Bloggfærslur mánaðarins, mars 2008

Gegn stríðinu í Írak

Einn af göllunum við að vinna hjá sjálfum sér (og kannski sá eini) er sá að dagarnir renna saman. Sé að fundurinn gegn stríðinu í Írak, sem ég hefði svo sannarlega átt að vera á, er búinn. En þá er bara að blogga um málið, alltaf til önnur lausn, sem sagt ítreka andúð mína á þessum stríðsrekstri á þessum opinbera vettvangi. Hef verið á móti þessu stríði frá upphafi.

 Það eru fáir eftir held ég sem mæla þessum stríðsrekstri bót og nú er bara beðið eftir að Bush láti af störfum og Bandaríkjamenn dragi herlið sitt heim. Það skýtur reyndar skökku við ef rétt er sem ég heyrði í fréttum að Ítalir séu að fara að efla sitt herlið þarna, þvert á alla skynsemi. Vesturveldin, einkum þessi ,,viljugu", sem við vorum illu heilli bendluð við í einkaframtaki nokkurra stjórnmálamanna, skulda íbúum Íraks öfluga aðstoð við að koma á betra og friðsælla stjórnarfari án íhlutunar eftir brottför herliðanna, sem ekkert hafa gert annað en usla og ósköp.

Æjá, og eitt enn. Mér finnst það góð áminning að fyrrum hermenn í Írak skuli standa að mótmælunum í Washington.


Hvers vegna fer ég ekki oftar í leikhús?

Góðu fréttirnar fyrst, þegar ég fer í leikhús hef ég nánast alltaf verið ljónheppin með sýningarnar sem ég sé. Sumar hreinlega ómetanlegar, Rómeó og Júlía hjá Vesturporti og lítil sæt leiksýning með Maggie Smith sem plastpokakonu standa uppúr á seinustu árum og ef ég ætti að telja upp allt sem ég hef séð í leikhúsi og hefur haft varanleg áhrif á mig, þá yrði það langur (en skemmtilegur) listi. Kannski tímabært að fara að taka hann saman og skiptast á dæmum hér í bloggheimum. Vondu fréttirnar: Hef misst af nokkrum sýningum sem er eiginlega óafsakanlegt að hafa klúðrað. Hins vegar verð ég áreiðanlega aldrei ,,fastur frumsýningargestur" neins staðar. Ástæðan er sú að ég tek virklega nærri mér þegar ég sé vondar leiksýningar. Sem betur fer hefur það ekki gerst oft, samanber fyrstu setninguna í þessum bloggpistli.

En í gærkvöldi fór ég sem sagt í leikhúsið og sé ekki eftir því. Fékk spontant tölvupóst frá Nínu systur fyrir rúmum mánuði um hvort ég vildi ekki koma á sýningu sem ég vissi þá ekkert um. Þekki nef Nínu fyrir góðum sýningum svo ég sagði auðvitað bara já. Þetta var leikritið Kommúnan sem Vesturport sýnir í Borgarleikhúsinu með stjörnuleikurum, innlendum og erlendum. Nú er ég ekki búin að sjá myndina Tilsammans, eftir Moodyson, (mun bæta úr því) sem leikritið er byggt á, en á stöku stað fannst mér sænski þefurinn af íslensku gerðinni aðeins of mikill, allar reglurnar og að bresta í söng í tíma og ótíma - hmm, sannfærir ekki mitt íslenska hjarta, og þó, man eftir einum hópi sem tengdist mínum menntaskólaárum sem hefur sennilega farið svona að.

En það var mikill húmor og ágætis írónía í sýningunni, uppsetningin alveg frábær og hlutur leikaranna gerði sýninguna svo skemmtilega sem raun bar vitni. Árni Pétur fór á kostum, enda kunnáttumaður í þeim heimi sem um var fjallað og í rauninni var hvergi misfellu að finna í frammistöðu leikaranna, einfaldlega rosalega trúverðug öll saman. Ólafur Darri og Sara Dögg sem túlkuðu systkinin voru með góðar rullur og unnu vel úr þeim og Gael Garcia Bernal var frábær. kommunanEiginlega þarf ég að halda áfram, því þau voru öll svo flott. Kommúnistinn kannski aðeins yfir strikið í klissjunum, en þessi karakter er eflaust til, og vel leikinn, lesbían Anna var líka flott, og dekurdúkkan alveg óborganleg. Fulli eiginmaðurinn átti bestu sprettina í glasi og krakkarnir komumst vel í gegnum sýninguna líka. Það var ekki dautt augnablik í sýningunni, svo ég segi bara: Ef þið komist á þessa sýningu þá mun ykkur varla leiðast. Aldursdreifing áhorfenda var skemmtileg, slatti á mínum aldri, sem sagt kommúnutímaaldrinum, slatti af eldra fólki sem undraði mig svolítið (duldir fordómar eða kannski voru þessi ,,eldri" allir á mínum aldri líka ;-) og svo fullt af fólki á þeim aldri að eiga foreldra eða tengdaforelda á þessum kommúnutímaaldri. Fékk reyndar fína reynslusögu af einni þeirra í hléinu, en það er önnur saga. 


Saga sem margir kattaeigendur geta lifað sig inn í

Smá framlag frá YouTube sem margir kattaeigendur geta eflaust skilið vel. Simbi okkar er alla vega grunaður um að lifa eftir þessum lífsreglum.

 


Garri

Fallegt gluggaveður en garri og hryssingskalt. Vonandi fer að vora og hlýna fljótlega, er þetta ekki bara orðið gott? Sól í hjarta og sól í sinni er það sem okkur vantar núna, en helst ekki með frostroki í leiðinni.

Tókst að missa af (meintum) besta flytjandanum í tvígang - og Hallelujah Jeffs Buckley

Hafði ekki hugmynd um að Americal Idol væri í kvöld (þótt það væri reyndar fyrirsjáanlegt, kláraði frá mér allt mánudagskvöldið fyrir viku) þannig að ég datt aðeins of seint inn í það. David hinn ungi, nýja uppáhaldið mitt var rétt búin að syngja þegar ég fór að fylgjast með og leikar standa enn. Reyndi á Stöð 2 plús en missti þar rétt af honum líka, en heyrði þó að honum var hrósað. Hins vegar hafa flestir flytjendurnir í kvöld verið góðir og flutningur á Jeff Buckley útgáfunni á Cohen laginu Hallelujah stendur uppúr, reyndar var á undan Lionel Ritchie lag sem var sérlega vel flutt. Stelpurnar eru ekki búnar núna, en það eru góðir sprettir, m.a. í nýfluttu Pat Benatarlagi. Þannig að þetta verður kannski bara gaman það sem efti rer vetrar.

Var að tékka á hvort lagið sem David flutti væri komið á YouTube (er ekki innvígð í iTunes eins og stendur) en það er ekki komið, hins vegar er Imagine frá síðustu viku þar, njótið vel:

 


Ferming í fjölskyldunni og lausar skrúfur

Við Ari eigum alveg rosalega stóra fjölskyldu, reyndar aðallega hans megin. Flest árin er þvi verið að ferma einhver börn okkur nákomin. Á þessu ári held ég þó að það sé aðeins ein ferming, en reyndar frétti ég hlutina oft seinust, þannig að allt er mögulegt í þem efnum. Kjartan systursonur minn er sem sagt að fara að fermast í dag.

Fermingargjöfin frá okkur frænkunum og fjölskyldum var löngu skipulögð og keypt loksins í gær, en afgreiðslumaðurinn í tölvubúðinni bauðst (mjög vingjarnlega) til að setja saman það sem þurfti af gjöfinni (sem ekki er gefið upp hver er). Þegar heim var komið og farið að huga að gjöfinni hafði blessaður drengurinn ekki gert þetta betur en svo að skrúfur vantaði og gripurinn skrölti. Nokkrar mínútur síðan búðinni var lokað og ekkert svar símleiðis. Ekki opin á morgun. Illt í efni. Byko og Elko og alls konar -ko selja ekki svona skrúfur. En með því að ráðast á aldna heiðurstölvu innanhúss er nú loks búið að bæta úr þessum lausu skrúfum. Hjúkk, leiðinlegra ef það hefði ekki gengið upp.

Og svo er bara að mæta í veisluna á eftir, alltaf gaman að sjá fólkið sitt og fermingarbarnið auðvitað í aðalhlutverki.


Baráttudagurinn 8. mars

Þegar ég var unglingur fannst mér 9. mars merkilegastur marsdaga. Þá átti litla systir nefnilega afmæli. Hún á enn afmæli 9. mars, og er meira að segja að segja að ferma miðbarnið á morgun. Í millitíðinni hef ég líka eignast son sem á afmæli 4. mars, mikinn feminista. En 8. mars hefur í mörg ár verið sá dagur sem helst hefur fengið okkur mörg til að staldra við og hugsa: Hvar erum við stödd í baráttunni gegn misrétti í garð kvenna? Hvar erum við stödd í dag, árið 2008?

Ofbeldi gegn konum er rætt af meiri festu og einurð en nokkru sinni fyrr, þökk sé Stígamótum, Kvennathvarfinu, baráttuhópum kvenna og karla.

Dómar í málum er varða ofbeldi gegn konum eru skammarlega vægir, kusk á hvítflibba vegna bloggs er hærra metið en líf og limir kvenna sem beittar eru ofbeldi.

Konur í valdastöðum eru fleiri og frjálsari en fyrr.

Víða um heim hafa konur enga möguleika á að komast í valdastöður, ekki einu sinnni til mennta. Fjármálaheimurinn er nánast kvenmannslaus í kulda og trekki (þótt vitað sé að fyrirtæki sem konur stjórna taka minni áhættu og fari síður á hausinn, áminning í ótíðinni) og menn hiksta á þeim möguleika að kjósa konu í valdamesta pólitíska embætti heims. 

Launabilið milli karla og kvenna hefur minnkað.

Launabilið milli karla og kvenna (óútskýrður launamunur) er enn til! 


Pelastikk á bandinu hans Bubba

Horfðum á Bandið hans Bubba í kvöld og vorum sammála dómnefndinni um hverjir væru bestir, en það er eiginlega ekki hægt að horfa ógrátandi á sumt sem þar kemur fram, í þetta sinn var það morðið á ,,Creep" sem hefði átt að senda viðkomandi söngvara heim, ennfremur skil ég ekkert hvað Hjálmar er að gera þarna. En úff, flott eru þau Arnar, Thelma og Birna og kvöldið í kvöld var bara ágætt. Og á eftir fórum við Nína og Óli á algert tónlistarsukk. Nína fann lag með tilvonandi tengdasyni þar sem hann syngur fallega um bæ, sem flestum þykir ljótur, Portales í New Mexico. Þetta er flott lag, vel flutt og húmor í því, honum finnst þetta nefnilega fallegur bær, og það er merkilegt þegar flestum öðrum þykir hann frekar ljótur. Annars tók Óli flottar myndir þar þegar hann var hjá Annie frænku sinni þarna í haust.

En svo var auðvitað farið vítt og breitt um tónlistarsöguna, með viðkomu í snilldarverkum eins og söngvum Kurt Weill við ljóð Bertholt Brecht, Nick Cave (þar þurfti auðvitað að horfa líka á vídeóið með Wild Roses Grow sem langt er síðan sést hefur. Svo voru það sjaldheyrð bítlalög, smá Zappa (Little Umbrellas o.fl.), Lay Low, Doris Day og ýmislegt fleira sem of langt mál yrði að telja.

Hér er fyrir fleiri að njóta: Lotte Lenya syngur Surabaya Johnny (ekki með htmli til að setja inn).

Og af mörgum góðum lögum með Nick Cave vel ég þetta: Death is not the end, aðallega vegna snilldarflutnings hans, Shane, Blixa (Bad Seeds) að ógleymdri Kylie Minoque, snilld að sjá þau:


Þjóðarbókhlaðan er alveg ótrúlega vel heppnuð

Sumir héldu að ekkert kæmi í staðinn fyrir gamla (fallega) Landsbókasafnið, þar sem Agnar Þórðarson og fleiri góðir bókaverðir réðu ríkjum og mikill hátíðleiki sveif yfir vötnum. Stiginn einn og sér kom manni í upphafnar stellingar. stiginn-minniÞað var góður staður til að læra á og í Þjóðskjalasafnshlutanum í vesturendanum hélt ég reyndar til í heilan vetur á milli kl. 16 og 18 og lauk við vinnu fyrir mastersritgerðina mína í sagnfræði (enginn skilur hvað cand. mag, stendur fyrir, svo ég einfalda málið, 60 einingar eftir BA og stór lokaritgerð, sem sagt). Þannig að ég á vissulega góðar minningar úr því húsi.

 

 

En hins vegar sakna ég einskis, Þjóðarbókhlaðan gerir gott betur en að koma í staðinn fyrir sjarma Landsbókasafnsins. Ennþá má finna veklt spjöld úr herberginu í austurenda Landsbókasafnsins en tölvur, síbatnandi leitarkerfið, legustólar og þægileg lesaðstaða eru löngu komin í staðinn fyrir stóru og fallegu harðviðarborðin á gamla staðnum og vígalegu stólana sem við sátum við þar. Þjóðdeildin á jarðhæð (eða eiginlega vatnshæð) Þjóðarbókhlöðunnar er glæsilegasti hluti hússins. Að sitja við gluggann, þar sem ekkert skilur fót og friðsæla vök annað en vel pússuð rúða kemur ókyrrasta huga í algleymi (andagiftar vonandi). Húsið er einstaklega vel heppnað að utan og innan og þótt ég hafi heyrt einn ágætan brandara þegar húsið var nýtt (og væntanlega hrátt) þar sem útlendingur á að hafa spurt hvort þetta væri ,,The State Prison" (síki umhverfis og mjög massívt hús) - 1005220þá held ég að flestir séu farnir að gera sér grein fyrir því hversu fallegt húsið er, vel staðsett og frágengið og þar að auki líður öllum sem ég hef spurt (og þeir eru margir) afskaplega vel í þessu ágæta húsi. Manfreð Vilhjálmsson má vera stoltur af verki sínu, það er einstakt í sinni röð. Og svo er starfsfólkið svo ljómandi gott líka.

 


Vinir og fjölskylda

Held að  ég geti aldrei sagt það of oft hvað ég er lánsöm að eiga svona góða vini og fjölskyldu. Það er alveg ástæðulaust að vera alltaf að nefna það, en svona einstaka sinnum, er það ekki bara allt í góðu? Wink

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband