Samherjar - með mismunandi sjónarmið - og hvers vegna við verðum að gera það fyrir Eirík Bergmann að halda okkur utan ESB ;-)

Það sem af er ári, eða á ég kannski að segja það sem af er kreppu? hef ég fundað mikið og margvíslega með samherjum, án þess að eiga í rauninni annað sameiginlegt með mörgum þeirra en niðurstöðuna. Laugardagsfundirnir sem ég hef komist á, meðal annars þeir sem féllu inn í búsáhaldabyltinguna, eru sterkasta dæmið um það, sum okkar, þeirra á meðal ég, eigum okkur enn málsvara meðal þeirra flokka sem eru inni á alþingi, í mínu tilviki eru það Vinstri græn. Það hefur ekkert breytst. Önnur okkar munu standa fyrir stofnun annarra framboða eða finna sér farveg í því persónukjöri sem boðað er. Ég get ekki annað en glaðst með okkur öllum, okkur hefur orðið býsna mikið ágengt, einmitt í því sem sameinar kröfur okkar um breytt og betra stjórnarfar, en enn er verk að vinna.

Sama máli gegnir um andstöðuna gegn aðild Íslands að Evrópusambandinu. Þar er fjölskrúðugur hópur samherja sem hafa komist að sömu niðurstöðu en á talsvert mismunandi forsendum. Þótt helsti þrýstingurinn á þeirri umræðu sé búinn í bili, þá þarf sífellt að vera vakandi og þess vegna er Heimssýn, hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum nú á fullri ferð að halda fundi á hverjum sunnudegi, afla fjár þess á milli, mest eru það litlu upphæðir stuðningsmanna, eins og þær sem gerðu sigur Obama að veruleika í Bandaríkjunum. Takk öll! En við erum andvíg Evrópusambandsaðild á mjög mismunandi forsendum - fyrir suma er fullveldisafsalið mikilvægast, aðra afsal yfirráða auðlindanna, ég hef mestar áhyggjur af skorti á lýðræði innan sambandsins og fjarlægðina frá valdi og flest erum við auðvitað andvíg af mörgum og mismunandi ástæðum. Á fundi Heimssýnar í dag hafði Björn Bjarnason framsögu, enda nýbúinn að senda frá sér bók um ESB og Ísland, og Stefán Jóhann Stefánsson og Eiríkur Bergmann Einarsson sáu um að koma með athugasemdir auk allmennra umræðna. Þetta var fínn fundur eins og fyrri fundir, góður vettvangur fyrir spjall og vangaveltur um málefnið. Allir sem fylgjast með umræðunni vita auðvitað hvernig Eiríkur Bergmann Einarsson er stemmdur í þessum málum, mjög hliðhollur aðild Íslands að ESB, en það kom ekki í veg fyrir að hann kæmi með smá óvænt komment í lokin, í gríni auðvitað. Hann benti nefnilega á að hann ætti persónulega sömu hagsmuna að gæta og Heimssýn, því á meðan Ísland væri utan ESB fengi hann endalaus boð um að halda fyrirlestra og annað slíkt hér og þar, heima og erlendis, og þessu myndi eflaust linna ef við færum inn. Þannig að ég vona að við gerum það öll fyrir Eirík að halda okkur sem lengst undan ESB. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband