Færsluflokkur: Spil og leikir

Safnararaunir

Við í vinnunni vorum að rifja upp í hádeginu safnararaunir okkar á barnsaldri. Sammála um að frímerkjasöfnun væri afskaplega leiðinleg. Mamma átti eina góð sögu frá því hún bjó í Englandi, þar sem einn þekktasti frímerkjasafnarinn átti að hafa setið við opinn glugga og skoðað safnið sitt þegar dyrnar voru opnaðar og dragsúgur myndaðist. Eftir það fór hann (víst) að safna gufuknúnum götuvölturum.

Reynsla og fjárhagur okkar vinnufélaganna var annars konar, en við hættum þessari iðju alla vega fljótt. Ég þó ekki fyrr en ég fékk mitt fáránlegasta sjokk í söfnuninni. Pabbi og Dolinda konan hans (svissnesk) bjuggu þá á Seyðisfirði og til þeirra kom ég á sumrin. Pabbi gat verið stríðinn en ekkert var fjær Dolindu en að atast í 10 ára barni, eins og ég var þá. Þess vegna gat ég bara ekki skilið þegar svona góð og grandvör kona var að reyna að gefa mér frímerki frá helvíti! Hún sem var meira að segja organisti í Seyðisfjarðarkirkju (sem ég held að hafi ekki verið orðin blá þá). 

zrj465tjt6eb3t9gmqotoogmg30u

Ef einhver skyldi deila þessum skilningi á uppruna þessa ágætis frímerkis með mér, þá er rétt að geta þess að þetta latneskta nafn er á öllum svissneskum frímerkjum. Hér er meira um það: Svissnesk frímerki 

Þetta var ekki í eina skiptið sem ég hafði alvarlegar athugsemdir að gera við hegðun fullorðins fólks gagnvart börnum. Þessa sögu segi ég oft og einhverjir þekkja hana, en ég var sem sagt pínulítil og rosalega lasin þegar einhver hávaxinn læknir reyndi að telja mér trú um að ég væri með rauða hunda! Við sem áttum ekki einu sinni kött þá. 

Áfram með safnararaunir. Mamma var mikill safnari og ég hélt mig lengi frá þeim sið, hélt ég. Á frímerkjasýningu vorið 1995 var mér boðið að sýna safn sem ég átti af smáskóm á alvöru-safnarasýningu og frétti síðar að ,,alvöru" söfnurum hefði sárnað að litlu, sætu skórnir mínir hefðu vakið svona mikla athygli en alvörusafnaranir minni. Var meira að segja boðuð í sjónvarpsviðtal eftir fréttir hjá Eiríki Jónssyni sem þá var enn starfandi við sjónvarpsstöð. Hann skildi ekkert í því hvað ég sá við þessa litlu, sætu skó, og ég ekkert hvers vegna hann skildi það ekki. Það var bara fyndið. 

2023-02-27_22-08-59

Enn kaupi ég eitt og eitt smá-skó-par, en ég er enginn safnari. Nei, nei, á bara nokkur hundruð myndir af bleikum húsum, eitthvað færra af Esjumyndum og kom með nokkrar litlar úlfaldastyttur frá Fuerteventura nýverið, en þær eru í hæsta lagi nokkrir tugir hér á heimilinu. Ekkert af þessu flokkast undir að vera ,,alvöru" safnari, svo mér er óhætt. 

unnamed (30)


Ekki bara börn sem klæða sig upp í búninga

Greina mátti ýmsar kynjaverur að skjótast á milli húsa í dag, öskudag. Það fylgir deginum núna í seinni tíð og áreiðanlega bara gaman að stússa í því. Foreldrar taka þátt í því af lífi og sál og oft ótrúlegri elju að uppfylla óskir barnanna. 

2021-07-18_23-39-41 (2)

Þegar foreldar mínir voru ungir hélt Magga ömmusystir mín að minnsta kosti einu sinni grímuball, líklega oftar því ég hef séð myndir bæði úr sal sem líklega hefur verið þegar hún var með heilsuræktina Hebu, en líka heiman frá ömmu, elstu systur hennar. Myndin sem hér fylgir er þaðan, og pabbi sá eini sem mér sýnist að hafi ekki borið við að vera í búning, en mamma, lengst til vinstri, var með. 

480495_4207469863459_954938823_n

Stundum er áskilinn einhver klæðnaður á vinnustöðum og hjá félögum, við Ari höfum mætt í einhverjum kúrekaklæðum á samkomur hjá hestamannafélaginu Sóta og ekki má gleyma bleiku dögunum á ótal vinnustöðum. Einn vinnustaður öðrum fremri var sá sem ég vann á árið 2014, en þar á bæ munu vinir mínir enn standa sig einstaklega vel kringum Eurovision. Þau eru enn öflug í því, svo ég held ég verði að fá að mæta aftur til þeirra í vor. Félagar mínir í Hamborg héldu að minnsta kosti tvisvar á ári föstudagssamkomur (beer-o-clock) með fataþema, og suðurhafsþemað var sérlega skemmtilegt. Já, það eru ekki bara krakkarnir sem kunna að kæða sig upp. 

