Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2009

Hvað ef við hefðum haft evru: Egill í Brimborg á fundi á Café Rót á sunnudag kl. 14

Sunnudagsfundir Heimssýnar, sem eru til að efla umræðu um ESB, hafa verið haldnir nánast óslitið það sem af er ári, flestir á Café Rót, en einn, geysistór fundur var einnig í fundarsal Þjóðminjasafnsins snemma á árinu. Á morgun verður það Egill í Brimborg sem spjallar við fundargesti, en fundirnir á Café Rót eru óformlegir spjallfundir og umræður stundum mjög fjörugar. Hér er meira um fundinn, en yfirlit og efni fyrri funda er einnig að finna á síðu Heimssýnar: www.heimssyn.is og www. heimssyn.blog.is - athugið að við erum búin að færa okkur niður í salinn í kjallaranum!

Sunnudagsfundur: Hvað ef við hefðum haft evru?

Heimssýn, hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, boðar til almenns fundar nk. sunnudag 22. febrúar á Kaffi Rót Austurstræti 17, 101 Reykjavík, kl. 14:00. Frummælandi á fundinum verður Egill Jóhannsson, forstjóri Brimborgar.

Viðfangsefni fundarins verður einkum að svara eftirfarandi spurningum:

  • Væru Íslendingar betur settir í dag ef lögeyrir landsins hefði verið evra á undanförnum árum en ekki íslenska krónan?
  • Hefði íslenska fjármálakerfið ekki hrunið ef við hefðum haft evru?
  • Hvernig datt Íslendingum í hug að byggja upp stærsta fjármálakerfi heims miðað við höfðatölu og fara síðan að koma sér upp gjaldmiðli sem gæti hugsanlega stutt við slíka uppbyggingu?
  • Á Ísland að ganga í Evrópusambandið og taka upp evru?

Aðgangur ókeypis og allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir.

Heimssýn hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum

 


Lýðræðishalli Evrópusambandsins vegur þungt í andstöðu minni við inngöngu Íslands í ESB

Margar og mismunandi ástæður eru fyrir afstöðu fólks til aðildar Íslands að Evrópusambandinu. Sú ástæða sem vegur hvað þyngst í afstöðu minni er ákvarðanatakan innan Evrópusambandsins en jafnvel hörðustu fylgjendur aðildar Íslands að ESB mæla henni ekki bót og ekkert bendir til þess að breytinga sé að vænta til hins betra. Þvert á móti.

Flestar tilskipanir Evrópusambandsins sem sjálfkrafa öðlast lagagildi innan ESB eru samdar og undirbúnar af embættismönnum sem enginn hefur kjörið til að fara með svo mikið vald. Mikið skortir á gagnsæi í ákvarðanatöku og auðvelt fyrir kjörna fulltrúa, bæði þá sem beint eru kjörnir til Evrópusambandsþingsins og ráðherra hvers ríkis, sem taka þátt í störfum ráðherraráðsins, að skýla sér á bak við aðra þegar óvinsælar og íþyngjandi ákvarðanir eru teknar.

  • Þingið hefur löngum haft lítil völd þótt reynt hafi verið að auka þau. Þátttaka í kosningum til þings Evrópusambandsins í aðildarlöndunum er lítil og fjöldi þingmanna smáríkja þar að auki mjög lítill. Ef til aðildar kæmi fengi Ísland úthlutað 6 sætum af 751 á Evrópuþinginu, innan við 1%, sem sagt öráhrif í valdalitlu þingi.
  • Svo virðist sem íbúar flestra ESB-landanna líti ekki á ESB-þingmennina sem sína málsvara, enda er kosningaþátttaka til ESB-þingsins miklu minni en í kosningum til þjóðþinga landanna. Almenna reglan er að því nær sem valdið er (sveitarstjórnir, fylki, lén og þess háttar) þeim mun meiri kosningaþátttaka, víðast hvar er ágætis kosningaþáttaka til þjóðþinga en minnst er hún til ESB-þingsins, í flestum ríkjum ESB undir 50%. 
  • Ég vil gjarnan gera orð Steingríms J. Sigfússonar í grein á vef VG fyrir seinustu kosningar (http://www.vg.is/kosningar/nr/3449) að mínum: ,, ... kosningaþátttakan til Evrópuþingsins er komin vel undir helming kosningabærra manna, sums staðar í rétt rúmlega 20%, og hefur minnkað við hverjar kosningar frá þeim allra fyrstu árið 1979. Slík kosningaþátttaka segir meira en mörg orð um gjána milli almennings og ráðamanna innan Evrópusambandsins."
  • Ráðherrar í ráðherraráðinu þurfa ekki og mega oft alls ekki upplýsa hvernig ákvarðanir eru teknar. Þeir geta því hæglega tekið ákvörðun sem umdeild er í þeirra heimalandi og látið sem þeir hafi ekki stutt hana, ef þeir það kjósa.
  • Framkvæmdastjórnin, sem að flestum er talin valdamest, hefur enga beina tengingu við íbúa ríkja ESB og þarf ekki að standa neinum kjósendum reikningsskil fyrir gerðum sínum og ákvörðunum.
  • Enn síður þurfa embættismennirnir sem undirbúa tillögur og móta stefnu ESB að horfast í augu við þann almenning sem þarf að sitja og standa samkvæmt þessu tilskipunum sem varða smæstu atriði daglegs lífs.

Krafa fólks að undanförnu hefur verið aukin þátttaka í mótun eigin lífs, ekki margfalt minni möguleikar til að hafa áhrif eins og yrðu innan ESB.

Því hefur verið haldið, ranglega, að fólki að innganga í ESB myndi á einhvern ,,hókus-pókus" hátt leysa flest okkar núverandi vandamál. Ef vandamálið er að við erum ekki með evru (sem er reyndar mjög vafasamt) þá er rétt að minna enn einu sinni á að við erum svo fjarri því að uppfylla Maastricht-skilyrðin til að taka upp evru innan ESB að mörg ár mun taka að uppfylla þau. Og er þá ekki að sinni farið út í að ræða það mál hvort evru-upptaka henti íslensku efnahagskerfi, jafnvel í sinni skástu mynd, sem er mjög ólíkt efnahagskerfi evru-landanna. Skýrsla Evrópunefndarinnar, sem fæst ókeypis í forsætisráðuneytinu, og er hægt að nálgast á þessari slóð: http://www.forsaetisraduneyti.is/utgefid-efni/nr/2558 kemur að nokkru leyti inn á þau mál, en ljóst er að gjaldmiðilsumræðan er rétt að fara af stað.


Úr bloggbindindi í baráttuna

Þá er ég komin undan feldi og búin að gera það upp við mig að ég er tilbúin að hella mér aftur út í pólitíkina ef stemmning er fyrir því. Þetta var ekki auðveld ákvörðun en í dag hef ég fundið mjög vel að þetta var eina niðurstaðan sem ég hefði verið sátt við. Fyrir seinustu kosningar varðist ég fimlega öllum þrýstingi og tók ekki sæti á lista VG, en studdi auðvitað mína góðu Vinstri hreyfingu hið ágæta græna framboð. Þar á undan var ég tilbúin að fara í hvaða sæti sem var nema fimm efstu og lenti í því sjöunda. Það var mjög yndisleg kosningabarátta og ég þvældist eitthvað með Þórey Eddu Elíasdóttur, henni til halds og trausts, vona ég. Hún var þá í öðru sæti listans og hafði nóg að gera. Núna hefur verið hnippt aðeins meira og aðeins fastar í mig en við fyrri kosningar, ég kláraði strembna námið mitt (M.SC. í tölvunarfræði) í vor og eiginlega gat ég ekki réttlætt að láta ekki á það reyna hvort áhuginn á því að fá mig aftur í baráttuna væri raunverulegur. Alla vega þá er ég sátt við þessa ákvörðun og tilbúin að láta félaga í VG sjá um að skera úr um hve rétt hún var. Meðframbjóðendur (það eru engir mótframbjóðendur í VG) eru frábærir og það er ánægjulegt að tilheyra samtökum þar sem svona margt og gott fólk býður sig fram.

En mér er rammasta alvara með þessu framboði. Skeyti fréttatilkynningunni vegna framboðsis hér fyrir neðan.

Fréttatilkynning:

 

Anna Ólafsdóttir Björnsson hefur ákveðið að gefa kost á sér í 1.-3. sæti í forvali Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs í Reykjavík sem fram fer 7. mars næstkomandi.

 

Þær samfélagsbreytingar sem eiga sér stað um þessar mundir eru helsta ástæðan fyrir því að Anna hefur ákveðið að sækjast eftir sæti ofarlega á lista Vinstri grænna í komandi kosningum. Sjaldan eða aldrei hafa stjórnmál á Íslandi snúist um jafn mikilvæg málefni og nú. Tækifæri hafa skapast til þess að byggja upp nýtt og réttlátara þjóðfélag. Með því að bjóða fram krafta sína vill Anna leggja hugsjónamálum sínum lið. Bregðast þarf við aðkallandi vanda heimila og fyrirtækja í landinu, sem ramba á barmi gjaldþrots, ef ekki verður tekið myndarlega á. En ekki er síður mikilvægt að nýta þau tækifæri sem gefast þegar stokkað er upp á nýtt. Nú er tækifæri til að skapa samfélag aukins jöfnuðar, kvenfrelsis, lýðræðis, virðingar fyrir umhverfinu og fjölbreyttara atvinnulífs. Að þessum málum vill Anna vinna.

 

Anna er andvíg inngöngu Íslands í Evrópusambandið, ekki síst vegna fjarlægðar fólks frá því valdi sem tekur mikilvægar ákvarðanir sem varða líf og kjör almennings. Krafa dagsins í dag er aukið lýðræði og aukin áhrif almennings en innganga í ESB væri afdrifaríkt skref í þveröfuga átt.

 

Anna er fædd í Reykjavík árið 1952 og er sagnfræðingur og tölvunarfræðingur að mennt. Hún er einnig myndlistarmenntuð. Hún hefur verið virk í stjórnmálum frá árinu 1982, jafnt í grasrótarstarfi sem ábyrgðarstöðum. Hún sat í hreppsnefnd Bessastaðahrepps 1986-1989 og sat á alþingi fyrir Kvennalistann á árunum 1989-1995. Hún var meðal stofnenda Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs og er nýkjörinn formaður Félags Vinstri grænna á Álftanesi. Anna er gift Ara Sigurðssyni og eiga þau tvö uppkomin börn, Jóhönnu og Ólaf.

 


Geir sagði að hinir tveir seðlabankastjórarnir hefðu ekkert til saka unnið - hvað er hann að segja um Davíð, fer það á milli mála? Loksins réttu spyrlarnir, Auddi og Sveppi!

Geir Haarde sagði rétt áðan um seðlabankastjórana þrjá að hinir tveir seðlabankastjórarnir hefðu ekkert til saka unnið - hvað er hann að segja um Davíð, fer það á milli mála? Loksins réttu spyrlarnir fyrir Geir, Auddi og Sveppi!

Annars er ég í bloggbindindi.


Tilraun til tímabundins bloggbindindis

Vegna mikils annríkis framunda ætla ég að gera tilraun til þetta að fara í smá bloggbindindi. Ekki viss um að mig langi það eða þurfi á því að halda - en samt er ekkert ósennilegt að ég láti af því verða. Vona sannarlega að nú verði uppbyggingartímar framundan í samfélaginu okkar.

Við erum búin að fá nýja ríkisstjórn sem lofar góðu. Búin að óska henni allra heilla og lýsa skoðun minni (jákvæðri) á henni.

Við erum búin að fá mannaskipti víða þar sem þörf krefur og leggja drög að því að ljúka því máli.

Ýmislegt í samfélaginu er bara í nokkuð góðum farvegi að mínu mati.

Vonandi verður minni ástæða til að blogga á næstunni en að undanförnu. 

Þegar nær dregur kosningum vonast ég til að hafa náð að vinna af mér helsta kúfinn sem nú bíður mín, ég er komin á mjög spennandi úrvinnslustig í stærsta verkefninu mínu og að byrja á öðru mjög spennandi, auk þess að vera í mjög góðu átaki á enn öðrum vettvangi, vinnan er svo spennandi að ég held ég hafi varla tíma í að fylgjast nóg með til þess að blogga af einhverju gagni á næstunni. Ef ég finn afgangsstundir mun ég líklega eyða þeim í einhvers konar myndlistariðkun.

Reyndi að stytta athugasemdatímann á eldri bloggfærslum, þar sem ég ætla ekki að fylgjast með blogginu á næstunni og get því ekki svarað ykkur, en það virkar ekki, svo ég aftengdi athugasemdakerfið mitt tímabundið líka, fyrst hin leiðin virkaði ekki. Skiptir ekki máli, þetta er hvort sem er óvirkt blogg í bili en hafið það öll sem allra best!


Stirður ,,Réttur" en skánandi - og oftast horfi ég nú á þáttinn

Mér finnst réttardramað ,,Réttur" hafa farið svolítið stirðbusalega af stað. Samt hef ég reynt að horfa þegar ég man og lent annað hvort á endursýningum eða frumsýningum flestra, jafnvel allra, þáttanna. retturEkki hægt að festa hendur á því hvað er stirt, góðir leikarar en eitthvað þvingað við suma þeirra, kalt og drungalegt yfirbragð þáttanna á áreiðanlega að vera ,,cool" og er það kannski að sumra mati. Eftir því sem ég venst persónunum á ég þó auðveldara með að fá þá til að renna snurðulítið gegnum skilningarvitin. Pressuþættirnir voru miklu hraðari og léttari og þótt þeir ristu ekki djúpt fannst mér þeir geysilega vel heppnaðir. Gef ,,Rétti" sjans áfram en ef þeir fara að verða ögn hraðari og ekki svona skrambi stílhreinir, gráir og yfirhannaðir verð ég ósköp kát. Ef ekki þá treysti ég leikurunum til þess að halda þeim gangandi, þau gera sitt besta, sannarlega.

 


Samherjar - með mismunandi sjónarmið - og hvers vegna við verðum að gera það fyrir Eirík Bergmann að halda okkur utan ESB ;-)

Það sem af er ári, eða á ég kannski að segja það sem af er kreppu? hef ég fundað mikið og margvíslega með samherjum, án þess að eiga í rauninni annað sameiginlegt með mörgum þeirra en niðurstöðuna. Laugardagsfundirnir sem ég hef komist á, meðal annars þeir sem féllu inn í búsáhaldabyltinguna, eru sterkasta dæmið um það, sum okkar, þeirra á meðal ég, eigum okkur enn málsvara meðal þeirra flokka sem eru inni á alþingi, í mínu tilviki eru það Vinstri græn. Það hefur ekkert breytst. Önnur okkar munu standa fyrir stofnun annarra framboða eða finna sér farveg í því persónukjöri sem boðað er. Ég get ekki annað en glaðst með okkur öllum, okkur hefur orðið býsna mikið ágengt, einmitt í því sem sameinar kröfur okkar um breytt og betra stjórnarfar, en enn er verk að vinna.

Sama máli gegnir um andstöðuna gegn aðild Íslands að Evrópusambandinu. Þar er fjölskrúðugur hópur samherja sem hafa komist að sömu niðurstöðu en á talsvert mismunandi forsendum. Þótt helsti þrýstingurinn á þeirri umræðu sé búinn í bili, þá þarf sífellt að vera vakandi og þess vegna er Heimssýn, hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum nú á fullri ferð að halda fundi á hverjum sunnudegi, afla fjár þess á milli, mest eru það litlu upphæðir stuðningsmanna, eins og þær sem gerðu sigur Obama að veruleika í Bandaríkjunum. Takk öll! En við erum andvíg Evrópusambandsaðild á mjög mismunandi forsendum - fyrir suma er fullveldisafsalið mikilvægast, aðra afsal yfirráða auðlindanna, ég hef mestar áhyggjur af skorti á lýðræði innan sambandsins og fjarlægðina frá valdi og flest erum við auðvitað andvíg af mörgum og mismunandi ástæðum. Á fundi Heimssýnar í dag hafði Björn Bjarnason framsögu, enda nýbúinn að senda frá sér bók um ESB og Ísland, og Stefán Jóhann Stefánsson og Eiríkur Bergmann Einarsson sáu um að koma með athugasemdir auk allmennra umræðna. Þetta var fínn fundur eins og fyrri fundir, góður vettvangur fyrir spjall og vangaveltur um málefnið. Allir sem fylgjast með umræðunni vita auðvitað hvernig Eiríkur Bergmann Einarsson er stemmdur í þessum málum, mjög hliðhollur aðild Íslands að ESB, en það kom ekki í veg fyrir að hann kæmi með smá óvænt komment í lokin, í gríni auðvitað. Hann benti nefnilega á að hann ætti persónulega sömu hagsmuna að gæta og Heimssýn, því á meðan Ísland væri utan ESB fengi hann endalaus boð um að halda fyrirlestra og annað slíkt hér og þar, heima og erlendis, og þessu myndi eflaust linna ef við færum inn. Þannig að ég vona að við gerum það öll fyrir Eirík að halda okkur sem lengst undan ESB. 


,,Sá á fund sem finnur" - nóg af fundum að baki og framundan

,,Sá á fund sem finnur," sögðum við Kvennalistakonurnar þegar við vorum að drukkna í fundum (og kannski að skipta fundasókn með okkur).

Nóg er af fundunum sem ég á, vil og ætla að sækja þessa dagana. Ein góð ráðstefna um lýðræðið í dag, í tilefni af tíu ára afmæli VG, gaman að vera það í stórum og góðum hópi.

Á morgun eru tveir fundir sem báðir tengjast Evrópusambandsandstöðunni, Heimssýn er með vikulega fundi á Kaffi Rót, ætlum að prófa fundartímann kl. 16 að þessu sinni. Best að fylgjast með þessum fundum á www.heimssyn.is - því þeir verða fleiri núna framundan. 


Á leið á afmælisráðstefnu VG um framtíð lýðræðis á Íslandi

Trúi því varla að það séu komin tíu ár síðan Vinstri hreyfingin - grænt framboð var stofnuð. Grínast stundum með að ég kjósi ekki aðra flokka en þá sme ég hef verið með í að stofna, en það gildir reyndar í mínu tilfelli allt frá árinu 1983, svo það er ekki alveg fjarri lagi þótt ég hafi nýtt kosningaréttinn frá því ég mátti fyrst kjósa.

Ýmislegt er gert til þess að fagna tímamótunum og það sem ég hef einkum augastað á er ráðstefnan sem verður haldin í dag um framtíð lýðræðis á Íslandi. Hlakka til, best að fara að drífa sig af stað hvað á hverju.


Skortur á kvikindisskap og fréttir frá Kanarí

Fékk sms áðan úr númer sem ég þekkti ekki. Það var efnislega svona: ,,Á ég að kaupa bangsa handa NN í fríhöfninni? amma" Ef ég væri almennilega kvikindisleg þá hefði ég auðvitað svarað: ,,Nei" og blessað barnið, NN, hefði ekki fengið neinn bangsa. En ég er ekki nógu mikið kvikindi, og svaraði því til baka að ég héldi að þetta hefði ratað í vitlaust símanúmer. Sem var auðvitað alveg rétt, en hins vegar var þetta nú ekki eins langt frá mér og ég hélt, því í ljós kom að Inga vinkona mín sem ég hef oft verið með á Kanarí, var höfundur sms-ins. Og upphófust smá sms-skrif um mini-golf, hitastigið og fámennið (og góðmennið) sem er á Kanarí núna. Það hlýtur að vera skrýtið að vera þarna núna, ekki er hægt að kenna kreppunni um hversu kalt er núna, en hins vegar um flest annað, ekki þó allt, fleira hefur breyst og mér finnst svo skrýtið að vera ekki þarna, hálfpartinn eins og ég sé að skrópa, þó það sé fjarri lagi. Eins og ég hafði lengi ranghugmyndir um Kanaríferðir (sem eiga ekki mikið skylt við venjuleg ferðalög) þá hafa þær verið mjög sérstakur þáttur í lífi okkar það sem af er öld, alla vega þar til nú, með því súra og sæta sem þeim hefur fylgt, aðallega sætu.

Pæjan Inga í mini-golfi

Þó það sé ekki hlýtt þarna á Kanarí núna (13-17 gráðu hiti), er sólríkt (já, ég hef verið að lauma mér í að skoða 10-daga spána að undanförnu, þótt ég sjái alls ekki fram á að vera á leiðinni í sólina sem ég elska svo heitt). Rosalega gaman að heyra í þeim vinum okkar í kvöld og ég sakna þess sérstaklega að vera ekki þarna á sama tíma og þau, við höfum átt svo góðar stundir svo oft.

Nafnleynd barnsins og smáatriði um bangsann eru máð út úr þessari færslu ef ske kynni að það væri æskilegt.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband