Lýðræðishalli Evrópusambandsins vegur þungt í andstöðu minni við inngöngu Íslands í ESB

Margar og mismunandi ástæður eru fyrir afstöðu fólks til aðildar Íslands að Evrópusambandinu. Sú ástæða sem vegur hvað þyngst í afstöðu minni er ákvarðanatakan innan Evrópusambandsins en jafnvel hörðustu fylgjendur aðildar Íslands að ESB mæla henni ekki bót og ekkert bendir til þess að breytinga sé að vænta til hins betra. Þvert á móti.

Flestar tilskipanir Evrópusambandsins sem sjálfkrafa öðlast lagagildi innan ESB eru samdar og undirbúnar af embættismönnum sem enginn hefur kjörið til að fara með svo mikið vald. Mikið skortir á gagnsæi í ákvarðanatöku og auðvelt fyrir kjörna fulltrúa, bæði þá sem beint eru kjörnir til Evrópusambandsþingsins og ráðherra hvers ríkis, sem taka þátt í störfum ráðherraráðsins, að skýla sér á bak við aðra þegar óvinsælar og íþyngjandi ákvarðanir eru teknar.

  • Þingið hefur löngum haft lítil völd þótt reynt hafi verið að auka þau. Þátttaka í kosningum til þings Evrópusambandsins í aðildarlöndunum er lítil og fjöldi þingmanna smáríkja þar að auki mjög lítill. Ef til aðildar kæmi fengi Ísland úthlutað 6 sætum af 751 á Evrópuþinginu, innan við 1%, sem sagt öráhrif í valdalitlu þingi.
  • Svo virðist sem íbúar flestra ESB-landanna líti ekki á ESB-þingmennina sem sína málsvara, enda er kosningaþátttaka til ESB-þingsins miklu minni en í kosningum til þjóðþinga landanna. Almenna reglan er að því nær sem valdið er (sveitarstjórnir, fylki, lén og þess háttar) þeim mun meiri kosningaþátttaka, víðast hvar er ágætis kosningaþáttaka til þjóðþinga en minnst er hún til ESB-þingsins, í flestum ríkjum ESB undir 50%. 
  • Ég vil gjarnan gera orð Steingríms J. Sigfússonar í grein á vef VG fyrir seinustu kosningar (http://www.vg.is/kosningar/nr/3449) að mínum: ,, ... kosningaþátttakan til Evrópuþingsins er komin vel undir helming kosningabærra manna, sums staðar í rétt rúmlega 20%, og hefur minnkað við hverjar kosningar frá þeim allra fyrstu árið 1979. Slík kosningaþátttaka segir meira en mörg orð um gjána milli almennings og ráðamanna innan Evrópusambandsins."
  • Ráðherrar í ráðherraráðinu þurfa ekki og mega oft alls ekki upplýsa hvernig ákvarðanir eru teknar. Þeir geta því hæglega tekið ákvörðun sem umdeild er í þeirra heimalandi og látið sem þeir hafi ekki stutt hana, ef þeir það kjósa.
  • Framkvæmdastjórnin, sem að flestum er talin valdamest, hefur enga beina tengingu við íbúa ríkja ESB og þarf ekki að standa neinum kjósendum reikningsskil fyrir gerðum sínum og ákvörðunum.
  • Enn síður þurfa embættismennirnir sem undirbúa tillögur og móta stefnu ESB að horfast í augu við þann almenning sem þarf að sitja og standa samkvæmt þessu tilskipunum sem varða smæstu atriði daglegs lífs.

Krafa fólks að undanförnu hefur verið aukin þátttaka í mótun eigin lífs, ekki margfalt minni möguleikar til að hafa áhrif eins og yrðu innan ESB.

Því hefur verið haldið, ranglega, að fólki að innganga í ESB myndi á einhvern ,,hókus-pókus" hátt leysa flest okkar núverandi vandamál. Ef vandamálið er að við erum ekki með evru (sem er reyndar mjög vafasamt) þá er rétt að minna enn einu sinni á að við erum svo fjarri því að uppfylla Maastricht-skilyrðin til að taka upp evru innan ESB að mörg ár mun taka að uppfylla þau. Og er þá ekki að sinni farið út í að ræða það mál hvort evru-upptaka henti íslensku efnahagskerfi, jafnvel í sinni skástu mynd, sem er mjög ólíkt efnahagskerfi evru-landanna. Skýrsla Evrópunefndarinnar, sem fæst ókeypis í forsætisráðuneytinu, og er hægt að nálgast á þessari slóð: http://www.forsaetisraduneyti.is/utgefid-efni/nr/2558 kemur að nokkru leyti inn á þau mál, en ljóst er að gjaldmiðilsumræðan er rétt að fara af stað.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Af hverju skiptir það einhverju máli hvað þér finnst um þetta mál.

Það verða kosningar sem munu ákveða hvert skal haldið næst þ.e. hvort við viljum fara í aðildarumræður.

Því er þetta pointless umræða enda verður bara kosið um þetta og þá er það ákveðið.

Jón Ásmundsson 21.2.2009 kl. 19:25

2 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Þetta er innlegg í umræðuna og staðreyndir sem sumir vilja kannski ekki heyra.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 21.2.2009 kl. 22:33

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband