Fer barátta Heiðu að bera árangur?

Barátta Heiðu (skessa.blog.is) gegn nauðgunarlyfi sem er enn á markaði hér á landinu gæti verið að bera árangur. Í kvöldfréttum mátti alla vega greina smá von í viðtali við landlækni, þrátt fyrir smá fyrirvara sem voru óþarfir. Vonandi að þetta lyf hverfi af markaði sem fyrst áður en fleiri verða fyrir barðinu á því.

42 og listin að spila golf svo að öllum líði vel

Hef einsett mér að ánetjast golfi. Þetta er útivist, hreyfing, keppi og gaman og svo er mér sagt að (góðir) skvassarar geti orðið góðir í golfi, en ég veit ekki hvað er með skítsæmilega skvassara, ættu þeir ekki að geta orðið skíktsæmilegir í golfi? Svo eru golfvellir út um allt land, en tennis- og skvassvellir varla nema í 2-3 sveitarfélögum. Eina ,,smá" vandamálið er að ég sinni þessu nýfundna áhugamáli mínu nánast ekki neitt. Uppgötvaði nýjan flöt á golfinu í dag, þetta er hin skemmtilegasta vinnustaðaíþrótt.

Alla vega þá var golfmót hinna sameinuðu fyrirtækja, INNN og Eskils í dag, það var virkilega gaman og við vorum ljónheppi með veður. Það fór ekkert að rigna fyrr en við vorum búin með hringinn okkar. Sjö hópar kepptu og  fjórir (!) þeirra voru efstir og jafnir og fóru hringinn á 42 höggum, sem er bara dágott. Fyndið, því talan 42 er hvorki meira né minna en svarið við alheimsgátunni (þennan skilja sumir ;-)

En það sem ég dáist mest að er kerfið sem við spiluðum eftir. Það heitir víst Florida Texas Scramble (sem er furðulegt nafn) og felst í því að eftir upphafshöggið er valið besta höggið en sá sem á besta höggið hverju sinni situr hjá eina umferð. Þannig er tryggt að flestir eða allir eigi möguleika á að eiga ,,besta" höggið einhvers staðar á leiðinni. Ég hafði sett mér það persónulega markmið að eiga alla vega eitt högg sem væri notað (áður en ég vissi um kerfið) en þegar til átti að taka þá missti ég meira að segja töluna á nothæfu höggunum mínum - við vorum einn af 42 högga hópunum. Í hverjum hópi var alla vega einn vanur, jafnt frá hvoru fyrirtæki og sem jafnast kynjahlutfall. 


Meira um réttlæti

Fyrsta heimsóknin á bloggið mitt eftir að ég skrifaði smá hugleiðingu um réttlæti var frá konu sem er að berjast fyrir réttlæti með mjög ákveðið markmið í huga. Skoðið síðuna hennar Heiðu (skessa.blog.is) sem er að fjalla um það réttlætismál að banna öll nauðgunarlyf tafarlaust. Mig langar að leggja þessari baráttu lið og þakka Heiðu fyrir að koma með ákveðinn farveg fyrir slíka baráttu.

Bendi líka á mjög góða umræðu á síðu gegn ofbeldi gegn konum sem er í tengslum við Amnesty: gegnofbeldi.blogspot.com - þar er líka fjallað um baráttu gegn nauðgunarlyfjum. 


Réttlæti

Dagur í faðmi vina og vandamanna, samband af gleði og trega. Og óvenju mikið talað um réttlæti. Í rauninni þarf ekki annað að vera fullkomið ef við getum skapað samfélag réttlætis, að því leyti sem það er í valdi okkar fólksins að gæta þess.

Hlutir gerast hratt í hugbúnaðargeiranum

Núna er ég búin að vinna hjá INNN í um hálft annað ár og ósköp ánægð þar. Þegar ég fór að vinna í hugbúnaðarbransanum fyrir rúmlega sex árum vissi ég vel að þar var hægt að búast við viðburðaríku lífi. Enda reyndist það rétt. Eftir hálft ár var ég farin að fara milli Danmerkur og Íslands tvisvar í viku, viku eftir viku. Mikið að gera og mikið fjör. Svo róaðist í því starfi en ég heyri þó frá gömlu vinnufélögunum mínum að enn eru viðburðir þar á bæ, þrjú að flytja til Spánar á vegum fyrirtækisins um þessar mundir með misstórar fjölskyldur.

En síðan ég byrjaði hjá INNN hafa einnig verið miklar breytingar þótt af öðru tagi séu, nefnilega tvisvar orðið eigendaskipti á þessu eina og hálfa ári. Og núna á föstudaginn var tilkynnt um sameiningu okkar og annars álíka stórs hugbúnaðarhúss, Eskils, sem útheimtir flutninga upp á Lyngháls, einnig aðra flutningana síðan ég byrjaði hjá INNN. Þar með verð ég að vinna við hliðina á Gurrí, sem er gott, og Prentmeti, sem er líka gott (skýri það seinna) en fjær flestum viðskiptavinunum núna en áður, þegar við vorum í Skipholtinu, og þar af leiðandi meiri keyrsla á okkur. Reyni að haga fundum í bænum þannig að þeir falli sem næst tímunum sem ég mun sækja í háskólanum. Stefni á útskrift í febrúar.

Það er ekki hægt að láta sér leiðast í svona vinnu. 


Gamla, góða Vikuliðið mitt

Við hittumst í gærkvöldi, gömlu, góðu vinnufélagarnir frá Vikunni 1980-1985. Það var eins og við hefðum hist í gær, varð einu okkar að orði, og þannig er það með sanna og góða vini. Þótt tilefnið hafi verið af þyngra taginu, fráfall Jóns Ásgeirs okkar, þá voru þetta góðir endurfundir. Við höfum hist af og til en óvenju langt síðan við hittumst seinast, en stundum er vinátta þannig að hún endist ævina og þannig er það með Vikuliðið góða.

Ljúf fjölskylduhelgi í bústaðnum

Mikið áttum við ljúfa fjölskylduhelgi í sumarbústaðnum. Í gær vorum við Ari tvö þar og nutum veðurblíðunnar en í dag komu yfir 30 ættingjar, mest úr föðurfjölskyldunni, í heimsókn til að halda mini-ættarmót. Hanna mín á förum aftur til Ungverjalands á morgun þannig að við vorum bæði að kveðja hana og heilsa uppá þá sem voru á landinu, Helgu frænku, Susse og Gitte og Nínu systur sem er nýflutt heim til Íslands. Guðmundur vinur okkar leit líka við á leiðinni norður og allir voru að pæla fram og til baka hver væri búin að fá sér nýjan mann ;-) þar til við því miður þurftum endilega að leiðrétta misskilninginn.

RIMG0422

 

Helga frænka sem býr í París

Nína systir, nýflutt frá Bandaríkjunum

Anna bloggari

Nana frænka, ljósmóðir og ánægð með úrslit keppninnar um fegursta orð íslenskrar tungu

Hjördís frænka, hestakona með meiru

 

 RIMG0433

 

 

 

 

 

 

 

Mestallt liðið á pallinum við bústaðinn okkar, einhverjir týndust í berjamó.

 


Mogginn tekur upp vindmylluþráðinn minn

Sá að Mogginn hafði ákveðið að birta Vindmyllubloggið mitt á síðum sínum í dag. Aldrei að vita nema hér skapist enn meiri umræða á síðunum um aðra valkosti í orkumálum en að leggja hálendið undir vatnsaflsvirkjanir og lón. Við erum komin að þeim punkti að flestar viðbótarvirkjanir munu verða umdeildar og umdeilanlegar. Gufuaflsvirkjanir eru heldur ekki hafnar yfir gagnrýni, og auðvitað yrðu aðrar hugmyndir, hvort sem væru vindmyllur, sólarorka eða vetnislausnir ekkert undanþegnar gagnrýni frekar en aðrir kostir.

Það sem máli skiptir er að festast ekki í einhverjum ramma og þora aldrei að hugsa út fyrir hann. Vindurinn hlýtur að vera áhugaverður til skoðunar í landi þar sem svona mikið blæs en þar með er ég auðvitað ekki að berjast fyrir vindmyllum í Viðey, eins og einn lesandi minn lét sér detta í hug. Í sakleysi mínu hafði mér hins vegar dottið í hug að nýta mætti gömul framræst og ræktuð tún sem hvert af öðru eru að fara í órækt á Suðurlandi, fjarri allri ósnortinni náttúru. Mér rann til rifja þegar ég fór að morgunlagi í bíltúr um Suðurlandið fyrir 1-2 árum hversu mörg gömul tún eru að komast í órækt og einhverjar þessara sléttna þyldu ef til vill vindmylluakra. Hins vegar er ég þeirrar gerðar að mér finnst alltaf að náttúran eigi að nóta vafans og ef svona framkvæmdir særðu auga annarra, t.d. vegna þess að sjónarhornið væri annað, þá legði ég þeim lið. 

Gaman að hafa opnað umræðuna og leitt hana út fyrir þröngan ramma, kannski er þetta valkostur sem einhverjum finnst áhugaverður, kannski ekki. Kannski er þetta raunhæft, kannski ekki. Og kannski finnast staðir hér á landi sem þola þessi mannvirki, kannski verður alltaf einhver til að mótmæla. Við hljótum öll að þurfa að hlusta á rök annarra.  


Bubbi töffari og Stuðmenn með lítið fyndna stæla

Bubbi Morthens var bara hreinlega kóngurinn á tónleikunum sem við vorum að fylgjast með í sjónvarpinu, með tónlistina í botni, þar til Stuðmenn byrjuðu með hljóðgervlastælana sína og tókst að slátra hverju snilldarlaginu á fætur öðru. Arrrggg það hefur einhver (Jakob) orðið vitlaus á tökkunum á hljóðgervlunum og skipað Agli að syngja millirödd í öllum lögunum. Svarti Pétur jaðraði við að vera í lagi, en þvílíkir stælar og ekki fyndnir. Ef þeir voru að reyna stæla Leningrad Cowboys þá var það mjög mislukkað (rússneskt lag og þýsk þýðing á öðru þekktu lagi). Synd að rústa annars frábærum tónleikum, en Bubbi var alla vega æði. Og reifst ekki síður en á góðum Þorláksmessutónleikum. 


Barist við vindmyllur

Á ráðstefnunni sem ég fór á í Helsinki um verslunarmannahelgina var meðal annars fjallað um aðra valkosti en kjarnorku sem orkugjafa. Eins og flestir vita efu Danir framarlega í notkun vindmylla og prófessor við Álaborgarháskóla sem er í fremstu röð á sínu sviði í heiminum talaði m.a. um vindmyllur, sólarorku af ýmsu tagi og fleira. Hér er sólarorka notuð til að hita upp heilu sumarbústaðina en engar vindmyllur (hef að vísu frétt af myllum úti á landi sem hættar eru notkun, held það séu allt vatnsmyllur). Hef spurt nokkra Íslendinga eftir að ég kom heim hvort þeir kannist ekki við mýtuna um að það sé OF hvasst á Íslandi fyrir vindmyllur. Jú, flestir hafa heyrt það. En alla vega ég bara VARÐ að heyra skoðun sérfræðingsins á þessu. Hann fékk flog af hlátri. Sem sagt, ég er gengin í lið með ,,mythbusters" og búin að hrekja eina mýtu nú þegar. Mágkonum mínum leist ekki meira en svo á blikuna vegna þessarar umræðu minnar, þegar ég sagði þeim frá henni, og vildu nú ekki að ég færi að agitera fyrir vindmyllum út um allt Ísland. Mér FINNST reyndar að við eigum að nýta alla orkugjafa en ekki einblína á einn eða tvo, en það er önnur saga. Og alltaf þegar ég ek um flatar sléttur fyrir neðan Landvegamótin þá sé ég fyrir mér að þarna myndi það ekkert skemma að hafa smá vindmylluakur. Aðallega er mín hugsun, vindurinn er svo mikill hjá okkur, þetta er orkugjafi, veltu því alla vega fyrir okkur hvort við ættum að nýta hann. Tek á móti stuðningi og skömmum einmitt hér. Þetta heitir sko að berjast við vindmyllur. (Já, ég hef lesið Don Kíkóta). 

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband