Bloggfærslur mánaðarins, mars 2008

Gleðilega páska! ... og ef þið fenguð góðan málshátt, þá er alltaf gaman að heyra

Gleðilega páska öll! Vona að þið hafið það gott. Það er alltaf gaman að heyra hvaða málshættir slæðast inn í páskaeggin ykkar. Ég fær aldrei uppáhaldið mitt, enda kaupi ég ekki Lennon-páskaegg: Life is what happens to you when you're busy making other plans.

En ég fékk alveg nothæfan málshátt núna: Ekki er hægt að selja kúna og drekka úr henni mjólkina. Þetta hljómar eins og þýðing úr einhverju öðru tungumáli, er auðvitað háþróaðri útgáfa af: You can't keep the cake and eat it (mjólkin úr kúnni endurnýjanlegri, en úff, vesenið að gefa, mjólka og reka kýrnar í haga á sumrin, en það er önnur saga).

 


Passíusálmur númer 51 og stjórnarskráin

Við sátum hérna fyrr í kvöld, Ari minn og Gurrí vinkona og vorum að rifja upp Passíusálm númer 51 eftir Stein Steinarr. Mikið rosalega er það nú alltaf skemmtilegur kveðskapur. Fyrir ykkur sem ekki munið eftir þessu ljóði þá byrjar það á þessum frábæru línum (eftir minni):

Á Valhúsahæðinni er verið að krossfesta mann

og fólkið tekur sér far með strætisvagninum til að horfa á hann  ...

Það er svo gaman að rekast á skemmtilegan kveðskap. Svo komu systur mínar og tveir vinir til viðbótar og mikið verið að pæla og skoða, hlusta og spjalla, rétt í lokin sagði Elísabet systir að það væri búið að semja tónlist við stjórnarskrána. Mér fannst það auðvitað snilld og ætlaði varla að ná því hvernig það hefði getað farið framhjá mér, sem er eiginlega forfallinn aðdáandi nútímatónlistar, ekki síst íslensku tónskáldanna. Alin upp í tímum hjá Atla Heimi í Menntó og bý núna við þann lúxus að hafa hér mörg bestu tónskáld landsins hér í sveitinni minni (sem er víst orðin bær) hér á Álftanesi. Og auðvitað var þetta héðan af svæðinu, tónlist eftir Karólínu sem býr hérna í götunni (og hefur samið mikið af tónlist sem ég er hrifin af) og meðal flytjenda eru Ingibjörg Guðjónsdóttir, sem er alveg rosalega góð söngkona og svo Tinna dóttir Karólínu. Hmmmm, ég verð greinilega að fylgjast betur með og ná að hlusta á þetta verk. Sé ekki að verkið hafi verð flutt annars staðar en á Akureyri og í tengslum við listviðburð (sýningu) þar. Stutt síðan ég heyrði mjög flott verk eftir Karólínu við annan svolítið óvenjulegan texta: Njólu, heimspeki- og eiginlega heimslýsingarrit eftir Björn Gunnlaugsson (sem var kennari í Bessastaðaskóla) og þá var það einmitt Ingibjörg sem söng, mjög flott verk. 

 


Föstudagurinn laaaaaaaaannnnnngggggiiiiiiiii

Stillti á rás 1 á útvarpinu til að hlusta á hádegisfréttirnar og núna er ég sem sagt farin að hlusta á gömul Passíusálmalög. Rifjar upp þegar ég tók viðtal við Smára Ólason þá (og kannski nú) organista í Mosó um að Passíusálmarnir hefðu verið sungnir, en það var einhvern tíma saga til næsta bæjar. Alla vega, hann á einhvern heiður af því sem við erum að hlusta á núna. Og einhvern veginn svo vel við hæfi að hlusta á þessa dagskrá frekar en aðeins meira léttmeti á mörgu hinna stöðvanna. jcsReyndar skapaðist sú hefð einhvern tíma heima að Ólafur fóstri minn, sem alla jafnan hlustaði ekki á tónlist, vildi heyra sinn Jesus Christ Superstar á föstudaginn langa. Það var bara skemmtilegur siður, enda var stef úr því verki við útför hans, mig minnir í eftirspili. Séra Örn Bárður átti heiðurinn af því eftir ábendingu, hann var næmur á hvað átti við.

Annars var skemmtileg umræða hér á blogginu fyrir skömmu um hvað ,,mætti" og hvað mætti ekki á föstudaginn langa. Bingó er bannað, bara ef einhver skyldi vera búinn að gleyma því eftir mikla umræðu á blogginu hennar Jennýjar Önnu. Man eftir löngum föstudögum þegar ekki var hægt að fara í búð og er enn hálf feimin við að fara í búð á föstudaginn langa (en læt það ekki stoppa mig ef ég þarf set bara upp feimnissvipinn og treysti því að krakkarnir í 10-11 séu með helgidagaálag).

Svo tókum við upp á það eitt sinn í skúlptúrhópnum mínum að steypa á föstudaginn langa, einkar heppilegt af því maður hleypur ekki frá steypu og dagurinn hvort sem er svo langur. Í það skiptið björguðu afgangarnir úr fermingarveislunni hans Óla alveg öllum máltíðum dagsins. Þetta krefst skýringar. Við fermingu Hönnu dóttur minnar tveimur árum fyrr tóku vinir og ættingjar alveg að sér að sjá um veitingar, þar sem ég var í miðri kosningabaráttu (nokkuð sem dóttir mín fór þegar að hafa áhyggjur af þegar hún var 9 ára og sagði: Mamma, svo veistu að þú verður að ferma í næstu kosningabaráttu! - sem kannski er ástæðan fyrir því að upplýsingahópur Kvennalistans var meðal þeirra sem lögðu til veisluföng). En fyrir ferminguna hans Óla taldi ég ekki nokkra þörf á hjálp annarra og mjög kát að geta séð um veisluföng sjálf. Hmmm, vinir og ættingjar hafa trúað því mátulega því eftir sem áður var komið með veitingar í aðra veislu í viðbót. Og þar sem okkar veislur með nánustu ættingjum og vinum eru jafnan næstum hundrað manna þá gat skúlptúrhópurinn minn lifað góðu lífi á brauðréttum og tertum frá klukkan 11 að morgni til miðnættis þennan föstudaginn langa. 

Metið í föstudögum löngum held ég þó að dóttir mín eigi, sem var að kryfja lík á seinasta föstudaginn langa (meðan ég hafði það gott hjá Nínu systur í Portales í New Mexico). Það er ekki læknadeildin hér sem fer svona með nemendur sína heldur læknadeildin í Debrecen í Ungverjalandi, en þar er slatti af Íslendingum við nám. Ég hélt reyndar að hún yrði að kryfja í dag, en það leiðréttist hér með.  


Hvenær er aðgerðaleysi hættulegt?

Hef verið hugsandi og reið eftir umfjöllun Kompáss í gærkvöldi um aðgerðaleysi stjórnvalda vegna kynferðisbrota gagnvart ungum börnum. Hvet ykkur sem ekki sáuð þáttinn til að skoða hann á netinu á meðan hann er enn aðgengilegur (hér). Fyrir liðlega 15 árum bar ég fram fyrirspurn á Alþingi um afdrif kynferðisbrotamála gagnvart börnum í réttarkerfinu okkar og það voru sorglegar tölur, eftir umfjöllun Kompáss sé ég að ástandið hefur ekki skánað, jafnvel versnað. Aðgerðarleysi yfirvalda í þessum efnum er hættulegt, það er ekki nóg að ,,vona" að menn hætti þessu, svo vitnað sé í makalaus ummæli embættismanns í þættinum í gær. Í rauninni er verið að stefna fjölmörgum fleiri börnum í hættu með þessum aumingjaskap.

Í gær var haldinn skrýtinn blaðamannafundur. Efnislega má segja að efni hans væri það að stjórnvöld hygðust ekkert gera til að bæta eldfimt ástand í efnahagsmálum þjóðarinnar. Skyldu það ekki hafa verið að hluta til viðbrögð hins ofurfrjálsa og hamingjusama markaðar við þessum ummælum sem komu fram í sveiflunum á markaði í dag? Ég geri ekki lítið úr því að orsakir þeirra tíðinda sem eru á mörkuðum (gjaldeyris og hlutabréfa) eru margslungnar, bæði innlendar, erlendar, pólitískar og efnahagslegar. En það er ekki hægt að stinga höfðinu í sandinn eins og mér sýnist stjórnvöld reiðubúin að gera.


Snilldarsendingar af MSN-inu mínu - ekkert Ken Lee hér

Lenti á góðu síma- og msn flippi. Var fyrst spurð hvort ég hefði séð Ken Lee flutninginn óborganlega. Þið sem hafið ekki séð það myndband, tékkið! Mér skilst að það gangi ljósum logum á netinu núna. Ef þið finnið það ekki sjálf þá bara skal ég ganga í málið, en það er nóg í rauninni að fletta uppá Ken Lee á YouTube.

En þetta hér að neðan er ekkert Ken Lee. Hugsið ykkur bara hvað þessi ísraelsk-kanadíski drengur hefur þurft að æfa sig á ,,Ég les í lófa þínum".

Svo sem sagt fékk ég fleira sent á msn, sem mér skilst líka að hafi gengið dálítið um netið. Jimmy nokkur Kimmel er með kjaftaþátt (var víst áður með Man's show) og í einum þætti kom Sarah kærastan hans með smá óvæntan glaðning (sýnið þolimæði fyrri hlutann, þið skiljið allt í seinni hlutanum):

http://www.youtube.com/watch?v=Vc8v1RTZg9Y

Smá viðbótarskýring: Allir þættir Jimmy's enda á einhverju dissi á Matt Damon og svo að tíminn sé því miður búinn. En í næsta þætti kom Jimmy með svarið:

http://www.youtube.com/watch?v=sIQrBouWRiE

 


Bækur - listi í mótun

Hef ekki verið að nota listamöguleikana hér á blogginu, en rakst á ágætis lista yfir uppáhaldsbækur á öðru bloggi og ákvað að skella inn einum lista sem er kominn í endalausa röðina hér til vinstri. Það er sem sagt listi yfir bækur sem ég er hrifin af, af ýmsum ástæðum. Þannig að þetta er sem sagt nýjasta viðbótin á blogginu mínu.


Þeir fyrstu verða síðastir og þeir síðustu fyrstir - meira að segja í American Idol

Í seinustu viku var ég viss um að einn þátttakandinn félli út úr keppninni (og hann var líka viss um það) en í kvöld sló hann í gegn með ,,She's a women" í geggjað góðri útsetningu. Sú (írska) sem söng ,,Come together" hefur ekki verið alveg á toppnum fyrr en núna. En sorrí, núna klikkaði David A. sem er snillingur (ungi strákurinn) eins og hann náði góðu sambandi við Imagine, þá tókst honum að vera bara la la í Bítlaþættinum. Ææ, á ekki von á að hann falli út, en hann má ekki endurtaka þetta. En margir voru góðir og best voru þau tvö sem ég nefndi hér að framan, þessi hópur er mjög sterkur og það er gaman að fylgjast með.


DV er ekki að grínast

Það mætti halda að DV hefði gefið út grínútgáfu í dag. Sá fyrst aðalfréttina á baksíðunni:

Fundu flugvöll í Vatnsmýrinni (yfirfyrirsögn í smærra letri: Gröfumenn og bílstjórar urðu hissa er þeir gerðu merkilega uppgötvun) - Hmmmmm það ER flugvöllur í Vatnsmýri!!!!

Til hliðar mátti sjá eftirfarandi:

Haarde sá hrylling

Á forsíðunni tók ekki betra við:

Annþór heiðraður af Rauða krossinum

Gnarr í Mercedes Club

Lögregla réðst á fjölskyldu (undirfyrirsagnir: Sonurinn margbrotinn í andliti / Faðirinn úðaður með piparúða)

Við nánari lestur má sjá að engin af þessum fréttum er neitt grín. Eftir standa fyrirsagnirnar: Flokkurinn sér um sína, Hannes í vanda og Hægviðri og bjart víða, sem eru bara frekar trúverðugar.


Skrefið inn á Facebook

Netheimar eru víðfeðmir. Var að skrá mig á Facebook núna rétt áðan, gott að geta skoðað myndir sem eru þar til dæmis, og svo er þetta greinilega eðlilegt næsta skref. Svo kemur bara í ljós hvernig ég nota þetta í framtíðinni. Greinilega ýmsir sem ég þekki skráðir þarna, það er ekki verra, sé hvenrig undirtektirnar verða.

Tom Lehrer og mengunin

Einn af mínum uppáhöldum í langan tíma hefur verið Tom Lehrer, háskólakennari sem varð að goðsögn á sjöunda áratugnum. Núna er auðvitað hægt að endurnýja kynnin á YouTube (blessaðri) og þess vegna set ég smá sýnishorn hér af snillingnum. Mengun:

Og af því ég hef verið svo upptekin af stærðfræði í vetur, þá læt ég New Math fylgja með, en þetta er reyndar ekki ný stærðfræði lengur, var það hins vegar þegar efnið Tölur og Mengi var tilraunakennt í bekknum mínum í Hagaskóla. Mikið breyst síðan, og ég meira að segja komin talsvert lengra í stærðfræðinni.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband