Færsluflokkur: Vísindi og fræði

Einkajarðskjálfti?

Rétt uppúr miðnætti fundum við mæðginin, sem enn vorum vakandi, greinilega nokkuð þokkalegan jarðskjálfta. Tek það fram að Krýsuvíkurskjálftarnir finnast mjög vel hér á okkar svæði á Álftanesi alla vega, svo við vorum nokkuð viss um að hann væri úr þeirri áttinni. Smá hissa þegar við sáum að það var ekki öðru til að dreifa á þessum tíma en skjálfta uppá 2.8 (óyfirfarnar frumniðurstöður) í um 20 km fjarlægð. Hann virkaði nú aðeins stærri hér, hefði frekar giskað á 4. En þetta hefur greinilega verið okkar einkaskjálfti. Fer alla vega í safnið.


Hugsjónir og mænuskaði

Samtök sem berjast fyrir bættum hag fólks með mænuskaða eru að fara í mikla fjáröflun á næstunni og ég ætla rétt að vona að allir verði tilbúnir að leggja þessum málstað lið. Elfa vinkona mín Gísladóttir (sumir muna best eftir henni sem Beggu frænku á Stöð 2) var hér í sumar og langaði að vera með í einhverju slíku átaki, eins og því kraftaverkaátaki sem gert var í þessum málaflokki fyrir 20 árum að mig minnir. Ragnheiður Davíðsdóttir hefur auðvitað verið pottur og panna í þessu máli og ég gleðst því innilega yfir því að hún keyrir málið áfram núna þótt Elfa hafi ekki náð að vera með í þessu átaki á meðan hún var á landinu (hún er leikhússtýra með meiru í Washington-fylki í Bandaríkjunum núna en bjó áður í Kanada). Og nú er allt á fullri ferð í málinu. Það er svo margt hægt að gera með samstilltu átaki.


Þrumuveður í Rúmeníu ... eða þannig - eins og lítill jarðskjálfti á hlið

Stundum kemur hressilegt þrumuveður eftir sólríkan morgun og þannig varð það í dag. Hanna segir að þetta sé sennilega eitt voldugasta þrumuveðrið að undanförnu alla vega. Ég rétt slapp heim úr búðinni og af prent/ljósritunarstofunni, með mikilvægar glósur í lausagangi, lélega regnhlíf í fanginu og fjórar tveggja lítra vatnsflöskur á bakinu. Þrumurnar sem heyrast út um austurgluggann eru stundum í Rúmeníu, enda væri ekki nema korters keyrsla þangað ef vegurinn lægi beint í austur. Hraði þrumanna er öllu meiri. Eldingarnar voru vel sýnilegar i björtu og þegar veðrið var sem næst (sem sagt ekki handan landamæranna) og aðeins hægt að telja upp að fjórum milli eldingar og þrumu, þá nötraði fimmta hæðin hér í húsinu, þar sem við erum, allvígalega, þetta var eiginlega eins og lítill jarðskjálfti á hlið. Rúðurnar glömruðu afskaplega myndarlega, enda sæmilega stórar og gluggarnir ekki eftir íslenskum stöðlum, en tvöfaldir þó. Minn reyndar með fiskiflugu á milli sem stendur, af því þegar ég lokaði honum áðan, fyrir úrfellið, þá var hún stödd þar.

Og nú er sólin farin að skína á ný.

 


Bara eitt sem ég skil ekki: Hver er hissa?

Löngu búin að átta mig á þessari staðreynd, að karlmenn tala meira en konur. En það þarf kannski rannsókn til að sannfæra aðra um það, og hér er hún komin.


mbl.is Rannsókn: Karlar eru málgefnari en konur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Misstuð þið líka af jarðskjálftanum?

Ég veit að jarðskjálftar eru ekkert grín, en samt er ég alltaf svolítið spæld þegar ég ,,missi af" jarðskjálftum, eins og þegar stóri 17. júni skjálftinn kom árið 2000. Þá sat ég í bíl í Keflavík og þegar skjálftinn reið yfir kom þessi ágæta athugasemd úr sætinu við hliðina: Það er aldeilis farið að hvessa. Svo hringdi nágranninn að norðan og vildi vita hvort húsið hans stæði enn. Frétti það líka frá Ungverjalandi núna að skjálfti hefði orðið hér rétt fyrir utan Álftanes. Vissi það ekki fyrr en þá, sem sagt missti af þessum.

Hef náð nokkrum mögnuðum skjálftum, stóll rúllað með mig (það var Jónsmessuskjálftinn 2000) og sá besti var þegar við Elísabet systir vorum í símanum, hún á Seltjarnarnesi og ég á Álftanesi. Einn af Krýsuvíkurskjálftunum minnir mig. Ég spurði: Fannstu þennan, hann var stór! Og hún sagði nei, .... jú núna finn ég hann. Hann ER stór.


Hverjum dettur í hug að hætta sér út í að halda (stuttan) fyrirlestur um stærðfræði?

Mér.

Stærðfræði

Mér finnst stærðfræði ótrúlega skemmtileg, en fyrir manneskju sem hætti að læra stærðfræði í skóla 17 ára gömul og var þá komin með stúdentspróf í stærðfræði allt í einu, er ótrúlega strembið að taka upp þráðinn meire en 30 árum seinna. Það gerði ég nú samt og er núna að reyna að finna mér tíma til að sinna þessum lokaspretti í náminu af meiri krafti en tími virðist gefa mér færi á. Hélt það dygði að fara niður í hlutastarf, en bara þessa viku þá sé ég ekki betur en ég verði komin upp í 100% (nema auðvitað í kaupi) á annarri viku tilraunarinnar til að finna meiri tíma fyrir skólann. Þetta dugar auðvitað ekki!

Skrýtin þessi afstaða til kvenna og stærðifræði sem var við lýði þegar ég var í menntó. Við í stelpubekknum í 4. bekk voru látnar læra einhverja afgamla bók hjá áhugalausum og á köflum afskaplega pirrðum kennara. Skilaboðin voru óþarflega skýr, fyrst þið stelpur veljið ekki stærðfræðideild (sem kannski fimmtungur stelpnanna í menntó gerði), þá er eins gott að þið hættið að kássast upp á þennan innvígða heim. Eftir að hafa átt stærðfræðina sem annað af tveimur uppáhaldsfögum í gagnfræðiaskóla var synd að missa af lestinni en ég finn að ég er öll að hressast. Kúrsinn sem hann Stebbi bróðursonur minn hreinlega bar mig í gegnum þannig að ég rétt skreið á prófinu er núna hinn þægilegasti (því auðvitað er ég að endurtaka hann, sætti mig ekki við þá einkunn sem ég skreið með þótt hún væri kraftaverk á sínum tíma). Annar öllu erfiðari er svona álíka og þessi var mér á fyrsta ári þessa náms, sem ég held bara að ég sé að fara að klára ;-) Reyndar eftir að heyra hvort ég er ekki örugglega á réttri leið með lokaverkefnið, það er stærsti óvissuþátturinn. En stærðfræðin rokkar, alla vega svolítið. 


Spásnillingar landsins, segið mér hvernig veðrið verður í vetur

Ég er búin að setja nýja könnun á netið, hana er að finna hér á vinstri hönd, fyrir ykkur sem þekkið hægri og vinstri. Hin bara leitið og þér munið finna ;-) 

Mig langar svo óskaplega til að vita hvernig veðrið verður í vetur, gaman að sjá hversu forspá þið verðið. Dalvíkurklúbburinn má alveg vera með, bara betra.

Af fyrri könnun er það að frétta að hún er hætt. Góðar niðurstöður. 


Besta

Fyrirsagnarstíllinn minn er ekki uppreisn gegn vaxandi tilhneigingu á blogginu. Ég hef alltaf verið hálf feimin við hugtakið ,,besta". Draumar hippakynslóðarinnar fólust meðal annars í því að gera ekki upp á milli, dæma ekki (of mikið) og að ráðast gegn öllu ríkjandi verðmætamati, líka öllum þessu dilkadrætti í ,,besta" þetta og besta hitt. Og að mörgu leyti finnst mér það ágætt veganesti. Það merkir alls ekki að fletja út allt, þannig að allt sé í sömu meðalmennskunni, heldur að viðurkenna að það besta fyrir einn er ekki það besta fyrir annan og að það sem ríkjandi verðmætamat telur ,,best" er oft harla forgengilegt. 

En auðvitað lendir maður í þversögn við sjálfa sig. Ætla ég að segja að Gunna vinkona fyrir norðan sé bara meðalgóð vinkona, þegar hún er búin að vera ,,bestavinkona" í bráðum 40 ár? Og hvort ég skemmti mér ekki við að velja áhugaverðar bækur (þáverandi bestar) fyrir ,,19. júní" eitt árið.  Reyndar fékk ég bakþanka áður en blaðið var komið úr prentun, ó, ég hefði frekar átt að nefna Hvunndagshetjur, hvernig gat ég gleymt þeim, ó, ég hefði átt að ...

Ég er sannfærð um að Creep sé besta lagið í heimi (fucking special útgáfan). Einu sinni var það lag ekki til, og furðu stutt síðan reyndar, og þá var annað lag best.  

Það rifjaðist líka upp fyrir mér fyrir skömmu að bókin Litli prinsinn er besta bók ever. Meðan ég var (rosalega) blankur námsmaður keypti ég í Næpunni 10-12 eintök af bókinn, á góðu verði, og gaf þeim sem mér fannst að yrðu að eignast hana. Þegar góð vinkona mín dó, þá var það fyrsta sem ég hugsaði: Var ég búin að gefa henni Litla prinsinn? Ég held það. Áttaði mig seinna á því að þessi tilfinning er vísan í bókina. Þeir sem þekkja hana vita eflaust hvað ég á við. Hjálmurinn, blómið ...

Og þar að auki langar mig alltaf til að setja af stað könnun um fegursta (besta) orð íslenskrar tungu. Ég er búin að gera tvær máttlitlar tilraunir, reyndi fyrst að fá þetta inn í Vikuna (1980-1985 ca) en talaði fyrir daufum eyrum. Sá fyir mér fegursta orðið á palli, með krans um hálsinn eins eða kórónu eins og fegurðardrottning, heyrði málfræðingana gefa því einkunn fyrir þokka og einhvers staðar hefði verið rúm fyrir ,,lestur góðra bóka". Svo gerði ég þessa könnun á hinu blogginu mínu og þakka Gurrí og hinum tilnefningar og þátttöku. En það blogg var hvergi auglýst og er eiginlega ennþá bara einkaflipp með gömlum vinum og ættingjum.

Þannig að kannski á ég eftir að vera með alls konar ,,besta" dót hér á síðunni í framtíðinni. Reyna aftur að virkja kraft þjóðarinnar til að finna fegursta orð íslenskrar tungu, fyrst fólk gat fundið þjóðarblómið (reyndar varð rangt blóm fyrir valinu, blágresið blíða er alltaf flottast) þá hlýtur það að takast einhvern tíma. Svo væri gaman að vera með lista yfir bestu bækurnar, bestu lögin, já, ég held það sé best að gera eitthvað í þessu ...


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband