Páll Vilhjálmsson í ham
8.9.2007 | 15:15
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:50 | Slóð | Facebook
Breytingar
7.9.2007 | 22:36
Haustið hefur yfirleitt verið tími breytinga í lífi mínu. Þetta haust ætlar ekki að verða nein undantekning. Nú er ég lögst í seinasta áfangann af skemmtilegu og sundurslitnu mastersnámi mínu í tölvunarfræð en samhliða hef ég skipulagt nákvæmlega 69% vinnu. Ekki spyrja mig hvers vegna einmitt 69% svona bara er þetta. Auk þess hef ég verið að gera allt klárt í sumar til að koma út einu stykki bók og stefni að því að ljúka því samhliða. Og eins og alltaf geri ég mér grein fyrir því að ég mun ekki stýra allri atburðarás. John Lennon sagði svo snilldarlega: Live is what happens when you're busy making other plans.
Hlakka til vetrarins með fiðring í maganum.
Spásnillingar landsins, segið mér hvernig veðrið verður í vetur
3.9.2007 | 21:40
Ég er búin að setja nýja könnun á netið, hana er að finna hér á vinstri hönd, fyrir ykkur sem þekkið hægri og vinstri. Hin bara leitið og þér munið finna ;-)
Mig langar svo óskaplega til að vita hvernig veðrið verður í vetur, gaman að sjá hversu forspá þið verðið. Dalvíkurklúbburinn má alveg vera með, bara betra.
Af fyrri könnun er það að frétta að hún er hætt. Góðar niðurstöður.
Hamfarir í lífi og landi
3.9.2007 | 20:47
Sé að bloggheimurinn er sleginn vegna frétta af níu ára stúlkunni í Nicaragua sem er ekki einasta fórnarlamb ljótrar misnotkunar heldur einnig í mikilli lífshættu vegna þess að lögum landsins var breytt og fóstureyðingar bannaðar. Það er mikil ábyrgð í því fólgin að dæma saklaust barn til lífshættulegrar þungunar og fæðingar. Svona lagað get ég ekki litið á sem annað en hamfarir af mannavöldum. Eflaust hefur átt að þagga þetta, en móðir stúlkunnar hefur kært misnotkunina og þar af leiðandi er þessi samviskuspurning komin til umræðu. Mér finnst enginn vafi leika á því að fóstureyðing hefði átt að vera skýlaust val í þessu tilviki.
Talandi um þöggun: Undrast líka að heyra ekki meira um viðvaranir Ragnars Stefánssonar jarðskjálftafræðings vegna skjálftahættu á fyrirhuguðu virkjanasvæði í neðri hluta Þjórsár.
Tímafrek heimadæmi og breyttar áætlanir
3.9.2007 | 00:40
Óttalega ryðgar maður fljótt í þessum heimadæmum. Nú á námsefnið að vera kunnuglegt, því ég var í sama kúrs fram til 6. nóvember í fyrra þegar ég tók upp á því að veikjast. Mér fannst endilega að ég hefði verið sneggri með þetta í fyrra, en kannski er það misminni. Hlýt að slípast. Ara datt líka í hug að taka til hendinni á neðri hæðinni meðan ég var að stússast í heimadæmum þannig að ekki var haldið áfram með parket um helgina enda eru verkefni í húsi á endurbyggingarstigi öll jafngild.
Frétti af syninum í New Mexico og talaði heillengi við dótturina í Ungverjalandi í kvöld. Alltaf nóg að gera og pæla. Nýr staður að mæta á í fyrramálið, vona að syfjan reki mig ekki í Skipholtið til INNN heldur á Lynghálsinn til Eskils. Áríðandi fundur kl. 9 svo það er best að ætla sér nægan tíma.
Í bláa lóninu græna og fleiri afrek helgarinnar
2.9.2007 | 03:03
Á leiðinni út á flugvöll í dag, með nýsjálensku frændurna, var auðvitað komið við í Bláa lóninu, sem ég hafði reyndar frétt að væri orðið grænt. Það er orðið ansi mikið grænt! En við hliðina er verið að safna í blátt lón og gott ef ég var ekki búin að frétta að það ætti að víxla þessu einhvern veginn, sé reyndar ekki alveg hvernig, en það er ekki mitt vandamál.
Svo er vetrarrútínan að hefjast, fyrstu heimadæmin í vinnslu, sem er bara gaman, svo er það skert vinna og aukavinnan mín, að koma út bók sem hefur legið í handriti í nokkur ár. Ekki seinna vænna. Segi meira um það fljótlega, býst ég við.
Veturinn má alveg bíða smá í viðbót, ég harma ekkert sérstaklega hlýindin þótt þeim fylgi vætutíð, en þegar ég gaut augum á Fargo í sjónvarpinu áðan, þá auðvitað veit ég að veturinn kemur, það er óhjákvæmilegt, ja.
Eftir frekar miklar keyrsluviku þá var gott að taka smá kúnstpásu í dag, hvíla sig smá og glápa á kassann, áður en heimadæmin voru tekin fram. Þau eru ekki búin, en hálfnað verk þá hafið er, eins og við líka sögðum þegar við settum fyrstu parkettfjalirnar á miðsvæðið margflotaða um seinustu helgi. Svo bústaðurinn fær að bíða og við verðum við stærðfræðiiðkun og parkettlagningu þessa helgina. Ekki amalegt.
INNNflutningsannríki
31.8.2007 | 22:12
INNN, hugbúnaðarfyrirtækið sem ég hef unnið hjá í hálft annað ár, var að flytja eftir sameiningu við Eskil og að undanförnu hefur verið mikið annríki hjá okkur. En í dag var sem sagt flutt á Lynghálsinn og búin að vera svolítið geggjuð innflutningsstemmning hjá okkur, þrátt fyrir að flutningafyrirtæki sæi um kassa og húsgagnaburð.
Hálf lúin eftir erilssama viku, þar sem flutningarnir bætast ofan á venjulega, daglega vinnu. Ekki bætir úr skák að ég er enn í 100% starfi en 30% skólinn minn er byrjaður. Fleira í bígerð og fleira að baki, en ég vona samt að næsta vika verði ekki alveg eins kræf.
Allt sem þú vildir vita um ættingja (en þorðir ekki að spyrja) ...
31.8.2007 | 20:49
Hef mikið pælt í ættingjum að undanförnu. Fjölskyldan mín er þannig að stundum höfum við tekið það fram að ekki dugi annað en þrívíddarlíkan til að lýsa henni. Íslensk tunga á reyndar fullt af góðum nýjum orðum fyrir flóknar og margsamsettar fjölskyldur, enda veitir ekki af. Uppáhaldið mitt er orðið teygjufjölskylda, það heldur nefnilega svo ágætlega utan um fjölskylduna. Hef alltaf verið hlynnt því að í slíkum fjölskyldu geti allir talað óþvingað við alla fjölskyldumeðlimi hvernig sem skilnaðir og annars konar aðskilnaður svo sem fjarlægðir hefur haldið fólki sundur um lengri eða skemmri tíma.
Samt hef ég alltaf haft ákveðnar efasemdir um sameiginlega forsjá foreldra með börnum sínum, það er að hafa það sem meginreglu eins og nú er. Heyrði um daginn af dæmi um að barn þyrfti að sækja tvo skóla út af slíku fyrirkomulagi. Það mætti stundum rifja upp að markmið barnalaganna er að hagur barnanna sé hafður í fyrirrúmi. Reyndar voru það aðrir hlutir sem ollu efasemdum mínum um sameiginlega forsjá, það var hið nauðsynlega ákvæði að hægt sé að endurskoða úrskurð um sameiginlega forsjá. Sé ekki að það sé barni í hag að taka upp síðbúnar skilnaðardeilur þegar það er búið að jafna sig á því róti sem ávallt fylgir jafnvel farsælustu skilnuðum.
Hins vegar er það mikil blessun þegar börn fara ekki á mis við annað hvort foreldrið, en margt getur valdið því eins og allir vita dæmi um. Erfiðast finnst mér þegar ekki má ræða foreldrið sem er fjarri eða jafnvel reynt að leyna börn uppruna sínum. Sumar fjölskyldur eru svo yfirhlaðnar leyndarmálum og tabúum að það hálfa væri nóg. Get aldrei fullþakkað mínum foreldrum að taka ekki þátt í slíkum leik gagnvart mér alla vega, þótt leiðir skildu.
En aftur að fjölskyldunni minni. Líklega á frænka mín þá athugasemd sem best lýsir margbrotnu fjölskyldunni minni. Ég var nefnilega einu sinni beðin fyrir kveðju til hennar og hún var smá stund að átta sig á því hver var að senda henni kveðju, en allt í einu fattaði hún og ljómandi upp: Hún, já, hún er systir seinni konu fyrri mannsins míns!
Þetta er reyndar bara sýnishorn og ýmislegt enn flóknara í fjölskylduböndunum í kringum mig. En það er ótrúlegur fjársjóður í því að eiga stóra og góða fjölskyldu, þótt maður sé stundum svolítið seinn til að kynnast mannskapnum. Þannig var ég að hitta fullt af fólki sem er af öðrum og þriðja lið við mig í gærkvöldi, sumt í fyrsta sinn, og mikið rosalega var það gaman. Við þurftum að spyrja hvert annað um svo margt varðandi fjölskyldumeðlimi og það var af nógu að taka. Ekki spillti fyrir að svo margir í fjölskyldunni þekktu til tengdafólksins míns og hefur mikið dálæti á því. Upphófst hin venjulega íslenska rakning á tengslum þessarra og hinna á íslenskan mælikvarða. Nýsjálensku frændurnir tveir, sem hafa verið á ferð og flugi um landið í viku, voru ábyggilega steinhissa á öllu þessu spjalli og trúðu því rétt mátulega að við þekktum ekki helminginn fyrir. En það var ábyggilega rosalega gaman fyrir þá að hitta allt þetta fólk, afkomendur móðursystur og ömmusystur þeirra, sem því miður komst ekki vegna aldurs og heilsu.
Hrímkalt haust í bland við hlýja síðsumarssólskinsdaga
27.8.2007 | 19:53
Svolítið skringilegt veður, vaknaði klukkan fimm í morgun uppi í sumarbústað við ægifagurt veður og hitamælirinn sýndi meira að segja 4.7 gráður úti. En þegar ég sá hrímið á grasinu fyrir utan og bílrúðunni fékk ég smá hroll, þrátt fyrir fegurð morgunsins. Dalalæðan lúrði niðurfrá og aðeins syfja og tímapressa stoppaði mig í að taka ómótstæðilega mynd (ekki mátti láta frændurna missa af flugi). Svo kom þessi ægifagri sólardagur, sem ég að vísu eyddi í vinnunni, en það tilheyrir vinnandi fólki.
Svolítið ráðvillt alltaf þegar haustið nálgast, mér er hlýtt til myrkursins, enda trúi ég á rannsóknir Jóhanns Axelssonar um skammdegisþunglyndi meðal Íslendinga og Vestur-Íslendinga sem í stórum dráttum hafa sýnt fram á minna skammdegisþunglyndi meðal Íslendinga en annarra norlægra þjóða. Þær eru á vísindavefnum en ég greip eina setningu þaðan: ,,Á Íslandi hefur tíðni skammdegisþunglyndis verið athuguð og voru niðurstöður þær að tíðni skammdegisþunglyndis og milds skammdegisþunglyndis var lægri hjá Íslendingum en fólki búsettu á austurströnd Bandaríkjanna þrátt fyrir að Ísland liggi talsvert norðar. Þessar niðurstöður komu mjög á óvart þar sem talið hefur verið að skortur á ljósi yfir vetrartímann sé ein aðalorsök skammdegisþunglyndis." En ég er ekki hrifin af hálkunni sem fylgir fyrstu frostunum (og heldur ekki þeim sem fylgja á eftir fram til vors). Fallegir síðsumardagar bæta reyndar úr skák, en samt, 19 stiga hiti og 10 stig í plús um nætur eru alveg í lagi mín vegna.
Borgarfjörðurinn skartar sínu fegursta
27.8.2007 | 09:14