Dagur borgarstjórnar og borgarstjórn Dags, Svandísar, Margrétar, Björns og okkar allra hinna

Þetta hefur verið spennandi dagur í þjóðmálum, því borgarmálin eru mál allrar þjóðarinnar, þetta er höfuðborgin okkar allra. Mál undanfarinna daga varða okkur öll. Ég óska nýju borgarstjórninni farsældar og friðs til að finna góða lausn á REI málinu furðulega. Það var frá upphafi ljóst að þarna var á ferðinni mál sem átti að keyra í gegn, þagga niður, humma af sér ... og það tókst ekki. Allir sem tóku þátt í umræðunni stóðu vaktina og þess vegna tókst ekki að þagga, humma, keyra í gegn og gleyma. Þvert á móti knúði aðhald almennings og skörugleg framganga Svandísar fram meiri breytingar en nokkurn óraði fyrir í upphafi. Og næstu skref í þessu tiltekna máli verða forvitnileg. Málefnalega eru meirihlutaflokkarnir eðlilegir samstarfsaðilar og vænlegir til góðra verka. Misspennandi að mínu mati, en ég vona sannarlega að þarna sé stofnað til góðs samstarfs um öll verk og það merkir meðal annars að halda verður í skefjum þeim öflum sem hugsanlega eru innan sumra flokkanna að reka einkavinavæðingu. Ég veit ekki betur en faðir Svandísar hafi komið orðinu einkavinavæðing út í samfélagið og ég vona að hún gæði þetta orð merkingu með þeim hætti að vinna öflugar en áður hefur þekkst að því að útrýma henni.

Ekki öll kurl komin til grafar

Sé frétt Morgunblaðsins rétt, og margt bendir til þess allt síðan í gær, þá mun verða mikið að gera hjá nýjum meirihluta að stilla saman strengi. Í gær var mörgum spurningum ósvarað, í dag eru þær eflaust fleiri. Nú reiðum við vinstri græn okkur á staðfestu og skynsemi Svandísar Svavarsdóttur.
mbl.is Nýr meirihluti myndaður í borgarstjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flakkað milli lífa án þess að yfirgefa eitt ...

Eyddi deginum í að undirbúa og halda fund í Sandgerði. Nú er lokaátakið hafið, sem felst í því að koma út bókinni minni um Sandgerði, bók sem ég lauk við í janúar 2001. Eftir næstum sjö ár í vinnu við hugbúnaðargerð er ég búin að ákveða að vera sagnfræðingur næstu eitt eða tvö árin alla vega. Hætti í vikulokin hjá Eskli, sem áður hét INNN, en hef dregið að tilkynna það á opinbera blogginu mínu, ekki síst þar sem mér fannst að allir viðskiptavinirnir sem ég hef séð um verkefnisstjórn fyrir ættu að fá að vita af þessu fyrst. Þótt ég eigi eftir að sakna góðra vinnufélaga og vina í þeim fyrirtækjum sem ég hef unnið fyrir, þá efast ég ekki andartak um að ég sé að stíga rétt skref á þessari stundu. 

Það var óskaplega hressandi að hitta ritnefndina í Sandgerði og fara yfir seinustu handtökin áður en við komum bókinni út. Ég sé líka fram á tíma til að sinna náminu þegar ég hætti í núverandi starfi, sem hefur reyndar verið 69% seinustu 6 vikurnar, sem reyndist ekki nógu mikill niðurskurður og þar að auki tókst mér aldrei að standa við að vinna bara 69%, hlaupandi í tölvuna að svara vinnupósti milli tíma uppi í háskóla.

Fyndið að núna þegar ég er að klára mastersnám í tölvunarfræði skuli ég snúa til baka í sagnfræðina, en þar hef ég álíka grunn, annan master, undir dulnefninu cand. mag. sem sagt 60 eininga nám eftir B.A. prófið og stóra ritgerð. Ári eftir að ég kláraði var námið endurskírt án breytinga og er núna kallað meistaranám. 

Framtíðardraumarnir mínir í tölvunarfræðinni eru nokkuð villtir og ég er staðráðin í því að vinna bæði í sagnfræðinni og tölvunarfræðinni í framtíðinni, auk þess sem ég sakna blaðamennskunnar stundum líka. Það eru svo margar hugmyndir og svo margt sem mig langar að gera og fram til þessa hef ég reyndar verið svo lánsöm að hrinda meiri hluta hugmynda minna í framkvæmd, auk ýmissa annarra hluta sem aldrei hvarflaði að mér að ég myndi taka þátt í. Það er gaman að flakka svona á milli lífa, án þess að yfirgefa nokkurt þeirra ...  


Stríð og friður í Reykjavík

Stríðið undanfarna daga í kringum REI hefur verið undarleg uppákoma og einhvern veginn finnst mér að sú saga sé ekki fullsögð enn, þótt viðburðarrík sé. Tilurð sögunnar er auðvitað sorglegt dæmi um blindu í kjölfar valds. Helga spyr í fróðlegum pistli í fyrri umræðu um sama efni hér á síðunni hvort vald spilli - hugleiðingar hennar standa fyrir sínu og ekki þarf vitnanna við, oft er hún einmitt fylgifiskur valdsins, spillingin. 

Þess vegna er mannbætandi að sjá að ekki nota allir vald sitt á sama hátt. Seint verður því neitað að Yoko Ono og John Lennon voru meðal valdamestu persóna listaheimsins meðan þeirra beggja naut við. Auðvitað gengu þau gengum hæðir og lægðir, en það verður ekki af þeim skafið að þau hafa verið meðal öflugustu talsmanna friðar í heiminum. Yoko hefur haldið merkinu á lofti og ég þarf ekki að rekja hvers vegna augun beinast nú að henni hér á Íslandi. Sá súluna fallegu úr Reykjavík um helgina, en þá var greinilega prufukeyrsla í gangi, en þarf eflaust að fara í smá útúrdúr úr ljósamenguninni í götunni minni hér á Álftanesi til þess að upplifa hana núna á eftir. Hlakka til. Það pirraði mig ekki einu sinni að sjá Vilhjálm borgarstjóra í öðru hlutverki í kvöld en undanfarna daga, hann er vissulega gerandi í því stríði sem stendur í borginni út af REI en hann fékk að taka þátt í merkilegri friðarhátíð í kvöld og þökk sé listakonunni Yoko Ono fyrir að framkvæma þennan fallega draum hér á heimaslóð okkar Íslendinga. Mig grunar að þessi fallega gjöf muni hafa dýpri áhrif á umhverfið en okkur grunaði þegar þessi hugmynd kom fyrst til tals.  


Fylgjumst með, hlustum grannt

Orkumálin og atburðarásin í dag leggur þá ábyrgð á herðar almennings að fylgjast grannt með málinu. Enn er framvindan ný og skoðanir skiptar, en sumt af því sem fréttir greina frá er nú þegar með ólíkindum. Fylgjmst með. 

Útrás og einka(vina)væðing

Fylgist í forundran með umræðunni um sameiningu ,,grænu" orkufyrirtækjanna, þar sem mikið er um þversagnir og furðufréttir. Kemur ekki á óvart að fulltrúar Vinstri grænna eru einir án þversagna að gagnrýna þennan gjörning og Framsóknarmenn virðast einir fagna án efasemda. Sé það rétt að Sjálfstæðismenn séu klofnir í borgarstjórn þá sætir það tíðindum, þótt forsaga Línu.net sé svo sem ávísun á einmitt það. Augljóslega á ýmislegt eftir að koma upp á yfirborðið áður en þessi umræða er til lykta leidd, en það sem mér finnst mikilvægt á þessu stigi er að almannafé verði ekki stefnt í áhætturekstur, að tækifærið verði ekki notað til að hygla enn og aftur einkavinum með almannafé (þetta virðist því miður vera orðinn hlutur) og að auðlindir þjóðarinnar verði ekki einka(vina)væddar, því þegar heyrast raddir um að þetta sé svo spilltur gjörningur að það sé bara eins gott að einkavæða orkufyrirtækin. Málið á ekki að snúast um þetta síðastnefnda, heldur útrás með áhættufé á erlendum vettvangi, en þó líður varla korter áður en sá söngur er kominn af stað.  


Væntingar

Er það ímyndun í mér eða liggja miklar væntingar í loftinu? Mér finnst samfélagið vera í mikilli gerjun og eins er tilvera mín og margra mér nákominna full af breytingum og spennandi hugmyndum. Best að taka dæmi, fyrst á því sem ég heyri utan að mér í samfélaginu:

Tekjuafgangur ríkissjóðs (vegna þenslutekna): Er mögulegt að nú muni fjölmennar kvennastéttir krefjast síns hluta af launaskriðinu í samfélaginu, og takast það?

Rafmagnsbílar með blönduðum eldsneytismöguleikum: Einn af 82 eða 84 í heiminum býr á  Akureyri. Getur verið að gott fordæmi þaðan smiti út frá sér til fleiri landa - mun það duga til að þessi tækni verði þróuð áfram?

Umhverfisvitundarvakning. Mér finnst ég finna þetta alls staðar, er þetta eitthvert Pollýönnukast eða heyrið þið þetta líka? 

Menning með jákvæðum áherslum: Kvikmyndir um og eftir Íslendinga blómstra og sigra hér og þar, aðallega þar ...

Kvennalistakonurnar: Eru að gera svo margt forvitnilegt og skemmtilegt, Kristín Ástgeirs, Sirrý Dúna, Sigga Lillý og margar fleiri, allar í nýjum og spennandi hlutverkum ...

... og á persónulegri nótum:  

Gurrí að rokka á Vikunni ...  

... breytingar í eigin tilveru sem ég segi betur frá þegar mál skýrast betur, alla vega þá hillir undir útkomu Sandgerðissögunnar minnar og námslok í æsispennandi námsmaraþoni.  

Menningarbindindi í rénum á þessum bæ, mikið rosalega er það gaman.  


97 ára heiðurskona kvödd á fallegum haustdegi fyrir norðan

Heiða vinkona mín kom með góða ábendingu. Ekki oft sem jarðarför 97 ára manneskju er jafn fjölmenn og sú sem var í Blönduóskirkju þegar heiðurskonan Ásgerður á Guðlaugsstöðum var kvödd í gærdag. Ástæðan er áreiðanlega ekki síst sú að Ásgerður var, þrátt fyrir háan aldur, enn mjög virk og vakandi í samfélaginu, á sinn hægláta hátt. Við Ari fórum norður á þessum einstaklega fallega haustdegi. Ásgerður var skemmtileg og lifandi kona, bókelsk og viðræðugóð, í þau óteljandi skipti sem við höfum komið að Guðlaugsstöðum hefur alltaf verið gaman að hitta hana. Gunna bóndi á Guðlaugsstöðum og dóttir Ásgerðar er besta vinkona mín og því fer ekki hjá því að við höfum kynnst fjölskyldu hvor annarrar vel og mitt að þakka fyrir mig á þessari stundu. Það er mikill annatími núna í sveitinni en ég held að þessi laugardagur þegar fjöldi fólks úr sveitinni, úr bænum og að austan þaðan sem Ásgerður var ættuð, sýni og sanni vinsældir Ásgerðar. 

Við Ari vorum annars í bústaðnum um helgina, skruppum þó í skemmtilegt matarboð með ferðafélögum Ara úr hestaferð í sumar áður en við fórum í bústaðinn, á föstudagskvöldið.  


Vantar skýrari línur í veðurspá vetrarins

Hér til vinstri lúrir lítil könnun sem er mér afskaplega kær. Þannig er mál með vexti að mig langar svo óskaplega til að fá að vita, fyrirfram, hvernig veðrið í vetur verður. Þannig að ef þið eruð tengd við æðri máttarvöld, veðurguðina til dæmis, þá þætti mér afskaplega vænt um að fá að vita með meiri vissu hvernig veðrið í vetur á að vera. Atkvæðin eru nefnilega að dreifast óþarflega vel. Eins og flestir Íslendingar er ég veðurfíkill og á þar að auki eftirfarandi hagsmuna að gæta:

1. Þarf að vita hvenær ég á að panta Kanarí.

2. Er ég komin ótímabært á vetrardekk? (Það getur reyndar verið fyrirbyggjandi, því fleiri sem eru á sléttum sumardekkjum, þeim mun meiri líkur á hálku og snjó og öfugt, skv. Murphy vini okkar allra).

3.  ... og svo bara einskær forvitni.


Er eitthvað að gerast í Brussel?

Geir Haarde kom í sjónvarpið áðan og minnti á að aðild að Evrópusambandinu sé ekki á dagskrá þessarar ríkisstjórnar. Samt eru einhverjar mjög óskilgreindar viðræður í gangi í Brussel. Spurning hvort þetta sé frétt eða ekkifrétt. Allavega þá var þessi frétt framarlega í fréttatímanum, hmmmm.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband