Skortur á kvikindisskap og fréttir frá Kanarí

Fékk sms áðan úr númer sem ég þekkti ekki. Það var efnislega svona: ,,Á ég að kaupa bangsa handa NN í fríhöfninni? amma" Ef ég væri almennilega kvikindisleg þá hefði ég auðvitað svarað: ,,Nei" og blessað barnið, NN, hefði ekki fengið neinn bangsa. En ég er ekki nógu mikið kvikindi, og svaraði því til baka að ég héldi að þetta hefði ratað í vitlaust símanúmer. Sem var auðvitað alveg rétt, en hins vegar var þetta nú ekki eins langt frá mér og ég hélt, því í ljós kom að Inga vinkona mín sem ég hef oft verið með á Kanarí, var höfundur sms-ins. Og upphófust smá sms-skrif um mini-golf, hitastigið og fámennið (og góðmennið) sem er á Kanarí núna. Það hlýtur að vera skrýtið að vera þarna núna, ekki er hægt að kenna kreppunni um hversu kalt er núna, en hins vegar um flest annað, ekki þó allt, fleira hefur breyst og mér finnst svo skrýtið að vera ekki þarna, hálfpartinn eins og ég sé að skrópa, þó það sé fjarri lagi. Eins og ég hafði lengi ranghugmyndir um Kanaríferðir (sem eiga ekki mikið skylt við venjuleg ferðalög) þá hafa þær verið mjög sérstakur þáttur í lífi okkar það sem af er öld, alla vega þar til nú, með því súra og sæta sem þeim hefur fylgt, aðallega sætu.

Pæjan Inga í mini-golfi

Þó það sé ekki hlýtt þarna á Kanarí núna (13-17 gráðu hiti), er sólríkt (já, ég hef verið að lauma mér í að skoða 10-daga spána að undanförnu, þótt ég sjái alls ekki fram á að vera á leiðinni í sólina sem ég elska svo heitt). Rosalega gaman að heyra í þeim vinum okkar í kvöld og ég sakna þess sérstaklega að vera ekki þarna á sama tíma og þau, við höfum átt svo góðar stundir svo oft.

Nafnleynd barnsins og smáatriði um bangsann eru máð út úr þessari færslu ef ske kynni að það væri æskilegt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband