Í bláa lóninu græna og fleiri afrek helgarinnar

Á leiðinni út á flugvöll í dag, með nýsjálensku frændurna, var auðvitað komið við í Bláa lóninu, sem ég hafði reyndar frétt að væri orðið grænt. Það er orðið ansi mikið grænt! En við hliðina er verið að safna í blátt lón og gott ef ég var ekki búin að frétta að það ætti að víxla þessu einhvern veginn, sé reyndar ekki alveg hvernig, en það er ekki mitt vandamál. 

Svo er vetrarrútínan að hefjast, fyrstu heimadæmin í vinnslu, sem er bara gaman, svo er það skert vinna og aukavinnan mín, að koma út bók sem hefur legið í handriti í nokkur ár. Ekki seinna vænna. Segi meira um það fljótlega, býst ég við.

Veturinn má alveg bíða smá í viðbót, ég harma ekkert sérstaklega hlýindin þótt þeim fylgi vætutíð, en þegar ég gaut augum á Fargo í sjónvarpinu áðan, þá auðvitað veit ég að veturinn kemur, það er óhjákvæmilegt, ja.

Eftir frekar miklar keyrsluviku þá var gott að taka smá kúnstpásu í dag, hvíla sig smá og glápa á kassann, áður en heimadæmin voru tekin fram. Þau eru ekki búin, en hálfnað verk þá hafið er, eins og við líka sögðum þegar við settum fyrstu parkettfjalirnar á miðsvæðið margflotaða um seinustu helgi. Svo bústaðurinn fær að bíða og við verðum við stærðfræðiiðkun og parkettlagningu þessa helgina. Ekki amalegt.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mikið er það sætt af þér að setja inn nýja færslu fyrir konu sem situr uppi um miðja nótt og setur saman greinargerð (jú, jú, mikið rétt. Þú átt kollgátuna! Það er greinargerðin sem við ræddum um í fyrradag ).

Bláa lónið orðið grænt, segirðu. Það minnir mig á erlenda ferðamenn sem báðu mig í fyrra um að segja sér hvernig þau kæmust í Bláa lónið. Það var sjálfsagt mál og fljótgert, málið varð hins vegar flókið þegar þau báðu mig um að segja sér frá vatninu og hvort lónið væri ekki örugglega eins stórkostlegt og segir í ferðabæklingum. Ég reyndi að sveigja og beygja hjá þessum spurningum, en þau héldu áfram að spyrja svo ég átti ekki annan kost en segja þeim hreinskilnislega að ég hefði aldrei komið í Bláa lónið, hvorki það gamla né það nýja. Á dauða sínum áttu þau frekar von en að finna Íslending sem dveldi ekki þarna í öllum frítímum. Eftir langar samræður um hvernig tekst að auglýsa sum svæði á þann hátt að óskilgreindir "allir" verði að fara þangað þá tók ég tilboði þeirra um "deal" okkar á milli að ég héldi uppteknum hætti að fara ekki í Bláa lónið og þau slepptu ferð í það sama lón en fóru í staðinn í uppáhaldssundlaugina mína á Seltjarnarnesinu.

Jú, vetrarrúntínan er byrjuð á þessu heimili líka. Dundaði mér í dag við að leysa auðveldu verkefnin í nýju "litabókinni" minni. Svo teljum við bara niður Anna mín, þar til árlegt "sumarfrí" að vetri gengur í garð.

Helga 2.9.2007 kl. 03:34

2 Smámynd: Steini Thorst

Já hvað er málið með Græna Lónið?????

Ég er búinn að þurfa að svara fyrir þetta alltof oft í sumar því ég hef farið með minnst 4 litla hópa af ýmist erlendum ættingjum eða erlendum viðskiptavinum. Og Lónið er ekki einu sinni fagurgrænt. Það er bara dökkgrænt, þörungagrænt og ljótt.

Steini Thorst, 2.9.2007 kl. 23:22

3 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Já, þetta er ekkert fallegur grænn litur, en vonandi verður eitthvað gert í því að dýfa okkur aftur í blátt lón í stað þessa græna.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 3.9.2007 kl. 00:42

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband