Með útþrá í blóðinu

Líklega hef ég alltaf haft mikla útþrá. Man eftir ótal atriðum úr æsku þar sem nöfn framandi landa, ólíkir siðir og umhverfi heilluðu mig. Þegar pabbi var að grínast í mér og sagði: Ung var ég gefin Njáli, eins og kellingin sagði! þá velti ég því bara fyrir mér hvaða Ungverji þetta væri. Játa það fúslega að ég lá í 1001 nótt en ekki Þjóðsögum Jóns Árnasonar þegar ég var lítil. Og ævintýralegi tölu-kassinn hennar mömmu innihélt snúar tölur sem voru magadansmeyjar, gylltar, mynstraðar voru herirnir og svo framvegis. Leggur og skel, afsakið! 

nota3

Útþráin liggur í ættum, ég fullyrði það. Ömmur mínar og afar ferðuðust ótrúlega mikið á fyrri hluta síðustu aldar og höfðu krakkana stundum með. Móðuramma og systur hennar áttu líklega metið, ekki bara að amma héldi sjötugsafmælið sitt í Amman í Jórdaníu og ekki í skipulagðri ferð frá Íslandi frekar en venjulega, heldur flakkaði hún víða um og hefði verið liðtæk á netinu, hefði hún lifað nógu lengi. Þess í stað fór hún út á Kastrup og keypti miða út í bláinn á síðustu stundu. Tvær systur hennar settust að á Nýja-Sjálandi og bjuggu þar áratugum saman en tvær ,,bara" í Danmörku. Það er varla tilviljun að fyrsta utanferðin mín var með mömmu og ömmu, önnur ekkja, hin nýskilin (við pabba), leiðin lá til Suður-Spánar sem þá var ekki túristabæli, og þar áttum við gott hálft ár. 

asninn (2)

Nokkur ferðalög mín eru minnisstæðari en önnur, hálfa árið á Spáni, sex-sjö ára, Englandsdvöl átján ára (líka hálft ár) og svo nokkrar styttri ferðir frá viku og upp í fimm vikur. Egyptaland, Kamerún, Kúba, Sikiley, allt staðir sem kannski bjóða bara upp á eina ferð á hvern stað. Í Evrópu hef ég sótt svolítið oft austur á bóginn, slavneska menningin heillar mig, suðrænn hiti fer vel með löngu brotið bak og svo er ég enn að kynnast nýjum stöðum. Norður-Ameríka kom mér á óvart en Bandaríkin heimsótti ég ekki fyrr en 1991 fyrst, og æ síðan kemur í hugann það sem Beta föðursystir mín sagði: Hvernig er Ameríka? Hvað viltu? 

unnamed (3)

Hnattferð með mömmu 1989 (5 vikur) um þrjú Asíulönd á leiðinni til Möggu frænku á Nýja-Sjálandi og um þrjár Suðurhafseyjar á bakaleiðinni. Nokkrum árum síðar Ástralía og aftur til Möggu frænku.

En í covid hugsaði ég: Og hvað svo ef ferðalög leggjast af? Þá á ég alltaf myndir og minningar. Skrapp svo nokkra túra í covid-pásum, en það er önnur saga. 

Sumir í tengdafjölskyldunni hafa slegið mig eftirminnilega út í ferðalögum út um allan heim, mesta furða hvað börnin okkar Ara míns hafa mikið jafnaðargeð. 

Myndirnar eru allar úr fjölskyldualbúminu, ekki ferðabæklingum. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband