Úr bloggbindindi í baráttuna

Þá er ég komin undan feldi og búin að gera það upp við mig að ég er tilbúin að hella mér aftur út í pólitíkina ef stemmning er fyrir því. Þetta var ekki auðveld ákvörðun en í dag hef ég fundið mjög vel að þetta var eina niðurstaðan sem ég hefði verið sátt við. Fyrir seinustu kosningar varðist ég fimlega öllum þrýstingi og tók ekki sæti á lista VG, en studdi auðvitað mína góðu Vinstri hreyfingu hið ágæta græna framboð. Þar á undan var ég tilbúin að fara í hvaða sæti sem var nema fimm efstu og lenti í því sjöunda. Það var mjög yndisleg kosningabarátta og ég þvældist eitthvað með Þórey Eddu Elíasdóttur, henni til halds og trausts, vona ég. Hún var þá í öðru sæti listans og hafði nóg að gera. Núna hefur verið hnippt aðeins meira og aðeins fastar í mig en við fyrri kosningar, ég kláraði strembna námið mitt (M.SC. í tölvunarfræði) í vor og eiginlega gat ég ekki réttlætt að láta ekki á það reyna hvort áhuginn á því að fá mig aftur í baráttuna væri raunverulegur. Alla vega þá er ég sátt við þessa ákvörðun og tilbúin að láta félaga í VG sjá um að skera úr um hve rétt hún var. Meðframbjóðendur (það eru engir mótframbjóðendur í VG) eru frábærir og það er ánægjulegt að tilheyra samtökum þar sem svona margt og gott fólk býður sig fram.

En mér er rammasta alvara með þessu framboði. Skeyti fréttatilkynningunni vegna framboðsis hér fyrir neðan.

Fréttatilkynning:

 

Anna Ólafsdóttir Björnsson hefur ákveðið að gefa kost á sér í 1.-3. sæti í forvali Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs í Reykjavík sem fram fer 7. mars næstkomandi.

 

Þær samfélagsbreytingar sem eiga sér stað um þessar mundir eru helsta ástæðan fyrir því að Anna hefur ákveðið að sækjast eftir sæti ofarlega á lista Vinstri grænna í komandi kosningum. Sjaldan eða aldrei hafa stjórnmál á Íslandi snúist um jafn mikilvæg málefni og nú. Tækifæri hafa skapast til þess að byggja upp nýtt og réttlátara þjóðfélag. Með því að bjóða fram krafta sína vill Anna leggja hugsjónamálum sínum lið. Bregðast þarf við aðkallandi vanda heimila og fyrirtækja í landinu, sem ramba á barmi gjaldþrots, ef ekki verður tekið myndarlega á. En ekki er síður mikilvægt að nýta þau tækifæri sem gefast þegar stokkað er upp á nýtt. Nú er tækifæri til að skapa samfélag aukins jöfnuðar, kvenfrelsis, lýðræðis, virðingar fyrir umhverfinu og fjölbreyttara atvinnulífs. Að þessum málum vill Anna vinna.

 

Anna er andvíg inngöngu Íslands í Evrópusambandið, ekki síst vegna fjarlægðar fólks frá því valdi sem tekur mikilvægar ákvarðanir sem varða líf og kjör almennings. Krafa dagsins í dag er aukið lýðræði og aukin áhrif almennings en innganga í ESB væri afdrifaríkt skref í þveröfuga átt.

 

Anna er fædd í Reykjavík árið 1952 og er sagnfræðingur og tölvunarfræðingur að mennt. Hún er einnig myndlistarmenntuð. Hún hefur verið virk í stjórnmálum frá árinu 1982, jafnt í grasrótarstarfi sem ábyrgðarstöðum. Hún sat í hreppsnefnd Bessastaðahrepps 1986-1989 og sat á alþingi fyrir Kvennalistann á árunum 1989-1995. Hún var meðal stofnenda Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs og er nýkjörinn formaður Félags Vinstri grænna á Álftanesi. Anna er gift Ara Sigurðssyni og eiga þau tvö uppkomin börn, Jóhönnu og Ólaf.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Aldís Gunnarsdóttir

Innilega til hamingju með þessa ákvörðun. Ég vona að þú náir markmiðum þínum :) kveðja frá VG-kerlu í Vestmannaeyjum

Aldís Gunnarsdóttir, 20.2.2009 kl. 11:37

2 Smámynd: Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir

Gangi þér allt í haginn, ekki veitir okkur af að fá kraftmikla kjarnakonu í pólitíkina.

Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, 20.2.2009 kl. 11:48

3 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Takk fyrir góðar óskir, þær eru svo notalegar :-)

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 20.2.2009 kl. 12:18

4 Smámynd: Héðinn Björnsson

Gangi þér vel Anna! Væri samt gott að fá að heyra frá þér einhver stefnumál sem til er fólk sem er á móti. Það vilja allir nýtt og réttlátara samfélag en það er mikill munur á því hvað fólk á við með því. Á sama hátt er ég engu nær um á hvern hátt þú villt bregðast við vanda heimila og fyrirtækja eftir að hafa lesið  yfirlýsingu þína. Hlakka til að heyra hugmyndir þínar útlistaðar.

Héðinn Björnsson, 20.2.2009 kl. 15:13

5 Smámynd:

Til hamingju með þessa ákvörðun. Alltaf ánægjulegt þegar gott fólk býður sig fram til starfa. Óska þér og VG góðs gengis.

, 20.2.2009 kl. 17:27

6 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Takk aftur. Stefnumál sem til er fólk á móti, já það er reyndar eitt á listanum mínum sem er umdeilt, það er ESB og þar kem ég með talsvert afgerandi afstöðu og geri mér alveg grein fyrir að ekki eru allir sammála, en ég vil koma hreint til dyra þar. Allar hugmyndirnar í tilkynningunni minni eiga eflaust eftir að koma í ítarlegri búningi á bloggið mitt, en ég get ekki lofað því að það verði svo margir á móti :-) vegna þess að auðvitað reyni ég að koma með hugmyndir sem vekja þessa tilfinningu: Já! Einmitt eins og á að gera þetta, og er hægt að gera þetta!

En það er rétt skilið, ég kem með ítarlegri tillögur og ég skal reyna að vera ekki eins og Tom Lehrer sem segir á einhverri plötunni sinni á milli laga:

,,It takes a certain amount of courage to get up in a coffee-house or a college auditorium and come out in favor of the things that everybody else in the audience is against like peace and justice and brotherhood and so on."

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 21.2.2009 kl. 04:08

7 Smámynd: Aprílrós

Gangi þér vel Anna mín ;) og til hamingju

Aprílrós, 21.2.2009 kl. 07:45

8 identicon

Óska þér góðs gengis, Anna mín!

Ragnheiður Gestsdóttir 23.2.2009 kl. 18:23

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband