Farsæl björgun en ekki við Hrakhólma
22.9.2007 | 15:37
Það sem skiptir máli er auðvitað að fólkið bjargaðist og ekki er það verra að verðmæti gera það líka. Hins vegar finnst okkur Álftnesingum að það sé betra að fara rétt með örnefni. Strandð átti sér stað úti fyrir Hliði en ekki við Hrakhólma sem eru úti fyrir Bökkunum svonefndu. Þeir eru tveir og heita Eyvindarstaðahólmi og Sviðholtshólmi og koma aðeins upp við fjöru. Hættulegir sjófarendum því þeir eru ekki sýnilegir á flóði. Á stórstraumsfjöru er gaman að ganga út í hólmana. Fann góða mynd sem sýnir Hrakhólma efst til vinstri og Hlið neðst til vinstri, ætti að sýna hver munurinn er.
![]() |
Trillan sem strandaði á Hrakhólma dregin á flot |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ekki missa af Astrópíu!
21.9.2007 | 00:34
Hef verið svolíitð léleg við að fara á ævintýramyndir jafnvel þær allra vinsælustu, og ekki nógu dugleg að fara á íslenskrar kvikmyndir heldur, hálf skammast mín fyrir það síðarnefnda, því þegar ég fer þá skemmti ég mér yfirleitt vel. Mýrin er til dæmis ein af þessum myndum sem mig langar að sjá aftur, mynd sem gekk fullkomlega upp.
Í kvöld skrapp ég svo á Astrópíu með Óla (28 ára syninum). Það var reyndar ég sem fékk að velja myndina og úr mörgu góðu að moða, en þetta var myndin sem mig langaði á og vissi eiginlega ekki alveg hvers vegna. Hafði bara góða tilfinningu fyrir myndinni. Handritshöfundurinn (Ottó Borg) stórvinur Halldórs vinar míns (nema ég fari mannavillt) og það er yfirleitt ávísun á húmur, skot sem ég hef séð úr myndinni toguðu líka, þannig að já, ég náði meira að segja að sjá hana í stórum sal í Háskólabíói. Venjulega dugar mér að horfa á stórmyndir í stofunni heima, nema hasarmyndir sem krefjast góðs hljóðkerfis, þær reyni ég að sjá í bíói. En í þessu tilfelli var eiginlega nauðsynlegt að sjá myndina í sal með fleira fólki og hlæja eða súpa hveljur í kór. Reyndar var mjög misjafnt hvað vakti viðbrögð í salnum og hvernig viðbrögð, en salurinn var mjög lifandi og sýndi skemmtilegra lífsmark en poppkornsskrjáf.
Þetta er sem sagt dúndurmynd og yndislega fyndin. Maður þarf ekkert að vera ævintýramyndafrík (ábyggilega samt ekkert verra) og þetta er mynd sem er ólík öllum íslenskum myndum sem ég hef séð. Las í blaði að þetta væri hafnfirsk mynd og mikið rosalega er ég sammála því. Þið, sem þekkið Hafnarfjörð, skiljið hvað ég meina ef þið skellið ykkur á hana.
Kvikmyndir | Slóð | Facebook
Monk
16.9.2007 | 19:53
Farsæl endalok á pottasumrinu mikla
16.9.2007 | 19:47
Tónlist er ótrúleg list
14.9.2007 | 00:06
Kom uppnumin af sinfóníutónleikum í kvöld þar sem verið var að flytja norræn verk, Carl Nielsen, Jón Þórainsson, Sibelius og gleymdan Dana, Rued Langgaard, sem skrifaði geysimikið af verkum á fyrri hluta 20. aldar en fékk ekki eina einustu af 17 (minnir mig) sinfóníum sínum flutta opinberlega á meðan hann lifði. Frekar súrt því þessi 5. sinfónía hans var alla vega mjög áhrifamikil og lifandi. Ég er ein af þeim sem elska það sem var kallað ,,nútímatónlist" alla vega fyrir 20-30 árum, sem aðallega merkti að það var tónlist sem ekki var í stíl fyrri alda og skrifuð á 20. öld. Völuspá Jóns Þórarinssonar gott dæmi, en það var verkið sem fékk mig til að skæla á þessum tónleikum áðan. Man eftir það þegar Þingvellir bergmáluðu af sömu tónum og dynjandi kórsöng 1974, framkallaði jákvæðan hroll. Hef greinilega heyrt upptöku af verkinu síðan, gæti verið oftar en einu sinni, eða kannski er þetta bara verk sem passar svo vel við sálina að það er hægt að finnast það kunnuglegt. Ekki síðra að hlusta á þetta verk núna, einkum þar sem Elísabet systir tók þátt í flutningnum. En þetta voru tónleikar eins og tónleikar eiga að vera, skildu mann eftir uppnuminn.
Stór hljómsveitarverk og þungarokk, þetta er gæsahúðartónlist, en auðvitað geta lítil verk um Svantes lyckliga dag eða smáverk eftir Erik Satie, Grieg eða Zappa líka breytt heiminum.
Frásögn um margboðaða heimskreppu - þetta venst ;-)
12.9.2007 | 00:37
Eftir að ég hætti að bíða eftir að kjarnorkusprengjan springi (fædd 1952 og á bernskuminningar frá kalda stríðinu) þá kom tímabil þegar úlfurinn var heimskreppa. Fyrst var það þessi fína olíukreppa sem fór að mörgu leyti framhjá okkur Íslendingum, en ég fann svo innilega fyrir þegar ég eyddi jólunum í Englandi árið 1974. Ljós átti aðeins að loga í einu herbergi í senn og flestir Bretar fóru eftir því, á meðan Idi Amin lofaði að senda Bretadrottningu banana í hremmingum sínum (eða var það eitthvað annað?).
Svo hefur þetta reglulega gerst að allt fari á annan endann vegna sveiflna í alþjóðaviðskiptum. Árið 1987 fórum við í haustferð um Evrópu og á meðan skall á þessi fína mini-kreppa og af því við vorum stödd á flakki um Evrópu þá fór hún meira og minna framhjá okkur (ekkert net þá). Alltaf af og til er verið að boða verðfall í kauphöllum, eða bregðast við slíku. Þegar þetta er svona margboðað þá venst það. Fréttamenn jafnt sem bankamenn eru farnir að segja sprækir að þetta verði skárra í næstu viku, alltaf hafa einhverjir spáð þessari þróun - þegar nógu margir spá nógu mörgu þá hlýtur eitthvað að rætast. Málið er að það er svo ótal margt sem virðist hafa áhrif og svo ótal margt sem við fáum ekkert við ráðið að ef eitthvað færi raunverulega af stað, þá er ekkert víst að viðvörurnarbjöllurnar hringdu á réttum tíma. En á meðan hafa afskaplega margir góða vinnu af því að spá og spekúlera og ekki skal ég hafa á móti því.
Stærðfræði
11.9.2007 | 00:56
Mér finnst stærðfræði ótrúlega skemmtileg, en fyrir manneskju sem hætti að læra stærðfræði í skóla 17 ára gömul og var þá komin með stúdentspróf í stærðfræði allt í einu, er ótrúlega strembið að taka upp þráðinn meire en 30 árum seinna. Það gerði ég nú samt og er núna að reyna að finna mér tíma til að sinna þessum lokaspretti í náminu af meiri krafti en tími virðist gefa mér færi á. Hélt það dygði að fara niður í hlutastarf, en bara þessa viku þá sé ég ekki betur en ég verði komin upp í 100% (nema auðvitað í kaupi) á annarri viku tilraunarinnar til að finna meiri tíma fyrir skólann. Þetta dugar auðvitað ekki!
Skrýtin þessi afstaða til kvenna og stærðifræði sem var við lýði þegar ég var í menntó. Við í stelpubekknum í 4. bekk voru látnar læra einhverja afgamla bók hjá áhugalausum og á köflum afskaplega pirrðum kennara. Skilaboðin voru óþarflega skýr, fyrst þið stelpur veljið ekki stærðfræðideild (sem kannski fimmtungur stelpnanna í menntó gerði), þá er eins gott að þið hættið að kássast upp á þennan innvígða heim. Eftir að hafa átt stærðfræðina sem annað af tveimur uppáhaldsfögum í gagnfræðiaskóla var synd að missa af lestinni en ég finn að ég er öll að hressast. Kúrsinn sem hann Stebbi bróðursonur minn hreinlega bar mig í gegnum þannig að ég rétt skreið á prófinu er núna hinn þægilegasti (því auðvitað er ég að endurtaka hann, sætti mig ekki við þá einkunn sem ég skreið með þótt hún væri kraftaverk á sínum tíma). Annar öllu erfiðari er svona álíka og þessi var mér á fyrsta ári þessa náms, sem ég held bara að ég sé að fara að klára ;-) Reyndar eftir að heyra hvort ég er ekki örugglega á réttri leið með lokaverkefnið, það er stærsti óvissuþátturinn. En stærðfræðin rokkar, alla vega svolítið.
Þroskuð umræða á þrusufundi á Álftanesi
11.9.2007 | 00:28
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:30 | Slóð | Facebook
Umræðan um Evrópusambandið - í tilefni af atriðum í athugasemd Egils
8.9.2007 | 22:45
Snemma í dag tók ég eftir skemmtilegum lista sem Páll Vilhjálmsson hafði sett saman í orðastað Evrópusambandssinna og setti smá bloggfærslu um hann. Egill Helgason sendi mér í athugasemd pistil sem hann hafði skrifað og mér finnst áhugaverður. Þótt ég sé á kafi í heimadæmum langar mig að taka upp þráðinn og mun eflaust halda því áfram á þessari síðu eftir því sem tilefni gefst til. Rök þau sem Egill færir og athugasemdir hans vekja forvitni mína og eru að mörgu leyti skemmtilegri umræðugrunnur en margt annað sem slengt er fram í umræðu um sambandið.
,,Þau rök að ESB sé skriffinnskubákn standast ekki alveg. Þvert á móti hefur sambandið frekar fáa starfsmenn miðað við umfang."
Þessi athugasemd vekur forvitni mína, mig langar að vita hvaða tölfræði liggur þar á bak við, ekki til að ,,hanka" Egil, heldur vegna þess að það getur vel verið að gagnrýni sú sem komið hefur fram á skrifræði Evrópusambandsins hafi leitt til þess annað hvort a) að það hafi minnkað b) eða grunni tölfræðinnar hafi verið breytt. Ég hef ekki trú á hinu fyrrnefnda en verði mér færð frekari rök fyrir því þá hlusta ég með athygli. Hitt þykir mér hins vegar trúlegt að við þessari áratugalöngu gagnrýni hafi verið brugðist með því fækka þeim starfsmönnum sem eru starfsmenn sambandsins með beinum hætti, það er á launaskrá til dæmis. Evrópusambandið er þekkt fyrir að lesa vel í þá gagnrýni sem á sambandið/stofnunina (sem sumir kalla bákn) kemur og finna mótsvar. Starfsmenn ýmissa áætlana sambandsins geta vel staðið utan slíkrar tölfræði. Nær öruggt er líka að þeim starfsmenn sem vinna störf sem leiða af tilvist sambandsins, til dæmis starfsmenn við háskóla og stofnanir sem hafa að aðal eða eina starfssviði að vinna vinnu sem leiðir af tilskipunum og regluverki Evrópusambandsins í löndum ESB/EES, eru ekki inni í tölunni yfir starfsmenn Evrópusambandsins. Þeir eru hins vegar hluti af skrifræðinu.
Það sem þó hefur oft verið gagnrýnt enn meira þegar rætt er um skrifræði Evrópusambandsins er hvernig reglugerðaverk og tilskipanir eru settar með ógegnsæjum hætt, það er andlitslaus ásýnd skrifræðisins er ábyrg en ekki stjórnmálamenn með nöfn sem hægt er að kalla beint til ábyrgðar. Og fjarlægð almennings frá þeim sem ákvarðanir taka eru ekki bara fjarlægðin frá fólki -> sveitarstjórna -> ríkisvalds -> Evrópusambandsins heldur er á seinasta stigi erfitt að henda reiður á því hver ber ábyrgð. Það er sláandi hversu lítil þátttaka er í kosningum til Evrópuþingsins (sem er ekki ýkja valdamikið miðað við embættismennina). Það sýnir máttleysið sem fólk skynjar í samskiptum við þessa fjarlægu valdastofnun.
,,Því má ekki gleyma að ESB er í aðra röndina friðarbandalag sem hefur notað aukin viðskiptatengsl til að tryggja frið í Evrópu í áratugi. Það er mjög merkilegt hvernig sambandið hefur boðið ríki Austur-Evrópu velkomin undanfarin ár. Spurning hvort við eigum að standa utan þessa?"
Þessi athugasemd Egils á sögulegar rætur og ég held að það leiki enginn vafi á því að þetta var hugsjón fjölmargra sem stóðu að stofnun Efnahagsbandalags Evrópu og forvera þess. Evrópa var í sárum eftir seinni heimsstyrjöldina og margir litu á frelsi í viðskiptum sem svarið, leið til samvinnu. Hvernig til tókst er hins vegar miklu meira álitamál. Með breyttri heimsmynd þá eru hins vegar tollamúrarnir sem Evrópusambandslöndin reisa í kringum sig efni í jafn háskalegt ferli og múrar milli Evrópulanda voru áður fyrr. Þessi vestræni forréttindahópur hefur torveldað viðskipti við aðra hluta heimsins og fyrr eða síður getur það leitt til ójafnvægis í lífskjörum sem illt verður að ráða við. Það er rétt hjá Agli að opnun gagnvart Austurevrópulöndum var að mörgu leyti jákvætt skref í þróun sambandsins en innan þess hafa verið reistir furðu margir múrar milli hinna betur og verr settu landa, sumir tímabundið og aðrir varanlegar. Pólland er stærst hinna nýju ríkja og ég var einmitt í Póllandi þegar umræðan um aðildina var í hæstu hæðum, draumsýn þeirra var um önnur býti en urðu, enn eru þeir ,,annars flokks" meðlimir. Lífskjör munu án efa jafnast innan sambandsins með tímanum en þá standa eftir múrarnir utan um forréttindasamfélagið, sem ég nefndi hér á undan.
Ég held að við Egill eigum á margan hátt líka drauma um réttlæti og samvinnu, okkur greinir hins vegar á um það hvort ESB sé nothæft tæki til að hrinda þeim í framkvæmd.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:48 | Slóð | Facebook
Spurning um orsök og afleiðingu
8.9.2007 | 15:49
![]() |
Óhollt fyrir hjartað að fara snemma á fætur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:07 | Slóð | Facebook