Betra seint en aldrei: Ég elska Krít

Þegar ég lagðist í almennilegt flakk á eigin vegum í fyrsta sinn uppúr tvítugu, fór ég um Mið- og Austur-Evrópu, það var einfaldlega ódýrast. Byrjaði í Frakklandi að heilsa uppá foreldra mína sem þá voru þar í námsleyfi, en tók svo lestina til Belgrad og dvaldi þar í viku. Það var svolítið erfið ákvörðun að ákveða hvort ég ætti að taka sjansinn á því að fara til Grikklands í framhaldinu eða taka nyrðri leiðina, Budapest, Prag og Krakow, sem varð niðurstaðan, þótt aldrei kæmist ég alla leið til Krakow, það er önnur og lengri saga. Átti nefnilega stefnumót við Gunnlaug frænda minn í Basel áður en ég lyki ferðinni í Kaupmannahöfn, og óneitanlega voru þessar borgir meira í leiðinni fyrir lestarferðalanginn mig. 

Það verður þó seint sagt að ég hafi ekki fengið hvatningu til að fara frekar til Grikklands. Franskar tvíburasystur, kennari og lögfræðingur, og kærasti annarrar þeirra, skopmyndateiknari, voru á gömlu druslunni sinni að koma frá Grikklandi og mærðu landið og landana. ,,Grikkir eru alltaf svona: :)" sögðu þær, en Júgóslavarnir svona :( . Mér var ekki skemmt, enda mikill aðdáandi Júgó. 

IMG_2210

Mig langaði samt alltaf til Grikklands, vissi af dvöl Leonards Cohen (BA-ritgerðin mín í bókmenntum var um ljóðin hans) á eyjunni Hydru og sá auðvitað landið og eyjarnar í hillingum eins og svo margir aðrir. Til að gera langa sögu stutta tók það nokkra áratugi fyrir mig að hrinda því í framkvæmd að heimsækja Grikkland, aðallega Krít (enn sem komið er, smá til Santorini og Þessaloniki líka).

IMG-0576

 

Upphaflega fór ég til Krítar í golf í nóvember 2016 og kynntist þar eggjabakkagolfholu. Fór fjórum sinnum til Krítar á þremur árum fyrir og í covid og í seinustu ferðinni hitti ég hana Tessu Papas, eitthvað ögn eldri konu en mig, sem hafði einmitt verið á Hydru ásamt Bill eiginmanni sínum (skopmyndateiknara, eins og Frakkinn í Belgrad forðum, en líka framúrskarandi vatnslitamálari -https://www.greecetravel.com/redapple/tribute.html) einmitt á tíma Cohens og Marianne. Og þau þekktu hann vel, einkum Bill, sagði Tessa. Hún gisti hjá henni Despoinu í gamla bænum í Chania um leið og ég og var sérlega geðfelld kona, sem þekkti alla á svæðinu og keypti sér hús í grenndinni áður en dvöl okkar í Chania lauk.

Backgammon

Cohen hitti ég hins vegar á annarri eyju, Íslandi, 1988. Nokkrir félagar mínir gerðu sér ferð til Hydru á ,,réttum" tíma, en ég gleymdi að spyrja Tessu hvort hún hefðir hitt Íslendinga þar. Við töluðum aðallega um hesta og tónlist og ég sýndi henni myndir af hestunum hans Ara og fleiri íslenskum hestum. 

IMG_5902


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband