Umræðan um Evrópusambandið - í tilefni af atriðum í athugasemd Egils

Snemma í dag tók ég eftir skemmtilegum lista sem Páll Vilhjálmsson hafði sett saman í orðastað Evrópusambandssinna og setti smá bloggfærslu um hann. Egill Helgason sendi mér í athugasemd pistil sem hann hafði skrifað og mér finnst áhugaverður. Þótt ég sé á kafi í heimadæmum langar mig að taka upp þráðinn og mun eflaust halda því áfram á þessari síðu eftir því sem tilefni gefst til. Rök þau sem Egill færir og athugasemdir hans vekja forvitni mína og eru að mörgu leyti skemmtilegri umræðugrunnur en margt annað sem slengt er fram í umræðu um sambandið. 

,,Þau rök að ESB sé skriffinnskubákn standast ekki alveg. Þvert á móti hefur sambandið frekar fáa starfsmenn miðað við umfang."

Þessi athugasemd vekur forvitni mína, mig langar að vita hvaða tölfræði liggur þar á bak við, ekki til að ,,hanka" Egil, heldur vegna þess að það getur vel verið að gagnrýni sú sem komið hefur fram á skrifræði Evrópusambandsins hafi leitt til þess annað hvort a) að það hafi minnkað b) eða grunni tölfræðinnar hafi verið breytt. Ég hef ekki trú á hinu fyrrnefnda en verði mér færð frekari rök fyrir því þá hlusta ég með athygli. Hitt þykir mér hins vegar trúlegt að við þessari áratugalöngu gagnrýni hafi verið brugðist með því fækka þeim starfsmönnum sem eru starfsmenn sambandsins með beinum hætti, það er á launaskrá til dæmis. Evrópusambandið er þekkt fyrir að lesa vel í þá gagnrýni sem á sambandið/stofnunina (sem sumir kalla bákn) kemur og finna mótsvar. Starfsmenn ýmissa áætlana sambandsins geta vel staðið utan slíkrar tölfræði. Nær öruggt er líka að þeim starfsmenn sem vinna störf sem leiða af tilvist sambandsins, til dæmis starfsmenn við háskóla og stofnanir sem hafa að aðal eða eina starfssviði að vinna vinnu sem leiðir af tilskipunum og regluverki Evrópusambandsins í löndum ESB/EES, eru ekki inni í tölunni yfir starfsmenn Evrópusambandsins. Þeir eru hins vegar hluti af skrifræðinu.

Það sem þó hefur oft verið gagnrýnt enn meira þegar rætt er um skrifræði Evrópusambandsins er hvernig reglugerðaverk og tilskipanir eru settar með ógegnsæjum hætt, það er andlitslaus ásýnd skrifræðisins er ábyrg en ekki stjórnmálamenn með nöfn sem hægt er að kalla beint til ábyrgðar. Og fjarlægð almennings frá þeim sem ákvarðanir taka eru ekki bara fjarlægðin frá fólki -> sveitarstjórna -> ríkisvalds -> Evrópusambandsins heldur er á seinasta stigi erfitt að henda reiður á því hver ber ábyrgð. Það er sláandi hversu lítil þátttaka er í kosningum til Evrópuþingsins (sem er ekki ýkja valdamikið miðað við embættismennina). Það sýnir máttleysið sem fólk skynjar í samskiptum við þessa fjarlægu valdastofnun. 

,,Því má ekki gleyma að ESB er í aðra röndina friðarbandalag sem hefur notað aukin viðskiptatengsl til að tryggja frið í Evrópu í áratugi. Það er mjög merkilegt hvernig sambandið hefur boðið ríki Austur-Evrópu velkomin undanfarin ár. Spurning hvort við eigum að standa utan þessa?"

Þessi athugasemd Egils á sögulegar rætur og  ég held að það leiki enginn vafi á því að þetta var hugsjón fjölmargra sem stóðu að stofnun Efnahagsbandalags Evrópu og forvera þess. Evrópa var í sárum eftir seinni heimsstyrjöldina og margir litu á frelsi í viðskiptum sem svarið, leið til samvinnu. Hvernig til tókst er hins vegar miklu meira álitamál. Með breyttri heimsmynd þá eru hins vegar tollamúrarnir sem Evrópusambandslöndin reisa í kringum sig efni í jafn háskalegt ferli og múrar milli Evrópulanda voru áður fyrr. Þessi vestræni forréttindahópur hefur torveldað viðskipti við aðra hluta heimsins og fyrr eða síður getur það leitt til ójafnvægis í lífskjörum sem illt verður að ráða við. Það er rétt hjá Agli að opnun gagnvart Austurevrópulöndum var að mörgu leyti jákvætt skref í þróun sambandsins en innan þess hafa verið reistir furðu margir múrar milli hinna betur og verr settu landa, sumir tímabundið og aðrir varanlegar. Pólland er stærst hinna nýju ríkja og ég var einmitt í Póllandi þegar umræðan um aðildina var í hæstu hæðum, draumsýn þeirra var um önnur býti en urðu, enn eru þeir ,,annars flokks" meðlimir. Lífskjör munu án efa jafnast innan sambandsins með tímanum en þá standa eftir múrarnir utan um forréttindasamfélagið, sem ég nefndi hér á undan. 

Ég held að við Egill eigum á margan hátt líka drauma um réttlæti og samvinnu, okkur greinir hins vegar á um það hvort ESB sé nothæft tæki til að hrinda þeim í framkvæmd. 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Aðeins toppurinn á stærðarinnar ísjaka
eftir Richard North / Helen Szamuely

„Miðstjórnin – framkvæmdastjórn Evrópusambandsins – er svo fámenn að hún hefur færri starfsmenn en borgarstjórn Leeds. Þvílíkt stórríki!“ Richard Corbett, þingmaður á Evrópusambandsþinginu.

Ekki er ætlunin að svara því beinlínis í þessari umfjöllun hvort Evrópusambandið sé að verða að stórríki heldur að fjalla um það hvernig Evrópusambandssinnar reyna að hrekja þá staðhæfingu. Ummæli Corbetts, sem birt eru hér að ofan, eru dæmigerð fyrir viðbrögð þeirra. Þau ganga út á það að sýna fram á að sambandið geti ekki orðið stórríki einfaldlega vegna tiltölulega fámenns starfsliðs – sem iðulega er skilgreint sem fámennara en meðalstór héraðsstjórn.

Það er hins vegar óneitanlega fróðlegt að velta því fyrir sér að að árið 1975, í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar í Bretlandi um það hvort landið ætti að gerast aðili að Evrópusambandinu sem þá hét Efnahagsbandalag Evrópu, notaði Margaret Thatcher sömu rök fyrir aðild að sambandinu. Benti hún á að „aðeins 7.000 embættismenn“ störfuðu fyrir framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, þá aðallega í Brussel. Næstu árin jókst þessi fjöldi embættismanna og voru þannig um tíma „aðeins 15.000“ og síðan „aðeins 18.000“ svo „aðeins 20.000“ og loks „aðeins 25.000 embættismenn“. Eins og staðan er í dag, eftir stækkun Evrópusambandsins til austurs, er talið að fjöldinn sé kominn í u.þ.b. 40.000 embættismenn, en samt sem áður er fjöldinn sagður minni en hjá ýmsum opinberum stofnunum í Bretlandi.

Eins og gefur að skilja er þessi röksemdafærsla þó afar villandi. Það má finna mörg dæmi í mannkynssögunni þar sem mjög fámennur hópur manna hefur stjórnað miklum fólksfjölda. Þetta á ekki síst við um stjórn Breta á Indlandi þó hún eigi að öðru leyti ekki mikið sameiginlegt með Evrópusambandinu. Hins vegar ber að hafa í huga að við lok valdatíma Viktoríu Bretadrottningar var 300 milljónum Indverja stjórnað af tæplega 1.500 breskum embættismönnum og hugsanlega um 3.000 breskum liðsforingum í Indverska hernum. Séu breskir hermenn ekki taldir með komu sennilega ekki fleiri en 20.000 Bretar að því að stjórna landinu – færri en þeir fastráðnu embættismenn sem starfa í dag fyrir framkvæmdastjórn Evrópusambandsins.1)

Hins vegar segir það langt því frá alla söguna að skírskota einungis til þeirra starfsmanna sem með beinum hætti starfa fyrir framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. Sérhvern dag starfa ekki bara embættismenn framkvæmdastjórnarinnar í Brussel heldur einnig þúsundir annarra embættismanna frá öllum aðildarríkjum sambandsins. Þessir aðilar kunna að starfa fyrir opinberar stofnanir í heimalöndum sínum, þeir kunna að vera ótengdir framkvæmdastjórn Evrópusambandsins eða ráðherraráðinu eða þeir kunna að vera einungis í heimsókn vegna viðræðna – en þeir eru allir þátttakendur á einn eða annan hátt í „verkefninu“.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins er að sjálfsögðu miðpunktur „verkefnisins“, dælandi út reglugerðum og tilskipunum í þúsundatali. Sá reglugerðafrumskógur telur nú yfir 100.000 blaðsíður fyrir utan milljónir blaðsíðna af öðru efni. Með þessi afköst í huga ætti heilbrigð skynsemi að segja manni að svo fámennt starfslið gæti ekki mögulega staðið að þeim eitt og sér. Og auðvitað er það ekki þannig. Undirbúningur mikils hluta lagasetningarinnar, og mikið af alls kyns tæknilegri vinnu, er framkvæmdur af utanaðkomandi aðilum, eins og t.a.m. launuðum verktökum, háskólastofnunum og öðrum menntastofnunum, sjálfstæðum rannsóknaraðilum hliðhollum Evrópusambandinu og ekki síst miklum fjölda alls kyns einkaaðila sem eru á launum hjá framkvæmdastjórninni.

Stór hluti þeirrar vinnu sem þá er eftir er unnin af öðrum aðilum, allt frá opinberum embættismönnum aðildarríkjanna til fjölda nefnda sem starfa á vegum Evrópusambandsins og samanstanda m.a. af sérfróðum ráðgjöfum og háskólamönnum og fulltrúum þrýstihópa umhverfisverndarsinna eða aðila sem starfa á vegum hinna og þessara atvinnugreina eða einstakra fyrirtækja. Talið er að um 1.600 slíkar nefndir séu starfandi í Brussel og fyrir utan þær séu um 170.000 fulltrúar alls kyns þrýstihópa starfandi í Evrópusambandinu, allt frá fulltrúum heildarsamtaka ýmissa atvinnugreina til fulltrúa einstakra héraðsstjórna sem eru að óska eftir að fá aukinn hlut í fjárlögum sambandsins.

Þegar lagasetningu frá Evrópusambandinu hefur verið komið á þarf að framfylgja henni, sem kemur í hlut embættismanna aðildarríkjanna. Og í þeim tilfellum þar sem stefnumótun sambandsins ræður ríkjum, eins og t.d. varðandi sjávarútveginn og landbúnaðinn, eru þau hundruð þúsundir opinberra starfsmanna í aðildarríkjunum, sem vinna að því að framfylgja henni, í reynd að starfa fyrir Evrópusambandið. Vissulega eru þeir skipaðir af ríkisstjórnum heimalanda sinna, þeir nota bréfsefni sem er merkt því embætti sem þeir gegna og launin þeirra eru greidd af sköttum landa þeirra, en sú starfsemi sem þeir sinna er engu að síður tilkomin vegna fyrirmæla frá Brussel. Þeir eru í reynd aðeins opinberir starfsmenn heimalanda sinna að nafninu til.

Þannig er ljóst að að sú staðhæfing að þeir 30.000 eða jafnvel 40.000 embættismenn, sem starfa með beinum hætti fyrir framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, séu ekki nægilega margir til að stjórna stórríki missir algerlega marks. Þeir eru aðeins toppurinn á stærðarinnar ísjaka. Staðreyndin er sú að Evrópusambandið starfar samkvæmt ákveðnu tengslaneti þar sem framkvæmdastjórnin gegnir aðeins hlutverki miðstöðvar sem tengir saman þúsundir annarra aðila um gervallt sambandið, þá ekki síst opinbera starfsmenn aðildarríkjanna.

Á þetta benti Margaret Thatcher m.a. í bók sinni Statecraft sem gefin var út árið 2002. Hún veitti því athygli að þær tölur, sem gefnar voru upp um fjölda starfsmanna framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins (sem þá voru um 30.000) „taka ekki inn í myndina mikið stærri hóp opinberra starfsmanna í aðildarríkjunum sem sinna störfum sem eru til komin vegna reglugerða Evrópusambandsins.“2) Þessir aðilar, og án efa milljónir annarra sem starfa á einn eða annan hátt að framgangi “verkefnisins”, eru meira en nóg til að stjórna stórríki.

Dr Richard North
Dr Helen Szamuely

1) Dennis Judd: Empire - The British Imperial Experience From 1765 To The Present. London, 1996. Bls. 79-80.

2) Margaret Thatcher: Statecraft: Strategies for a Changing World. New York, 2002. Bls. 324.

(Birt áður á ensku á vefsíðunni EU Referendum og á íslenzku á Heimssýn.is. Þýðing Hjörtur J. Guðmundsson)
 

Hjörtur J. Guðmundsson, 9.9.2007 kl. 01:27

2 identicon

Þegar samningaviðræður Evrópusambandsins og pólskra stjórnvalda stóðu yfir þá hlustaði ég á viðtal við pólskan verkalýðsleiðtoga sem var á móti aðild Póllands að ESB. Hann var spurður hvort hann væri á móti því að Pólverjar hefðu möguleika á því að vinna í öðrum löndum. Hann svaraði því til að hann væri ekki á móti því að fólk gæti valið sér að flytjast til annarra landa, en bætti við að vegna lágra launa og atvinnuleysis í Póllandi þá óttaðist hann að svo margir Pólverjar myndu fara annað að pólskt samfélag myndi skaðast enn frekar; að eftir yrðu aðeins þeir sem ættu ekki kost á því að fara til útlanda að vinna; að Pólland myndi missa stóran hluta af þeirri kynslóð sem er á vinnumarkaði. Það verður ekki sagt að ótti þessa manns hafi verið ótímabær! Mér skilst að hingað til lands hafi komið á annan eða þriðja tug þúsunda pólskra einstaklinga á vinnualdri, margfalt, margfalt, margfalt fleiri hafa farið til Englands.

Hér á landi er talað um hvað íslenskt atvinnulíf nýtur góðs af vinnu þessara einstaklinga, en leiðir fólk hugann að því hvað er að gerast í Póllandi? Þurfti Pólland ekki á þessum vinnandi höndum og skapandi heilum að halda? Á u.þ.b. þremur árum hafa mörg hundruð þúsund Pólverja (e.t.v. tvær eða þrjár milljónir) farið til annarra landa að vinna.

Nú er ég ekki hlynnt því að fólki sé haldið heima; það á að geta ferðast eins og það vill, flutt milli landa tímabundið eða til langs tíma, kjósi það svo, en er ekki sjálfsagt að ræða allar hliðar opna vinnumarkaðar ESB- og EES-landanna? Hann á sér bæði ljósar og dökkar hliðar.

Óhjákvæmilegur fylgifiskur þess að íbúar ESB- og EES-landanna geta farið milli landa í atvinnuleit og sest þar að, finni þeir starf innan 6 mánaða, er að sum samfélög missa fólk sem þau þurfa á að halda. Er ekki rétt að ræða allar hliðar í einu?

Á sama tíma og Pólverjar eru að taka þátt í uppbyggingu hér á landi, hvað er þá að gerast í heimalandi þeirra? Er uppbygging þar? Eða hefur innviðum Póllands kannski hnignað?

Annar þáttur í svokölluðu fjórfrelsi er það sem er kallað frjálst flæði fjármagns; íbúar ESB-landa geta geymt og ávaxtað peningana sína í hvaða landi ESB sem er. Aðdáendur ESB dásama þetta í bak og fyrir og nota sem agn á fólk til að ganga til liðs við sambandið. En er ekki sjálfsagt að ræða allar hliðar á þessu margrómaða frelsi?

Þegar fé er flutt úr einu landi í annað þá græða ekki bæði löndin! Nei, annað þeirra græðir en væntanlega þá tapar hitt. Hvernig fer fyrir því landi og samfélagi þaðan sem peningarnir eru fluttir út?

Ég hef aldrei haft trú á því að Evrópusambandið sé komið til að vera; trúi því að það muni liðast í sundur einn óveðursdag! Hvernig munu þjóðirnar gera upp? Mitt mat er að sá sem stendur utan við það uppgjör geti hrósað happi.

Helga 9.9.2007 kl. 10:23

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband