Samfélagsmiðlar og sýnileiki

Það eru um það bil tuttugu ár síðan ég byrjaði að blogga, fyrst á blogspot. Nokkrum árum síðar færði ég mig hingað á Moggabloggið og var mjög iðin við að blogga fyrstu árin. Eftir að ég hætti í blaðamennskunni, nema sem frístundablaðamaður endrum og sinnum (og þá aðallega fyrir Læknablaðið), hafði ég óttalega þörf fyrir að skrifa um hitt og þetta, og bloggið hentaði mér vel. Svo kom fyrir að ég notaði bloggið til að vekja athygli á myndlistinni sem hefur fylgt mér alla tíð, en eitt vel virkt myndlistartímabil féll einmitt saman við fyrstu bloggárin mín.

2023-03-29_01-37-18

Svo vel fann ég mig í blogginu að ég var einna seinust í fjölskyldunni að fara yfir á Facebook (FB). Var vinsamlegast bent á að ég væri að dragast afturúr ýmsum fjölskyldumeðlimum í þeim efnum. Auðvitað eigum við okkar staðföstu fulltrúa samfélagsmiðlaleysisins líka, skárra væri það nú. Facebook varð smátt og smátt aðalvettvangurinn á samfélagsmiðlum en ég hætti aldrei alveg að blogga. Snemma þessa árs íhugaði ég alvarlega að hætta á Facebook enda var ég komin með eitthvað um 1700 vini þar og þekkti kannski ekki nema helminginn og þar af ekkert mjög marga vel. Það hleypti góðu lífi í bloggþörfina, sem alltaf blundaði. Af praktískum ástæðum sneri ég þó aftur á Facebook, tengsl við ýmsa hópa og gamall vani réði þar mestu um, en með miklu færri FB-vini og talsvert minni virkni.  

2023-03-29_01-42-28

Þegar ég var í Córdoba um daginn var ég mikið spurð um hvað ég héti á Instagram og þurfti, ekki í fyrsta sinnið, að rifja það upp, því þann samfélagsmiðil hef ég ekki mikið notað, kannski álíka og Twitter og WhatsApp. Var þá upplýst um að myndlistarfólk notaði Instagram mjög mikið, svo ég fór að glugga og setja inn eina og eina færslu. Hafði reyndar stundum þegið að framsenda FB færslurnar mínar yfir á Instagram núna í seinni tíð. Þær eru allar á íslensku, en nú tók ég þá ákvörðun að nota Instagram sem enskumælandi samfélagsmiðlavettvanginn minn. Er að prófa mig áfram núna, enda sé ég að margir Íslendingar nota miðilinn á svipaðan hátt. Hér er ég sem sagt, með óskýra kynningarmynd úr Córdoba-ferðinni, til að tengja við fólkið sem ég hitti þar. https://www.instagram.com/annari19/

2023-03-29_01-16-57

WhatsApp var reyndar í upphafi covid farvegur fyrir skemmtilega iðju. Þá datt ég inn í öflugan fjölþjóðlegan vatnslitahóp sem varð til í hjarta fyrsta covid-fársins í Evrópu, sem sagt á Norður-Ítalíu. Nokkrir öflugir myndlistarkennarar, meðal annarra formaður Vatnslitafélagsins okkar hér á landi, skiptust á að setja fyrir vikuleg verkefni, yfirleitt vatnslitaútfærslu af gömlum og nýjum olíumálverkum, og þetta birtist allt vikulega á sameiginlegum WhatsApp-þræði, án málalenginga. Mjög gaman að taka þátt í því, en það fjaraði út hjá mér alla vega á öðru ári framtaksins. En það var margt ansi skemmtilegt sem við glímdum við á þessu inniverutímabili, sem hitti einmitt á tímann meðan ég var á eftirlaunum og áður en ég byrjaði í núverandi vinnu. Eitt sýnishorn fær að fljóta með.

unnamed (1) 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband