum hvort sem er. 

Þótt það sé hægt að nýta öll 15 kílóin sem sum flugfélög leyfa stærri handfarangurstöskunni að vega, þá er frekar fúlt að rölta upp tröppurnar í landganginum, ef þið lendið í þannig aðstæðum úti á flugvelli. 

Fötin eitthvað krumpuð? Allt í lagi að loka vel að sér þegar farið er í heitt bað eða sturtu á hóteli sem ekki hefur straugræjur. Muna að hengja fötin sem á að gufupressa vel upp áður en gufan sest á spegilinn og í fötin. 

2023-02-07_20-06-03

Gott að ferðast með bönd sem krækjast yfir efri töskuna ykkar ef þíð eruð ekki með bakpoka sem smellur yfir útdregna handfangið á neðri töskunni. 

Lásuð þið Heiðu í æsku? Þegar vonda móðursystirin lét Heiðu klæðast hverri flíkinni yfir aðra í göngunni upp fjallið til Fjalla-frænda. Auðvitað í sjóðandi hita. Tvennt mælir með því að vera í nokkrum lögum af fötum. Mannúðlegri aðferð til að láta þyngdina á þeim dreifast og fer betur með bakið en að lyfta þeim í ferðatösku. Hnepptu, hlýrri peysunni má hnýta um mittið og jafnvel úlpu ef þarf. Svo er alveg ótrúlega oft mishlýtt/-kalt í flugi og í áfangastöðum. 

0000572077

Síðast en ekki síst: Það er ekki alltaf hægt að treysta á að nettenging sé til staðar og stundum getur batteríið á símanum meira að segja verið tæpt. Ef ég er að koma á nýjan stað reyni ég oftast að muna nafnið á hótelinu og helst leiðina þangað líka. Það hefur komið sér vel. Batterísmál geta verið erfiðari. Í upphafi ferðar er ég oft með útprentað sett af öllu því helsta, svo er það hleðslusnúran góða og þrautalending að fara í röðina til að tékka sig inn á flugvelli. 

 

 

 


Og víkur þá sögunni að glæp(asögum) - Höskuldarviðvörun

,,Ekki vissi ég að þú værir svona bloody minded," sagði einn vinur minn þegar hann var búinn að lesa Mannavillt, fyrstu útgefnu glæpasöguna mína. Sagan er að vísu gersamlega blóðdropalaus (hélt ég), en engu að síður mun meinlausari en hún hefði orðið ef upprunaleg gerð hennar hefði fengið að ráða. Yfirlesarar, bæði af hálfu útgefanda og mínir eigin ráðlögðu mér eindregið að fækka fórnarlömbunum til muna. ,,Maður verður að geta munað nöfnin á öllum sem eru drepnir," voru rökin sem sannfærðu mig loks. 

unnamed

Nú eru tvö ár frá því Mannavillt kom út og enn er nýtt fólk að lesa hana og bók númer tvö, Óvissu, sem út kom síðastliðið vor. Óvissa er að því leyti mjög ólík að helstu glæpirnir eru ekki endilega morð, þótt ekki lifi allir af. Það var gaman að setjast í pallborð með fleiri glæpasagnahöfundum núna fyrir jólin og finna, það sem ég vissi, að mínar bækur eru mjög frábrugðnar þeirra og jafnvel letilegar á köflum. Eins og mér finnst lífið stundum vera. Mér er það vel ljóst að ég skrifa fyrir þá sem hafa gaman af að lesa bækur eins og mínar, og þykir gaman að hafa eignast hóp dyggra lesenda, en ég vissi það alltaf að ég yrði ekki allra. Það sem mér finnst samt merkilegast er að plottið er áratuga gamalt að stofni til, þegar ég var að skrifa mína fyrstu skáldsögu: Tvískinnung (lesin í útvarp um eða uppúr 1980) þá sagði Ari minn að ég ætti endilega að skrifa um ákveðna hugmynd, en að skrifa heila bók í kringum hana tók sinn tíma. 

Þriðja glæpasagan mín er langt komin, stundum finnst mér hún vera næstum fullbúin í fyrstu gerð, en oft þykir mér ég komin skemmra. Hún mun bara taka þann tíma sem hún tekur. Hún verður að mörgu leyti frábrugðin hinum, ég keyrði upp letilega tempóið og langar að leyfa mínu fólki að höndla það. 

Hvað rekur fólk til að skrifa glæpasögur? Mér finnst gaman að skrifa, hef haft af því atvinnu og ánægju lengst af starfsævina og skrifaði reyndar fyrstu glæpasöguna mína þegar ég var 12 ára. Hana las bara ein æskuvinkona mín, hún Amalía, og hvatti mig áfram. Þá teiknaði ég reyndar myndirnar fyrst, áður en ég skrifaði textann. Svo kom næstum sex áratuga hlé og nú hef ég tekið upp þráðinn. Fjórða bókin er fædd í kollinum á mér, en eins og í öllu, þá er ekkert á vísan að róa. 

Höskuldarviðvörun:

Úr Mannavillt: 

Skyttan hafði komið sér fyrir við barð rétt fyrir ofan bílinn og það leyndi sér ekki hvert erindið var. Hún sá appelsínugula jakkann á löngu færi þótt Gabríel væri búinn að henda sér niður milli þúfna þegar hún kom að. Hún hugsaði sig ekki um tvisvar heldur æddi að skotmanninum og reyndi að yfirbuga hann með svissneska vasahnífnum sem hún var alltaf með í vasanum. Þetta var þriðja kynslóð slíkra hnífa í hennar eigu, hinir höfðu verið hirtir af henni í vopnaleit á flugvöllum. – Ég náði alla vega að særa helvítið, sagði hún óðamála, sá svissneski náði alla vega að rispa hann nóg til að honum blæddi. Við ættum að tékka hvort eitthvert blóð fór niður í þúfurnar þarna eða á hnífinn. Þá væri hægt að keyra DNA rannsókn á lífssýnum úr árásarmanninum.

Úr Óvissu: 

– Getum við eitthvað gert með þessa kafbátakenningu? Var kafbáturinn farartæki eingöngu, og þá hvert? Í skip, annan kafbát, annað land, flugvél? Í hvaða tilgangi og hvers vegna? Er hann vinnutæki fyrir Tómas, er hann búinn að flækja sér í eitthvert njósnadæmi? Hann er auðvitað ágætlega fróður um hafið kringum Ísland, svona almennt talað, með fróðari mönnum á því sviði. En ætli það sé ekki hægt að stunda njósnir kringum landið án hjálpar Tómasar? Er hann blandaður í eitthvað annað misjafnt? Kjarnorkuvopn? Smygl? Hlerunarbúnað? Gullleit? Náttúruhryðjuverk? Eða fæst hann við eitthvað stálheiðarlegt um borð í skipi eða kafbáti? Þau flissuðu bæði yfir þessu seinasta. – Best taka þann möguleika út fyrir svigann til að byrja með, sagði Linda Lilja.

– Þetta með kjarnorkuvopnin er það sem kemur alltaf upp aftur og aftur, sagði Gabríel. – Áreiðanlega þráður sem við þurfum að elta, meira að segja á okkar tímum.

(Þetta síðasta var skrifað og gerist fyrir Úkraínustríðið). 

 


Guernica og dilkadráttur

Ferðalögin mín í seinni tíð eru orðin meira og minna myndlistartengd, og hafa lengst af verið það, sé ég þegar ég lít yfir fyrri ferðir. Pílagrímsferð á slóðir hellamálverka, langþráður masterclass í vatnslitum, svo ég nefni það elsta sem kemur í hugann og eitt af því nýjasta. 

IMG-2067 (2)

Hef bara einu sinni komið til Madrid og þá var ég sjö ára, stoppaði þar einn dag í háhitabylgju, fékk kannski snert af sólsting og sá spánska dansa. Árið var 1959. Löngu kominn tími á aðra ferð, og nú skal Guernica skoðuð. Ég hef alltaf verið svolítið skeptísk á það að alltaf sé nauðsynlegt að sjá frummyndirnar, man vonbrigðin þegar ég sá Monu Lisu í fyrra skiptið, þá líka sjö ára, fannst hún lítil og röðin löng. En svo tókst Ara, einhvern tíma á þessari öld, að lokka mig að myndinni er við áttum leið um París og ég féll í stafi. 

IMG-9853 (2)

Vatnaliljur Monets voru miklu stærra verk en ég hélt þegar ég sá þær 1991 og ég var yfirkomin af áhrifunum. Sömuleiðis var ég yfirkomin af hrifingu að ,,ganga inn í" verk eftir Corneliu Parker í haust í Tate Britain. Var þá á leið í Tate Modern að sjá draumasýningu á verkum Yayoi Kusama, verð aldrei söm. Ég gæti rifjað upp ótal svona dæmi. En um leið er gamall anarkisti í mér að bylta sér svolítið. Almennt pirrar dilkadráttur mig, en það á ekki við þegar ég sé það sem mér finnst góð myndlist eða vond myndlist. Í þá dilka má greinilega draga, eða hvað? Sá skúlptúr um daginn sem má annað hvort sjá sem útúrsnúning eða hyllingu á Guernica. Í litlum garði aftan við verslunarmiðstöð í Fuerteventura (sjá seinasta blogg). Og mér fannst hún flott, en eflaust fussa einhverjir yfir svona vanhelgun á alvöru-verkinu. 

IMG-0222 (2)

Fussarar heimsins eru margir og fáir hæfileikaríkari í að draga í dilka. Hér með hef ég dregið þá í óþolandi-dilkinn minn. Óvíða er annar eins dilkadráttur og einmitt kringum listir. Skemmti mér yfir að hneyksla bandaríska(r) vinkonu(r) stóru systur og segja frá hrifingu minni á rómantískum gamanmyndum! Þar er ekki átt við Angst isst dem Seele auf, eftir Fassbinder, sem ég tel eina slíka. 

Um daginn var ég, sem eitt sinn var grænmetisæta (svo langt síðan að ekki voru til fínni orð fyrir svoleiðis lagað en þetta) dregin í dilk. Bendi á hversu vel orðalagið passar. Ætlaði að finna mér gott kaffihús í stuttu göngufæri meðan bíllinn minn færi í tölvuyfirlestur. Fann eitt spennandi, en æ-i nei, það var fyrir aðra dilka en mig. Ekki sjans að fá latté með kúamjólk þar. Mér fannst ég svo hræðilega óvelkomin að það var eiginlega átakanlegt. Ekki minn dilkur. Það er skárra í hina áttina, eins og þegar við Ari minn fórum á þorrablót árið þegar við vorum bæði grænmetisætur! 

IMG-0775

Þegar ég var 22 ára, 1974, dró ég mig sjálfa í dilk. Ég ætlaði alls ekki að verða myndlistarkona, þótt ég hefði varið nær tveimur vetrum í fullt nám í Myndlista- og handíðaskólanum. Sagnfræðingur ætlaði ég að verða og varð, en endaði sem tölvunarfræðingur, sem hefur verið aðalstarfið í tvo áratugi. Slapp ég undan því að verða myndlistarkona? Ónei, ekki aldeilis. Þegar ég kíki á Guernicu eftir um það bil mánuð verð ég á leið að taka þátt í minni fyrstu alþjóðlegu vatnslitasýningu í Córdoba. Einhver anarkisti hefur greinilega verið að dunda sér við að opna öll hlið milli allra dilka í minni rétt. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband