Bloggfærslur mánaðarins, mars 2008

Enn ein kosninganóttin - áfram Hillary (ég er farin að sofa)!

Ég lagði mig í dag, þrátt fyrir annríki, til að vera betur undir enn eina forkosninganóttina búin, en syfjan sækir á þannig að sennilega læt ég duga að rumska við fimm-fréttirnar. Það er hvort sem er búið að segja það þráfaldlega að þótt annað hvort Clinton eða Obama ynnu öll fylki sem eftir eru endi þetta allt hjá superdelegates, sem annað veifið eru talin standaa með Hillary og hitt augnablikið sögð tækifærissinnar. Vona samt að Hillary hafi erindi sem erfiði núna, Ohio virðist vera OK, en smá örvænting komin í Obama-liðið út af veðráttu og lokun (og enduropnun) kjörstaða.

Þótt ég sé enn á því að báðir kostir demókrata séu góðir, þá er ég miklu vonbetri um að Hillary valtri yfir McCain heldur er Obama. Svo mörgu ósvarað varðandi baráttuna framundan hvað hann varðar. Samt held ég að þau muni bæði hafa McCain og það er auðvitað fyrir mest. En áfram Hillary! 


Afmæli Óla, sonar okkar, mmmmm súkkulaðiveisla í boði afmælisbarnsins

Óli sonur okkar Ara er 29 ára í dag og þurfti reyndar að halda tölu í málstofu í stjórnmálafræði í dag, þannig að hann vaknaði snemma og átti mjög annríkt í dag. Kom nú samt ekki í veg fyrir að hann bakaði stórkostlegar súkkulaðikræsingar ofan í okkur fjölskylduna, m.a. súkkulaðibalukökur með gráðosti. Syndsamlega gott. Svo fer hann út að borða með vinum sínum í kvöld, sem er orðinn nokkuð fastur vani á afmælisdaginn hans, enda mjög skemmtilegir vinir sem hann á (alla vega að mínu mati). Ekki spillti fyrir að systir hans í Ungverjalandi lengdi afmælið hans um klukkustund með því að óska honum til hamingju kl. 11 í gærkvöldi, en þá var afmælisdagurinn genginn í garð hjá henni.

Þessi dagur hefur verið rosalega góður í alla staði, þrátt fyrir mikið annríki fjölskyldunnar, þannig að ég mæli með sem flestum afmælisdögum Óla, t.d. 4. hvers mánaðar? ... það væri auðvitað ágætt ;-) 


Söngvakeppnir - og jú ég er komin með uppáhald í American Idol (eftir einn þátt)

Mikið hrikalega eru þessi American Idon maraþon á mánudagskvöldum löng á Stöð 2. Líklega þess vegna sem ég hef ekki horft fyrr ef frá eru talin brot af þáttunum meðan verið var að velja inn í þáttinn, og það var bara uppá skemmtanagildið.

En ég elska söngvakeppnir af því mér finnst gaman að uppgötva nýjar stjörnur, reyndar í réttum hlutföllum við þolanleika laganna sem eru flutt, sem oft er ekki upp á marga fiska. Það er smá hátíð að horfa á Bandið hans Bubba, þótt ég hafi ekki séð neitt alveg stórkostlegt enn, tvær ansi góðar stelpur og fínan Queen-lags flutning í næstseinasta þætti. En í kvöld passaði vel inn í planið hjá mér að horfa mig þreytta á sjónvarp af því ég ætla að vakna mjög snemma í fyrramálið og hafa góðan tíma til að koma mér í stuð áður en ég fer á merkilegan fund, eldsnemma. Svo ég settist og horfði á þetta American Idol maraþon. 

Erna frænka spurði um daginn hver væri uppáhaldið mitt í American Idol. Ég hafði ekki hugmynd. Núna veit ég það. Ungi strákurinn sem söngDA Imagine (hvílíkt hugrekki) með svo flottri og þroskaðri rödd, og mikilli tjáningju. Glæsileg frammistaða, alla vega í þessum þætti. Margir stóðu sig vel, þó tókst nokkrum að finna mjög óáhugaverð ,,seventies" lög, sem er alveg óþarfi. Fullt af góðum lögum að moða úr frá þeim áratug, sem oft fellur í skuggann af ,,sixties"-lögunum, en mörg af þeim bestu sem kennd eru við sixties eru reyndar seventies lög, til að mynda bestu þungarokkslögin frá þessum árum, Zeppelin, (best of) Clapton og Deep Purple. Lítið hreyft við þeim menningararfi í American Idol. Ekki við því að búast kannski.

En sem sagt, þarna er fullt af virkilega hæfileikaríku liði með misgóðan tónlistarsmekk og einn sem ég held að hljóti að vera sérlega mikil vonarstjarna. Ekki víst að ég leggi á mig að horfa aftur á allt þetta mánudagsmaraþon, en á seinustu stigum þáttarins mun ég alla vega horfa, ef nóg verður eftir af góðu liði. Ekki hægt að treysta því, tvö af þeim bestu seinustu árin hafa bæði verið kosin út í fjórða eða þriðja sæti. Það eru Chris Daughtry og LaToya London. Þau eru að gera það gott núna skilst mér, ásamt auðvitað Jennifer Hudson, sem líka datt út of snemma. Svo hafa svona furðufuglar eins og Taylor Hicks staðið uppi sem sigurvegarar, ekki beint traustvekjandi. En vonandi fer þetta allt vel núna ...  ég mun væntanlega fylgjast með áður en þættirnir hafa runnið sitt skeið.

Endurtek, það er gaman að fylgjast með góðum söngvurum og helst vil ég auðvitað að þeir fari að syngja eitthvað almennilegt, rokk og blús. Kosturinn við Rockstar Supernova var einmitt hversu mikið af góðum lögum voru í keppninni og svo var Magni auðvitað magnaður! Keppni þar sem hægt er að heyra tvisvar frábæran og ólíkan flutning á Creep er auðvitað ekkert nema snilld.

 


Í gegnum bloggið er draumsýn um lítilvægi staðar og stundar að rætast

Í gegnum bloggið er draumsýn um lítilvægi staðar og stundar að rætast. Ég skal skýra þetta aðeins. Mér hefur alltaf þótt það spennandi við netið og möguleika þess að geta haft samskipti við fólk án teljandi fyrirhafnar óháð búsetu og án þess að vera njörvaður við að samskiptin eigi sér endilega stað á sama tíma.

Í tölvunarfræðinni lærðum við ýmislegt skemmtilegt um þetta, meðal annars að sundurgreina samskipti eftir því hvort þau væru ,,óháð stað, háð tíma" (msn og irkið t.d.) ,,óháð stað, óháð tíma" (tölvupóstur) og svo framvegis. Varð aldrei mjög virk á irkinu, nota tölvupóst auðvitað gríðarlega í vinnu og einkalífi, msn, fjarfundatækni og alls konar dót.

En það er í rauninni á blogginu sem ég finn mestan muninn. Er kannski farin að kynnast einhverjum ágætum bloggara, ýmist með því að vera í samskiptum eða bara með því að lesa bloggið hennar/hans reglubundið þegar allt í einu kemur í ljós að hún er stödd á Hellu (eða vinnur þar alla vega) og hann er að moka sig út úr snjóhúsinu sínu í Vestmannaeyjum einmitt núna í morgun. Og svo eru það samskiptin við ættingja og vini nær og fjær, Erna í Ameríkunni og Ólöf í Borgarfirðinum, eru bara innan seilingar. 

Akureyringarnir eru reyndar flestir vel skilgreindir frá upphafi, það hefur aldrei farið á milli mála hvar nafna mín (í bloggfríinu sínu) býr, eða Ingólfur, Hlynur og þau öll, né heldur að Gurrí býr uppi á Skaga og sækir vinnu í bænum og jafnvel undirrituð sem Álftnesingur er nokkuð augljós. Steina í Danmörku, jú það hefur líka verið nokkuð ljóst, alla vega þegar veðráttan berst í tal (til hamingju með þennan góða vetur í vetur, Steina).

Þegar sms-ið náði þessari gríðarlegu útbreiðslu sem raun bar vitni kom það flestum í opna skjöldu. En einfaldleikinn og frelsið sem sms bjóða uppá skýrðu það. Bloggheimar eru annars eðlis, ég var búin að blogga í eitt eða tvö ár og hafði reyndar byrjað fyrr, áður en ég datt inn í samfélagið hér á Moggablogginu. Þróunin hér hefur verið að nokkru önnur en ég hélt, en ég er með, fáa skugga ber á þessi samskipti og mikið af notalegum viðburðum, stórum og smáum, segja mér að þetta séu bara ósköp fínir heimar. Og svo er þetta svo fljótlegt, einfalt og skuldbindingalaust allt saman! 


Gaman að vera Álftnesingur - Góugleði hestamannafélagsins Sóta heppnaðist einstaklega vel

Hestamannafélagið Sóti á Álftanesi er einstaklega skemmtilegur félagsskapur og heldur geysilega skemmtilega Góugleði ár hvert. Þetta er sú samkoma í skemmtanalífi Álftnesinga sem ég reyni að missa ekki af, óvirk hestakonan. Góugleðin í ár var engin undantekning, vel heppnuð með mexíkósku ívafi, miklum söng, miklum dansi, góðum mat og virkilega góðum kveðskap. Pínulítið félagsheimili Sóta var troðfullt af góðri stemmningu.

Myndirnar og myndbandsskotið tala vonandi sínu máli. Fleiri myndir í albúmi.

Steina formaður og Eyrún báru fram tequila og sumir fengur fult af því

Steinunn formaður og Eyrún báru fram tequila í flottum kúrekastíl.

 

 

 

 

 

 

 

Gunnar Valur á gítar, feðgarnir Toni og Kjartan og Steinunn formaður leiddu sönginnGunnar Valur á gítar ásamt feðgunum Tona og Kjartani og Steinunni formanni leiddu sönginn.

 

 

 

 

 

 

 

Og hér má heyra ómfagran sönginn, sýnishorn þar sem Jörundur er á rölti milli borðanna en í bakgrunni söngvararnir. 


Hestamaðurinn minn gerir það gott áfram ...

Ari minn kom heim með bæði bikar, silfur og gull úr ,,Tjarnartölti" hestamannafélagsins Sóta í dag. Ég er ekkert undrandi. Auk þess vann Tómas, 12 ára, í barnaflokki á merinni hans Ara. Í kvöld er Góugleði Sóta, sem alltaf hafa verið einstaklega skemmtilegar samkomur, þannig að fyrir óvirka hestakonu er nóg að hugsa um.

Uppörvandi ummæli Sigríðar Lillý Baldursdóttur varðandi lífeyrismál aldraðra

Sigríður Lillý Baldursdóttir hefur tekið við forstöðu Tryggingastofnunar og boðar breytingar. Allir sem þekkja eitthvað til þess kerfis í lífeyrismálum sem aldraðir þurfa að búa við vita að það er illskiljanlegt og ekkert sérlega réttlátt. Eitt sinn lenti ég í ríkisskipaðri nefnd sem vann hörðum höndum (launalaust) að því að skilgreina vandann, fékk ótal sérfræðinga á sinn fund og lognaðist síðan útaf með fullt af fróðleik og möguleika á tillögum í rétta átt, en ekkert gerðist. Sennilega hefur skort pólitískan vilja eða áhuga. Þetta er ekkert óleysanlegt verk, en það er svolítið flókið, og ég veit að Sigríður Lillý hefur bæði burði og vit til að láta ekki mata sig á neinu rugli. Forsendurnar sem hún gefur á því kerfi sem hún vill sjá eru sáraeinfaldar og góðar: Kerfið verði einfaldara og réttlátara en nú er. Það þarf í rauninni ekki aðra sýn en þessa og dug til að hrinda því í framkvæmd sem hægt er að gera. Þar er hún hins vegar uppá pólitíkusana komin og vonandi að þeir taki góðum rökum.

Á Kanarí er mikið um ellilífeyrisþega og þegar talið berst að óréttlæti og furðum í samskiptum þeirra við Tryggingastofnun er eins og bresti stífla og reynslusögurnar um alls konar dellu eru margar. Sumt af þessu hefði eflaust mátt fyrirbyggja með skýrari upplýsingagjöf og einfaldara og réttlátara kerfi. Gangi Sigríði Lillý vel í sínu mikilvæga starfi.  


Dreifing á innsláttarþrautakóngi (eða landagátu) fengin frá Hirti

Þar sem ég treysti því ekki að allir lesi bloggið hans Hjartar (linkur hér til hliðar) þá er ég komin með þrautina sem hann var að leggja fyrir sína lesendur. Búin að kveljast ótrúlega yfir þessu, löndin eru ekki vandamálið heldur innsláttarvillur, að gera óvarrt bil fremst til dæmis, stafsetja löndin rétt á ensku og fatta hvað England heitir svo dæmi séu nefnd. En samt sem áður, njótið vel: Og þótt ég kunni html, þá stóðst ég það að breyta 67 í einhverja hærri tölu, t.d. 76 (ekkert diss á Hjört, tek það fram) en það var freistandi. 67


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband