Færsluflokkur: Bækur

Bækur, óbækur og bókmennt(afræðingurinn)

Er alin upp við mikla virðingu fyrir bókum og þar með talið bókmenntun, en líka alls konar öðrum bókum, svo sem æviminningum sem ekki teljast til ,,mennta". 

Frá því ég var svona átta eða níu ára hafa glæpasögur af ýmsu tagi verið í mestu uppáhaldi. Ekki bara þessar fyrir krakka (Enid Blyton kemur sterk inn) heldur líka ,,fullorðins". Við Kristín Klara bekkjarsystir mín lágum í Sherlock Holmes ungar að aldri og bekkjarbróðir okkar, Halli Blöndal, stundaði bókamarkaðina í Listamannaskálanum eins og ég. Þar keypti ég mjög margar óinnbundnar glæpasögur, sem margar voru góðar. Ein er mér minnisstæð, sú fyrsta sem ekki ,,endaði vel" (enda glæpasögur annars vel ef fjöldi manns hefur fallið í valinn?) Blaðamaður í Ameríku var að reyna að fletta ofan af mafíustarfsemi og bókin endar á því að hann gerir sér grein fyrir að hann hefur tapað og verði myrtur hvað á hverju. 

Glæpasögur teljast oft ekki til bókmennta í almennri umfjöllun, hvort sem það á rétt á sér eða ekki. Og snemma lágu leiðir mínar og ,,almennilegra bókmennta" saman. Kipling hefur vissulega verið úthýst vegna rasisma, en hann er barn síns tíma og samfélags. Dýrasögur hans merkilegar, einkum sagan um köttinn sem fer sínar eigin leiðir og allir staðir eru honum jafn kærir. Árið þegar ég var bókavörður vildu 14 ára nemendur mínir að ég mælti með ástarsögum handa þeim og í stað þess að benda á Feðgana frá Fremra-Núpi, þá sagði ég þeim að lesa Sumarást (Bonjour Tristesse) eftir Françoise Sagan. Fékk bara fuss og svei þegar þær voru búnar að lesa hana. Nýjustu bækur Laxness voru húslestur heima á Tjörn á kvöldin og 16 ára erfði ég mjög merkilegt bókasafn eftir pabba. Fékk ljóðabók Káins í fermingargjöf frá Sveini frænda og lagðist í lestur ljóða, meðal annars Steinunnar Sigurðardóttur, þegar hún fór að gefa út sínar bækur. 

En til að gera langa sögu stutta, þá tók ég bókmenntir í val í MR og kláraði BA-próf í Almennri bókmenntasögu frá HÍ 1978 og skrifaði BA-ritgerð um ljóðagerð Leonard Cohen. Í því námi kynntist ég óskaplega mörgum yndislegum bókum sem ég hefði aldrei lesið annars. Varð bergnumin af þá nýskrifuðum bókum sem flokkast undir töfrarausæi (Gabriel Garcia Marquez), Illjónskviða og grískir harmleikir hittu mig í hjartastað og ég las rosalega langar rússneskar skáldsögur mér til nokkurrar ánægju (þótt ég hafi ekki náð að klára 4. og stysta bindið af Lygn streymir Don fyrir próf). 

Með þetta veganesti lagði ég út í heiminn og þótt ég telji yfirleitt upp öll önnur störf þegar ég er spurð um (fjölbreytta) starfsævi og hafi á timabili haft smá samviskubit yfir því að hafa þegið menntun sem ég notaði lítið (fyrir nýtna konu eins og mig er það guðlast) þá varð eitthvað smálegt til að ég leiðrétti sjálfa mig fyrir nokkrum árum. Hálfu ári eftir BA-prófið fór ég nefnilega á dagskrárgerðarnámskeið hjá Ríkisútvarpinu og var í framhaldi ráðin í það starf að vera með fastan bókmenntaþátt í útvarpi í heilan vetur (tók upp þætti fyrirfram til að geta skroppið frá í mars til að fæða hann Óla son minn). Auk þess sá ég um marga staka þætti á sviði bókmennta allt fram til ársins 1987, þegar við Kristín Ástgeirsdóttir kynntum Sögu þernunnar (Tha Handmaid´s Tale) eftir Margaret Atwood fyrir Íslendingum. Við ætluðum að halda þessum bókmenntaþáttum áfram, en þurftu að hætta vegna framboðs á vegum Kvennalistans. 

Svo var það árið 2007, þegar ég var orðin 55 ára, að ég fékk (loks) lesblindugreiningu. Síðan hef ég lesið meira af glæpasögum og minna af þyngri texta, nema hvað ég held áfram að lesa rosalega mikið af ljóðum og af og til dett ég í lestur grískra gleðileikja, Oscars Wilde og meira að segja existensíalistans Miguels Unamuno (þennan skilja bara vinir mínir úr spönskunni í MR). Loksins komin upp á lag með hljóðbækur, Storytel og Hljóðbókasafnið (vegna lesblindu) - enn meira les ég á Kindle og fleiri tölvum/lesbrettum og það sem bara fæst í pappírsbókum eða ég á þannig, er lesið á pappír. 2021-02-24_00-33-462021-02-24_00-46-022021-02-24_00-47-072021-02-24_00-50-25


Svo fór allt að gerast svo hratt ...

Þegar ég loks þorði að upplýsa að glæpasagan mín, Mannavillt, mundi koma út núna í ársbyrjun 2021, þá lofaði ég að láta vita af henni þegar nær drægi. Svo gerðist þetta: Þannig týndist tíminn, og nú er komið fram í febrúar, sex vikur síðan bókin kom út og bæði á undan og eftir þeim merkisviðburði hefur margt gerst í tilverunni. Meiri hlutinn tengist einmitt glæpasögunni minni. Mikil viðbrögð, viðtöl, heimsóknir, áritanir (á covid tímum eru þær heima eða prívat á kaffihúsum) og alls konar skilaboð sem mér finnst vænt um. Núna þegar ég ætlaði að blogga um eitthvað allt annað, rak ég augun í þetta fyrirheit og í stuttu máli: Þetta hefur gengið lygilega vel. 2020-11-19_01-15-47


Bókablogg á vitlausum tíma

Ekki svo að skilja að bókablogg sé nokkurn tíma á vitlausum tíma, allra síst núna rétt fyrir jólabókaflóðið. Þegar ég var nýútskrifuð úr bókmenntasögu, sem nú heitir bókmenntafræði, var ég með fastan bókmenntaþátt á ríkisútvarpinu og varð alltaf að fylgjast með öllu sem var að gerast, á réttum tíma, og fjalla um það. En stundum greip mig löngun til að fjalla um eitthvað allt annað en skyldan bauð mér og þá ... lét ég það bara eftir mér og enginn skammaðist. Þannig urðu til ýmsir skrýtnir þættir og líklega aðeins öðru vísi en þá (og nú) var algengast. Til dæmis komst ég upp með að fjalla um (þá) 16 ára gamla flipp-ljóðabók.

thokur.jpgNú nýt ég frelsis og ábyrgðarleysis og les það sem ég vil, þegar ég vil. Þess vegna er ég stundum að lesa eitthvað sem kom út í fyrra, eða fyrir langa-löngu. 

Vissulega hef ég lesið nýútkomnar bækur á þessu hausti. En líka gripið í eitthvað allt annað í leiðinni. Aðallega ljóð og spennusögur, spennandi ljóð og ljóðræna trylla. Nei, annars, ekkert svo háfleygt. Leyndarmál annarra, eftir Þórdísi Gísladóttur lofar góðu. Veit að bókin er ekki nýútkomin og veit ég átti að vera löngu búin að lesa þennan verðlaunahöfund. En það er engin dead-line í ljóðalestri, eftir því sem ég best veit. Ekki alveg búin að segja skilið við ljóðabækurnar hennar Kristínu Svövu Tómasdóttur heldur. Og á milli kemst fátt eitt að annað en spennusögur, Arnaldur lesinn, Óttar kominn í hús, ólesinn enn, en finnst hann yfirleitt góður og svo var ég að klára nýjasta Wallander krimmann hans Hennig Mankell og finnst hann sá besti, langbesti eiginlega. 


Ef ég ætti að lesa ...

Mig minnti andartak að eitt af fjölmörgum ljóðum, eiginlega vísum, sem ég hef dálæti á væri aðeins öðru vísi en það er. Mér fannst sem sagt að þar stæði: ,,Ef ég ætti að lesa, allt sem ég fann til, þyrfti ég lengi að lifa ... " en svo er ekki. Ljóðið, sem er eftir Sigurð frá Arnarholti, er þannig og þótt mér finnist það flott, þá finn ég mig ekki í því að öllu leyti, en það gerir ekkert til:

bokastafli.jpg
 
Ef ég ætti að drekkja

öllu, sem ég vil,

þyrfti ég að þekkja 

þúsund faðma hyl. -

Og ef ég ætti að skrifa

allt, sem fann ég til,

þyrfti ég lengi að lifa,

lengur en ég vil.

 

 En ástæðan fyrir því að þetta ljóð kom upp í hugann er sú að ég er búin að gera mér grein fyrir að ég mun sennilega ekki komast yfir að lesa allt sem ég vil, þótt ég verði bæði eldgömul, heilsuhraust og andlega hress með nothæfa sjón, allt er það markmið mitt. Mér varð nokkuð brugðið þegar ég horfðist í augu við það. Og hvað er þá til ráða? Forgangsraða? Yfirleitt geri ég það í ríkum mæli í tilverunni. Og sumar ólesnar bækur eru í forgangi, tryggir þó ekki að ég lesi þær. Annað sem skiptir líka mál og stangast á við líf forgangsraðarans, það er að leyfa lífinu að hafa sinn gang og taka því vel (eða illa eftir atvikum) sem það hefur uppá að bjóða. Annars gerist aldrei neitt óvænt. Enn annað er að ég ánetjaðist ung spennusögum og þarf minn skammt, með tilkomu lestölvunnar minnar er það aldrei vandamál. Ég er líka alvarlega háð ljóðlestri á köflum. Svo tekur vinnan sinn tíma, tilfinningaskyldan líka, fjölskyldan og vinirnir. Ýmislegt annað. Golfið, skvassið ... Þannig að kannski mun ég ekki komast yfir að lesa allt sem ég vil, en það gerir bara ekkert til.

 


Últra-vel heppnuð og örstutt óvissuferð með vinnunni!

Ég kann vel við húmorinn í nýju vinnunni minni.

Við vorum boðuð í dag að skoða nýtt húsnæði vinnunnar, sem tekið verður í notkun á næsta ári. Nokkrir staðir hafa komið til greina, einn sýnu óvinsælastur en verður ekki nefndur af mannúðarástæðum vegna þeirra sem vinna þar í grennd. Þegar rútan hafði tekið við okkur flestum vinnufélögunum var stormað beint áleiðis til .... staðarins sem minnstrar hylli naut. Pollýönnur leyndu vonbrigðum sínum og fundu staðnum nokkuð til síns ágætis. Rétt áður en rennt var í hlað þar, beygði rútan af leið og hélt í annað hverfi, sem hefði sennilega ekki heldur notið vinsælda, ef mannskapurinn hefði ekki verið búinn að átta sig á brandaranum. Við enduðum á algerum draumastað og ég held að flestir dauðhlakki til að flytja þangað. Fylgist með hinni æsispennandi framhaldssögu.


(Stutt) bloggfrí

Eins og sjálfætt starfandi kona þarf stundum að gera þarf ég að eyða mestöllum tíma mínum í verkefni milli þess sem ég get deilt tíma mínum með áhugamálunum. Nú er ég stödd á svona vinnutarnartímabili og þarf að sinna vinnunni og fjölskyldulífinu meira en áhugamálunum í bili (bloggi og öðru). Loka kommentakerfinu á meðan ég gef mér ekki tíma til þess að sinna því. Kosningabaráttan fer svo væntanlega á fullt um eða eftir páskana og væntanlega verð ég farin að blogga aftur fyrir þann tíma. 

Þjóðarbókhlaðan er alveg ótrúlega vel heppnuð

Sumir héldu að ekkert kæmi í staðinn fyrir gamla (fallega) Landsbókasafnið, þar sem Agnar Þórðarson og fleiri góðir bókaverðir réðu ríkjum og mikill hátíðleiki sveif yfir vötnum. Stiginn einn og sér kom manni í upphafnar stellingar. stiginn-minniÞað var góður staður til að læra á og í Þjóðskjalasafnshlutanum í vesturendanum hélt ég reyndar til í heilan vetur á milli kl. 16 og 18 og lauk við vinnu fyrir mastersritgerðina mína í sagnfræði (enginn skilur hvað cand. mag, stendur fyrir, svo ég einfalda málið, 60 einingar eftir BA og stór lokaritgerð, sem sagt). Þannig að ég á vissulega góðar minningar úr því húsi.

 

 

En hins vegar sakna ég einskis, Þjóðarbókhlaðan gerir gott betur en að koma í staðinn fyrir sjarma Landsbókasafnsins. Ennþá má finna veklt spjöld úr herberginu í austurenda Landsbókasafnsins en tölvur, síbatnandi leitarkerfið, legustólar og þægileg lesaðstaða eru löngu komin í staðinn fyrir stóru og fallegu harðviðarborðin á gamla staðnum og vígalegu stólana sem við sátum við þar. Þjóðdeildin á jarðhæð (eða eiginlega vatnshæð) Þjóðarbókhlöðunnar er glæsilegasti hluti hússins. Að sitja við gluggann, þar sem ekkert skilur fót og friðsæla vök annað en vel pússuð rúða kemur ókyrrasta huga í algleymi (andagiftar vonandi). Húsið er einstaklega vel heppnað að utan og innan og þótt ég hafi heyrt einn ágætan brandara þegar húsið var nýtt (og væntanlega hrátt) þar sem útlendingur á að hafa spurt hvort þetta væri ,,The State Prison" (síki umhverfis og mjög massívt hús) - 1005220þá held ég að flestir séu farnir að gera sér grein fyrir því hversu fallegt húsið er, vel staðsett og frágengið og þar að auki líður öllum sem ég hef spurt (og þeir eru margir) afskaplega vel í þessu ágæta húsi. Manfreð Vilhjálmsson má vera stoltur af verki sínu, það er einstakt í sinni röð. Og svo er starfsfólkið svo ljómandi gott líka.

 


Meira um bókabúðir ... og bókasöfn - aðeins fyrir bókaunnendur

Datt niður á aldeilis yndislega umræðu um bókabúðir hjá einum bloggvini mínum, Júlíusi Valssyni, þar sem unnendur bókabúða hafa sannarlega dottið í skemmtilega umræðu. Og auðvitað blandaði ég mér í umræðuna, en finn að ég var ekki hálfnuð með allar yndislegu bókabúðaminningarnar þegar ég ákvað að setja punktinn. Og þess vegna er bara best að taka upp umræðuna hérna.

Bókabúðir og bókasöfn hafa einhverja ótrúlega töfra. Fyrsta ástin mín á því sviði var litla útbú  Borgarbókasafnsins við Hofsvallagötu, þar sem mátti ekki taka nema 4 bækur á dag. Oft reyndist það of lítið. Seinna fór ég að læra bókmenntafræði í háskóla og eftir það hefur lestrarhraðinn dottið aðeins niður, en athyglin færst á fleiri atriði en bara blákaldan þráðinn. Á menntaskólaárunum tók ég ástfóstri við aðalsafnið í Þingholtsstræti (þar sem ég held að sé nú einkavilla Odds Nedrums) og loks var það Landsbókasafnið sem heillaði. Einu jólafríinu varði ég á bókasafninu í Bristol í Englandi og las þar undir próf og undraðist lélegar bókakost. Hafði ekki haft með mér nema 25 kg af bókum og treyst því að ég fyndi restina sem mig vantaði á ensku bókasafni. En notalegt var það engu að síður.

Einkabókasafnið Gurrí á Akranesi er eitt skemmtilegasta bókasafn sem ég kem á, enda leggur Gurrí metnað sinn í að stilla upp hlið við hlið Ísfólkinu og Birtingi eftir Voltaire.

Bókabúðir nálgaðist ég hins vegar af meiri lotningu og varúð til að byrja með. Lotingu af því ég þorði ekki að detta í lestur (og gat þar með ekki leikið eftir það sem sagt var um einn sem rölti niður Laugaveginn milli bókabúðanna meðan þær voru fleiri en nú og náði að ljúka nýútkominni bók í einni slíkri ferð). Varúð af því bækur kosta peninga. En svo fann ég fornbókaverslanirnar, við Gunna vinkona fórum aðallega á Laufásveginn og einhvern veginn var allt til þar, eða næstum allt. Ég á líka góða minningu frá Prag úr fornbókaverslun sem seldi mikið af íslenskum bókum, aðallega Laxness og Kristmann, og aðallega á tékknesku. En innan um mátti sjá ótrúlegustu höfunda. Fornbókasalar á götum úti á Kúbu og í London eru líka spennandi. Mamma sér um þessa deild fyrir hönd fjölskyldunnar núna og hefur fært mér ófáar perlur frá Braga á Hverfisgötunni. 

Núna er hins vegar svo komið að ég kaupi bækur aðallega á ferðalögum og í fríum, en það ræðst bara af tímaleysi. Eitt og eitt kvöld í Mál og menningu krydda lífið að vísu. Og á netinu finn ég margar ófáanlegar gersemar, seinast framtíðarskáldsögu um róbota eftir Karel Capek, tékkneskan höfund sem m.a. skrifaði bókina Salamöndrustríðið, það merkilega er að þetta var skrifað um 1950. Hlakka til að lesa hana, hún hefur verið ófáanleg um áratugaskeið. Nú er ég að leita að bók um anarkisma, sem hefur verið ófáanleg lengi, er eftir Georg Crowder, nýsjálenskan frænda minn sem ég hef aldrei hitt, við þetta með anarkismann er greinilega í genunum.

Á ferðalögum er hins vegar alltaf hægt að finna tíma fyrir bókabúðir. Og fátt eins yndislegt og góð bókabúð í nýrri borg. Kvennabókabúðin í Tucson sem Nína systir kynnti mig fyrir, grúskbúðin á leiðinni til Georgstown í Washington sem Jón Ásgeir sýndi mér, stóra búðin í New Haven sem Heiða og Fibbi sýndu mér og svo uppáhaldið mitt, Foyles í London, þar sem ég er annar eða þriðji ættliðurinn sem eyði þar ómældum stundum. Ég hreinlega elska Foyles, þar keypti ég fyrstu kennslubækurnar mína í serbókróatísku á fimmtu hæð árið 1970 og svona tíu kíló af stærðfræði og tölvubókum í seinustu almennilegu ferðinni minni þangað, fyrir rúmum tveimur árum. Síðan hef ég reyndar komið þangað svona 2-3 sinnum, en maður verður að stoppa í nokkra klukkutíma til að njóta verunnar þar til fulls. Og það er einmitt kjarni málsins, það eru ekki allir eins og Jón Ásgeir, Heiða og Fibbi, og stundum verður fjölskyldan óþolinmóð. Þetta er vandamál sem við Nína systir eigum báðar við að stríða, þannig að við fórum í bókabúða-sukkferð til London fyrir 2-3 árum, saman, aðeins ríflega helgarferð, og eyddum 22 stundum þar af í bókabúðum. Náðum samt leikhúsi og síðdegis-sunnudagboði í Camden í leiðinni.

Og þá eru ótaldar stóra Barnes and Nobles í New York, sem ég hef alls ekki fullkannað enn og mun sjálfsagt aldrei gera, fallega en fátæklega bókabúðin í Lancaster og þessi tveggja hæða í Liverpool, en ég fór reyndar sérstaka ferð frá Lancaster til Liverpool, gagngert til að komast í almennilega bókabúð! Svo eru nokkrar afspyrnudýrar bókabúðir í Osló og Kaupmannahöfn sem ég hef stundum glapist til að heimsækja, en þar verslar maður ekki nema í neyð. Dýrari en íslenskar bókabúðir! 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband