Öðruvísi Kanarí - La Palma - fyrir gos

Lítil og falleg eyja, sú norðvestasta af Kanaríeyjunum, heitir La Palma. Hún komst heldur betur í fréttirnar þegar þar varð hrikalegt eldgos haustið 2021. Reyndar hefur lengi verið á kreiki tilgáta um að í vondum jarðskjálftum eða eldgosi kynni vesturhluti eyjarinnar að hrynja í sjó, þetta er jú brattasta eyja heims, eftir því sem sögur segja. Þá atburðarás hafði ég sem undirtón í hluta af því plotti sem ég byggði fyrstu glæpasöguna mína, Mannavillt á, en hvernig mun ég ekki segja frekar frá hér. Sú bók kom út meira en hálfu ári áður en gosið varð, en ég fór um þær slóðir þar sem gaus, það er einmitt landslagsmyndin sem fylgir þessu bloggi, tekin út um rútuglugga, sem sýnir svæði sem nú er komið undir hraun.

IMG-1726

Fékk þessa fínu ástæðu til að fara til eyjarinnar vorið 2019 til að festa betur ýmis atriði í atburðarás bókarinnar. Mæli eindregið með ferð þangað, hvort sem þið eruð útivistargarpar sem viljið skoða einhverjar af hinum fjölmörgu gönguleiðum eyjarinnar, eða bæjarráparar, eins og ég, sem reynið að njóta fallegs bæjarumhverfis, kaffihúsa og mannlífs í áfangastöðum sem á vegi verða. 

IMG-1750

Google maps var annars býsna góð leið til að undirbúa þessa ferð, því ég rakst á æðislegt blátt hús og annað grænt við hlið þess í Los Llanos de Aridane sem ég mátti til með að elta uppi og úr varð mjög skemmtileg ferð yfir háu fjöllin sem skilja að austurströndina, með höfuðborginni Santa Cruz de La Palma, þar sem ég var rétt hjá ferjuhöfninni, og vesturströndina þar sem Los Llanos er, en sá bær er mun líflegri en Santa Cruz. Leiðin lá um bæ sem nú er þakinn hrauni, en þegar ég fór hringferð um suðurhluta eyjarinnar, þá fórum við yfir veg sem lenti undir hrauni og var lengi vel ófær, held hann sé kominn í gagnið núna. 

56161891_10218909860515964_8952893065480110080_n

 

Það er auðvelt að komast með ferju frá Los Cristianos til La Palma og ferðin tekur +/- 3 tíma, mín ferja stoppaði í La Gomera án þess að það væri sérstaklega tilgreint, svo mér datt andartak í hug að ég hefði farið í vitlausa ferju, en svo hélt hún áfram. Komið var um miðja nótt og ég tók bíl í áfangastað sem var nálægt höfninni, sem var eins gott, því þegar ég hringdi á bíl til að taka mig til baka á ferjuna viku seinna, þá hló sú á stöðunni rosalega og sagði: Það er ekki hægt að panta bíl á nóttunni. Í mildri vornóttinni gekk ég því með mitt (létta og takmarkaða) hafurtask út í ferju og prísaði mig sæla fyrir valið á gististaðnum. 

IMG-1556 (2)

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband