Færsluflokkur: Bloggar

Notendaviðmót: Þegar tölvan segir ekki nei, heldur Gaggalagú

Margir þekkja dásamlega setningu úr sjónvarpsþáttunum Little Britain: The computer says no.

Hversu oft höfum við ekki lent í því að allt í einu er ekki hægt að leysa einföldustu mál, af því ,,tölvan" getur það ekki? Rakti um daginn dæmi þar sem ekki var hægt að leiðrétta falskt (allt of hátt) verð sem blasti við í afgreiðsluborði af því tölvan (sem var búðakassi í þessu tilfelli) vildi það ekki, og afgreiðslustúlkunni var slétt sama.

En stundum eru allir starfsmenn af vilja gerðir að hjálpa (og leysa málin) en einhver hefur útbúið notendaviðmót þannig að það er nánast útilokað að klóra sig í gegnum það og leiðin að því að komast í tæri við starfsmann er gríðarlega erfið. Af því mér er nú einstaklega hlýtt til þess fyrirtækis sem á í hlut og búin að láta þá tvo starfsmenn vita, sem ég á endanum komst í tæri við, þá hef ég gert lítils háttar breytingar á valkostunum sem fyrir hendi voru. Sorglega litlar reyndar.

Þetta snerist um eina, pínulitla, breytingu á skráningu. Í hlut átti ættingi minn sem er afskaplega tölvu- og símafær og eftir að hún hafði barist við kerfið í 4 klukkutíma og haft sigur, þá stóð á aðeins einu: Ég þurfti að samþykkja breytinguna á skráningunni. Hér er það sem gerðist næsta klukkutímann:

  • Síminn hringir í vasanum á mér þegar ég var að keyra. Ég svara aldrei síma þegar ég er að keyra.
  • Sé að það hefur verið hringt úr þjónustunúmeri.
  • Sé sms frá ættingjanum sem í hlut á á þá leið að kona ætli að hringja í mig til að fá téða staðfestingu.
  • Hringi til baka í þjónustunúmerið. Fæ fimm valkosti, enginn þeirra neitt nálægt því að passa við erindið. En ákveð að veðja á einn þeirra. Fæ skilaboð: Þú ert númer fimm í röðinni. Hvern langar að vera númer fimm í vitlausri röð? Legg á.
  • Hringi í annað númer sama fyrirtækis. Fæ sömu fimm valkosti. Þeir hefðu alveg eins getað verið þessir:
  • 1. Ef þig langar að klífa Everest, ýttu á 1.
  • 2. Ef þig vantar svar við lífsgátunni, ýttu á 2.
  • 3. Ef þú veist ekki hvaða skónúmer þú notar, ýttu á 3.
  • 4. Ef þú vilt fá uppskrift af Tiramisu, ýttu á 4.
  • 5. Ef þú vilt fá svar við öllum þessum spurningum á ensku, ýttu á 5.
  • Svo beið ég eftir að fá lausnina: Ef ekkert er valið, færðu samband við skiptiborð. En þessi skilaboð komu aldrei, frekar en í þjónustunúmerinu, enda nákvæmlega sömu skilaboð. Mér skilst reyndar að margir velji það að fá að spjalla við einhvern á ensku þegar hér er komið sögu, af því þar eru skilyrðingarnar ekki eins þröngar og í hinum valkostunum, krefst aðeins enskukunnáttu. Datt það ekki í hug nógu fljótt.
  • Það var líka hægt að skilja eftir skilaboð, og það gerði ég, sagði nafn mitt og símanúmer og nafnið á konunni sem hafði hringt í mig, af því það vissi ég úr sms-i ættingjans.
  • Mig grunaði samt að ekkert myndi gerast, þannig að næst ákvað ég að fá samband við þjónustufulltrúa í gegnum netspjall. Því miður fékk ég nokkurn veginn sömu valkosti þar og í símanúmerunum tveimur. Reyndi fyrst einn valkost. Tenging hafði ekki tekist eftir nokkrar mínútur (tengistika í álverslitunum eina lífsmarkið). Þá reyndi ég næsta. Þar þurfti ég alla vega bara að bíða í nokkrar mínútur. Ekkert um að allir þjónustufulltrúar væru uppteknir. En svo kom þessi indæli maður í netspjallið og kynnti sig og spurði hvað hann gæti gert fyrir mig. Fundið þessa konu, sem ég nefndi með nafni. Já, hann var sko til í að reyna það.
  • 5 mínútur liðu.
  • Þá hringir þessi kona í mig, blessunarlega, annað hvort af því hún ætlaði að hringja aftur, af því að hún hefur fengið símaskilaboðin, eða af því að þjónustufulltrúinn var búinn að finna hana. Ég veitti henni staðfestinguna. Það tók ca. eina mínútu. Málið leyst.

Skömmu síðar kom þjónustufulltrúinn aftur á spjallið, ég var búin að pikka inn þakklæti fyrir að málið væri leyst, við skiptumst á einhverju kurteisMagrittePipeishjali og kvöddumst með virktum.

kafka


Kominn tími á nýja könnun

Kominn tími til að setja inn nýja könnun. Geri það hér með.

Últra-vel heppnuð og örstutt óvissuferð með vinnunni!

Ég kann vel við húmorinn í nýju vinnunni minni.

Við vorum boðuð í dag að skoða nýtt húsnæði vinnunnar, sem tekið verður í notkun á næsta ári. Nokkrir staðir hafa komið til greina, einn sýnu óvinsælastur en verður ekki nefndur af mannúðarástæðum vegna þeirra sem vinna þar í grennd. Þegar rútan hafði tekið við okkur flestum vinnufélögunum var stormað beint áleiðis til .... staðarins sem minnstrar hylli naut. Pollýönnur leyndu vonbrigðum sínum og fundu staðnum nokkuð til síns ágætis. Rétt áður en rennt var í hlað þar, beygði rútan af leið og hélt í annað hverfi, sem hefði sennilega ekki heldur notið vinsælda, ef mannskapurinn hefði ekki verið búinn að átta sig á brandaranum. Við enduðum á algerum draumastað og ég held að flestir dauðhlakki til að flytja þangað. Fylgist með hinni æsispennandi framhaldssögu.


Að hætta að vinna hjá sjálfri sér og fá raunverulegt helgarfrí

Þar sem ég hef unnið í lausamennsku allt að hálfa starfsævina þá þekki ég þokkalega kostina og gallana. Fyrir skemmstu datt ég niður á starf sem var of áhugavert til að sleppa því og nú er fyrsta vinnuvikan að baki og ég er raunverulega komin í helgarfrí! Þótt skammt sé til jóla og ýmis verkefni bíði hér heima á þessum annasama árstíma, þá er sérkennilegt að kveðja vinnuna að loknum vinnudegi á föstudegi og taka hana ekki með sér heim. Sofna með góðri samvisku fyrir framan 1cimg5328.jpgsjónvarpið, jafnvel missa af Taggart, og finnast ekki að ég ætti að skrifa tvær blaðsíður í viðbót í einhverju handriti, finna til myndir, lesa yfir skýrslu eða fara að vinna í mynd sem ég hef tekið með mér heim. Það eiga eflaust eftir að koma tarnir í þessari vinnu eins og annarri, og engin vinna sem ég hef fengist við er alveg laus við kvöld og helgartarnir, en það er bara eðlilegt. Og auðvitað er kollurinn fullur af reynslu síðustu viku og alls konar pælingar sem eltu mig heim, en þær eru ekki íþyngjandi, bara skemmtilegar. 

Ég sagði það stundum sem brandara þegar ég var að vinna hjá sjálfri mér að ég hefði ekki nógu góðan yfirmann, það er að segja sjálfa mig. Fríin, sem ég vissulega gaf sjálfri mér, tóku oftast tillit til vinnuveitanda-Önnu en ekki Önnunni sem vann hjá ,,henni". Þrátt fyrir fögur fyrirheit, þá skilst mér að þetta sé algengur plagsiður sjálfstætt starfandi fólks. Meira að segja þegar maður afmarkar tíma og fær tækifæri til að vinna við hugsjónirnar, þá vill það jafnvel éta upp tímann meira en nokkuð annað. Hins vegar er ég ánægð með afraksturinn og búin að fá útrás fyrir ótal hugmyndir og framkvæma þær flestar að meira eða minna leyti, og það eru forréttindi. 

Enn á ég eina bók í sölu í bókabúðunum, bókina um Elfu Gísla, enn hanga uppi myndlistarsýningar á tveimur stöðum, í Veggsporti, þar sem ég hengdi upp skvass- og tennismyndir og á Café Rót, þar sem Kaffi og landabréf, lítið eitt leiðrétt, eru sýnd 


Hvalir í sjó og endur á polli

Afsakið smámunasemina en ég sé einhvern veginn ekki fyrir mér að andarnefjurnar syndi eins og sælar endur á polli á Pollinum. Frekar dettur mér í hug að þær séu að busla í pollinum þarna nyrðra. En þið getið kannski upplýst mig um annað.
mbl.is Andarnefjur aftur á Pollinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

(Stutt) bloggfrí

Eins og sjálfætt starfandi kona þarf stundum að gera þarf ég að eyða mestöllum tíma mínum í verkefni milli þess sem ég get deilt tíma mínum með áhugamálunum. Nú er ég stödd á svona vinnutarnartímabili og þarf að sinna vinnunni og fjölskyldulífinu meira en áhugamálunum í bili (bloggi og öðru). Loka kommentakerfinu á meðan ég gef mér ekki tíma til þess að sinna því. Kosningabaráttan fer svo væntanlega á fullt um eða eftir páskana og væntanlega verð ég farin að blogga aftur fyrir þann tíma. 

Tilraun til tímabundins bloggbindindis

Vegna mikils annríkis framunda ætla ég að gera tilraun til þetta að fara í smá bloggbindindi. Ekki viss um að mig langi það eða þurfi á því að halda - en samt er ekkert ósennilegt að ég láti af því verða. Vona sannarlega að nú verði uppbyggingartímar framundan í samfélaginu okkar.

Við erum búin að fá nýja ríkisstjórn sem lofar góðu. Búin að óska henni allra heilla og lýsa skoðun minni (jákvæðri) á henni.

Við erum búin að fá mannaskipti víða þar sem þörf krefur og leggja drög að því að ljúka því máli.

Ýmislegt í samfélaginu er bara í nokkuð góðum farvegi að mínu mati.

Vonandi verður minni ástæða til að blogga á næstunni en að undanförnu. 

Þegar nær dregur kosningum vonast ég til að hafa náð að vinna af mér helsta kúfinn sem nú bíður mín, ég er komin á mjög spennandi úrvinnslustig í stærsta verkefninu mínu og að byrja á öðru mjög spennandi, auk þess að vera í mjög góðu átaki á enn öðrum vettvangi, vinnan er svo spennandi að ég held ég hafi varla tíma í að fylgjast nóg með til þess að blogga af einhverju gagni á næstunni. Ef ég finn afgangsstundir mun ég líklega eyða þeim í einhvers konar myndlistariðkun.

Reyndi að stytta athugasemdatímann á eldri bloggfærslum, þar sem ég ætla ekki að fylgjast með blogginu á næstunni og get því ekki svarað ykkur, en það virkar ekki, svo ég aftengdi athugasemdakerfið mitt tímabundið líka, fyrst hin leiðin virkaði ekki. Skiptir ekki máli, þetta er hvort sem er óvirkt blogg í bili en hafið það öll sem allra best!


Virkir dagar og helgar

Held það sé ekki bara eðli starfs míns (alltaf á vaktinni) sem veldur heldur atburðirnir að undanförnu sem valda því að virkir dagar og helgar eru farin að renna dálítið mikið saman. Viðburðaríkir dagar að baki og væntanlega framundan líka og allir á fullu alla daga, virka sem helga. Kosningar framundan og upp rifjast gamall frasi úr jafn gamalli kosningabaráttu: Maður hefur nú vakað eina vorvertíð! - Skyldi það verða þannig?

Pestin

Það var svo sem við því að búast að ,,pestin" legði fleiri í rúmið en soninn á heimilinu, sem er búinn að liggja í viku. Nú er ég sem sagt búin að fá ,,pestina" og er ekkert sérlega kát yfir því. Nú orðið fæ ég frekar sjaldan umgangspestir, en á meðan krakkarnir mínir voru litlir kom hver einasta pest við hjá okkur og ég tíndi þær allar upp og það var ekki beint skemmtilegt.

Það sem ég hef mestar áhyggjur af núna er að verða ekki orðin frísk og fersk fyrir næstkomandi föstudag, þegar ég þarf að keppa fyrir Álftanes í Útsvari. Best að gera allt sem hægt er, drekka engiferte sem hún Tang Hua vinkona mín kenndi mér að nota gegn kvefi, mikið af vatni, sofa og sofa og svo hef ég það eftir áreiðanlegum heimildum að það sé snjallt að taka paratabs við beinverkjunum. Þetta síðastnefnda geri ég líklega ekki, ekki vön að taka verkjatöflur nema í neyð og einhvern veginn hef ég aldrei litið á beinverki sem neyð. En æi, þetta er fúlt! Það eina góða við pestir er dagurinn þegar pestin er allt í einu að baki, fyrir mér er það alltaf eins og ákveðin endurfæðing.


Janúardagar

Sérlega fallegur dagur í dag. Snjóföl yfir  öllu hér suðvestanlands, líklega um mestallt landið. Útsýnið yfir Grafarvoginn yndislegt, en þar var jarðarför Möggu Odds og mikið fjölmenni. Sólin að hækka á lofti, hik og bið í samfélaginu vegna ástandsins en líklega langt í að vor verði í lofti og sinni. Hlýindin um daginn voru í bland við svartasta skammdegismyrkrið svo það var ekki beinlínis vorlegt þótt fallegt væri. Janúar er ekki minn uppáhaldsmánuður og í febrúar höfum við Ari oftast forðað okkur í frí undanfarin ár, varla núna þó, það styttir veturinn mikið þegar gert er. En stundum þarf að gera fleira (eða færra) en gott þykir.

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband