Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2023

Öðru vísi Kanaríeyjar - Fuerteventura

Fuerteventura er norðaustasta Kanaríeyjan og sú næststærsta á eftir Tene. Veit ekki til þess að í boði hafi verið beint flug þangað frá Íslandi lengi, en einhvern tíma voru þangað skipulagðar ferðir. Veit reyndar ekki hvort hún Ásta, sem sagði mér frá sinni heimsókn þangað, kom með íslenskri ferðaskrifstofu en þykir það líklegt. Auk Gran Canaria og Tene hefur verið í boði beint flug til La Palma og Lanzarote á einhverjum tímum. Nú er búið að boða beint flug til þeirrar síðarnefndu sem eru góðar fréttir fyrir fólk eins og mig sem kann vel að meta Fuerteventura. Ferjusigling milli eyjanna tekur bara hálftíma að jafnaði, og það sést yfir til Fuerteventura frá syðsta oddi Lanzarote (býst ég við, alla vega frá F. til L.). Flug frá Gran Canaria tekur 40 mín og ferjan frá Las Palmas ekki nema tvo tíma til Morro el Jable. Strætókerfið innan eyjarinnar er mjög gott, ekki eins gott og á Krít, en gott. Eitt sem þarf þó að vara sig á, ef strætó er fullur og allir í sætum, er ekki undir nokkrum kringumstæðum bætt við fólki. Það reynir sjaldan á þetta nema í kringum flugvöllinn, þar getur þurft að bíða eftir 2-3 vögnum, en ferðir eru þokkalega tíðar, á korterinu um miðjan daginn nema á sunnudögum. Aðal rósin í hnappagatið ef flögið er beint frá Fuerteventura (þá þarf að millilenda einhvers staðar) eru sólarsvalirnar í flugstöðinni. Vel þess virði að mæta snemma, fínt latté selt þar og dásamlegt að ná seinustu geislum sólarinnar fyrir heimferð. 

Það sem kom mér mest og best á óvart þegar ég kom til Fuerteventura var hversu mikil áhersla er lögð á útilistaverk af ýmsu tagi í flestum bæjarfélögum þar. Ber þar hæst ótal skúlptúra og alltaf að bætast nýir við og síðan heilmörg vegglistaverk. 

Morro del Jable

Fyrst þegar ég fór til Fuerteventura fór ég til Morro. Ágætis bær, meira af túristum en heimafólki, hlýasta spáin var þar þegar ég fór í nóvember og ágætis veður, með þeim fyrirvara þó að Fuerteventura er annálaður rokrass, en rokið er hlýtt. Þangað sækja einkum þýskir túristar en Marek í Ingenío á GC sagði mér að staðurinn væri líka vinsæll meðal hans heimamanna, Pólverja, af því hann væri tiltölulega ódýr. Þar eru stórkemmtilegir skúlptúrar meðfram strandlengjunni sem er óralöng. Prófaði golfvöllinn fyrir ofan bæinn (Jandia hlutann) og hann er því miður alveg ömurlegur, illa við haldið og með lélegar merkingar. Þegar ég var í Morro fór ég til Gran Tarajal gagngert til að skoða veggmynd af úlfalda og það var ferðarinnar virði, en þar er of lítið við að vera að öðru leyti fyrir minn smekk.

IMG-7049

 

Puerto del Rosario - höfuðborgin

Í næstu ferð, sem var í janúar 2019, ákvað ég að prófa að gista í höfuðborginni, Puerto del Rosario. Þar er lítill túrismi, tvö hótel nálægt höfninni, eitthvað af slíku í jöðrunum og svo airbnb. ,,Mitt" hótel var með ómótstæðilegum þaksvölum á 5. hæð með flottu útsýni yfir höfnina. Nokkru sinnum í viku fyllist bærinn af túristum af skemmtiferðaskipum, sem stoppa einhverjar klukkustundir í bænum, söngprógram í kirkjunni og hægt að fara og skoða heimili existensíalistans Miguel Unamuno, sem spönskunemendur MR um 1970 voru píndir til að lesa. Það var gott að vera í þessum bæ, fínt latté víða að fá og mikið af alls konar hollusturéttum á veitingahúsum. Þeir sem vilja frekar óhollustu fara í mollið, Rotondo. Útivistarfólk og heilsufrík sækja eyjuna heim, eins og La Palma, en ég held að heimamenn haldi þessum veitingastöðum uppi. Þar í bæ eru, eins og í Morro, skúlptúrar með allri ströndinni og fullt af bráðskemmtilegum veggmyndum, mín uppáhalds á bílastæði. IMG-8648

Já, ég fór líka að skoða Unamuno safnið, það er heillandi. Fyrirgef honum að hafa kennt mér 17 orð yfir öldugjálfur (öll gleymd) en ekki að kaupa mér ís. Það lærði ég sex ára í Andalúsíu, en síðan hafa komið kynslóðir ísa og byggst upp nýr orðaforði. Þarna í bænum eru smá brekkur en ósköp þægilegar á fótinn. Þegar ég var í Puerto fór ég að skoða nyrstu borgina, Corralejo, þar sem enskir túristar halda sig. Miðbærinn við höfnina er mjög skemmtilegur þar, meira af heimafólki en ferðalöngum, þeim er plantað í jaðarbyggðir bæjarins. Og svo sést yfir til Lanzarote. Ég fór líka í dýragarð nálægt Morro og heilsaði upp á gömlu slóðirnar þar, síðast en ekki síst fór ég í golf í Caleta de Fuste, þar eru tveir velli og sá nyrðri þykir betri. Einn sá þægilegasti sem ég hef spilað, en engin stórkostleg tilþrif í brautunum. Það réði vali mínu á bænum sem ég hafði ákveðið að heimsækja næst og eftir 5-6 tilraunir á tímum veikinda og covids, þá tókst það loks um daginn. Það fór þó í verra að bakið á mér ákvað að mér væri ekki óhætt að taka leik.

Caleta de Fuste

Þarna lenti ég loksins í algerum ferðamannabæ á borð við Kanarí. Fallegur sem slíkur, en engir spennandi skúlptúrar og vegglistaverk. Café del Town bætti skaðann að nokkru leyti, eðalkaffihús á móti hótelinu mínu (og hótelnetið oft ínáanlegt þar, sem var gott þar sem ég tók vinnuna með mér, fjarvinna á sólarströnd virkar sem sagt). Fullt af túristaveitingahúsum, aðdáendur indverskra staða og appelsínuanda á kínverskum geta unað við sigg. Allt til alls og mikið reynt að skemmta gestum, enda Bretar víða. Fínn bær, en næst ætla ég til Corralejo, en fór bæði þangað og til Pierto í þessari ferð, á frídögunum mínum sem voru furðufáir. Mun einnig gefa mér fleiri frídaga ef ég hef vinnuna aftur með mér í sólarfrí, sem er að mörgu leyti fín hugmynd fyrir fólk sem nennir ekki alltaf að bíða eftir að maki og fjölskylda komist með í ferðina. Ferðalög eru svo ólík eftir því hvort við erum ein á ferð eða með öðrum. 


Til hamingju Controlant með UT-verðlaunin - frábært að vinna

Controlant er einstakt fyrirtæki á margan hátt. Margvíslegar viðurkenningar hafa fallið fyrirtækinu í skaut, ekki einungis frá því það komst í sviðsljósið sem mikilvægur hlekkur í þeirri keðju sem gerði heimsbyggðinni kleift að spyrna myndarlega við fótum þegar kórónaveiran fór að herja og virti hvorki landamæri né annað. Strax árið 2009 mátti sjá hvert stefndi, þegar Controlant fékk frumkvöðlaverðlaunin Gulleggið (en er nú orðið bakhjarl verðlaunanna). Í dag bættust merkileg verðlaun í safnið, UT-verðlaunin sem veitt eru á UT-messu Ský á ári hverju. Sömu stofnendur fyrirtækisins tóku við þeim og forðum daga fyrir 14 árum. 

Heimasíða Controlant gefur hógværa mynd af því hverju fyrirtækið hefur áorkað, en er engu að síður áhugaverð. Controlant

Ögn meira var sagt fyrirtækinu til hróss fyrir tveimur árum þegar Útflutningsverðlaunin voru veitt: Controlant Útflutningverðlaun og í ótal blaðagreinum sem birst hafa á undanförnum árum. 

Já, það er frábært að vinna. Og það get ég sagt í tvennum skilningi, annars vegar var auðvitað Controlant að vinna og hins vegar er ég búin að vinna hjá Controlant í rétt rúmt ár. Hrein tilviljun réði því að ég var viðstödd þessa verðlaunaveitingu, sat úti í sal og fagnaði innilega, því ég hafði ekki hugmynd um að nákvæmlega núna fengi fyrirtækið sem ég vinn hjá nákvæmlega þessi verðlaun. Ég var ekki einu sinni stödd á UT-messunni á vegum fyrirtækisins, því ég hef sótt þessa messu nánast óslitið frá upphafi, rétt fyrst á vegum hugbúnaðarfyrirtækja sem ég hef unnið hjá, en frá árinu 2016 á vegum Ský, þar sem ég fékk það verkefni að skrifa 50 ára sögu hugbúnaðargerðar á Íslandi, sem út kom 2018, á vegum þeirra. Fyrir næstum mánuði nefndi ég við minn næsta yfirmann hvort það væri í lagi að ég eyddi þessum degi í þá endurmenntun sem UT-messan ávallt er, og hún hélt nú það. Svo kom babb í bátinn því annar þeirra sem veitti verðlaununum móttöku í dag var búinn að skipuleggja heils dags vinnufund okkar í rannsókn og þróun innan fyrirtækisins. Ég treysti því að því yrði frestað, og það reyndist rétt, svo ég komst, og hann auðvitað að taka við þessum verðlaunum. 

Þegar ég fór á eftirlaun fyrir fimm árum var það ekki síst til að hafa tíma til að fylgja eftir í gegnum útgáfu þessari tölvusögu sem Ský réð mig í að skrifa. Síðan tóku við fjölmörg verkefni, glæpasagnaskrif, vatnslitun og ekki síst góðar stundir með mömmu, meðan hennar naut við, en í dag eru þrjú ár síðan hún lést, níræð að aldri. Þetta var dýrmætur tími. Alltaf gat ég þess samt að ég gæti hugsað mér að snúa aftur í hugbúnaðarbransann og fyrir 13 mánuðum kom dóttir mín inn um dyrnar heima og sagði: Mamma, það er verið að auglýsa eftir þér! Þremur vikum síðar hóf ég störf hjá Controlant, átti þá fjóra mánuði í sjötugt. 

UT-messan er alltaf eins og stúdentaafmæli. Gaman að hitta gamla vinnufélaga og nýja, kennarana sem eiga heiðurinn af því að mér tókst að ljúka mastersnámi í tölvunarfræði (hitti einn þeirra í dag og náði að þakka honum) en þetta er í fyrsta sinn sem ég ákvað að vera viðstödd verðlaunaafhendinguna! Ekki veit ég hvað rak mig inn í salinn, en mikið var ég glöð að hafa ákveðið þetta. Fyrr um daginn hafði ég hlustað á einn félaga okkar hjá Controlant eiga stjörnuframkomu í einu af ótrúlega mörgum góðum erindum á messunni. Svolítið stolt í dag, og mig grunar að ég hafi verið eina af okkur vinnufélögunum sem var alveg grunlaus um hvað í vændum var, því ég var þarna í mesta sakleysi á vegum Ský (og þar á bæ kann fólk að þegja). ut verdlaun


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband