Færsluflokkur: Menning og listir
Að hvísla og öskra í vatnslit
23.4.2023 | 23:32
Frá því ég tók upp þráðinn í vatnslitun fyrir rúmum þremur árum hef ég verið mjög forvitin um allt sem viðkemur þeirri tækni. Lengi vel bar ég einfaldlega of mikla lotningu fyrir tækninni til að hætta mér of langt út á þær brautir. Kannski var það þegar ég sá fyrst ,,ómáluðu myndirnar" (þær voru faldar fyrir yfirvöldum) sem Emil Nolde gerði á stríðsárunum, þegar honum var bannað að mála sínar óverðugu og litsterku myndir, sem ég íhugaði fyrst að kannski heillaði þessi tækni. Mér fannst vatnslitur fram til þess tíma vera svo brothætt tækni, eins og þynnsta postulín en þarna var kominn listamaður sem hikaði ekki við að öskra með litunum sínum. Seinna lærði ég að meta léttar og hálfpartinn hvíslandi myndir á borð við vatnslitamyndir Turners, sem mér fannst áður sterkari í olíunni. Undanfarin þrjú ár hef ég spreytt mig á hvoru tveggja, hvíslandi og öskrandi myndum og í stað þess að birta hér auðgúgglanlega, heimsfræga listamenn gef ég sýnishorn af hvíslandi myndum úr eigin safni. Hvíslandi myndirnar verða gjarnan til á kaffihúsum. Geymi þær öskrandi til betri tíma.
Ekki snúin af glæpa(sagna)brautinni - hliðarspor og áframhald
1.4.2023 | 01:04
Vatnsliturinn hefur átt hug, hönd og hjarta þetta misserið, en ég er ekki hætt að hugsa (um glæpi). Þannig þróast mínar glæpasögur, í hausnum á mér. Þegar ég fór aftur í fasta vinnu eftir fjögurra ára eftirlaunatíma (sem var erilsamur í meira lagi) þá var ég langt komin með glæpasögu nr. 3, en hins vegar var nr. 2 ekki komin út og kom ekki formlega út fyrr en um mánaðarmótin maí/júní í fyrra. Hausinn á mér hefur nokkrum sinnum farið á yfirsnúning síðan, eins og gjarnan gerist þegar ég er að setja saman andstyggileg plott og hugsa einhver svikráð á glæpa(sagna)brautinni og tíminn frá útkomu síðustu bókar er engin undantekning. Hef haldið í við að skrá hjá mér allar vendingar á söguþræðinum og unnið í einstökum köflum en í augnablikinu er meira eftir óskrifað af þeirri sögu en var fyrir rúmu ári þegar ég henti mér aftur út á vinnumarkaðinn. Engin tilviljun að ég er ekki að fara í páskaflippsreisu í ár, eins og í fyrra (þegar ég fór til Rómar í annað sinn á hálfu ári). Fyrir utan fjölskyldusamveru er ég ,,bara" búin að skipuleggja að hitta tvær vinkonur, og á ekki nema tvær hálfkláraðar vatnslitamyndir sem gætu gripið hugann. Held samt að blessuð sagan mín fái að njóta páskanna að þessu sinni.
Annars hef ég alls ekki lifað eins glæpasnauðu lífi og ætlað mætti nú í vetur. Tók nefnilega hliðarspor og skellti mér í verkefni sem er glæpagáta sem þú, lesandi góður, getur nálgast í símanum þínum, væntanlega með vorinu. Þá er ætlunin að koma út allmörgum morðgátum og ég á eina þeirra, og vonandi sjáum við fólk hlaupandi með símana sína út um allar koppagrundir í leit að vísbendingum. Sá sem fékk mig til að taka þetta hliðarspor er sami maður og gaf út vel lukkað leiðsögukerfi fyrir snjallsíma, kringum.is og eftir samskiptum okkar að dæma veit hann svo sannarlega hvað hann er að gera á glæpa(appa)brautinni. Kápan sem hér er sýnd er ekkert endilega sú sem verður á minni glæpagátu þegar nær dregur formlegri útgáfu, en ég held að nafnið haldist. Alla vega nafnið á höfundinum :-) Leyfi ykkur blogglesendum mínum að fylgjast með.
Svo þegar útgefandinn minn góði, á pappírsglæpasögunum tveimur sem út hafa komið, kemur heim úr næstum árlegri langferð sinni, þá setjumst við sjálfsagt niður og plönum næstu skref. Hvort sem við ætlum að vera samferða áfram eða ekki. Ég er með ákveðnar hugmyndir og hann er alls ekki skyldugur til að vera sammála mér, það vitum við bæði, en fyrst þurfum við bara að ná að vera bæði á landinu á sama tíma. Með fullri virðingu fyrir fjarfundum og þess konar samskiptum, eru þetta mál sem mest gaman er að ræða saman yfir kaffibolla og meira að segja í há-covid, þegar hinar bækurnar mínar komu út, tókst okkur það. Bara spennandi, hvaða leið sem við veljum, mun áreiðanlega líka halda bloggvinum mínum upplýstum um þann hluta tilverunnar.
Samfélagsmiðlar og sýnileiki
29.3.2023 | 01:44
Það eru um það bil tuttugu ár síðan ég byrjaði að blogga, fyrst á blogspot. Nokkrum árum síðar færði ég mig hingað á Moggabloggið og var mjög iðin við að blogga fyrstu árin. Eftir að ég hætti í blaðamennskunni, nema sem frístundablaðamaður endrum og sinnum (og þá aðallega fyrir Læknablaðið), hafði ég óttalega þörf fyrir að skrifa um hitt og þetta, og bloggið hentaði mér vel. Svo kom fyrir að ég notaði bloggið til að vekja athygli á myndlistinni sem hefur fylgt mér alla tíð, en eitt vel virkt myndlistartímabil féll einmitt saman við fyrstu bloggárin mín.
Svo vel fann ég mig í blogginu að ég var einna seinust í fjölskyldunni að fara yfir á Facebook (FB). Var vinsamlegast bent á að ég væri að dragast afturúr ýmsum fjölskyldumeðlimum í þeim efnum. Auðvitað eigum við okkar staðföstu fulltrúa samfélagsmiðlaleysisins líka, skárra væri það nú. Facebook varð smátt og smátt aðalvettvangurinn á samfélagsmiðlum en ég hætti aldrei alveg að blogga. Snemma þessa árs íhugaði ég alvarlega að hætta á Facebook enda var ég komin með eitthvað um 1700 vini þar og þekkti kannski ekki nema helminginn og þar af ekkert mjög marga vel. Það hleypti góðu lífi í bloggþörfina, sem alltaf blundaði. Af praktískum ástæðum sneri ég þó aftur á Facebook, tengsl við ýmsa hópa og gamall vani réði þar mestu um, en með miklu færri FB-vini og talsvert minni virkni.
Þegar ég var í Córdoba um daginn var ég mikið spurð um hvað ég héti á Instagram og þurfti, ekki í fyrsta sinnið, að rifja það upp, því þann samfélagsmiðil hef ég ekki mikið notað, kannski álíka og Twitter og WhatsApp. Var þá upplýst um að myndlistarfólk notaði Instagram mjög mikið, svo ég fór að glugga og setja inn eina og eina færslu. Hafði reyndar stundum þegið að framsenda FB færslurnar mínar yfir á Instagram núna í seinni tíð. Þær eru allar á íslensku, en nú tók ég þá ákvörðun að nota Instagram sem enskumælandi samfélagsmiðlavettvanginn minn. Er að prófa mig áfram núna, enda sé ég að margir Íslendingar nota miðilinn á svipaðan hátt. Hér er ég sem sagt, með óskýra kynningarmynd úr Córdoba-ferðinni, til að tengja við fólkið sem ég hitti þar. https://www.instagram.com/annari19/
WhatsApp var reyndar í upphafi covid farvegur fyrir skemmtilega iðju. Þá datt ég inn í öflugan fjölþjóðlegan vatnslitahóp sem varð til í hjarta fyrsta covid-fársins í Evrópu, sem sagt á Norður-Ítalíu. Nokkrir öflugir myndlistarkennarar, meðal annarra formaður Vatnslitafélagsins okkar hér á landi, skiptust á að setja fyrir vikuleg verkefni, yfirleitt vatnslitaútfærslu af gömlum og nýjum olíumálverkum, og þetta birtist allt vikulega á sameiginlegum WhatsApp-þræði, án málalenginga. Mjög gaman að taka þátt í því, en það fjaraði út hjá mér alla vega á öðru ári framtaksins. En það var margt ansi skemmtilegt sem við glímdum við á þessu inniverutímabili, sem hitti einmitt á tímann meðan ég var á eftirlaunum og áður en ég byrjaði í núverandi vinnu. Eitt sýnishorn fær að fljóta með.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 01:52 | Slóð | Facebook
Seinsta bloggið mitt fjallaði um alþjóðlegu vatnslitahátíðina sem ég var á leið á í Córdoba á Spáni. Hún var á vegum IWS - International Watercolor Society. Leit fyrst og fremst á hana sem sýningu og tækifæri til að kynnast öðru listafólki sem fæst við vatnslitamálun. Gaf því lítinn gaum að þetta var líka alþjóðleg vatnslitasamkeppni, enn síður átti ég von á að hreppa verlaun, en var í öðru sæti þegar upp var staðið. Mætti á verðlaunaafhendinguna af því ég mætti einfaldlega á alla viðburði sem ég komst á. Viðurkenni suð fyrir eyrum og hálfgert að hafa dottið úr sambandi þegar ég heyrði kynninn bögglast á litla, sæta, íslenska nafninu mínu og sá myndina mína og nafnið (óbrenglað en stytt) uppi á skjánum.
Það var ekki um að villast, þetta var veruleiki. Þetta var mjög metnaðarfull hátíð og ég var búin að sjá gríðarlega sterk og góð verk þarna, en sýnendur voru 212 frá 42 löndum. Þannig að þetta kom mér einfaldlega alveg í opna skjöldu. Tókst þó að halda skammlausa þakkarræðu sem var jafnóðum þýdd á spönsku eins og allt efni hátíðarinnar, sem stóð í heila viku (hátíðin, ekki ræðan) og þar af með virkri og efnismikilli dagskrá síðustu fjóra dagana. Vönduð sýningarskrá var býsna þung í farangri á heimleiðinni en verður skoðuð í þaula og sýnir breidd og gæði sýningarinnar. Enginn efi á því að ég mun fjalla meira um þetta ævintýri á blogginu mínu, en mér finnst ég vera nýlent, kom heim í nótt um Madrid.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 18:39 | Slóð | Facebook
Sýning Hildar Hákonardóttur og allar skátengingarnar
26.2.2023 | 18:09
Loksins í dag dreif ég í að fara á stórmerka sýningu Hildar Hákonardóttur á Kjarvalsstöðum. Hef auðvitað fylgst grannt með Hildi frá því hún hóf sinn listaferil og hrifist af verkum hennar. Sýningin í dag bætti enn við þá upplifun.
Mér finnst það alltaf jafn merkilegt hvað mér finnst ég þekkja hana vel og tengjast, en í raun eru þessar tengingar ekki annað en skátengingar, ef grannt er skoðað.
Það mikilvægasta er að mínu viti tvennt:
Annars vegar tengslin við Rauðsokkahreyfinguna, en þar var hún einmitt með mömmu í starfshópi um handavinnukennslu, en mamma var teiknikennari sem langaði að vera/verða smíðakennari og lét það draum rætast síðar. Meðfylgjandi myndir úr stórmerkri umfjöllun um Rauðsokkur í Samvinnunni 1.10. 1971 og sýna meðal annars hópinn þeirra. Á þessum tíma hélt ég að mamma og Hildur og allar Rauðsokkurnar mundu leysa málin fyrir okkur sem enn vorum bara í framhaldsskóla. Seinna skilgreindi ég mig líka sem Rauðsokku en ég starfaði ekkert með Hildi þá. Virkustu árin mín í kvennabaráttunni komu ekki fyrr en síðar.
Hins vegar, og ekki síður, fór ég algerlega á mis við Hildi þegar hún tók við stjórn skólans míns, Myndlista- og handíðaskólans, ári eftir að ég hætti námi þar á miðri leið. Var mjög ósátt við afstöðu nýrra skólastjórnenda og sumra kennara eftir að Hörður Ágústsson hætti, til okkar sem voguðum okkur að vera líka í háskólanámi en sinntum báðum skólunum vel. Þegar ég frétti að Hildur hefði tekið við skólastjórn nagaði ég mig svo sannarlega í handarbökin fyrir að vera hætt í skólanum því ég var svo sannfærð um að hún hefði sýnt meiri víðsýni en sumir. Þá var það orðið of seint og ég staðráðin í að leggja myndlistina ekki fyrir mig, ákvörðun sem stóð í 4-5 ár en hefur síðan verið meira og minna ómark. Kom mér á óvart að sjá á veggjum sýningarinnar að hún hefði hætt eftir fjögurra ára starf vegna ágreinings um nýlistadeildina, en þegar ég fór að leita að upplýsingum fann ég í fljótu bragði bara leiðindi sem voru eftir að hún hætti, 1978.
Það hefur auðvitað ekkert uppá sig að máta sig í löngu liðna atburðarás. Eitt enn veldur því þó að mér finnst ég alltaf þekkja Hildi betur en ég geri, og það er að við tengjumst fjölskylduböndum, og en og aftur er þar um skátengingu að ræða.
Eftir ár að hyggja er ég þó fyrst og fremst þakklát Hildi fyrir list hennar og ævistarf í listum jafnt sem kvennabaráttu sem ég og fleiri hafa fengið að njóta.
Spyr mig samt stundum, ef það hefði ekki alltaf skakkað fáeinum árum að ég hefði notið leiðsagnar Hildar í tilverunni, hefði hún ekki einmitt orðið sú manneskja sem hefði breytt mikilvægum lífsákvörðunum?
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 18:10 | Slóð | Facebook
Veður, andrúmsloft, stemning eða eitthvað allt annað
23.2.2023 | 23:38
Á fimmtudögum hittumst við félagar úr Vatnslitafélaginu og málum saman. Í annríki dagsins er gott að eiga svona frátekinn tíma, en lengst af málaði ég mest af mínum myndum á vinnustofunni minni (pínulitlu) heima, og stundum lá reyndar meira og minna allt heimilið undir. Vatnslitur heillaði mig til að byrja með aðallega af því hann var svo miklu ,,nettari" en grafíkin og olían. Og vissulega getur það verið þannig, en fyrr en varir er þessi iðja farin að leggja undir sig æði mikið pláss. Hef betra pláss frátekið í húsinu okkar sem við erum að gera upp. Held að félagsskapurinn ráði því ekki að ég er að verða svolítið dramatískari en ég var í vatnslitamyndunum mínum. Aðferðin sem ég er að prófa mig áfram með býður einfaldlega upp á svolitlar sviptingar. Var farið að langa að skoða myndirnar mínar frá þessu ári (mestmegnis) í samhengi, þetta eru síður en svo allar, kaffihúsamyndirnar mínar frá Fuerteventura seldust jafnóðum, þar sem írska kaffistúlkan hún Erin var orðin umboðsmaður minn á öðrum degi (á hagstæðu verði af því við okrum ekki á vinum Erinar). Kallamyndirnar mínar eru líka meðfram öðrum í vinnslu, eftir 42 kvennamyndir tók ég til við kallamyndir og fullt af kynjum eftir. Það verður gaman. En smá dramatík, veður, andrúmsloft, stemning eða eitthvað allt annað. Sú nýjasta, frá í dag, er neðst til hægri og þar fyrir ofan ein vikugömul.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 23:40 | Slóð | Facebook
Óvænt fórnarlamb listaverkaþjófa
15.2.2023 | 14:21
Fátt gleður geð okkar sem höfum lent í því að þrjótar hafa yfirtekið FB-aðgang okkar. Hef verið iðin við að birta myndir af nýjustu myndunum mínum á Facebook og einhverjar eldri myndir hafa ratað þar inn líka. Í þeirri hrinu sem nú gengur yfir verður samt að viðurkennast að ég fékk mjög óvænt skemmtilega athugasemd, þótt eflaust hefur hugsunin verið önnur: ,,Þú mátt þakka fyrir á meðan þeir fara ekki að selja myndirnar þínar!"
Þetta var einkum merkilegt í ljósi þess að þótt ég hafi hvorki ákveðið að gera myndlistina að ævistarfi mínu, þótt ég hafi sinnt henni vel, né áunnið mér einhverja frægð á því sviði, hef ég verið alveg ótrúlega vinsælt fórnarlamb listaverkaþjófa. Held að ,,mínir" listaverkaþjófar hafi ekki verið atvinnumenn, nema kannski þessi á Kaffi Rót, svo kannski er það ekki alltaf ábatavon sem ræður gjörðum heldur bara ánægja með verkin mín, hmmmm.
Kannski má rekja þessa tilhneigingu aftur til þess þegar sérhönnuðu lopapeysunum mínum var stolið úr bíl foreldra minna i Evrópu 1974, öðru var ekki stolið. En það var á árunum 1989 eða síðar sem þetta hófst svo ég vissi til, er uppáhaldsmynd var stolið úr geymslu vinkonu minnar, sem þá var flutt úr landi, en einhverjum öðrum verðmætum þyrmt. Svona áratug síðar hélt ég sýningu á Kaffi Rót í Hafnarstræti, þaðan var einni af kaffibollamyndunum mínum stolið af vegg.
Á annarri sýningu, fyrir um það bil áratug, á veitingahúsi í Borgartúni, hurfu 1-2 myndir þegar sýningin var tekin niður, þar á meðal meðfylgjandi mynd og þá snarpreiddist ég svo að á einhvern undarlegan hátt tókst að töfra þá mynd aftur til baka í mínar hendur. Nokkrar myndir hafa glatast í flutningum og öðru raski og umróti hjá vinum og ættingjum og þótt eitthvað annað hafi verið endurheimt, þá má segja að myndirnar eftir mig hafi aldrei verið meðal þess. Svo ég gat bara ekki annað en hlegið þegar hún Sigga vinkona mín sagði mér fyrir nokkrum mánuðum að myndinni hennar eftir mig hefði verið stolið, úr geymslu á Skólavörðustíg, ef ég man rétt.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 17:21 | Slóð | Facebook
Og víkur þá sögunni að glæp(asögum) - Höskuldarviðvörun
6.2.2023 | 23:20
,,Ekki vissi ég að þú værir svona bloody minded," sagði einn vinur minn þegar hann var búinn að lesa Mannavillt, fyrstu útgefnu glæpasöguna mína. Sagan er að vísu gersamlega blóðdropalaus (hélt ég), en engu að síður mun meinlausari en hún hefði orðið ef upprunaleg gerð hennar hefði fengið að ráða. Yfirlesarar, bæði af hálfu útgefanda og mínir eigin ráðlögðu mér eindregið að fækka fórnarlömbunum til muna. ,,Maður verður að geta munað nöfnin á öllum sem eru drepnir," voru rökin sem sannfærðu mig loks.
Nú eru tvö ár frá því Mannavillt kom út og enn er nýtt fólk að lesa hana og bók númer tvö, Óvissu, sem út kom síðastliðið vor. Óvissa er að því leyti mjög ólík að helstu glæpirnir eru ekki endilega morð, þótt ekki lifi allir af. Það var gaman að setjast í pallborð með fleiri glæpasagnahöfundum núna fyrir jólin og finna, það sem ég vissi, að mínar bækur eru mjög frábrugðnar þeirra og jafnvel letilegar á köflum. Eins og mér finnst lífið stundum vera. Mér er það vel ljóst að ég skrifa fyrir þá sem hafa gaman af að lesa bækur eins og mínar, og þykir gaman að hafa eignast hóp dyggra lesenda, en ég vissi það alltaf að ég yrði ekki allra. Það sem mér finnst samt merkilegast er að plottið er áratuga gamalt að stofni til, þegar ég var að skrifa mína fyrstu skáldsögu: Tvískinnung (lesin í útvarp um eða uppúr 1980) þá sagði Ari minn að ég ætti endilega að skrifa um ákveðna hugmynd, en að skrifa heila bók í kringum hana tók sinn tíma.
Þriðja glæpasagan mín er langt komin, stundum finnst mér hún vera næstum fullbúin í fyrstu gerð, en oft þykir mér ég komin skemmra. Hún mun bara taka þann tíma sem hún tekur. Hún verður að mörgu leyti frábrugðin hinum, ég keyrði upp letilega tempóið og langar að leyfa mínu fólki að höndla það.
Hvað rekur fólk til að skrifa glæpasögur? Mér finnst gaman að skrifa, hef haft af því atvinnu og ánægju lengst af starfsævina og skrifaði reyndar fyrstu glæpasöguna mína þegar ég var 12 ára. Hana las bara ein æskuvinkona mín, hún Amalía, og hvatti mig áfram. Þá teiknaði ég reyndar myndirnar fyrst, áður en ég skrifaði textann. Svo kom næstum sex áratuga hlé og nú hef ég tekið upp þráðinn. Fjórða bókin er fædd í kollinum á mér, en eins og í öllu, þá er ekkert á vísan að róa.
Höskuldarviðvörun:
Úr Mannavillt:
Skyttan hafði komið sér fyrir við barð rétt fyrir ofan bílinn og það leyndi sér ekki hvert erindið var. Hún sá appelsínugula jakkann á löngu færi þótt Gabríel væri búinn að henda sér niður milli þúfna þegar hún kom að. Hún hugsaði sig ekki um tvisvar heldur æddi að skotmanninum og reyndi að yfirbuga hann með svissneska vasahnífnum sem hún var alltaf með í vasanum. Þetta var þriðja kynslóð slíkra hnífa í hennar eigu, hinir höfðu verið hirtir af henni í vopnaleit á flugvöllum. Ég náði alla vega að særa helvítið, sagði hún óðamála, sá svissneski náði alla vega að rispa hann nóg til að honum blæddi. Við ættum að tékka hvort eitthvert blóð fór niður í þúfurnar þarna eða á hnífinn. Þá væri hægt að keyra DNA rannsókn á lífssýnum úr árásarmanninum.
Úr Óvissu:
Getum við eitthvað gert með þessa kafbátakenningu? Var kafbáturinn farartæki eingöngu, og þá hvert? Í skip, annan kafbát, annað land, flugvél? Í hvaða tilgangi og hvers vegna? Er hann vinnutæki fyrir Tómas, er hann búinn að flækja sér í eitthvert njósnadæmi? Hann er auðvitað ágætlega fróður um hafið kringum Ísland, svona almennt talað, með fróðari mönnum á því sviði. En ætli það sé ekki hægt að stunda njósnir kringum landið án hjálpar Tómasar? Er hann blandaður í eitthvað annað misjafnt? Kjarnorkuvopn? Smygl? Hlerunarbúnað? Gullleit? Náttúruhryðjuverk? Eða fæst hann við eitthvað stálheiðarlegt um borð í skipi eða kafbáti? Þau flissuðu bæði yfir þessu seinasta. Best taka þann möguleika út fyrir svigann til að byrja með, sagði Linda Lilja.
Þetta með kjarnorkuvopnin er það sem kemur alltaf upp aftur og aftur, sagði Gabríel. Áreiðanlega þráður sem við þurfum að elta, meira að segja á okkar tímum.
(Þetta síðasta var skrifað og gerist fyrir Úkraínustríðið).
Menning og listir | Breytt 7.2.2023 kl. 18:35 | Slóð | Facebook
Gömul brýning - en: sé ekki eftir neinu
28.5.2021 | 14:44
Á níutíu ára afmæli gamla kennara míns (og mömmu) í Myndlista- og handíðaskóla Íslands (1957-1958 og 1972-1974) Braga Ásgeirssonar, þá ákvað ég að rifja upp svolítið af okkar samskiptum. Setti fyrst inn litla færslu á Facebook um lexíurnar sem ég lærði þegar ég var nemandi Braga í MHÍ 1972-1974. En öðru þurfti ég að fletta upp, það var brýning sem ég fékk frá honum þegar ég hélt mína fyrstu einkasýningu í Listamiðstöðunni við Lækjartorg 1984. Sýningu sem Bragi benti reyndar réttilega á að væri frekar samsýning fjögurra listamanna, eins og sést á einu skjáskotinu. Ég hef nokkrum sinnum á ævinni tekið þá ákvörðun að helga mig ekki myndlistinni, fyrst 1974 þegar ég ákvað að hætta í MHÍ og ljúka frekar námi í bókmenntum og sögu. Þá var concept-listin allsráðandi og þar átti ég ekki heima, en sagan og bókmenntirnar heilluðu mig mjög. Myndlistin hefur hins vegar aldrei látið mig í friði og fylgt mér af mismikilli ákefð alla ævina. Það hafa komið styttri pásur, en eftir á að hyggja hef ég sjaldan slegið slöku við. Þrátt fyrir aðra vinnu og verkefni, hef ég bæði sótt mér menntun hjá frábærum kennurum og haldið mér í þjálfun, til dæmis með því að teikna módel af miklu kappi árum/áratugum saman, meira að segja meðan mest var að gera í pólitíkinni.
Ég sé ekki eftir neinu (ok, hér er kominn tími fyrir þennan frasa frá Piaf: Non, je ne regrette rien). Flest sem ég hef fengist við hefur verið spennandi, sumt ævintýralegt.
Samt varð ég svolítið hugsi þegar ég las aftur fyrstu og einu sýningarumsögn Braga Ásgeirssonar um sýningu mína. Og hver veit nema ég eigi eftir að taka hann á orðinu, samhliða öðrum störfum (ég er ekki hætt að skrifa glæpasögur). Flestir góðir myndlistarmenn sem ég þekki hafa þurft að sinna öðrum störfum meðfram svo mér væri það ekkert of gott. Það, í brýningu Braga, sem ég þarf að huga að er að gera þann neista, sem ég hef haldið vakandi, að báli. Er það ekki bara verðugt viðfangsefni? Þakkið Braga, ef mér tekst það. Þarf að fara að vinna í málinu.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 15:02 | Slóð | Facebook
... vil sigla og hlýði þeim byr sem gefst
3.1.2020 | 00:00
Ætla má að ákvörðun um að fara á eftirlaun, jafnvel ,,of snemma", hafi í för með sér fyrirsjáanlega atburðarás. Sú varð ekki raunin hjá mér. Í fyrsta lagi varð ég að hætta rúmi ári fyrr en ég ætlaði vegna annríkis í öðrum, launuðum og ólaunuðum, verkefnum. Í öðru lagi þá hef ég alls ekki haft eins mikinn tíma til að spila golf og ég hafði séð í hillingum, þannig að forgjöfin mín haggast ekki á meðan. Og í þriðja lagi þá hef ég enn einu sinni sogast inn í myndlistariðkun en þegar slíkt hefur gerst á ævitetrinu mínu, þá hefur það alltaf endað með því að myndlistin hefur náð yfirhöndinni yfir flestu öðru sem ég tek mér fyrir hendur. Vissulega hugsaði ég gott til glóðarinnar að geta aftur tekið upp þráðinn þar sem ég skildi hann seinast við mig fyrir hartnær tíu árum, en fyrst ætlaði ég að klára nokkur aðkallandi verkefni. Nú eru þau unnin í hálfgerðum hjáverkum og ég geri það sem ég verð að gera, í þetta sinn fæ ég útrás í vatnslitnum, sem alltaf hefur verið hálfgerð afgangsstærð í minni myndlist, nema ef vera skyldi einhvern tíma rétt fyrir árþúsundamótin.
Myndlist er ekki og hefur aldrei verið ,,hobbý" hjá mér. Þau á ég mörg og vanræki þegar myndlistin togar. Lengi hef ég litið svo á að ég hafi, þegar ég hætti í Myndlista- og handíðaskóla Íslands 22 ára gömul, hafnað því að gera hana að ævistarfi. Það er ekki allskostar rétt. Líklega hef ég haft hana jafnt að ævistarfi og ef ég hefði ekki farið í annað nám og starfað á þeim vettvangi sem ég menntaði mig meira til og formlegar (í tvígang meira að segja). Telst svo til að ég hafi fengist í 17 ár við hvort, skrif (fjölmiðlun og sagnfræði) og tölvunarfræði, sem ég lærði um fimmtugt. Og þar á milli fjölskylda og pólitík. En setjum svo að ég hefði ákveðið að helga mig listinni, klára MHÍ og hvað? Lifa á listinni það sem eftir er ævinnar? Ætlast til að mér yrði ,,haldið uppi" svo ég gæti þóst lifa á listinni? Það fyrrnefnda var svo sem ekki útilokað, en beið aðeins örfárra okkar sem vorum í MHÍ á minni tíð. Það síðarnefnda hefði ég aldrei sætt mig við. Þess í stað hef ég tekið mjög öflug tímabil á ævinni, þar sem myndlistin hefur verið í forgangi, gefið svo í í öðrum verkefnum á milli og safnað kröftum í næstu átök. Sótt mér heilmikla myndlistarmenntun í viðbót, en í skorpum. Haldið sýningar hist og her og sýnt talsvert með öðrum með misformlegum hætti. Og nú er ég komin aftur á fullt, var að setja upp sýningu og önnur seint á árinu, einhverjar samsýningar sjálfsagt, lífið er skemmtilegt.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 00:02 | Slóð | Facebook