20150605_205150 (2)


Baksviðs í Belgrad er greinilega rekki með silfurlitum stuttkjólum

Hunskast til að horfa á forkeppni 2. Þau Regína og Friðrik hafa unnið fyrir áframhaldi, hvað svo sem verður, þau hafa verið dugleg, áhugasöm, jákvæð og hress.

En ég undrast alla stuttu silfurkjólana sem fulltrúar Svíþjóðar, Úkraínu, Tékklands og nokkrar frá Hvíta-Rússlandi (að minnsta kosti) hafa klætt sig í. Ég held að það hljóti að vera rekki með fullt af silfurkjólum baksviðs og svo séu konur að lendia í að týna kjólunum sínum.

Annars fannst mér Króatía krúttleg, áður hef ég séð Finnland og þeir eru flottir og svo finnst mér Serbía með gott lag. Nú er búlgarska framlagið og sá sem spilar á gítar gæti verið sonur Johnny Halliday, franska flagarans sem fáir hér á landi þekkja (og ekki mikils misst). Svo sem allt í lagi með umbúðirnar á þessu lagi.

Og Sigmar, ekki líkja saman þessi lamaða Ho, ho, ho-i sem einhver sjóræningjasveit var með, við okkar ágæta Hó, hó, hó sem er fjarri góðu gamni.

Malta er með flott lag, ég er að heyra megnið af þessum lögum í fyrsta sinn, en yess, loksins sovna eitthvað sem minnir á anarkistana í Chumbawamba hér um árið (komi til Íslands með I get knocked out! lagið sem ég man ekki hvað heitir). Og svo var söngkonan í stysta silfurkjólnum, það náði bara niður að mitti, en sem betur fór var hún í svörtum buxum þar sem kjólnum sleppti, hefur greinilega tekið vitlaust númer af rekkanum.

 


Hestamaðurinn minn gerir það gott áfram ...

Ari minn kom heim með bæði bikar, silfur og gull úr ,,Tjarnartölti" hestamannafélagsins Sóta í dag. Ég er ekkert undrandi. Auk þess vann Tómas, 12 ára, í barnaflokki á merinni hans Ara. Í kvöld er Góugleði Sóta, sem alltaf hafa verið einstaklega skemmtilegar samkomur, þannig að fyrir óvirka hestakonu er nóg að hugsa um.

Dreifing á innsláttarþrautakóngi (eða landagátu) fengin frá Hirti

Þar sem ég treysti því ekki að allir lesi bloggið hans Hjartar (linkur hér til hliðar) þá er ég komin með þrautina sem hann var að leggja fyrir sína lesendur. Búin að kveljast ótrúlega yfir þessu, löndin eru ekki vandamálið heldur innsláttarvillur, að gera óvarrt bil fremst til dæmis, stafsetja löndin rétt á ensku og fatta hvað England heitir svo dæmi séu nefnd. En samt sem áður, njótið vel: Og þótt ég kunni html, þá stóðst ég það að breyta 67 í einhverja hærri tölu, t.d. 76 (ekkert diss á Hjört, tek það fram) en það var freistandi. 67


Til hamingju Gurrí og þið hin (Bjarni og bróðir Vífils)

Innilegar hamingjuóskir til Akurnesinganna, þetta var virkilega spennandi þáttur, þrátt fyrir Glitni og aðra mjög fyndna gleymsku. Og ábending til Gurríar til að tryggja ykkur sæti alla leið: Skoðaðu málverkabækur! Matisse-myndin er meira að segja á plötuumslaginu hennar Herdísar Hallvarðs, það er eftirgerð mín af þessari mynd gerð eftir draumi Herdísar sem greinilega var um þetta málverk!

Glæsileg frammistaða! Og bara gaman að Vífill skuli eiga þátt í sigrinum ykkar, hann er auðvitað bara óvenju hugmyndaríkur og skemmtilegur og bróðirinn lofar góðu, þótt ég hafi ekki náð nafninu svona í fyrsta. 


Orðið ljósmóðir sigraði í fyrstu fegurðarsamkeppni íslenskra orða - glæsilegur lokasprettur

Orðið ljósmóðir sigraði í fyrstu fegurðarsamkeppni íslenskra orða hér á blogginu Orðið var lengst af í forystu en um tíma skákaði orðið kærleikur því og hnífjafnt var fyrir aðeins rúmum sólarhring, en á lokasprettinum stakk ljósmóðir öll hin orðin af. Í þriðja sæti kom svo orðið dalalæða, sem átti frækilegan lokasprett. Nánar verður sagt frá úrslitum á blogginu á morgun og sigurvegararnir kynntir og krýndir síðar. 

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband