Og víkur þá sögunni að glæp(asögum) - Höskuldarviðvörun

,,Ekki vissi ég að þú værir svona bloody minded," sagði einn vinur minn þegar hann var búinn að lesa Mannavillt, fyrstu útgefnu glæpasöguna mína. Sagan er að vísu gersamlega blóðdropalaus (hélt ég), en engu að síður mun meinlausari en hún hefði orðið ef upprunaleg gerð hennar hefði fengið að ráða. Yfirlesarar, bæði af hálfu útgefanda og mínir eigin ráðlögðu mér eindregið að fækka fórnarlömbunum til muna. ,,Maður verður að geta munað nöfnin á öllum sem eru drepnir," voru rökin sem sannfærðu mig loks. 

unnamed

Nú eru tvö ár frá því Mannavillt kom út og enn er nýtt fólk að lesa hana og bók númer tvö, Óvissu, sem út kom síðastliðið vor. Óvissa er að því leyti mjög ólík að helstu glæpirnir eru ekki endilega morð, þótt ekki lifi allir af. Það var gaman að setjast í pallborð með fleiri glæpasagnahöfundum núna fyrir jólin og finna, það sem ég vissi, að mínar bækur eru mjög frábrugðnar þeirra og jafnvel letilegar á köflum. Eins og mér finnst lífið stundum vera. Mér er það vel ljóst að ég skrifa fyrir þá sem hafa gaman af að lesa bækur eins og mínar, og þykir gaman að hafa eignast hóp dyggra lesenda, en ég vissi það alltaf að ég yrði ekki allra. Það sem mér finnst samt merkilegast er að plottið er áratuga gamalt að stofni til, þegar ég var að skrifa mína fyrstu skáldsögu: Tvískinnung (lesin í útvarp um eða uppúr 1980) þá sagði Ari minn að ég ætti endilega að skrifa um ákveðna hugmynd, en að skrifa heila bók í kringum hana tók sinn tíma. 

Þriðja glæpasagan mín er langt komin, stundum finnst mér hún vera næstum fullbúin í fyrstu gerð, en oft þykir mér ég komin skemmra. Hún mun bara taka þann tíma sem hún tekur. Hún verður að mörgu leyti frábrugðin hinum, ég keyrði upp letilega tempóið og langar að leyfa mínu fólki að höndla það. 

Hvað rekur fólk til að skrifa glæpasögur? Mér finnst gaman að skrifa, hef haft af því atvinnu og ánægju lengst af starfsævina og skrifaði reyndar fyrstu glæpasöguna mína þegar ég var 12 ára. Hana las bara ein æskuvinkona mín, hún Amalía, og hvatti mig áfram. Þá teiknaði ég reyndar myndirnar fyrst, áður en ég skrifaði textann. Svo kom næstum sex áratuga hlé og nú hef ég tekið upp þráðinn. Fjórða bókin er fædd í kollinum á mér, en eins og í öllu, þá er ekkert á vísan að róa. 

Höskuldarviðvörun:

Úr Mannavillt: 

Skyttan hafði komið sér fyrir við barð rétt fyrir ofan bílinn og það leyndi sér ekki hvert erindið var. Hún sá appelsínugula jakkann á löngu færi þótt Gabríel væri búinn að henda sér niður milli þúfna þegar hún kom að. Hún hugsaði sig ekki um tvisvar heldur æddi að skotmanninum og reyndi að yfirbuga hann með svissneska vasahnífnum sem hún var alltaf með í vasanum. Þetta var þriðja kynslóð slíkra hnífa í hennar eigu, hinir höfðu verið hirtir af henni í vopnaleit á flugvöllum. – Ég náði alla vega að særa helvítið, sagði hún óðamála, sá svissneski náði alla vega að rispa hann nóg til að honum blæddi. Við ættum að tékka hvort eitthvert blóð fór niður í þúfurnar þarna eða á hnífinn. Þá væri hægt að keyra DNA rannsókn á lífssýnum úr árásarmanninum.

Úr Óvissu: 

– Getum við eitthvað gert með þessa kafbátakenningu? Var kafbáturinn farartæki eingöngu, og þá hvert? Í skip, annan kafbát, annað land, flugvél? Í hvaða tilgangi og hvers vegna? Er hann vinnutæki fyrir Tómas, er hann búinn að flækja sér í eitthvert njósnadæmi? Hann er auðvitað ágætlega fróður um hafið kringum Ísland, svona almennt talað, með fróðari mönnum á því sviði. En ætli það sé ekki hægt að stunda njósnir kringum landið án hjálpar Tómasar? Er hann blandaður í eitthvað annað misjafnt? Kjarnorkuvopn? Smygl? Hlerunarbúnað? Gullleit? Náttúruhryðjuverk? Eða fæst hann við eitthvað stálheiðarlegt um borð í skipi eða kafbáti? Þau flissuðu bæði yfir þessu seinasta. – Best taka þann möguleika út fyrir svigann til að byrja með, sagði Linda Lilja.

– Þetta með kjarnorkuvopnin er það sem kemur alltaf upp aftur og aftur, sagði Gabríel. – Áreiðanlega þráður sem við þurfum að elta, meira að segja á okkar tímum.

(Þetta síðasta var skrifað og gerist fyrir Úkraínustríðið). 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband