Ný stefna í tilverunni: Tvær af myndunum mínum á leið á alþjóðlegar vatnslitasýningar

Núna snemma árs er ljóst að tvær af vatnslitamyndunum mínum eru á leið á sterkar alþjóðlegar sýningar erlendis. Sú fyrri er í mars í Córdoba á Spáni, það er meira en vikulöng vatnslitahátíð, en aðaldagskráin stendur 4-5 daga. Hún var haldin í fyrsta sinn í fyrra og tókst alveg stórkostlega vel. Það var í fyrsta sinn sem ég freistaði þess að komast á slíka hátíð og þótti spennandi að myndin mín var tekin inn á sýninguna. Vissi þá ekki að þetta var um leið samkeppni og þegar ég landaði öðru sætinu í henni hristi það upp í mér að fara að endurskoða forgangsröð viðfangsefna, ekki seinna vænna á áttræðisaldri.

Samt sem áður vissi ég sem var að það var ekki sjálfgefið að komast aftur inn á þessa sýningu, samkeppnin er mikil og hver fær aðeins að senda inn eina mynd. Það var ekki fyrr en 16.11.23 að ég fann að ég var búin með mynd sem gæti verið nokkuð öruggur kandidat, en þá voru innan við tvær vikur í lokaskil. Myndin var vissulega þornuð þegar ég tók myndina sem ég sendi inn, sem hefði ekki verið ef um olíumálverk hefði verið að ræða. Það er nefnilega ekki sama mynd af blautri mynd eða þurri. Viðraði þessa mynd einmitt hér í blogginu sama dag og ég málaði hana, en síðar bætti ég við rauðu peysunni, af því mig vantaði að myndin segði sögu. 

Iceland_Anna.Olafsdottir.Bjornsson_Lost.Red.Sweater_56x38_2023

Setti síðan á bið ákvörðun um hvort ég ætlaði að taka þátt í annarri sýningu síðar um vorið, Fabriano sýningunni í Bologna á Ítalíu apríl/maí, sem verður svo sett upp í Austin, Texas í október. Félagar mínir úr Córdoba-ferðinni í fyrra voru að hvetja til þess en í þetta sinn ákvað ég að velja ekki ,,örugga" mynd til að senda, heldur eina sem ég taldi svolítið áhættusama, þar sem ég var alveg til í að taka sjansinn varðandi þessa sýningu. Hún var tekin á sýninguna, svo ég þarf að gera upp við mig hvort ég elti hana líka, dagskráin í kringum þá sýningu er ekki síður spennandi en í Córdoba, þótt hún sé svolítið öðru vísi. 

2024-01-29_23-03-54

Við vorum þrjú, Íslendingarnir, sem tókum þátt í Córdoba-sýningunni í fyrra, en það verður ögn stærri hópur Íslendinga á hvorri sýningu fyrir sig í vor, 6 og 8 ef ég hef tekið rétt eftir. Með því að taka þátt í svona sýningum, en sýningargjald er mjög lágt, fáum við sjálfkrafa og frítt aðgang að alls konar viðburðum, útimálun, sýnikennslu og skoðunarferðum þannig að það er gríðarlega freistandi að fylgja myndunum sínum. 

Þótt ég sé búin að ráðstafa meiru en ég sá fyrir af tíma mínum núna eftir að ég gerði heiðarlega tilraun til að fara á eftirlaun í annað sinn, þá held ég þessu í forgangi, og stend við það. 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband