Færsluflokkur: Tölvur og tækni

Lifað í fortíðinni, nútíðinni og framtíðinni

Sagnfræðingar hljóta eðli málsins að lifa í fortíðinni, það er mjög erfitt að fjalla um nútíðina af nokkru viti fyrr en hún er orðin fortíð. Elska alltaf bók sem ég keypti mér fyrir laun sem ég fékk fyrir erindi á ráðstefnu í Noregi 2009. Við fengum öll inneign í bókabúð og ég féll, aðallega fyrir bókatitlinum: Fortida er ikke hva den en gang var. Bókin er líka góð. Fékk mér líka smá skammt af Jo Nesbö, svo ég gæti gleymt stund og stað. 

Samt sem áður hef ég alltaf verið æði gjörn á að lifa í framtíðinni, ekki bara að skipuleggja komandi ferðalög, en það er ein birtingarmyndin. Kannski þess vegna sem ég ákvað um miðjan aldur að gerast tölvunarfræðingur, og sérhæfa mig í því sem þá hét Ubiqitous computing, Ubicomp (lokaverkefnið 2008), núna er Internet of things náskylt því öllu, en Ubicomp líklega hluti af fortíðinni, þótt það fjallaði þá um framtíðina. 

2023-02-11_09-56-58

Meðan ég nennti ekki að bíða eftir framtíðinni, og hafði ekki pening til að fjárfesta í því flottasta í nútíðinni, lítilli Toshiba ferðatölvu, anno 1989, leysti ég það snilldarlega með kaupum á 13 kg ferðatölvu (með batteríum), það er að segja, hún gat ferðast með mér, en fátt annað. Einungis til Íslandsbrúks. Tvö 5.25 tommu drif, annað ræsti hana og réð við einfalda vinnslu hitt með gögnunum. Tifalt ódýrari en Toshiban, sem var keimlík núverandi fartölvum.

download (1)  

Nútíðin hefur orðið sterkari í tilverunni að undanförnu, það myndlistarvafstur sem ég stend í er nefnilega rosalega tengt nútíðinni, sjálfsagt er það argasta núvitund að gleyma stund og stað og vatnslita, ein eða í góðs fólks hópi. Á Tjarnarbúðarárum mínum voru villtar danslotur af sama toga, eitthvert tímalaust andartak í nútíðinni. Það er auðvelt að gleyma sér við slíkar aðstæður og þótt ég hafi ekki kynnt mér nein nútvitunarfræði, ímynda ég mér að hún (núvitundin) sé eitthvað í þessum dúr. 

Á aldinn vin sem kíkir stundum í spil (bara einu sinni fyrir mig). Hann skoðar fortíðina í nútíðinni og nútíðina í framtíðinni og ýmsar samsetningar þessara tíða allra saman, fyrir barnabörnmin. Framsýnn maður með sterka tengingu við fortíðina. 

Og svona til þess að staðfesta orð mín, var ég að vista þessa færslu og birta. Svona kom dagsetningin út: 

2023-02-11_10-09-08

 


Til hamingju Controlant með UT-verðlaunin - frábært að vinna

Controlant er einstakt fyrirtæki á margan hátt. Margvíslegar viðurkenningar hafa fallið fyrirtækinu í skaut, ekki einungis frá því það komst í sviðsljósið sem mikilvægur hlekkur í þeirri keðju sem gerði heimsbyggðinni kleift að spyrna myndarlega við fótum þegar kórónaveiran fór að herja og virti hvorki landamæri né annað. Strax árið 2009 mátti sjá hvert stefndi, þegar Controlant fékk frumkvöðlaverðlaunin Gulleggið (en er nú orðið bakhjarl verðlaunanna). Í dag bættust merkileg verðlaun í safnið, UT-verðlaunin sem veitt eru á UT-messu Ský á ári hverju. Sömu stofnendur fyrirtækisins tóku við þeim og forðum daga fyrir 14 árum. 

Heimasíða Controlant gefur hógværa mynd af því hverju fyrirtækið hefur áorkað, en er engu að síður áhugaverð. Controlant

Ögn meira var sagt fyrirtækinu til hróss fyrir tveimur árum þegar Útflutningsverðlaunin voru veitt: Controlant Útflutningverðlaun og í ótal blaðagreinum sem birst hafa á undanförnum árum. 

Já, það er frábært að vinna. Og það get ég sagt í tvennum skilningi, annars vegar var auðvitað Controlant að vinna og hins vegar er ég búin að vinna hjá Controlant í rétt rúmt ár. Hrein tilviljun réði því að ég var viðstödd þessa verðlaunaveitingu, sat úti í sal og fagnaði innilega, því ég hafði ekki hugmynd um að nákvæmlega núna fengi fyrirtækið sem ég vinn hjá nákvæmlega þessi verðlaun. Ég var ekki einu sinni stödd á UT-messunni á vegum fyrirtækisins, því ég hef sótt þessa messu nánast óslitið frá upphafi, rétt fyrst á vegum hugbúnaðarfyrirtækja sem ég hef unnið hjá, en frá árinu 2016 á vegum Ský, þar sem ég fékk það verkefni að skrifa 50 ára sögu hugbúnaðargerðar á Íslandi, sem út kom 2018, á vegum þeirra. Fyrir næstum mánuði nefndi ég við minn næsta yfirmann hvort það væri í lagi að ég eyddi þessum degi í þá endurmenntun sem UT-messan ávallt er, og hún hélt nú það. Svo kom babb í bátinn því annar þeirra sem veitti verðlaununum móttöku í dag var búinn að skipuleggja heils dags vinnufund okkar í rannsókn og þróun innan fyrirtækisins. Ég treysti því að því yrði frestað, og það reyndist rétt, svo ég komst, og hann auðvitað að taka við þessum verðlaunum. 

Þegar ég fór á eftirlaun fyrir fimm árum var það ekki síst til að hafa tíma til að fylgja eftir í gegnum útgáfu þessari tölvusögu sem Ský réð mig í að skrifa. Síðan tóku við fjölmörg verkefni, glæpasagnaskrif, vatnslitun og ekki síst góðar stundir með mömmu, meðan hennar naut við, en í dag eru þrjú ár síðan hún lést, níræð að aldri. Þetta var dýrmætur tími. Alltaf gat ég þess samt að ég gæti hugsað mér að snúa aftur í hugbúnaðarbransann og fyrir 13 mánuðum kom dóttir mín inn um dyrnar heima og sagði: Mamma, það er verið að auglýsa eftir þér! Þremur vikum síðar hóf ég störf hjá Controlant, átti þá fjóra mánuði í sjötugt. 

UT-messan er alltaf eins og stúdentaafmæli. Gaman að hitta gamla vinnufélaga og nýja, kennarana sem eiga heiðurinn af því að mér tókst að ljúka mastersnámi í tölvunarfræði (hitti einn þeirra í dag og náði að þakka honum) en þetta er í fyrsta sinn sem ég ákvað að vera viðstödd verðlaunaafhendinguna! Ekki veit ég hvað rak mig inn í salinn, en mikið var ég glöð að hafa ákveðið þetta. Fyrr um daginn hafði ég hlustað á einn félaga okkar hjá Controlant eiga stjörnuframkomu í einu af ótrúlega mörgum góðum erindum á messunni. Svolítið stolt í dag, og mig grunar að ég hafi verið eina af okkur vinnufélögunum sem var alveg grunlaus um hvað í vændum var, því ég var þarna í mesta sakleysi á vegum Ský (og þar á bæ kann fólk að þegja). ut verdlaun


Gamla 11 kg ferðatölvan mín ...

Fyrir nokkrum árum neyddist ég til að henda gömlu 11 kg ferðatölvunni minni sem hafði svosem verið fyrir og til einskis gagns í fjöldamörg ár, en mér þótti hálft í hvoru vænt um hana. Gömlu batteríshlunkarnir sem höfðu dagað uppi innanborðs voru farnir að leka baneitruðum (vænti ég) sýrum og út skyldi kvikindið. Hafði hálfgerðan móral, mér þótti vænt um hana þó hún væri þung, kraftlaus og löngu úrelt, meira að segja þegar ég fékk hana.

amstrad-ppc

Það var sumarið 1989. Ég hafði skoðað fyrr um vorið unaðslegar Toshiba fartölvur, sem líktust talsvert mikið núverandi fartölvum. Þær voru í hæsta lagi 3 kg á þyngd og kostuðu um 300 þúsund kall í Singapore, þar sem ég þurfti að fara bæinn á enda til að finna tölvuverslun. Ekki beint sú verðlagning sem ég réð við. Um sumarið fann ég sárabótina, Amstrad PPC512, í vesturenda Oxford Street í London. Hún kostaði um 33 þúsund kall og það var meira að segja talsvert meira en ég taldi mig hafa efni á, en huggaði mig við að ég fengi virðisaukann endurgreiddan við brottför frá Bretlandi. Ávísunin sem mér var heitið á flugvellinum er enn ókomin en vélina átti ég í hálfan annan áratug.

 

ppc640aa

Nostalgía, tölvunördaháttur og sagnfræði fengu mig til að fletta þessu bákni upp, og ég fann þá út að tölvan hefði ,,bara" vegið 11 komma eitthvað pund, eða sex kíló. En NB það var áður en maður hlóð hana með 10 risabatteríum og án hlunksins sem var straumbreytir og fylgdi með, en batteríin entust í klukkustund og þurftu að vera í þótt tölvan væri í sambandi. Þannig að ætli þetta hafi ekki slagað upp í 11 kílóin þegar til kom.

Og ef einhver heldur að ég hafi verið að gera meiri háttar mistök með því að henda henni, þá er það hvorki fjárhagslegur né tilfinningalegur skaði, ein slík fór á 12 pund (GBP) á eBay í sumar og tilfinningarnar við að drösla henni á milli staða voru blendnar, enda var þetta ekki einu sinni kallað ,,portable" fyrirbæri heldur ,,luggable". En gaman var að rifja upp kynnin og skoða myndir og staðreyndir.

 

Ég hef bæði séð talað af virðingu um þessa tölvu og svolítið niðrandi. Í lokin smá staðreyndir af netinu - tek fram að ég átti eldri og kraftlausari gerðina (512):

Amstrad PPC512,
PPC 640

type computer
country England

year 1988
os Dos 3.3, Gem
cpu Nec V30
speed  8 MHz
ram 512 KB /
640 KB
rom 16 KB
graphic 640x200
colors mono green
sound beeper
disk 3,5" floppy (720 KB)
ports
Centronigs, RS323,
CGA, two expansion ports,
modem
comment Amstrad PPC 512
and PPC 640 are quite
heavy (6kg) portable
computers with poor LCD
screen and buit-in modem.
It's also works with 10
batteries, but only one
hour :)
.

AMSTRAD PPC512: I don't know if it is callable "notebook", it was far from a notebook... It has a cool design, but not very usable because it has not a harddisk and he need 10 size A battery (obviously not rechargeable) :)

(Og PS ... ég veit það er fleira að gerast í landinu).


Komst inn á gmail, vona að ykkur hinum gangi líka vel

Þá komst ég inn á gmail og ósköp var það gott. Vona að það sé ekki bara tilfallandi, heldur að vandinn sé leystur.

 

 


Gmail er úti - veit einhver eitthvað um málið?

Gmail er úti núna - næst ekkert samband við þessa annars frábæru þjónustu google, tölvupóstfangið sem ég hef lengi notað sem mitt aðal póstfang. Eins og venjulega var ég búin að senda fyrirspurnir og sjálfri mér minnispunkta og gögn í þetta netfang, en ég minnist þess ekki af nokkurra ára kynnum við gmail að hafa lenti í einhverju af þessu tagi. Veit einhvern eitthvað um málið, hef ekki séð neinar tilkynningar á netinu, en reyndar ekki leitað ýkja mikið.


Skrefið inn á Facebook

Netheimar eru víðfeðmir. Var að skrá mig á Facebook núna rétt áðan, gott að geta skoðað myndir sem eru þar til dæmis, og svo er þetta greinilega eðlilegt næsta skref. Svo kemur bara í ljós hvernig ég nota þetta í framtíðinni. Greinilega ýmsir sem ég þekki skráðir þarna, það er ekki verra, sé hvenrig undirtektirnar verða.

INNNflutningsannríki

INNN, hugbúnaðarfyrirtækið sem ég hef unnið hjá í hálft annað ár, var að flytja eftir sameiningu við Eskil og að undanförnu hefur verið mikið annríki hjá okkur. En í dag var sem sagt flutt á Lynghálsinn og búin að vera svolítið geggjuð innflutningsstemmning hjá okkur, þrátt fyrir að flutningafyrirtæki sæi um kassa og húsgagnaburð.  

Hálf lúin eftir erilssama viku, þar sem flutningarnir bætast ofan á venjulega, daglega vinnu. Ekki bætir úr skák að ég er enn í 100% starfi en 30% skólinn minn er byrjaður. Fleira í bígerð og fleira að baki, en ég vona samt að næsta vika verði ekki alveg eins kræf.


Don't know, don't care

Af og til fréttir maður af bröndurum sem ,,óvart" hafa komist í umferð frá einhverjum forriturum, og ein slík er einmitt hér í fyrirsögninni (Don't know, don't care). Einhver forritarinn setti þetta hreinskilnislega komment undir hjálp við einhverjum hremmingum í forritinu sem um var að ræða. Annað frægt dæmi er reyndar nokkuð sem ég hélt alltaf að væri bara brandari en ekki veruleiki, en er bara hreinlega dagsatt, lenti ítrekað í því. Í einhverri gamalli Windows útgáfu gerðist það nefnilega að stýrikerfið fann ekki lyklaborðið og bað fólk vinsamlegast að ýta á F2 takkann til að redda málunum! Eða var þetta kannski ekki brandari?

Vinnufélagi minn rakst síðan á enn einn sannan brandarann á map.google.com - þegar hann var að fletta upp ráðlagðri leið milli Bandaríkjanna og Evrópu: Þarna komu mjög ítarlegar upplýsingar um leggi á leiðinni en allt í einu rakst hann á eftirfarandi:

Swim across the Atlantic Ocean3,462 mi


Dottin í tölvurnar

Nú er ég alveg dottin í tölvupælingar, var nefnilega að átta mig á því að það er kominn tími á þessa tvo lappa sem ég á, sem báðir eru meira en fimm ára gamlir. Tilviljun ræður því að ég á tvær laptop tölvur á sama aldri, aðra fékk ég gefins og hin hefur fengið að eldast hjá mér. Báðar enn nothæfar en önnur hefur verið tilraunadýr hjá mér og ekki síður Óla syni mínum, þar sem hver kynslóðin á fætur annarri af Linux stýrikerfum hafa komið  við. Mjög skemmtilegur tími. Hin er dæmigerð með Windows 2000 en er komin með alls konar galla, sem er hægt að lifa með en ekki meira. En núna er kominn tími á uppfærslu. Ég hef verið að skoða leynt og ljós í rúmt ár hvaða tölva hentaði mér best, og komst að þeirri niðurstöðu að mig vantaði eina bleika! Og það verður væntanlega ofan á. Var lengi skotin í pínulítilli Fujitsu og fékk hana um daginn sem vinnutölvuna mína. Hún var auðvitað alveg draumur í ferðinni til Englands um daginn, en mitt eintak alla vega er með allt of viðkvæmt geisladrif. Þannig að á leiðinni heim frá Cambridge gat ekki spilað neitt nema Borat eða flugslysakvikmynd (Flight 93) á leiðinni heim. Borat þarf ég greinilega að skoða með fjölskyldunni, þannig að flugslysamyndin fór inn, ég kunni reyndar varla við það að vera að spila svoleiðis í flugvél, en myndin er spennandi.

Annars hefur tölvusagan mín verið mjög skrautleg. Fór að vinna á tölvu ca. 1983 og eignaðist fyrstu PC tölvuna 1985 og síðan fyrstu ,,fartölvuna" 11 kg. hlunk, 1989. Síðan hafa allnokkrar komið við í fjölskyldunni en almennt er tölvukostur okkar frekar gamall alla jafna, enda frekar nýtin fjölskylda. Þegar gamla mín var 2-3 ára hrundi til dæmis skjárinn og í stað þess að kaupa nýja lét ég bara gera við hana. Hún átti annan eins lifitíma eftir, en er núna orðin ansi hæglát enda aldin heiðurskelling samanborið við margar aðrar. En nú er kominn tími á að skipta svo kannski verður sú næsta bleik og spræk, alltaf veik fyrir bleiku.


Vonandi er þetta smitandi ;-)

Mér líst rosalega vel á þetta, vonandi smitast þetta til fleiri borga, einföld en mjög mögnuð aðferð til að auka aðgengi allra að netinu. Svo sakar ekki fyrir sólarlandafara að þetta er næsta borg við Torremolinos og fleiri góða bæi á Costa del Sol, þannig að þeir sem skreppa þangað vita þá af því, þetta er bara hin indælasta borg, eða var það alla vega þegar ég var að þvælast þar fyrir dálítið löngu.
mbl.is Malaga fyrsta borgin með þráðlaust net
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband